Umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 13:38:20 (2126)

2000-11-22 13:38:20# 126. lþ. 30.1 fundur 84. mál: #A umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Það er orðið nokkuð langt um liðið síðan ég lagði þessa fyrirspurn fram til hæstv. dómsmrh. Reyndar er ekki við hæstv. ráðherra að sakast að málið kemur ekki til umræðu fyrr en nú en eins og sést á númerinu er þetta á þskj. 40 þannig að málið var lagt fram í byrjun október.

Hæstv. dómsmrh. hefur verið ötull við að kynna ýmis átaksverkefni sem snúa að umferðaröryggismálum og í júlí boðaði ráðherra eitt slíkt átak í flugskýli Landhelgisgæslunnar til að draga úr slysum. Hún boðaði hert eftirlit með ökuhraða og ölvunarakstri. Átakið gerði ráð fyrir fjórum vegaeftirlitsbifreiðum út á þjóðvegum í samstarfi við Vegagerðina og að fjórir lögreglumenn yrðu ráðnir til umferðardeildar ríkislögreglustjóra.

Þegar fyrirspurnin var lögð fram í upphafi október var lítið farið að gerast í þessum málum. Þá kom fram í fréttum að einir fjórir lögreglumenn sem ráðnir voru vegna átaksins voru ekki viðbót heldur tilfærsla á mönnum úr öðrum löggæslustörfum.

Ýmislegt hefur komið fram um þessi mál síðan fyrirspurnin var lögð fram en engu að síður spyr ég hæstv. ráðherra: Er búið að ráða þessa fjóra viðbótarlögreglumenn til ríkislögreglustjóra og eru þeir viðbótarmenn eða eru þeir færðir frá öðrum embættum sem kæmu þá sem fækkun á löggæslu annars staðar eða hafa þá aðrir verið ráðnir í þeirra stað?

Einnig spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað líður vegaeftirlitsbílum sem ráðherra lofaði í júlí? Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk um síðustu mánaðamót, þ.e. í byrjun nóvember, var aðeins einn af þessum vegaeftirlitsbílum kominn út á vegina sem merktur lögreglubíll. Þá var orðið ansi langt um liðið frá því að þeir voru boðaðir en sjálfsagt hefur gefist tími til þess að bæta úr þessu. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað líður áformum ráðherrans með vegaeftirlitsbílana og viðbótarlögreglumenn til ríkislögreglustjóra í þetta átaksverkefni?