Ferill 491. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995–96. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 491 . mál.


850. Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu viðbótarbókunar við samninginn milli Efnahagsbandalags Evrópu og lýðveldisins Íslands.

(Lögð fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995–96.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd viðbótarbókun við samninginn milli Efnahagsbandalags Evrópu og lýðveldisins Íslands í kjölfar aðildar lýðveldisins Austurríkis, lýðveldisins Finnlands og konungsríkisins Svíþjóðar að Evrópusambandinu sem gerð var í Brussel 26. janúar 1996.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á viðbótarbókun við samninginn milli Efnahagsbandalags Evrópu og lýðveldisins Íslands í kjölfar aðildar lýðveldisins Austurríkis, lýðveldisins Finnlands og konungsríkisins Svíþjóðar að Evrópusambandinu sem gerð var í Brussel 26. janúar 1996. Bókunin er prentuð sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari.
    Um er að ræða viðbótarbókun við fríverslunarsamning Efnahagsbandalags Evrópu og Íslands frá 22. júlí 1972 og er hún gerð í kjölfar aðildar EFTA-ríkjanna Austurríkis, Finnlands og Svíþjóðar að Evrópusambandinu 1. janúar 1995 og uppsagnar þeirra á EFTA-samningnum. Með bókuninni eru gerðar nauðsynlegar breytingar á fyrirkomulagi viðskipta með sjávarafurðir milli Íslands og bandalagsins til að viðhalda viðskiptum með sjávarafurðir milli Íslands annars vegar og hinna nýju aðildarríkja hins vegar.
    Samningaviðræður Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópubandalaganna, sem hófust í byrjun mars 1995 og lauk í lok október sama ár, snerust fyrst og fremst um tollfrjálsan innflutningskvóta fyrir síldarafurðir, enda hafa Finnland og Svíþjóð um langt skeið verið einn mikilvægasti markaður Íslendinga fyrir saltaðar síldarafurðir.
    Í bókuninni er kveðið á um sex tollfrjálsa innflutningskvóta fyrir sjávarafurðir, sbr. 2. gr. bókunarinnar og viðauka við hana. Var við samningsgerðina miðað við meðalinnflutning frá Íslandi til ríkjanna þriggja á árunum 1992–1994. Mestu skipta 1.750 lesta árlegur innflutningskvóti fyrir heila hausskorna saltsíld og 2.400 lesta árlegur kvóti fyrir krydd- og edikverkaðar síldarafurðir. Innflutningskvótarnir eru ekki bundnir við Austurríki, Finnland og Svíþjóð heldur ná þeir til innflutnings til allra aðildarríkja Evrópusambandsins.
    Bókunin öðlast gildi á fyrsta degi eftir að samningsaðilar hafa tilkynnt hvor öðrum um staðfestingu þeirra á bókuninni í samræmi við þeirra eigin málsmeðferð. Bókuninni skal beitt frá og með 1. janúar 1995 og verða því álagðir tollar frá þeim tíma fram að gildistöku samningsins endurgreiddir til innflytjenda þeirra afurða sem bókunin nær til.


Fylgiskjal.

VIÐBÓTARBÓKUN


VIÐ SAMNINGINN


MILLI EFNAHAGSBANDALAGS EVRÓPU


OG LÝÐVELDISINS ÍSLANDS


Í KJÖLFAR AÐILDAR


LÝÐVELDISINS AUSTURRÍKIS, LÝÐVELDISINS FINNLANDS


OG KONUNGSRÍKISINS SVÍÞJÓÐAR AÐ EVRÓPUSAMBANDINU




EVRÓPUBANDALAGIÐ

annars vegar og

LÝÐVELDIÐ ÍSLAND

hins vegar

HAFA HLIÐSJÓN AF samningnum milli Efnahagsbandalags Evrópu og lýðveldisins Íslands sem var undirritaður í Brussel 22. júlí 1972, hér eftir nefndur „samningurinn“,

HAFA HLIÐSJÓN AF aðild lýðveldisins Austurríkis, lýðveldisins Finnlands og konungsríkisins Svíþjóðar að Evrópusambandinu 1. janúar 1995,

TELJA að til að viðhalda viðskiptum milli Íslands annars vegar og hinna nýju aðildarríkja hins vegar sé nauðsynlegt að gera breytingar á fyrirkomulagi viðskipta með sjávarafurðir milli Íslands og bandalagsins,

OG HAFA ÁKVEÐIÐ með almennu samkomulagi að aðlaga samninginn aðild lýðveldisins Austurríkis, lýðveldisins Finnlands og konungsríkisins Svíþjóðar að Evrópusambandinu OG AÐ GERA MEÐ SÉR SVOHLJÓÐANDI BÓKUN:

1. gr.

    Texti samningsins, viðaukanna og bókananna, sem eru óaðskiljanlegur hluti hans, lokabókunarinnar og yfirlýsinganna, sem fylgja honum, skal gerður á finnsku og sænsku og skulu þessir textar jafngildir upprunalegu textunum. Sameiginlega nefndin skal samþykkja finnska og sænska textann.

2. gr.

    Sérákvæðin, sem gilda um innflutning til bandalagsins á tilteknum sjávarafurðum upprunnum á Íslandi, eru í viðaukanum við þessa bókun.

3. gr.

    Viðaukinn við þessa bókun er óaðskiljanlegur hluti hennar. Bókun þessi er óaðskiljanlegur hluti samningsins.

4. gr.

    Bókun þessi skal samþykkt af samningsaðilunum í samræmi við þeirra eigin málsmeðferð. Hún öðlast gildi 1. desember 1995 að því tilskildu að samningsaðilar hafi tilkynnt hvor öðrum fyrir þann dag að nauðsynlegri málsmeðferð þar að lútandi sé lokið. Eftir þann dag öðlast bókunin gildi á fyrsta degi eftir slíka tilkynningu. Henni skal beitt frá og með 1. janúar 1995.

5. gr.

    Bókun þessi er gerð í tvíriti á dönsku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, íslensku, ítölsku, portúgölsku, spænsku, sænsku og þýsku og eru allir þessir textar jafngildir.

    Gjört í Brussel hinn 25. janúar 1996.


VIÐAUKI



SKRÁ YFIR VÖRUR SEM VÍSAÐ ER TIL Í 2. GR.


(Vörur upprunnar á Íslandi sem bandalagið heimilar innflutningskvóta á.)



ST-NÚMER VÖRULÝSING KVÓTI
(tonn)
1 0302 12 00 Lax, nýr eða kældur 50
0302 10 13 Laxaflök, ný eða kæld
0304 20 13 Laxaflök, fryst
2 0302 23 00 Sólflúra, ný eða kæld 250
0302 29 10 Stórkjafta, ný eða kæld
0302 29 90 Annar flatfiskur, nýr eða kældur
0302 69 85 Kolmunni, nýr eða kældur
0303 32 00 Skarkoli, frystur
0303 79 96 Annar sjávarfiskur, frystur
0304 10 19 Flök af öðrum ferskvatnsfiski, ný eða kæld
0304 10 33 Ufsaflök, ný eða kæld
0304 10 35 Karfaflök, ný eða kæld
úr
0304 10 38
Flök af öðrum sjávarfiski, þó ekki af síld og makríl, ný eða kæld
0304 10 98 Kjöt af öðrum sjávarfiski, nýtt eða kælt
0304 20 19 Flök af öðrum ferskvatnsfiski, fryst
0304 90 35 Fryst kjöt af þorski af tegundinni Gadus macrocephalus
0304 90 38 Fryst kjöt af þorski af tegundinni Gadus morhua
0304 90 39 Fryst kjöt af tegundinni Gadus ogac og af fiski af tegundinni Boreogadus saida
0304 90 41 Fryst kjöt af ufsa
0304 90 47 Fryst kjöt af lýsingi af tegundinni Merluccius
0304 90 59 Fryst kjöt af kolmunna
úr
0304 90 97
Fryst kjöt af öðrum sjávarfiski, þó ekki af makríl
3 0305 61 00 Síld, söltuð en ekki þurrkuð eða reykt, og síld í saltlegi 1750
4 0306 19 30 Leturhumar, frystur 50
5 1604 12 91 Önnur síld, unnin eða varin skemmdum, í loftþéttum ílátum 2400
1604 12 99 Önnur síld, unnin eða varin skemmdum, annað
6 1604 19 98 Annar fiskur, unninn eða varinn skemmdum, heill eða í hlutum 50
úr
1604 20 90
Kjöt af öðrum fiski, unnið eða varið skemmdum, þó ekki af síld eða makríl

    Þessir innflutningskvótar gilda frá 1. janúar til 31. desember ár hvert. Heimil er frjáls dreifing innflutningsvöru, sem er upprunnin á Íslandi, til bandalagsins með 0% innflutningstolli, í því magni sem tilgreint er fyrir hvern vöruflokk.