Ferill 56. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



1994. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
118. löggjafarþing. – 56 . mál.


56. Tillaga til þingsályktunar



um að tryggja samkeppnisstöðu innlendrar framleiðslu.

Flm.: Finnur Ingólfsson, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, Stefán Guðmundsson,


Guðni Ágústsson, Jón Helgason, Guðmundur Bjarnason,


Valgerður Sverrisdóttir, Jón Kristjánsson, Ingibjörg Pálmadóttir.



    Alþingi ályktar að fela viðskipta- og iðnaðarráðherra að láta fara fram úttekt á því í hve miklum mæli innkaup ríkis og sveitarfélaga eru á erlendum vörum eða efnum með útboðum eða öðrum hætti, enda þótt sambærileg innlend efni eða vörur séu fáanlegar og framleiddar hér á landi, og hvernig útboðslýsingum opinberra aðila er háttað hvað varðar íslenska fram­leiðslu og erlenda. Einnig verði kannað hvaða vörur eru fluttar inn til landsins en jafnframt framleiddar innan lands eða hægt væri að framleiða hér á landi á sambærilegu verði.
    Þegar niðurstöður liggja fyrir, og gefi þær tilefni til, grípi stjórnvöld til aðgerða til að tryggja samkeppnisstöðu innlendu framleiðslunnar, þó þannig að ekki brjóti í bága við þá alþjóðlegu viðskiptasamninga sem Íslendingar hafa gerst aðilar að. Jafnframt verði hlutast til um að kynna hugsanlega framleiðslukosti innan lands á vörum sem nú eru fluttar inn en gætu verið samkeppnishæfar við innfluttar í verði og gæðum.

Greinargerð.


    Tilgangur þessarar þingsályktunar er að kanna með nákvæmum hætti hvernig hið opin­bera stendur að efnisöflun og hvort hið opinbera leitist við að nota íslensk efni og vörur. Sé þess nokkur kostur beri hinu opinbera að nota íslenskar vörur í þeim verkum sem unnin eru á þess vegum. Jafnframt er það tilgangur að kanna almennt hvort ekki megi minnka innflutn­ing fullunninna vara með því að framleiða slíka vöru hérlendis.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja hversu mikilvægt er að öflug íslensk iðnaðarfyrirtæki séu starfandi. Nauðsynlegt er að iðnaðinum séu sköpuð viðunandi rekstrarskilyrði og jöfn samkeppnisstaða við erlendar innfluttar vörur. Ríkisvaldið getur bætt stöðu iðnaðarins með ýmsum hætti. Hið opinbera er einn stærsti verkkaupi landsins og kaupir mikið magn af ýmiss konar iðnvarningi. Með því að hlutast til um notkun íslenskra efna og vara í verk hins opin­bera í stað erlendrar framleiðslu gæti hið opinbera bætt afkomu og eflt íslenskan iðnað frekar en nú er.
    Eins og annar innlendur iðnaður hefur byggingariðnaðurinn ekki farið varhluta af erfiðu árferði, enda byggir hann nær eingöngu á innlendum markaði. Verulegur samdráttur hefur átt sér stað í þessari grein iðnaðarins hin síðari ár. Ástæðurnar má vafalítið rekja annars vegar til minnkandi byggingarframkvæmda almennt og hins vegar til ört vaxandi notkunar erlends byggingarefnis. Sem dæmi um þennan samdrátt má nefna að árið 1988 nam sala á íslensku sementi tæplega 132 þús. tonnum en var komin niður í 85,5 þús. tonn árið 1993.
    Í útboðslýsingum verka á vegum hins opinbera eða sveitarfélaga hafa komið fram óskir um tiltekin innflutt byggingarefni, keypt hjá tilteknum innflytjendum, enda þótt íslensk bygg­ingarefni stæðu til boða. Í sumum tilvikum er ekki til sambærileg innlend framleiðsla en oft­ast nær er vara með sama notkunarsvið einnig framleidd innan lands. Spyrja má hver sé ástæða þess að útboðslýsingar á vegum hins opinbera eru með þeim hætti að inn­fluttra byggingarefna er sérstaklega óskað í verk á vegum hins opinbera. Er ástæðan sú að hin innlenda framleiðsla stenst ekki samanburð við hina erlendu hvað varðar gæði, endingu, útlit og verð?
    Ljóst er að iðnvarningur er mismunandi að gæðum hvort heldur hann er innlendur eða er­lendur. Ef ekki kæmi til hið opinbera eftirlit, t.d. með byggingariðnaðinum, væri erfitt að meta gæði vörunnar. Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hefur um áratuga skeið sinnt rannsóknum á gæðum innlendra byggingarefna og vinnuaðferða. Slík rannsókn á gæðum inn­fluttra efna hefur hins vegar ekki farið fram í sama mæli. Innflutt efni hafa þó verið prófuð hjá eftirlitsaðilum og í sumum tilvikum ekki staðist þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Hins vegar er endingartími efna og reynsla manna af notkun þeirra til margra ára við íslenskar að­stæður ólygnust hvað varðar gæði og endingu byggingarefna. Íslensk efni hafa mörg hver verið í notkun í mörg ár og þróast út frá reynslu við íslenskar aðstæður. Telja verður að þeim efnum megi treysta a.m.k. jafn vel við íslenskar aðstæður og þeim erlendu sem í mörgum til­vikum er lítil sem engin reynsla af við íslenskar aðstæður.
    Í flestum tilvikum hafa þau rök verið nefnd fyrir notkun erlendra byggingarefna að verð þeirra sé lægra en innlendra efna. Gerð hefur verið lausleg athugun á kostnaði nokkurra byggingarþátta annars vegar innlends byggingarefnis og hins vegar innflutts efnis. Sá kostn­aðarútreikningur fylgir þingsályktunartillögu þessari sem fylgiskjal. Verkin hafa sambærilegt notkunarsvið en byggingarefni eru ekki endilega þau sömu. Sem dæmi um verð má nefna kostnað vegna hleðslu á skilrúmi í íbúðarhúsnæði þar sem annars vegar er notað innflutt efni, gifsplötur 66 x 50 sentímetrar, sjö sentímetra þykkar, og hins vegar íslenskar gjallplötur af sömu þykkt, 50 x 50 sentímetrar að stærð, og veggurinn gróf- og fínhúðaður. Kostnaður á 9 fermetra fyrir hið innflutta efni er 5.096 kr. á fermetra en 4.599 kr. fyrir innlenda efnið. Mismunur á hvern fermeter er því 495 kr. innlenda efninu í vil.
    Í þessu tilviki hefði verkkaupinn haft umtalsverðan hag af kaupum á íslensku efni. Þjóðfé­lagið allt hefur hins vegar einnig hag af notkun íslenskrar framleiðslu og bættri stöðu ís­lensks iðnaðar. Með notkun innlendrar framleiðslu má þannig draga úr viðskiptahalla, koma í veg fyrir atvinnuleysi og skapa ný atvinnutækifæri.
    Gert er ráð fyrir í þingsályktun þessari að gerð verði úttekt á því hvaða vörur það eru sem fluttar eru inn til landsins en eru framleiddar innan lands eða væri hægt að framleiða hér á landi á sambærilegu verði. Jafnframt beri ráðherra að hlutast til um að kynna hugsanlega framleiðslukosti innan lands á vörum sem nú eru fluttar inn en gætu verið samkeppnishæfar við þær innfluttu í verði og gæðum. Athugun á verslunarskýrslum Hagstofunnar fyrir árið 1990 og athugun á jöfnunargjaldsstofni sama ár leiddi í ljós að það ár var fluttur inn iðnvarn­ingur, sambærilegur við það sem framleitt er hér á landi, fyrir um 20 milljarða kr. að cif-verðmæti. Miðað við þetta hafa neytendur á árinu 1990 greitt 55–60 milljarða kr. fyrir erlendan iðnvarning sem er sambærilegur við það sem framleitt er hér á landi, reiknað á verðlagi í maí 1992. Þess má geta að 20 milljarðar kr. í cif-verðmæti er hærri fjárhæð en samsvarar öllum viðskiptahalla ársins 1991. Spyrja má hversu mörg störf þyrfti til að fram­leiða hér á landi allan iðnvarning sem er fluttur inn en á sér innlenda hliðstæðu. Talið hefur verið að 5.800 ársverk þyrfti til framleiðslu þessa varnings ef sama launahlutfall er notað og almennt gerist í iðnaði hérlendis.
    Ekki er gert ráð fyrir að stöðva hér allan innflutning iðnvarnings. Hins vegar skiptir það þjóðarbúið mjög miklu að fjölgun ársverka eigi sér stað í íslenskum iðnaði. Athuganir hafa sýnt að önnur störf verða til í þjóðfélaginu við það að eitt nýtt skapast í iðnaði. Þannig er talið að rúmlega eitt starf að meðaltali verði til í öðrum greinum á öðru ári eftir að nýtt starf í iðnaði hefur orðið til og á þriðja ári eru störfin orðin tvö og hálft.
    Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að bæta stöðu íslenskrar framleiðslu, draga úr viðskiptahalla, skapa ný atvinnutækifæri og koma í veg fyrir atvinnuleysi.

Fylgiskjal.

Kostnaðarútreikningur.


Dæmi 1. Innflutt efni.
    Gifshleðsla, 7 sm, spörslun og frágangur.
    Veggur 2,55 x 3,53 = 9 fermetrar (m 2 ).

    Kr.

Vinna:
Hleðsla, 7 sm gifssteinn          8.795
Spörslun          4.381
Móttaka og flutningur á efni          922
Samtals vinna          14.098
Virðisaukaskattur          3.454
Vinnulaun og virðisaukaskattur          17.552
Vinnulaun og virðisaukaskattur á fermetra          1.950

Efni:
Hleðslusteinn, 7 sm          26.307
Festijárn, lím o.fl.          820
Sparsl               1.191
Samtals efni          28.318
Efni á fermetra          3.146
Samtals vinnulaun og efni          45.870
Samtals vinnulaun og efni á fermetra          5.096


Dæmi 2. Innlent efni.
    Gjallhleðsla, 7 sm. Gróf- og fínhúðun.
    Veggur 2,55 x 3,53 = 9 fermetrar (m 2 ).

    Kr.

Vinna:
Hleðslugrind (uppsláttur)          2.022
Hleðsla, 7 sm          3.911
Grófhúðun          10.657
Fínhúðun          3.594
Móttaka og flutningur á efni          1.413
Samtals vinna          21.597
Virðisaukaskattur          5.291
Samtals vinnulaun og virðisaukaskattur          26.888
Vinnulaun og virðisaukaskattur á fermetra          2.988

Efni:
Hleðslugrind          895
Hleðslusteinn          9.315
Sandur, sement o.fl.          3.403
Fínhúðun          884
Samtals efni          14.497
Efni á fermetra          1.611
Samtals vinnulaun og efni          41.385
Samtals vinnulaun og efni á fermetra          4.599