Ríkisreikningur 1992

97. fundur
Fimmtudaginn 24. febrúar 1994, kl. 10:35:24 (4424)

[10:35]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er orðið nokkuð langt um liðið síðan mælt var fyrir þessu frv. en það var hinn 23. nóv. á síðasta ári. Þá mælti fjmrh. fyrir frv. og síðan var umræðu frestað.
    Hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir frv. í nokkuð stuttu máli og vísaði að öðru leyti til skýrslu Ríkisendurskoðunar og fjmrn. um ríkisfjármálin á þessu ári. Ég ætla þá, þar sem þetta frv. gefur mjög takmarkaða mynd af því sem er að ske á þessu ári, að fara lítils háttar í þær skýrslur.
    Ég ætla ekki að rekja það neitt nákvæmlega sem yfirskoðunarmenn segja, en ég geri ráð fyrir að þeir muni gera grein fyrir því hér á eftir eða a.m.k. sá yfirskoðunarmaður sem hér er staddur, en hv. þm. Svavar Gestsson mun ekki vera á þingi þessa dagana.
    Það sem yfirskoðunarmenn taka mjög á er t.d. sá 5% flati niðurskurður sem settur var í lok vinnslu fjárlaganna fyrir árið 1992. Síðan áttu ráðherrar að dreifa 3% aftur til baka. Þar var dreifingin frekar óljós og mjög erfitt að lesa saman fjárlög og reikning þar af leiðandi.
    Það kemur einnig fram í máli þeirra, og ég vil taka undir það, að safnliðir eru fyrirferðarmeiri og hærri upphæð sem þar er um að ræða sem ráðherrar hafa til ráðstöfunar. Og í viðbót var síðan nýlega tekinn upp nýr liður sem heitir ráðstöfunarfé ráðherra. Þetta eru allt saman fjármunir sem ráðherrarnir hafa haft til sérstakrar útdeilingar, þ.e. bæði þau 3% af niðurskurðinum sem átti að dreifa aftur til baka og það var ekki gert eftir neinum sérstökum reglum. Það eru safnliðir sem í vaxandi mæli hafa verið að færast til ráðuneytanna og það er ráðstöfunarfé ráðherra.
    Til viðbótar hefur það líka komið í ljós við endurskoðun reikningsins að sú risna sem færð er getur verið mjög umdeilanleg, hvort það teljist til risnu sem þar er verið að færa. M.a. hefur komið í ljós að menn leita á milli ráðherra. Fái þeir neitun frá einu ráðuneyti, þá leita þeir til næsta til að vita hvort þeir fá úthlutun þar. Gildir þetta bæði um einstaklinga og fyrirtæki.
    Það gilda heldur engar fastar reglur um ráðstöfun safnliða. Það er því er e.t.v. nauðsynlegt að Alþingi og fjárln. skoði hvort ekki þurfi að fara að semja einhverjar reglur um ráðstöfun safnliða.
    Annað fannst mér einnig sérstaklega athyglisvert í þessari skýrslu yfirskoðunarmanna. Það kemur líka fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að lífeyrisskuldbindingar hafa vaxið svo mikið hjá ríkinu að nú þyrfti í raun og veru að hækka framlag til lífeyrisgreiðslna ríkisins. Það ætti ekki lengur að vera 10%, þ.e. 4% frá starfsmönnum og 6% frá ríkinu, heldur þyrfti það að vera 26,4% ef það ætti að standa undir þeim lífeyrisskuldbindingum sem þörf er á.
    Eins og ég sagði í upphafi máls míns ætla ég ekki að fara nákvæmlega yfir þessa skýrslu yfirskoðunarmanna að öðru leyti en taka undir nokkur atriði sem þeir nefna. Ég geri alveg fastlega ráð fyrir því að hér á eftir muni hv. þm. Pálmi Jónsson fara yfir það mál og skýra það nánar.
    Það sem vekur athygli þegar við skoðum tekjuhlið þessa reiknings er að þar er ekki gerð grein fyrir sértekjum. Í tekjuliðum ríkisreiknings eru sértekjur ekki með. Þær eru dregnar frá gjöldum og koma þar af leiðandi aldrei fram sem tekjur ríkisins. Þrátt fyrir það er hallinn á milli tekna og gjalda 10% af tekjum ríkisins, eða 10,6 milljarðar. Það er mjög umdeilanlegt hvernig hvernig það hefur verið stundað að færa sértekjur ekki sem tekjur ríkisins heldur frádrátt frá gjöldum. Í skýrslu sinni tekur Ríkisendurskoðun sérstakan kafla fyrir sem hún nefnir sértekjur stofnana. Með leyfi forseta ætla ég að lesa nokkuð upp úr því til að skýra hvað átt er við með þessum sértekjum. Hér segir Ríkisendurskoðun:
    ,,Tekjum í A-hluta ríkisreiknings er skipt í þrennt. Í fyrsta lagi er um að ræða skatttekjur, í öðru lagi aðrar tekjur ríkissjóðs og í þriðja lagi sértekjur einstakra stofnana. Tveir fyrrnefndu liðirnir færast ríkissjóði til tekna, en sértekjur koma til frádráttar kostnaði á gjaldahlið ríkisreiknings sem fyrr segir. Það sem ræður mestu um hvort litið er á tekjur sem skatta eða ekki er hvort þjónusta eða annað framlag kemur á móti álögðum gjöldum og hvort gjaldið er lögþvingað. Komi ekki framlag á móti gjaldtöku og gjaldtakan er lögþvinguð er tvímælalaust um skattheimtu að ræða. Sé aftur á móti um að ræða tekjur af þjónustu sem stofnun veitir og neytendur hafa frjálst val um þjónustuna ber að líta á þær sem sértekjur.
    Stundum geta skil á milli skatttekna og þjónustutekna verið óljós. Í skýrslu sinni fyrir árið 1992 sá umboðsmaður Alþingis ástæðu til að árétta þær grundvallarreglur er gilda um ákvörðun skatta og gjalda opinberra aðila. En embættinu höfðu á árinu borist fleiri kvartanir út af gjaldtöku og skattheimtu en á árinu á undan. Þar kemur fram að ganga verði út frá þeirri grundvallarreglu að almenningur þurfi ekki að greiða sérstakt gjald fyrir afgreiðslu eða úrlausn stjórnvalda nema heimild sé til þess í lögum.``
    Síðan segir hér: ,,Forsenda þess að stjórnvöldum sé heimilt að taka hærri greiðslu fyrir opinbera þjónustu en sem nemur kostnaði við hana sem lið í almennri tekjuöflun ríkissjóðs er sú að fyrir hendi sé skattlagningarheimild í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.``
    Það kemur á daginn að umboðsmaður Alþingis sér ástæðu til þess að gera athugasemdir við það sem hefur verið kallað sértekjur og hvort það geti flokkast sem skatttekjur eða þjónustutekjur og Ríkisendurskoðun tekur að nokkru leyti undir þessar athugasemdir, þ.e., að það geti verið mjög umdeilanlegt að færa þær á þann hátt sem gert hefur verið og hvaða sértekjur séu í raun sértekjur. Það er t.d. dæmi um að tekjur vegna sölu fasteigna séu færðar sem sértekjur og trúlega muna hv. þm. eftir málinu um Þvottahús Ríkisspítalanna þar sem sala þvottahússins átti að vera sértekjur Ríkisspítala en ætti frekar að vera tekjur ríkissjóðs vegna þess að ríkissjóður var þar að selja eign en ekki sértekjur stofnunar.
    Síðan hefur einnig komið fram, að því er Ríkisendurskoðun telur, að sértekjur eru ekki í öllum tilvikum færðar upp í bókhaldi og ráðstöfun þeirra þess vegna ekki heldur sjáanleg. Það hefur e.t.v. verið vegna þess að þá hafa stofnanir álitið að það mundi verða litið svo á að þær þyrftu síður á framlagi frá ríkinu að halda sem mundi leiða til þess að framlagið yrði skert.
    Það má alveg ljóst vera líka að í ríkisreikningi fyrir árið 1992 eru sértekjur stór hluti því þær hafa hækkað um rúman milljarð á milli áranna 1991 og 1992. Samkvæmt þessum ríkisreikningi er stór hluti af því að tekist hefur að halda gjöldum nokkuð niðri, jafnvel lækka gjöld ýmissa ríkisstofnana, sértekjur sem valda því, þar sem þær eru dregnar frá gjöldum, að gjöldin verða lægri. Þarna tel ég að sé ekki alveg rétt að málum staðið.
    Það er kannski ástæðulaust að fjölyrða frekar um einhverjar bókhaldsaðstæður í þessu. Ríkisreikningsnefnd hefur fjallað um það núna síðustu a.m.k. tvö eða þrjú ár hvernig færa skuli þetta í ríkisreikningi og samkvæmt nýjustu upplýsingum er mikið búið að reka á eftir því að ríkisreikningsnefnd skili af sér. Þar eiga bæði fulltrúar fjmrn. og Ríkisendurskoðunar að ná samkomulagi um það hvernig með tekjur og gjöld skuli fara. Samkvæmt því sem nýjustu fréttir segja, þá á hún að skila sínu áliti þann 4. mars kl. 14. Hvort það stendur alveg er kannski ekki enn vitað en ég hef grun um að upp sé komin nokkur ,,panik`` í þessari ríkisreikningsnefnd til þess að geta staðið við það áform, en trúlega veit hæstv. fjmrh. meira um það.
    Það er líka alveg ljóst, og kemur bæði fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar um ríkisreikning og einnig um framkvæmd fjárlaga árið 1992, að þau markmið sem áttu að nást á því fjárlagaári náðust ekki. Þótt tekist hafi að lækka útgjöld A-hluta ríkissjóðs um sem svarar 5,5 milljörðum kr. að raunvirði, þá náðist það ekki vegna þeirra markmiða sem sett voru því að markmiðin náðust engan veginn. Lækkunin varð af allt öðrum ástæðum. Lækkunin varð af því að það munaði t.d. um 1,8 milljarða kr. sem var lækkun á vaxtagjöldum og fjárfesting og viðhaldskostnaður lækkuðu um 2 milljarða kr. Þannig að í þeim 5,5 milljörðum kr., að raunvirði, sem talið er að útgjöld A-hluta hafi lækkað milli áranna 1991 og 1992 munar mest um vaxtagjöldin og að fjárfesting og viðhald urðu mun minni en gert var ráð fyrir. Þar að auki voru færðar á milli ára nokkur hundruð milljónir kr. a.m.k. Líklega voru rúmar 500 millj. kr. af viðhaldskostnaði færðar á milli áranna 1991 og 1992. Það segir því ekki alla söguna þó að verið sé að tala um að útgjöld A-hluta ríkissjóðs hafi lækkað um 5,5 milljarða kr. T.d. var sett það markmið að ná 3 milljarða kr. áætluðum rekstrarsparnaði. Af því náðust 2 milljarðar en hins vegar komu svo aðrar hækkanir á móti þannig að lækkun ríkisútgjalda um 4 milljarða kr. var af öðrum ástæðum en að var stefnt með fjárlögunum.
    Það kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að stofnunin hefur í vaxandi mæli farið út á það svið að gera ýmsar stjórnsýsluathuganir hjá stofnunum ríkisins. Það kemur fram í skýrslunni að yfirskoðunarmenn hafi óskað eftir því við endurskoðun ríkisreiknings árið 1991 að Ríkisendurskoðun gerði úttekt á tölvukaupum ríkisins. Það tel ég að sé gott mál. Skýrslan er gefin út í október 1993 og þar segir að stofnunin muni á næstunni hrinda þessari athugun af stað. Ég held að sé alveg nauðsynlegt vegna þess að tölvukaup eru orðin stór liður í gjöldum ríkissjóðs. Ekki bara hjá einni stofnun heldur mörgum stofnunum eru tölvukaupin orðin þannig að maður spyr sjálfan sig hvort alltaf hafi verið staðið rétt að þeim málum, hvort hlutirnir hafi verið skoðaðir það vel fyrir fram að þarna væri verið að gera kaup sem mundu endast þann endingartíma sem tölvur og tölvubókhaldskerfi ættu að geta enst. Því miður held ég að það hafi ekki verið en sjálfsagt mun það koma í ljós í skýrslu sem Ríkisendurskoðun hyggst gera um það hvernig staðið hefur verið að þessum málum.
    Á Alþingi er t.d. verið að breyta mjög um tölvukerfi og þó e.t.v. sé þar um að ræða byrjunarörðugleika sem hafa komið mjög illa við marga þingmenn sem nota sínar tölvur mikið þá getur vel verið, eins og ég segi, að það séu byrjunarörðugleikar en það er hlutur sem maður mundi gjarnan vilja fá staðfestan, hvort þetta er allt saman gert þannig að það sé rétta leiðin sem þar er verið að fara eða hvort einhverjar athuganir vanti áður en farið er í þessar eilífu breytinar á tölvukerfum. Þó svo alltaf sé að ske eitthvað nýtt og nýtt í þeim málum þá held ég að menn þurfi aðeins að skoða þau mál rækilega og vel áður en farið er út í miklar breytingar og fjárfestingar.
    Það kemur einnig fram í þessum reikningi og hefur kannski áður komið til umtals á Alþingi að á fimm ára tímabili, á árunum 1988--1992, er búið að afskrifa skattakröfur upp á 15 milljarða kr. Þyrfti þó að afskrifa meira vegna þess að ekki er búið að afskrifa nema það sem búið er að fara í gegnum gjaldþrotaskipti og búið að ganga frá. Það er ekki með í þessu það sem erfiðlega hefur reynst að innheimta, það sem er verið að vinna við í gjaldþrotaskiptum og ekki búið. Það er mat Ríkisendurskoðunar að það hefði í raun og veru þurft að afskrifa enn meira og þá hefði auðvitað þessi ríkisreikningur hækkað um 1,5--2 milljarða í viðbót.
    Ég held að því miður hafi sá sparnaður sem átti að nást í ríkisrekstri á þessu ári ekki náðst, hvorki þau markmið sem sett voru né heldur þessi 5% niðurskurður sem rokið var í á síðustu mánuðum eða síðustu vikum ársins 1991 að gera fyrir fjárlagaárið 1992. Ég held að það hafi ekki heldur náð tilætluðum árangri. Kannski er það besta skýringin að benda á að það hefur ekki verið gripið til þess síðan. Það var ekki reynt á árinu 1993 að skera niður með þeim hætti að fara í flatan niðurskurð af öllum stofnunum á síðustu vikum sem sýnir það auðvitað að hæstv. ríkisstjórn hefur litið svo á og tekið þá til greina e.t.v. þær athugasemdir um að þessi sparnaður skili sér ekki nægilega.
    Þrátt fyrir það að allar þær sértekjur sem eru lagðar á á þessu ári hafi ekki verið færðar með sem tekjur ríkisins þá jukust tekjur ríkisins vegna aukatekna um tæpar 300 millj. kr. og það er vegna þess að lögum um aukatekjur ríkissjóðs var breytt og þau tók gildi í ársbyrjun 1992. Við það varð mjög mikil hækkun á þessum aukatekjum, sköttum og þjónustugjöldum ríkisins, hækkunin varð um 54,1% sem er allmikil hækkun á þessum tíma þegar verðbólgan er í lágmarki og atvinnuleysi er vaxandi. Á sama tíma hækkar ríkið skatta og þjónustugjöld um 54%.
    Frá ýmsum B-hluta stofnunum hafa einnig verið allmiklar tekjur, m.a. frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og frá Pósti og síma sem hafa verið einar 390 millj. kr. (Forseti hringir.)
    Virðulegi forseti. Ég hef reynt að fara aðeins almennt yfir þennan reikning en tíminn er naumur þannig að mér hefur ekki unnist tími til að fara yfir allt sem ég hafði hugsað mér en ég læt þetta nægja að sinni.