Málefni aldraðra

Mánudaginn 22. nóvember 1999, kl. 18:11:03 (2025)

1999-11-22 18:11:03# 125. lþ. 30.8 fundur 173. mál: #A málefni aldraðra# (heildarlög) frv. 125/1999, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 125. lþ.

[18:11]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna ummæla hæstv. ráðherra um þær efasemdir mínar að menn vildu hafa samráð við aldraða með samráðsnefnd, að það væri meira í orði en á borði að þá vil ég bara benda á svar hæstv. ráðherra sem ég vitnaði í í máli mínu. Ég spurði hvort það hafi verið haft samráð við samráðsnefnd aldraðra um aðgerðir á ári aldraðra. Og það kemur fram í svarinu að samráðsnefnd stjórnvalda og samtaka aldraðra hefur ekki verið kölluð til fundar með framkvæmdanefnd árs aldraðra. Reynar kemur fram að ýmsir aðilar, bæði formaður Landssambands eldri borgara og fleiri eigi sæti í framkvæmdastjórninni en engu að síður hefur samráðsnefndin ekki verið kölluð til fundar. Þess vegna hafði ég ákveðnar efasemdir um að hugur væri að baki þessu verkefni samráðsnefndarinnar.

Aftur á móti vegna ummæla um Framkvæmdasjóð aldraðra þá er ég hérna með yfirlit yfir fjögur ár og þar er alls staðar hærri upphæð í rekstur en í önnur lögbundin verkefni, bara til að hafa það á hreinu.

Svo langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um þá upphæð sem miðað er við áður en vistmaður fer á öldrunarstofnun fer að greiða fyrir sinn dvalarkostnað, þ.e. 29.217 kr. eins og það er í frv. Ég hefði gjarnan viljað vita við hvað sé miðað, hvar þessi tala sé fundin og fá álit hæstv. ráðherra á því hvort hann telji þetta vera viðunandi upphæð til þess að miða við áður en viðkomandi fer að greiða fyrir dvalarkostnað sinn að fullu eða hluta.