Ferill 30. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993–94. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 30 . mál.


163. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um bindandi samning á grundvelli orkusáttmála Evrópu.

    Hver er staða undirbúnings að fyrsta framkvæmdarsamningi (first implementation treaty) á grunni orkusáttmála Evrópu sem formaður ráðstefnunnar um sáttmálann fullyrðir að hafi þegar verið sendur aðilum að sáttmálanum til samþykktar?
    Orkusáttmáli Evrópu var undirritaður 17. desember 1991 af ráðherrum OECD-ríkjanna að Nýja-Sjálandi undanskildu, ríkja í Mið-Evrópu, ríkja í Samveldi sjálfstæðra ríkja, Eystrasaltsríkjanna og Georgíu. Orkusáttmálinn er eins konar pólitísk yfirlýsing í orkumálum en jafnframt er gert ráð fyrir að honum fylgi lögformlega bindandi samningar og bókanir um einstök svið sem verða eingöngu bindandi fyrir þær þjóðir sem undirrita viðkomandi samning eða bókun.
    Við undirritun orkusáttmálans var stefnt að því að undirrita mætti orkusáttmálasamning við hann á miðju ári 1992. Fljótlega varð hins vegar ljóst að það tækist ekki. Ástæður þess voru margar, ekki síst óstöðugt pólitískt ástand í ríkjum í Samveldi sjálfstæðra ríkja og töf á því að Úrúgvæumferð GATT-samningsins lyki. Deilur varðandi forstig fjárfestinga hafa einnig tafið. Með forstigi fjárfestinga er átt við allan undirbúning að orkuframkvæmdum, þar með talinn aðgang að orkulindum og leyfisveitingar í því sambandi.
    Til þess að deilur um forstig fjárfestinga og annar ágreiningur stöðvi ekki framgang orkusáttmálasamningsins lagði forseti undirbúningsráðstefnunnar um orkusáttmálann til að honum yrði skipt í tvo hluta. Fyrri hlutinn taki á efnisatriðum sem lítill eða enginn ágreiningur er um en seinni hlutinn á atriðum sem mikill ágreiningur er um, svo sem meðferð mála á forstigi fjárfestinga.
    Á ráðstefnu aðildarríkjanna í júní sl. náðist samkomulag um flesta meginþætti orkusáttmálasamnings I. Í sumar tókst að greiða úr þeim vandamálum sem eftir stóðu í lok ráðstefnunnar og var endanlegur texti orkusáttmálasamnings I sendur aðildarríkjum með minnisblaði frá forseta ráðstefnunnar um sáttmálann 14. september sl. Í minnisblaðinu kemur fram að aðildarríkin þurfa að tilkynna fyrir lok október afstöðu sína til sáttmálasamningsins og hvort þau muni skrifa undir hann 17. desember nk.
    Gert er ráð fyrir að ráðstefna aðildarríkja orkusáttmálans hefji umræðu um síðari hluta samningsins um forstig fjárfestinga, orkusáttmálasamning II, á næsta ári og stefnt að því að ljúka henni innan þriggja ára.

    Hver er afstaða ríkisstjórnarinnar til fyrirliggjandi samningstexta?
    Orkusáttmálasamningur I hefur verið kynntur í ríkisstjórninni og þar lagt til að samningurinn verði staðfestur af Íslands hálfu.

    Hvenær og með hvaða hætti verður staða málsins kynnt Alþingi og leitað eftir afstöðu þingsins?
    Orkusáttmálasamningur I hefur verið sendur iðnaðarnefnd og utanríkismálanefnd til kynningar.
    Verði orkusáttmálasamningur I undirritaður af Íslands hálfu mun málið koma til afgreiðslu á Alþingi með hefðbundnum hætti, þ.e. utanríkisráðherra mun leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fullgildingu samningsins. Í framhaldi af staðfestingu þingsins verður samningurinn síðan fullgiltur.