Stækkun atvinnu- og þjónustusvæða á Vestfjörðum

115. fundur
Þriðjudaginn 22. mars 1994, kl. 22:31:40 (5512)


[22:31]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. síðasti ræðumaður spurði hvort þessar 220 millj. væru reiknaðar út frá þessari tilteknu viðmiðun, 50% reglunni. Svarið við því er já. Það bindur samt ekki ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem á að setja reglur varðandi þessa skiptingu. Þetta er ákveðin viðmiðun sem þarna hefur verið sett og það hefur verið talið eðlilegt í þeirri umræðu sem fram hefur farið um þetta atriði að Jöfnunarsjóðurinn hefði hliðsjón af þessari viðmiðun og einnig hliðsjón af t.d. framkvæmdastöðu og skuldastöðu í viðkomandi sveitarfélagi. Talan sem hv. þm. nefndi um einhverjar 77 millj. sem ég hefði nefnt við einhver tiltekin sveitarfélög á Vestfjörðum er algjörlega út í hött vegna þess að ég hef ekki nefnt við eitt einasta sveitarfélag, hvað það mundi fá út úr þessari skiptingu. Þetta eru einungis vinnureglur sem hefur verið unnið með í þessu sambandi sem ráðgjafarnefndin mun hafa hliðsjón af.
    Varðandi það hvort þær 80 millj. sem þá standa eftir muni þær duga fyrir sveitarfélög sem sameinast á komandi fjórum árum til viðbótar þeim sem hér hafa verið tilgreind get ég ekki svarað. Ef það verður mikið um sameiningar á næstu fjórum árum til viðbótar þeim sem núna eru í undirbúningi eða hafa verið ákvarðaðar, þá geri ég ráð fyrir að það yrði ný ákvörðun hjá ríkisstjórn hvort bætt yrði við þá upphæð. En hér eru 80 millj. til ráðstöfunar til viðbótar og eins og ég segi og endurtek, það yrði þá ný ákvörðun hjá ríkisstjórninni ef mikið yrði um sameiningar að bæta þá við þá upphæð.