Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1996–97. – 1066 ár frá stofnun Alþingis.
121. löggjafarþing. – 487 . mál.


818. Frumvarp til laga



um breyting á umferðarlögum, nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996–97.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 45. gr. laganna:
    2. mgr. orðast svo:
                  Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 0,50‰, en er minna en 1,20‰, eða vínandamagn í lofti, sem hann andar frá sér, nemur 0,25 milligrömmum í lítra lofts, en er minna en 0,60 milligrömm, eða ökumaður er undir áhrifum áfengis þótt vínandamagn í blóði hans eða útöndun sé minna telst hann ekki geta stjórnað ökutæki örugglega.
    3. mgr. orðast svo:
                  Ef vínandamagn í blóði ökumanns nemur 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lofti, sem hann andar frá sér, nemur 0,60 milligrömmum í lítra lofts eða meira telst hann óhæfur til að stjórna ökutæki.
    

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 47. gr. laganna:
    Inngangsmálsliður 1. mgr. orðast svo: Lögreglumaður getur framkvæmt öndunarpróf á ökumanni vélknúins ökutækis ef.
    2. mgr. orðast svo:
                  Lögreglumaður getur fært ökumann til rannsóknar á öndunarsýni eða til blóð- og þvagrannsóknar ef ástæða er til að ætla að hann hafi brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 44. gr. eða 45. gr. eða hann neitar að láta framkvæma öndunarpróf eða er ófær um það. Ef grunur er um önnur brot en akstur undir áhrifum áfengis getur lögreglumaður auk þess fært ökumann til læknisskoðunar. Sama á við þegar grunur er um akstur undir áhrifum áfengis og sérstakar ástæður mæla með því.
    Við bætist ný málsgrein, er verður 3. mgr., og orðast svo:
                  Lögregla annast töku öndunarsýnis. Læknir, hjúkrunarfræðingur eða meinatæknir annast töku blóðsýnis. Ökumanni er skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin er nauðsynleg við rannsókn skv. 2. mgr.
    Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Öndunarpróf, öndunarsýni, blóðsýni o.fl.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 64. gr. laganna:
    Orðið „og“ í e-lið fellur brott.
    Við bætist nýr liður, er verður f-liður, og orðast svo: gjald fyrir viðurkenningu á gerð ökutækja og búnaði þeirra, og.
    Núverandi f-liður verður g-liður.
    

4. gr.


    65. gr. laganna, sbr. lög nr. 44/1993, orðast svo:
    Fela má hlutafélagi sem ríkissjóður á hlut í, Skráningarstofunni hf., að annast skráningu ökutækja, svo og aðra umsýslu varðandi skráningu ökutækja, gerð þeirra og búnað.
    Dómsmálaráðherra fer með mál er varða eignaraðild ríkisins að Bifreiðaskoðun hf. og Skráningarstofunni hf.
    

5. gr.

    2. mgr. 67. gr., sbr. lög nr. 44/1993, fellur brott.
    

6. gr.

    Á eftir XI. kafla laganna kemur nýr kafli, XI.a SÉRAÐSTÆÐUR HREYFIHAMLAÐRA, með nýrri grein, 78. gr. a, er orðast svo:
    Dómsmálaráðherra getur sett reglur um undanþágu fyrir hreyfihamlaða frá reglum um stöðvun og lagningu ökutækja, þar á meðal reglum um notkun stöðureita og gjald fyrir hana.
    

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 91. gr. laganna:
    Í stað „250.000.000 kr.“ í 2. mgr. kemur: 800 millj. kr., og í stað „50.000.000 kr.“ kemur: 160 millj. kr.
    Í stað „Tryggingaeftirlitsins“ í 3. mgr. kemur: Vátryggingaeftirlitsins.
    

8. gr.

    Í stað „10.000.000 kr.“ í 1. mgr. 92. gr. laganna kemur: 60 millj. kr.
    

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 7. og 8. gr. koma þó ekki til framkvæmda fyrr en 1. júlí 1997.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Vátryggingarfjárhæðir skv. 2. mgr. 91. gr. og 1. mgr. 92. gr. umferðarlaga skulu á árinu 1998 taka breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar frá 1. mars 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum umferðarlaganna. Þessar breytingar eru sundurleitar en tilkomnar vegna stöðugrar viðleitni til að ná fram þeim megintilgangi laganna að stuðla að umferðaröryggi og tryggja hag þeirra sem verða fyrir tjóni í umferðinni.
    Breytingarnar eru þessar:
    1.     Ölvun við akstur er meðal alvarlegri brota í umferðinni. Um langt skeið hefur sönnun á ölvunarástandi ökumanns ráðist af rannsókn á vínandamagni í blóði og hefur niðurstaða blóðrannsóknar verið lögfull sönnun á því hvort ökumaður hefur talist geta stjórnað ökutæki örugglega. Á síðari árum hafa komið fram nýjar aðferðir til að mæla ölvunarástand með ekki minni nákvæmni en við blóðrannsókn. Felast þær í því að mælt er vínandamagn í lofti sem ökumaður andar frá sér. Eru aðferðir þessar einfaldar í framkvæmd, búnaður er þannig að lögreglumaður getur framkvæmt þær í stað þess að hann færi ökumann til læknis til rannsóknar, og þær ganga fljótar fyrir sig en rannsókn á blóðsýni. Niðurstaða um áfengisáhrif liggur þá strax fyrir sem felur í sér að meðferð mála tekur styttri tíma. Þá er létt af ökumanni þeirri kvöð að vera færður af lögreglu til læknis. Sparast með þessu verulegur tími hjá lögreglu og starfsfólk heilsugæslu og á rannsóknastofum getur þá sinnt öðrum verkefnum. Í heild felur beiting þessarar aðferðar í sér aukið réttaröryggi. Hafa lagareglur um sönnunargildi þessara mælinga verið lögfestar í ýmsum löndum, meðal annars í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Reynsla af þessari mæliaðferð er góð og er fyrirhugað að slíkur búnaður verði tekinn í notkun hér á landi. Er því lagt til að niðurstaða mælingar á vínandamagni í lofti sem ökumaður andar frá sér verði að lögum metin sem fullnægjandi sönnun um ölvunarástand á sama hátt og þegar vínandamagn í blóði er mælt.
    2.      Vátryggingarfjárhæðir vegna ábyrgðartryggingar ökutækja og slysatryggingar ökumanns, sem ákveðnar voru með umferðarlögunum 1987, hafa árlega tekið breytingum í samræmi við verðlagsbreytingar. Fjárhæðir í ábyrgðartryggingunni eru frá 1. mars 1997 495 millj. kr. vegna líkamstjóns eða missis framfæranda og 108 millj. kr. vegna munatjóns. Fjárhæð slysatryggingar ökumanns frá sama tíma er 20 millj. kr. Með skaðabótalögum, nr. 50/1993, er tóku gildi 1. júlí 1993, voru hæstu bætur til einstaklings vegna alvarlegra slysa hækkaðar verulega. Með hækkun á margföldunarstuðli skaðabótalaganna samkvæmt lögum nr. 42/1996 geta hámarksbætur vegna slysa nú orðið um 52 millj. kr. Ekki er kunnugt um tjón í slysatryggingu ökumanns sem áætlað er að muni nema hærri fjárhæð en nemur vátryggingarfjárhæðinni. Hins vegar hafa orðið nokkur slysatjón í ábyrgðartryggingu ökutækja þar sem bætur eru áætlaðar hærri eða á bilinu 20–30 millj. kr. Án lagabreytingar er ekki unnt að hækka vátryggingarfjárhæðir umferðarlaganna umfram verðlagsbreytingar. Nauðsynlegt er hins vegar að vátryggingarfjárhæðirnar séu jafnan það háar að þær hrökkvi almennt fyrir bótum sem leiðir af tjóni og að tillit sé tekið til vaxta og kostnaðar sem við kann að bætast. Er því lagt til að vátryggingarfjárhæð í slysatryggingu ökumanns verði ákveðin 60 millj. kr. Jafnframt er lagt til að vátryggingarfjárhæð ábyrgðartryggingar vegna líkamstjóns eða missis framfæranda verði ákveðin 800 millj. kr. og að vátryggingarfjárhæð í munatjónum ábyrgðartryggingar verði ákveðin 160 millj. kr. Ekki er talið að þessar breytingar á vátryggingarfjárhæðum ökutækjatrygginganna einar sér hafi teljandi áhrif á iðgjöld fyrir vátryggingar þessar.
    3.      Séraðstæður hreyfihamlaðra. Lagt er til að heimilað verði að setja almennar reglur um undanþágu fyrir hreyfihamlaða frá reglum um stöðvun og lagningu ökutækja. Um langt skeið hafa verið í gildi reglur sem lögreglustjórinn í Reykjavík setti um undanþágur fyrir hreyfihamlaða frá reglum um stöðvun og lagningu ökutækja. Hefur Sjálfsbjörg, samtök fatlaðra í Reykjavík, haft umsjón með útgáfu þessara undanþáguheimilda í samráði við embætti lögreglustjóra og mun almennt hafa verið tekið tillit til þeirra af hálfu lögreglu í öðrum umdæmum. Rétt þykir að um þetta verði settar almennar reglur sem gildi fyrir landið allt og að þær hafi beina lagastoð.
    4.      Skráning ökutækja. Bifreiðaskoðun Íslands hf. sem tók til starfa 1. janúar 1989 hafði með höndum skráningu ökutækja og skoðun þeirra. Frá og með ársbyrjun 1994 hefur skoðun ökutækja farið fram á vegum sérstakra faggiltra skoðunarstöðva. Starfsemi skoðunarstöðvanna miðaðist fyrst og fremst við almenna og lögbundna skoðun ökutækja. Önnur skoðun sem tengdist skráningu ökutækja (nýskráningu eða breytingum) var hins vegar á vegum Bifreiðaskoðunar Íslands hf. Verkþættir þessir hafa nú verið aðskildir að fullu og hefur Bifreiðaskoðun Íslands hf. verið skipt upp í tvö fyrirtæki, Skráningarstofuna hf., sem annast skráningu ökutækja og ýmis tæknileg málefni sem varða ökutæki og búnað þeirra og Bifreiðaskoðun hf. sem starfar að skoðun ökutækja. Kom þessi skipting til framkvæmda 4. febrúar 1997. Ríkissjóður hefur átt helmings hlut í Bifreiðaskoðun Íslands hf. og við skiptingu fyrirtækisins er ríkissjóður helmings hluthafi í báðum fyrirtækjunum. Ákveðið hefur verið að ríkissjóður selji hlut sinn í Bifreiðaskoðun hf. Af þessu tilefni eru lagðar til viðeigandi breytingar á umferðarlögunum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að 2. og 3. mgr. 45. gr. verði breytt þannig að heimilt verði að ákvarða ölvunarástand ökumanns á grundvelli vínandamagns í lofti sem hann andar frá sér til jafns við vínandamagn í blóði. Mælingar af þessu tagi er nú unnt að framkvæma af sömu nákvæmni og mælingar á vínandamagni í blóði. Sýna rannsóknir að fullt samræmi er milli vínandamagns í blóði manns og vínandamagns í því lofti sem hann andar frá sér við mismunandi ölvunarástand.
    

Um 2. gr.


    Breytingar, sem lagðar eru til á 1. mgr. 47. gr., taka mið af því að sérstök mæling á vínandamagni í lofti sem ökumaður andar frá sér verði lögð til grundvallar við ákvörðun ölvunarstigs. Er lagt til að orðið öndunarpróf verði notað um þau öndunarsýni (“alkotest”) sem lögregla tekur til könnunar á því hvort um ölvunarakstur er að ræða.
    Lagt er til að 2. mgr. 47. gr. verði breytt með hliðsjón af hinum nýju aðferðum til að rannsaka vínanda í lofti sem ökumaður andar frá sér. Þá er lagt til að í stað orðsins læknisrannsókn verði notað hugtakið læknisskoðun sem vísar betur til „klíniskrar“ læknisrannsóknar sem höfð er í huga.
    Lagt er til að ákveðið verði að lögregla annist töku öndunarsýna og að taka blóðsýna verði í höndum lækna svo sem verið hefur, en að auk þess geti hjúkrunarfræðingar og meinatæknar annast töku blóðsýna, innan þeirra reglna sem um störf þeirra gilda. Skv. 3. mgr. gildandi laga, sem verður 4. mgr., er gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um töku sýna og rannsókn. Mun það einnig ná til öndunarsýna.
    

Um 3. gr.


    Lagt er til að við 64. gr. bætist nýr töluliður þannig að ráðherra kveði á um gjald fyrir viðurkenningu á gerð ökutækja og búnaði þeirra. Viðurkenning á gerð ökutækja er hluti skráningarferils og verkefni skráningarstofu.
    

Um 4. gr.


    Lagt er til að 65. gr. verði breytt og að þar komi nýtt ákvæði um skráningarstofu, hliðstætt því ákvæði sem sett var í lögin 1988 vegna stofnunar Bifreiðaskoðunar Íslands hf. Jafnframt er lagt til að ákveðið verði að dómsmálaráðherra fari með mál er varða eignaraðild ríkisins að Bifreiðaskoðun hf. og Skráningarstofunni hf., svo sem nú er um Bifreiðaskoðun Íslands hf.
    

Um 5. gr.


    Lagt er til að ákvæði 2. mgr. 67. gr., um að ráðherra ákveði gjald fyrir skoðun ökutækja, falli brott. Sú skoðun fer nú fram hjá faggiltum skoðunarstöðvum þar sem gjaldtaka byggist á frjálsri verðmyndun og samkeppni.
    

Um 6. gr.


    Lagt er til að ráðherra verði veitt heimild til að setja reglur um undanþágu fyrir hreyfihamlaða frá reglum um stöðvun og lagningu ökutækja, þar á meðal reglum um notkun stöðureita og gjald fyrir hana. Gert er ráð fyrir að slíkar reglur verði settar í samráði við samtök fatlaðra og þau stjórnvöld sem fara með málefni fatlaðra.
    

Um 7. gr.


    Lagt er til að vátryggingarfjárhæðir vegna ábyrgðartryggingar ökutækja skv. 2. mgr. 91. gr. verði hækkaðar umfram þá heimild sem leiðir af verðlagsbreytingum, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þetta þykir rétt með hliðsjón af hækkun bóta í kjölfar nýrra skaðabótalaga og eftirfarandi hækkun margföldunarstuðuls þeirra laga og að öðru leyti til að tryggja að vátryggingarfjárhæðir hrökkvi nú, ekki síður en þegar grunntölur vátryggingarfjárhæðanna voru lögfestar 1987, til að greiða bætur í alvarlegum umferðarslysum.
    Þá er lagt til að heiti Tryggingaeftirlitsins í 3. mgr. verði breytt í samræmi við ný lög um vátryggingastarfsemi.
    

Um 8. gr.


    Með skaðabótalögum hafa hæstu bætur til einstaklinga vegna alvarlegra slysa hækkað verulega þannig að vátryggingarfjárhæð skv. 1. mgr. 92. gr. hrekkur ekki til greiðslu hæstu bóta. Þykir nauðsynlegt að vátryggingarfjárhæð slysatryggingarinnar sé það há að hún nægi almennt fyrir bótum sem leiða af tjóni.
    

Um 9. gr.


    Lagt er til að ákvæði er varðar vátryggingarfjárhæðir komi til framkvæmda 1. júlí 1997. Er þá haft í huga að vátryggingafélög hafi ráðrúm til að afla sér endurtryggingarverndar sem nemur þeim fjárhæðum sem lagt er til að ákveðnar verði. Að öðru leyti þarfnast ákvæðið ekki skýringa.
    

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Vátryggingarfjárhæðir ökutækjatrygginga hafa árlega, að fengnum tillögum Vátryggingaeftirlitsins, verið endurskoðaðar í samræmi við verðlagsbreytingar, sbr. 3. mgr. 91. gr. og 2. mgr. 92. gr. umferðarlaga. Endurskoðunin hefur miðast við 1. mars hverju sinni og er lagt til að endurskoðun fjárhæðanna á árinu 1998 taki mið af verðlagsbreytingum frá 1. mars 1997.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á


umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.


    Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum umferðarlaga. Breytingarnar eru margvíslegar og eru tíundaðar í greinargerð með frumvarpinu. Í ákvæðum er snúa að ölvunarakstri er ölvun talin sönnuð með öndunarsýni en í núgildandi lögum er niðurstaða blóðrannsóknar lögmæt sönnun á því hvort ökumaður telst hæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Öndunarsýni þessi eru framkvæmd með sérstökum búnaði og kostar hvert tæki um sig rúmlega 1 m.kr. Frumvarpið heimilar en skyldar ekki notkun slíkra tækja og hefur því ekki bein áhrif á kostnað ríkissjóðs. Gera má hins vegar ráð fyrir að nokkur slík tæki verði keypt árlega næstu árin. Hagræði af notkun tækja til töku öndunarsýna felst fyrst og fremst í að vinna og tími við töku blóðsýna sparast lögreglu, sjúkrahúsum og hinum grunaða til hagræðis.