Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 22:37:59 (2660)

1998-12-18 22:37:59# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., KH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[22:37]

Kristín Halldórsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þingflokksformanna sem hér hafa talað á undan mér. Manni er nú dálítið brugðið við þau vinnubrögð sem hafa verið tekin upp á hv. Alþingi og ég ætla rétt að vona að þau eigi ekki að verða varanleg en hér virðast hafa verið tekin upp harla sérkennileg vinnubrögð og alveg ný, það ég best þekki. Ég minnist þess ekki að samstarf forseta og þingflokksformanna hafi gengið til með þessum hætti, að hér séu ekki haldnir fundir dögum saman og ekkert reynt til að skipuleggja þinghaldið, ekkert reynt til að ná því að standa við starfsáætlun þingsins sem gerði ráð fyrir að síðasti þingfundur fyrir jól yrði á morgun, laugardaginn 19. desember. Stjórnarandstaðan hefur verið fús til að leggja sitt af mörkum til að það gæti orðið.

Hins vegar hafa stjórnarflokkarnir, eða réttara væri að segja ríkisstjórnin sem virðist ráða því hvernig þingstörf ganga fyrir sig, ekki komið fram með frv. fyrr en alveg á síðustu dögum sem vitað hefur verið lengi að þyrfti að koma fram með og afgreiða fyrir jól, þannig að þetta eru aldeilis dæmalaus vinnubrögð og hefur maður þó oft kvartað einmitt yfir því og gagnrýnt hvernig ríkisstjórnin hefur dregið að koma fram með þingmál sem hún hefur síðan krafist að yrðu rædd og afgreidd á örfáum dögum. Ef þetta á að halda svona áfram þá er augljóst að ekki verður hægt að ljúka þingi fyrir jól. Ég hlýt því að taka undir orð félaga minna um það að hér verði reynt að ræða málin og komast að einhverri niðurstöðu um þinghaldið því þessi óvissa er blátt áfram óþolandi. Sjávarútvegsumræða hefur staðið í allan dag og er nú reyndar að verða lokið. Ég hygg að þingmenn stjórnarflokkanna hafi ekki talað skemur en þingmenn stjórnarandstöðunnar þannig að ekki er við stjórnarandstöðuna að sakast þótt þessi umræða hafi tekið langan tíma, sem var þó ekki óeðlilegt miðað við stærð málsins. En það er dálítið strangt og hart rekið eftir fólki hér og verið að boða okkur til funda í þingnefndum sem við stjórnarandstæðingar höfum hafnað að sækja nema að gert verði hlé á þingfundum eins og margoft hefur verið tekið fram að séu góð og eðlileg vinnubrögð og við höfum viljað standa þannig að því. En ég legg til, hæstv. forseti, að þingfundi verði hætt að lokinni þessari umræðu um sjávarútvegsmálin svo fólk geti fengið eðlilega hvíld fyrir þann dag sem á að hefjast kl. 10 með fundum snemma í fyrramálið.