Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 16:18:17 (3305)

1996-02-27 16:18:17# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:18]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Herra forseti. Ég vil sérstaklega fagna því frv. sem hér er fram lagt af hálfu hæstv. samgrh. Í því mikla samkeppnisumhverfi sem öll fjarskiptaþjónusta í heiminum er nú að sigla inn í vegna mikilla tækninýjunga og örrar þróunar er mikil nauðsyn á formbreytingu á rekstri Pósts og síma. Í nágrannalöndum okkar innan Evrópu hefur verið ráðist í formbreytingu á rekstri opinberra símafyrirtækja, þótt mislangt hafi verið gengið í breytingu á eignarhaldi.

Frv. sem hér liggur fyrir gerir ákveðið ráð fyrir óbreyttu eignarhaldi ríkisins. Það er augljóst að sjálfstætt rekið fyrirtæki getur á mun auðveldari hátt brugðist við aukinni samkeppni erlendis frá og síbreytilegum aðstæðum á markaðnum. Sífellt eru að koma fram nýjungar í fjarskiptaþjónustu og upplýsingatækni sem auðveldara er að bregðast við í venjulegum fyrirtækjarekstri en opinberri stofnun sem aftur leiðir til hagkvæmari og betri þjónustu við neytendur. Jafnframt yrði fyrirtækið áhugverðari og sveigjanlegri vinnustaður fyrir starfsfólk.

Ég tel einnig að þessi formbreyting leiði til þess að hægt verði að huga að verulegum breytingum á uppbyggingu gjaldskrár. Svokallaðar arðgreiðslur í ríkissjóð hafa numið 850--860 millj. kr. á undanförnum árum. Hvernig verður skattgreiðslum háttað eftir formbreytingu? Eftir því sem best verður lesið út úr ársreikningum Pósts og síma fyrir árið 1994 að teknu tilliti til þess að ekki liggja fyrir allar upplýsingar sem verða að liggja fyrir til að hægt sé að áætla nákvæmlega skattálagningu fyrirtækisins í hlutafélagsformi má reikna með að tekjuskattur fyrirtækisins verði um 400 millj. kr. Reyndar heldur lægri á fyrsta ári þegar færðar eru í fyrsta skipti orlofsskuldbindingar ársins, niðurfærsla viðskiptakrafna og hugsanlega fleiri atriði sem ekki eru enn komin í ljós við aðlögun fyrirtækisins að nýju formi. Reikna ég þá með að raunhagnaður fyrirtækisins sé um 1,2 milljarðar í stað 1,5 milljarða að teknu tilliti til áfallinna lífeyrisskuldbindinga ársins sem eru um 380 millj. Reiknuð áfallin lífeyrisréttindi starfsmanna eru um 8 milljarðar og miðað við að eigið fé verði metið að öðru leyti á 13 milljarða, eins og fram kemur í ársreikningum 1994, er eigið fé fyrirtækisins um 5 milljarðar.

Eins og reiknað er með í 4. gr. frv. skal stofnhlutafé fyrirtækisins verða 75% af því sem gera þá 3.750 millj. kr. í hlutafé. En þá er spurningin: Hver verður arðgreiðsla til ríkissjóðs af þeirri upphæð? Ef hluthafinn, þ.e. ríkissjóður, krefst hámarksarðgreiðslu verður það í þessu dæmi 375 millj. kr. Ég teldi hins vegar eðlilegra að þessi arður rynni til notenda þjónustunnar í formi lækkaðrar gjaldskrár. Ég fullyrði að breytt gjaldskrá sem fæli í sér að gera landið að einu gjaldsvæði mundi jafnframt auka til muna notkun símans þannig að tekjuauki yrði verulegur hjá fyrirtækinu þess vegna. Ekki er dregið í efa að fjarskiptakerfið beri margfalt meiri umferð en nú er. Nýtingin á fjárfestingunni yrði því til muna betri.

Sú öra þróun sem orðið hefur í alls konar upplýsingatækni knýr enn frekar á um breytingar. Kostir upplýsingatækni eru ótal margir, ekki síst til þess að fólk geti aukið og bætt þekkingu sína. Hún eykur einnig samkeppnismöguleika fyrirtækja og skapar ný tækifæri. Upplýsingatækni á að geta styrkt stöðu landsbyggðarinnar á margan hátt og afar nauðsynlegt að menn opni augun fyrir því. En til þess að stuðla að því að þróun geti orðið hröð og örugg um allt land verðum við að sjá til þess að ekki séu viðskiptahindranir í veginum í formi óheppilegrar gjaldskrárstefnu. Að þessum málum verður jafnframt að huga þegar samkeppnishæfni fyrirtækisins er skoðuð, þegar opnað verður fyrir frelsi í talsímaþjónustunni 1. jan. 1998.

Atvinnumöguleikar í sambandi við fjarvinnslu mundu einnig aukast til muna ef gjaldskránni yrði breytt og allt þetta umhverfi yrði gríðarlega mikið aðgengilegra fyrir alla landsmenn.

Ég tel ekki rétt að rekja sögu gjaldskrármála Pósts og síma í einstökum smáatriðum en ljóst er að þar hefur gætt ýmissa boðafalla í áranna rás og lengst af hefur verið mjög óeðlilegur munur á langlínu- og innanbæjarþjónustu. Fram hefur komið í umræðu að undanförnu að það voru langlínugjöldin á árum áður sem byggðu upp innanbæjarkerfin. Þessi verðlagningarstefna hefur því verið eins og skattur á landsbyggðina sem eðli málsins samkvæmt hefur þurft að ná í þjónustu til þéttbýlissvæðanna. Eins og fyrr er getið hefur tækniþróun orðið ótrúlega ör og Póstur og sími hefur byggt upp fjarskiptaþjónustuna með nýjustu og bestu tækni. Það sem varð ekki síst þess valdandi að þróunin hefur orðið svo ör hér á landi er lagning ljósleiðarakerfisins sem var fjármagnað að miklu leyti í sambandi við uppbyggingu ratsjárstöðvanna. Því er stofnkostnaður við þessa miklu þjóðvegi fjarskiptanna ekki nema að litlu leyti hjá Pósti og síma. Ég tel því að nú sé kjörið tækifæri til að afnema allar viðskiptahindranir á milli landsvæða og nýta kerfið betur. Í mínum huga er ekki vafi á að notkun eykst verulega þegar verðmúrum hefur verið rutt úr vegi á milli landshluta.

Eins og nú háttar til í tæknibúnaði Póst og síma kostar það stofnunina ekki meira að selja símtal á milli húsa á Akureyri heldur en símtal á milli Akureyrar og Reykjavíkur. Hver eru þá rökin ef stofnkostnaður hefur verið greiddur af utanaðkomandi aðila eins og áður er getið?

Í vaxandi mæli hafa smáfyrirtæki verið að bindast samstarfsneti til þess að verða samkeppnishæfari á markaðnum. Á þetta við um margs konar þjónustu- og framleiðslufyrirtæki. Einnig hafa fyrirtæki í samkeppnisþjónustu farið út í að staðsetja sig á fleiri en einum stað á landinu. Í þeirri nýju tækni sem við þekkjum nú geta starfsmenn og samstarfsaðilar í slíkum fyrirtækjum haft gott og óhindrað samband. Það er óhæfa að slíkur vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi, sem er í raun að berjast í alþjóðlegu umhverfi, sé heftur af gömlum gjaldskrárhugmyndum.

Ég get nefnt dæmi um verkfræðistofu sem staðsett er á Reyðarfirði og Egilsstöðum. Hún leitaði eftir því að fá svokallað þverlínusamband á milli starfsstöðva fyrirtækisins. Í ljós kom að slíkt samband var nífalt dýrara en sams konar samband á milli Seltjarnarness og Hafnarfjarðar, en þó er yfir fleiri sveitarfélög og símstöðvarmörk að fara. Annars vegar var gjaldið 9.200 kr. og hins vegar 82 þús. kr. í afnotagjald. Í stofngjaldi var hins vegar margfalt meiri munur. Annars vegar 9 þús. kr., leiðin Hafnarfjörður--Seltjarnarnes, hins vegar 567 þús. 222 kr., Reyðarfjörður--Egilsstaðir.

Á símgjöldum varð hins vegar mikil bót sl. vor þegar gjaldsvæðin voru stækkuð þannig að t.d. þetta fyrirtæki komst á sama gjaldsvæði. Fyrirtækið hefur mjög náið samstarf við annað fyrirtæki í Reykjavík og milli þeirra gilda enn hin háu langlínugjöld. Þess skal þó getið að í sambandi við tölvusamskipti hefur ástandið lagast með tilkomu svokallaðs ISDN-sambands sem dugar mjög vel því fyrirtæki sem ég nefni hér sem dæmi innan svæðis og einnig við samstarfsaðilann í Reykjavík, en að vísu með hærri gjöldum af því að yfir svæðamörk er að fara.

Ég hef heyrt því haldið fram að fella þurfi niður við gjaldskrárbreytingu sem fæli í sér eitt gjaldsvæði þau skref sem nú eru innifalin í fastagjaldinu. Hafi áður verið rök fyrir því að hafa innifalin skref í ársfjórðungsgjaldi, þ.e. í núverandi kerfi, þá eru þau rök fullgild með breyttri gjaldskrá. Þetta er einfaldlega ákvörðun um uppbyggingu gjaldskrár sem getur verið bundin ýmsum forsendum og einnig markmiðum. Ég held einmitt að það sé mikill kostur að hafa frískref í fastagjaldinu. Það kemur þeim vel sem eru pössunarsamir með notkun á símanum eins og t.d. margt eldra fólk. Síminn er samt sem áður mikið öryggistæki fyrir þetta sama fólk. Það eru hins vegar að mínu mati ekki rök fyrir því að hafa mismunandi mörg skref innifalin eftir landshlutum eins og nú er, eftir að landið er orðið eitt gjaldsvæði.

Samkvæmt upplýsingum frá Pósti og síma eru 400 skref innifalin í fastagjaldinu hjá notendum á landsbyggðinni, en einungis 200 hjá notendum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi mismunun á ekki við rök að styðjast eftir að landið er orðið eitt gjaldsvæði, hafi þá einhvern tíma verið hægt að finna þau rök.

Margt mætti enn ræða um gjaldskrármál svo sem leigulínur og margt fleira, en ég læt hér staðar numið að sinni.

Herra forseti. Ég vil beina því til samgn. að hún bæti inn í frv. við yfirferð sína á því ákvæði þess efnis að jafnhátt gjald greiðist fyrir sömu þjónustu hvar sem er á landinu. Samkvæmt 10. gr. frv. setur stjórn félagsins gjaldskrá sem þó er háð samþykki samgrh. hvað varðar verðlagningu á póst- og símaþjónustu innan lands. Ég tel að ekki sé nóg að ráðherra hafi þetta vald. Þótt ég telji að núv. ráðherra og jafnvel núverandi stjórnendur Pósts og síma væru vel vísir til að fylgja því eftir seinna meir að landið skuli vera eitt gjaldsvæði koma aðrir á eftir sem skilja kannski ekki nauðsynina fyrir hindrunarlaus viðskipti og samskipti á milli allra íbúa landsins, hvar sem þeir eru staddir. Ég tel því mikla nauðsyn á að ákvæði þess efnis séu strax bundið í lögin sjálf um hið nýja fyrirtæki.

Ég vil að lokum vitna í orð póst- og símamálastjóra í ársreikningi stofnunarinnar fyrir árið 1993 sem ég nálgaðist á Internetinu á mjög auðveldan hátt. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Góð símaþjónusta brúar vegalengdir og gerir þjónustuaðilum um allt land kleift að þjóna viðskiptavinum utan síns byggðarlags því þeir eru aldrei lengra frá þeim en að næsta síma. Markmið Pósts og síma er að auðvelda mönnum samskipti við aðra, hvar sem er, hvenær sem er og á þann hátt sem þeir sjálfir óska.``

Ég vil að lokum, forseti, ítreka þakkir mínar fyrir fram komið frv. og tel það vera mikið framfaraspor.