Ferill 450. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 718  —  450. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 66/1995.

Flm.: Guðmundur Árni Stefánsson, Guðjón A. Kristjánsson, Kolbrún Halldórsdóttir, Sigríður Jóhannesdóttir, Ögmundur Jónasson.


1. gr.

    Við 1. mgr. 53. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimildir, undanþágur eða tilraunastarfsemi samkvæmt þessari málsgrein geta þó aldrei falið í sér að sveitarstjórnir framselji öðrum ábyrgð og framkvæmd skólastarfs og kennslu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Ljóst er af nýlegum svörum menntamálaráðherra á Alþingi að hann hyggst leyfa að skólastarf í nýju íbúðarhverfi í Hafnarfirði verði boðið út eins og hver önnur atvinnustarfsemi og ábyrgð og framkvæmd þess falin þeim sem best býður. Flutningsmenn þessa frumvarps eru algerlega andvígir því að þannig sé farið að og telja afar hæpið að hægt sé að túlka heimildir í 1. mgr. 53. gr. grunnskólalaga þannig að slíkt rúmist innan ramma laganna.
    Með frumvarpi þessu eru tekin af öll tvímæli um skyldu og ábyrgð sveitarstjórna til að bera sjálfar alla ábyrgð á kennslu og framkvæmd skólastarfs í grunnskóla.