Almannatryggingar

Fimmtudaginn 18. janúar 2001, kl. 14:46:38 (3923)

2001-01-18 14:46:38# 126. lþ. 61.1 fundur 379. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging örorkulífeyrisþega) frv. 3/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 126. lþ.

[14:46]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég lái ekki hv. þm. að hann skuli ruglast í almannatryggingunum því þær eru flóknar og sömuleiðis erfitt að bera þær saman á Norðurlöndum. Ég er með allar þessar samanburðarskýrslur um norrænan rétt og sömuleiðis upplýsingar frá tryggingastofnunum á Norðurlöndum um þetta mál.

Norðurlöndin skerða ekki grundvallarréttindi eins og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir skilgreindi áðan og eru hér á landi grunnlífeyrir og tekjutrygging. Aftur á móti eru viðbótarréttindin, sem eru bætur um félagslega aðstoð, jafnvel tengd tekjum maka. Hins vegar er það þannig í almannatryggingunum á Norðurlöndum að ákveðnar bætur eru e.t.v heldur lægri ef fólk er í hjúskap, alveg eins og grunnlífeyrir á Íslandi. Ef fólk er gift eða er í hjúskap með öðrum öryrkja fær það 90% grunnlífeyri. Á nákvæmlega á sama hátt er þessu varið á Norðurlöndum, nema hvað á Norðurlöndunum er fólk með helmingi hærri greiðslur í grundvallarréttindi en hérna. Dæmi: 85 þús. óskertar í Danmörku en 18 þús. hérna.