Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:46:04 (207)

1998-10-08 11:46:04# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:46]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég met það að þingmenn fylgi fram sannfæringu sinni og ég átti ekki við það að hér væri verið að túlka fyrir hönd þingflokks Sjálfstfl. Ég benti á að hér væru tveir talsmenn úr þessum þingflokki. En það vill hins vegar svo til að það er alger samhljómur á milli þess sem kemur fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal og fram kom hjá forsrh. Íslands í nóvembermánuði 1996 --- mig minnir það hafi verið 13. nóvember --- í Morgunblaðinu, þar sem þetta var rakið, nákvæmlega þessi málflutningur sem hér var hafður uppi af hv. þm. svo hann hefur nú aldeilis bakstuðning í þessu máli.

Kenningin hefur ekki verið sönnuð. Eigum við að bíða eftir því? Eigum við að bíða eftir því að það fáist sönnun fyrir þessari kenningu, hugsanlega að verstu líkindareikningar rætist? Eigum við að bíða eftir því að breyting verði á straumakerfi Golfstraumsins eins og leiddar eru að líkur að gæti orðið vegna hlýnunar á jörðinni og í heimshöfunum? Eigum við Íslendingar að bíða eftir því í okkar afstöðu á alþjóðavettvangi og sjálfir?

Hér er talað um efnahagslegar hömlur og skaða fyrir mannkynið. Hvað er skaði fyrir mannkynið? Hv. þm. nefndi að ýmsar kenningar hefðu brugðist, m.a. kenningar hagfræðinga. Ég tek undir það. Ég held að það sé nú eitthvað sem ætti að hætta að tala um sem fræðigrein eins og ástandið er á þeim bæ. Ég held að menn ættu að athuga hvað er skaði og hvað er tjón.

Er það skaði þó að komið verði böndum á þá lönguvitleysu sem er í gangi í efnahagsbúskap heimsins með því að framleiða meira og meira og meira? Til hvers?