Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 40 . mál.


40. Tillaga til þingsályktunar



um varðveislu arfs og eigna húsmæðraskólanna.

Flm.: Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Einarsdóttir,


Anna Ólafsdóttir Björnsson, Guðrún J. Halldórsdóttir,


Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd sem hafi það hlutverk að setja fram tillögur um hvernig best megi varðveita arf og eignir gömlu húsmæðraskólanna í land­inu. Verði sérstaklega hugað að stofnun eða eflingu heimilisiðnaðarsafna eða heimilisiðnað­ardeilda í byggðasöfnum landsins. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar Kvenfélagasambands Ís­lands, landshlutasamtaka kvenfélaganna, Sambands íslenskra sveitarfélaga, safnamanna og menntamálaráðuneytis.

Greinargerð.


    Um áratugaskeið störfuðu húsmæðraskólar í öllum landshlutum. Þúsundir kvenna sóttu sér menntun í þessa skóla sem urðu til undir handarjaðri kvenfélagasambanda landsins. Þjóð­félagsbreytingar síðustu áratuga hafa kippt grundvellinum undan sérskólum af þessu tagi þótt engan veginn verði sagt að hið almenna skólakerfi hafi tekið við og búi pilta og stúlkur nægi­lega vel undir það verk að stofna og reka heimili. Húsmæðraskólarnir voru arftakar gömlu kvennaskólanna sem stofnaðir voru á 8. áratug 19. aldar, en þeir þróuðust í tvær áttir. Kvennaskólinn í Reykjavík (stofnaður 1874) varð að almennum skóla fyrir stúlkur með sterkri hannyrðahefð (nú almennur menntaskóli), en skólarnir úti á landi urðu að hreinum húsmæðraskólum. Hér er um 120 ára skólahefð að ræða með mikla og merka sögu að baki.
    Mikil hús voru byggð yfir kvenna- og húsmæðraskólana og eru flest þeirra nú notuð til kennslu af einhverju tagi. Innan veggja húsmæðraskólanna gömlu er að finna listaverk, hann­yrðir, borðbúnað, verkfæri og gjafir af ýmsu tagi, svo og ýmislegt það sem tengist sögu skól­anna. Sums staðar hefur eitt herbergi verið tekið undir lausamuni, en það er auðvitað engin lausn þegar svo merkur menningararfur á í hlut. Engin stefna hefur verið mörkuð um það hvað beri að gera við arf húsmæðraskólanna. Kvenfélagasamböndin í hverjum landshluta annast þessar eignir en hafa sums staðar miklar áhyggjur af því hvað um þær verði.
    Um tvennt er að velja. Annaðhvort verður að finna mununum stað innan skólanna og sjá til þess að þeir verði varðveittir þar eða að koma þeim á söfn.
    Í Kvennaskólanum á Blönduósi hafa kvenfélagskonur komið á fót heimilisiðnaðarsafni sem m.a. byggist á þeim munum sem Halldóra Bjarnadóttir skólastjóri safnaði á sínum langa lífsferli. Hugsanlega er það vilji kvenfélaganna í landinu að efla safnið á Blönduósi, gefa muni þangað og gera það að landssafni eða þá að styrkja eigin byggðasöfn með því að koma upp eða efla heimilisiðnaðardeildir í þeim. Víða á heimilum eru til merkilegar hannyrðir og listiðnaður kvenna sem þyrfti að safna og hafa til sýnis sem dæmi um vinnu og tómstundir kvenna í hundruð ára. Öflugt heimilisiðnaðar- og hannyrðasafn mundi eflaust leiða til þess að fólk væri viljugra að gefa merka muni úr fórum ættingja sinna.
    Það er brýnt að finna lausn á því máli sem hér er reifað og sjá til þess að sú kvennamenning sem húsmæðraskólarnir gömlu eru fullir af glatist ekki. Það verður að gerast í samvinnu ríkisins sem fer með forsjá skólahúsanna, sveitarfélaganna sem í hlut eiga og ekki síst kven­félaganna sem stóðu vörð um skólana og hafa gætt þeirra eigna sem eftir eru.



Fylgiskjal.



Svar menntamálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Ástgeirsdóttur


um starf og eignir húsmæðraskóla.


(430. mál á 116. löggjafarþingi.)



         Hvaða kennsla fer fram í þeim húsmæðraskólum sem enn starfa og hvernig skiptist kostnaður við þá kennslu milli
                        ríkisins,
                        sveitarfélaga,
                        nemenda?

    Kennsla með hefðbundnu sniði fer fram í tveimur húsmæðraskólum. Í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur er kennt á vorönn samkvæmt námsskrá hússtjórnarbrautar en á haustönn á sjálf­stæðum námskeiðum. Ríkissjóður greiðir allan launakostnað og rekstrarkostnað hússins, en reglulegir nemendur greiða sjálfir lítils háttar innritunargjöld og allan efniskostnað. Skólinn hefur, eins og að ofan greinir, staðið fyrir allmörgum námskeiðum fyrir almenning. Ríkis­sjóður greiðir kennslukostnað, en þátttakendur efniskostnað. Verði afgangur rennur hann til skólans sem sértekjur.
    Í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað hefur á undanförnum vorönnum verið kennt sam­kvæmt námsskrá hússtjórnarbrautar. Kostnaðarskipting er í öllum megindráttum sú sama og í Hússtjórnarskóla Reykjavíkur. Á haustönn hefur hins vegar í allmörg ár farið fram heimil­isfræðikennsla fyrir grunnskóla í fræðsluumdæminu. Ríkissjóður greiðir þá kennslu auk rekstrarkostnaðar hússins en sveitarfélögin, sem þjónustunnar njóta, greiða eða endurgreiða efniskostnað, gæslulaun og aksturskostnað.

          Hvernig hefur eignum þeirra húsmæðraskóla, sem lagðir hafa verið niður, verið ráð­stafað og hverjir annast þær:
                        húsnæði,
                        innanstokksmuni og gjafir?


Varmaland.
    Húsnæði skólans er að mestu nýtt í þágu grunnskóla á staðnum. Munir í eigu skólans og húsbúnaður, sem talinn er hafa minjagildi, er í geymslu í skólahúsinu undir eftirliti kvenfé­laganna.

Staðarfell.
    Í skólahúsinu er rekin meðferðarstöð SÁÁ, en munir í eigu skólans eru geymdir í skóla­húsinu undir eftirliti heimamanna.

Ósk Ísafirði.
    Samkvæmt samkomulagi aðila er hús skólans í vörslu Framhaldsskóla Vestfjarða og fer þar fram heimilisfræðikennsla fyrir grunnskóla og framhaldsskóla ásamt tilfallandi nám­skeiðahaldi fyrir almenning. Einnig hefur tónlistarskóli staðarins hluta hússins á leigu. Kven­félagið Ósk hefur samkvæmt fyrrnefndu samkomulagi aðgang að ákveðnum stofum í húsinu til fundarhalda og eru þar geymdir ýmsir gripir skólans.

Blönduós.
    Í skólahúsinu starfar Fræðsluskrifstofa Norðurlands vestra og eru gripir og búnaður í eigu skólans varðveittir í skólahúsinu undir eftirliti heimamanna.

Langamýri.
    Þjóðkirkjan á og rekur skólann. Munir skólans eru varðveittir í skólahúsinu í samráði við heimamenn.

Laugaland.
    Stærstur hluti húsnæðis skólans er nýttur til kennslu á grunnskólastigi en kvenfélag sveit­arinnar hefur þar einnig fundaraðstöðu og þar eru geymdir gripir sem voru í eigu skólans.

Akureyri.
    Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur yfirtekið hlutverk og eignir húsmæðraskólans og annast einnig varðveislu muna og húsbúnaðar.

Laugar.
    Framhaldsskólinn að Laugum er starfræktur í húsum þeirra skóla sem áður störfuðu á staðnum, þ.e. héraðsskólans og húsmæðraskólans. Hluti af húsnæði húsmæðraskólans er þó í umsjá kvenfélaga héraðsins og þar eru geymdir merkisgripir úr eigu skólans.

Laugarvatn.
    Íþróttakennaraskóli Íslands hefur skólahúsið til afnota og einnig hefur Menntaskólinn á Laugarvatni staðið þar fyrir kennslu í heimilisfræðum, bæði fyrir eigin nemendur, nemendur grunnskólans og almenning. Kvenfélög héraðsins hafa þar einnig nokkur ítök og hafa umsjón með varðveislu gripa sem voru í eigu skólans.

         Hverjir eru eigendur einstakra húsmæðraskóla?
    Byggingu húsmæðraskólanna bar á sínum tíma að með ýmsum hætti en allir munu þeir hafa verið reistir að frumkvæði heimamanna en með verulegum styrk úr ríkissjóði. Fjölmarg­ar lagabreytingar hafa í tímans rás haft áhrif á skiptingu á stofnkostnaði og rekstrarkostnaði þeirra og miðuðu þær flestar að því að auka kostnaðarþátttöku og ábyrgð ríkisins. Í lögum nr. 41 frá 1955 er rekstrarkostnaði og stofnkostnaði skipt þannig að ríkið greiði 75% en sveitarfélög 25%. Í lögum nr. 49 (skólakostnaðarlögunum) frá 1967 er ákvæði um að sé skóli lagður niður skuli skuldlausar eignir skiptast í sömu hlutföllum og stofnkostnaður var greiddur. Nú falla þeir hússtjórnarskólar, sem enn starfa, undir lög um framhaldsskóla. Auk þeirra lagagreina, sem gilda eða gilt hafa um húsmæðraskólana, hafa verið gerðir sérstakir samningar um marga þeirra. Yfirleitt er húsum þar ráðstafað til annarrar skólastarfsemi og tilheyrandi aðila (ríki eða sveitarfélögum) falin forsjá mannvirkja.

         Hvaða áform eru uppi um varðveislu eða nýtingu á þeim merka menningararfi kvenna sem er að finna innan veggja húsmæðraskólanna, svo og þeirra húsa sem byggð voru sem húsmæðraskólar í öllum landsfjórðungum?
    Eins og fram hefur komið hér að ofan eru flest þau hús, sem á sínum tíma voru byggð sem húsmæðraskólar, enn í notkun sem skólahús eða nýtt í þágu skólastarfsemi með öðru móti. Rekstur þeirra er yfirleitt í höndum ríkisins en varðveisla gripa sem sérstakt gildi hafa, sögu­legt eða menningarlegt, er í umsjá kvenfélaga eða annarra aðila sem tengjast fyrra skóla­haldi. Þau skólahús, sem til eru, munu flest verða notuð til skólahalds um mörg ókomin ár þótt breyttar aðstæður geti í einstöku tilvikum kallað á aðra nýtingu, sbr. Staðarfell.