Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 15:01:43 (3149)

1999-02-02 15:01:43# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[15:01]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekkert að rifja upp hver var í hvaða þingflokki eða flokki þegar þetta mál var til umræðu í vor en ég er aðili að þessu máli með nokkuð sérstökum hætti eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni. Eins og þingmenn eflaust muna urðu gífurlegar umræður og deilur um frv. til sveitarstjórnarlaga og í rauninni var þar verið að blanda saman málum sem hefði kannski þurft að ræða aðskilin, þ.e. annars vegar skipulagsmál sveitarfélaganna og yfirráð yfir hálendinu og svo hins vegar allt það sem snýr að starfi, skipulagi og stjórn sveitarfélaganna í landinu. Ég get rifjað það upp enn og aftur að ég held að sú hlið málanna, það sem snýr að stjórn sveitarfélaganna, hefði mátt fá meiri umræðu. En hin alvarlegu og mjög mikilvægu hálendismál fengu að sjálfsögðu mesta umfjöllun og það ekki að ástæðulausu.

Ég vil rifja það upp líka að þegar ég kom fyrst að þessum málum, þegar umræðan hófst um frv. til sveitarstjórnarlaga, var ég á sömu skoðun og Alþýðuflokksmenn og fleiri að það ætti að skipuleggja hálendið sem eina stjórnsýslueiningu. En ég komst að þeirri niðurstöðu við umfjöllun um málið og alla þá gríðarlegu yfirferð sem því fylgdi, lögfræðiálit, greinargerðir, bréf frá löglærðum mönnum sem og öðrum, að sú leið væri ekki fær að gera hálendið að einni stjórnsýslueiningu nema með eignarnámi og með endalausum málaferlum. Það er leið sem hefði þá þurft að hafa mjög langan og ítarlegan aðdraganda, ef við hefðum átt að fara hana og hún er mjög illfær, einfaldlega á grunni íslensku stjórnarskrárinnar og þeirra hefða sem hér hafa skapast sem við getum svo auðvitað deilt um. Öllu þessu er hægt að breyta en það tekur langan tíma. Því var það að umræðan þróaðist á þann veg að það sem skipti mestu máli í mínum huga sem og ýmissa annarra voru skipulagsmálin, skipulag hálendisins, að tryggt yrði að hálendið yrði skipulagt sem ein heild hvað sem liði eignarmörkum. Með því að skipuleggja hálendið sem eina heild er hægt að komast hjá ýmiss konar mistökum og mismunandi áherslum sveitarfélaganna sem við höfum orðið mjög mikið vör við í umræðunni í sumar og haust þar sem verulega er tekist á m.a. um vilja sveitarfélaga á Austurlandi sérstaklega til að virkja og þar með að skipuleggja það hálendissvæði sem undir þau heyrir allt öðruvísi en meiri hluti íslensku þjóðarinnar virðist vilja. Þetta er dæmi um eitt slíkt deilumál sem menn verða í framtíðinni að leysa og reyndar liggur fyrir tillaga um það hvernig hálendið skuli skipulagt. Í ljósi þessa gerðum við tveir þingmenn í félmn. ákveðið samkomulag við meiri hlutann. Við skrifuðum með fyrirvara undir álit meiri hluta félmn. við frv. til sveitarstjórnarlaga þar sem við skilyrtum stuðning okkar --- þetta var sú sem hér stendur og hv. þm. Ögmundur Jónasson --- við skilyrtum stuðning okkar við það að samhliða yrði afgreidd breyting á skipulags- og byggingarlögum sem við yrðum sátt við og höfðum ekki ástæðu til annars en halda að við því yrði orðið. Eins og fram kom áðan var viðkomandi frv. kynnt, þ.e. frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum. Gerðar voru ítrekaðar kröfur um að frv. yrði í það minnsta rætt og því komið til nefndar og það sent til umsagnar en meiri hlutinn treysti sér ekki til að verða við þeirri kröfu. Því fór sem fór að málið dróst og er loksins nú komið til umræðu.

Ég harma það hversu seint þetta mál kemur hér inn í umræðuna þótt reyndar sé það á fyrsta degi þingsins. Ég vona að hv. umhvn. hafi tíma til að vinna málið og setja það í forgang hjá sér því ég tel mjög brýnt að við afgreiðum þetta mál. Ég tel það mjög brýnt þannig að hægt sé að vinna að skipulagi hálendisins með samræmdum og ásættanlegum hætti.

Varðandi frv. sjálft má varpa fram ýmsum spurningum eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson gerði áðan. Það þarf að vera algerlega ljóst um hvaða svæði er verið að ræða, hvaða svæði á að skipuleggja og það þurfa menn að skýra og skilgreina. Maður getur spurt sig hvort 1. mgr. 2. gr., þ.e. við breytingu á 12. gr. laganna, dugi. Hún er nokkuð ákveðin og er auðvitað kjarni málsins, þ.e. að miðhálendið, hvernig sem það verður nákvæmlega skilgreint, skal svæðisskipulagt sem ein heild. Það skal svæðisskipulagt. Ég vil leggja á þetta mikla áherslu. Þetta er kjarni málsins. Það sem málið snýst um er að það sem við skilgreinum sem miðhálendi verði skipulagt sem ein heild og að menn komi sér saman um þá stefnu sem þar skuli ríkja.

Annað mikilvægt atriði í þessu máli er það sem mikil krafa og sterk kom fram um, að við lítum á miðhálendið sem sameign þjóðarinnar. Þetta er svæði sem við eigum öll og sem kemur okkur öllum við. Við erum að ræða um helstu náttúruperlur þjóðarinnar og þó viðkomandi sveitarfélögum sé falin umsjá og stjórnsýsla á svæðunum eftir því sem skipting milli ríkis og sveitarfélaga gerir ráð fyrir, þá er þetta eftir sem áður svæði sem tilheyrir okkur öllum. Því er einnig mjög mikilvægt að nú koma fulltrúar allra landsmanna að þessum málum, allra landshluta, þar með sá hluti landsins þar sem mikill meiri hluti þjóðarinnar býr. Þegar ég nefni þetta vil ég fagna því, hæstv. forseti, hvílík vakning hefur orðið hér varðandi þessi mál, hve gríðarlega mikil og góð umræða hefur orðið um skipulagsmál, um hálendið, um náttúruperlurnar, um það hvernig við eigum að nýta landið og svo framvegis. Það er gríðarlega mikilvægt. En við getum deilt um þetta skipulag, þessa skipan, 11 manns eða fleiri eða færri. Ættu þarna að vera fleiri fulltrúar þeirra sem nýta landið eða félagasamtaka eða hvað? Ég ætla ekki að gera það að miklu ágreiningsefni. Mér finnst mikilvægt að málið verði afgreitt og fellst því á þessa tillögu um 11 manna nefnd. Henni má breyta. Ef einhverjar breytingar munu eiga sér stað eins og fækkun kjördæma eða eitthvað slíkt, þá vildi ég frekar fjölga í nefndinni þannig að fulltrúar hinna ýmsu svæða yrðu fleiri og fulltrúar almannasamtaka yrðu jafnvel fleiri. En það mun væntanlega skýrast hvernig staðið verður að skipan í þessa nefnd. Það er rétt sem fram hefur komið að það er ekki mjög ljóst. Ráðherra skipar samvinnunefndina og hefur samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga. Ég hef skilið það þannig að sambandið gerði tillögur um einhverja einstaklinga frá hinum ýmsu landshlutum og það yrðu þá einhverjir sem viðkomandi sveitarfélög gætu sætt sig þokkalega við þó það þurfi í sjálfu sér ekkert að vera. Þetta eiga auðvitað að vera fulltrúar sem eru færir til að takast á við þetta verkefni og sem vonandi hugsa út frá umhverfissjónarmiðum og heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum að sinni, hæstv. forseti. Ég var farin að óttast mjög að þetta mál mundi ekki komast að og ekki ná fram að ganga. En ég ítreka þau orð mín að ég vona svo sannarlega að hv. umhvn. gefi þessu máli forgang. Það var ákveðin niðurstaða í vor að vinna málið svona þó það hafi dregist svo lengi sem raun ber vitni. Ég ímynda mér ekki að fullkomin sátt verði um þessa leið. Þarna var um grundvallarágreining að ræða um það hvernig þessu skipulagi skyldi háttað, hvort skipta ætti miðhálendinu niður á milli sveitarfélaganna eða skipuleggja það sem eina heild og væntanlega verða þau sjónarmið rifjuð upp í þessari umræðu. En við stöndum frammi fyrir því að niðurstaðan varð sú að skipta miðhálendinu á milli sveitarfélaganna og því er afar brýnt að það frv. sem hér er til umræðu fylgi með, verði staðfest og verði að lögum sem allra fyrst.