Svar við fyrirspurn

Þriðjudaginn 19. febrúar 2002, kl. 13:46:20 (4877)

2002-02-19 13:46:20# 127. lþ. 80.91 fundur 343#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 80. fundur, 127. lþ.

[13:46]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Dag eftir dag ræðst stjórnarandstaðan hér í þinginu á samgrh. Ég verð að segja að mér ofbýður hvernig menn tala. Mér ofbýður hve þung orð eru látin falla. Menn koma upp í ræðustól, gera sig mjög heilaga í framan og tala um hagsmuni Landssímans. Ég spyr: Eru það hagsmunir Landssímans að ræða málin með þeim hætti sem menn hafa gert á undanförnum dögum? Eru það hagsmunir Landssímans að draga umræðuna niður á það plan sem menn hafa verið að gera á undanförnum dögum? Ég segi nei. (Gripið fram í.) Það getur ekki verið að það þjóni hagsmunum Landssímans. Og ég spyr þá: Hver er það sem skaðast á umræðunni? Ætli það sé ekki fyrst og fremst þetta ágæta, öfluga fyrirtæki, Landssíminn? Ég vara við þessari umræðu. (Gripið fram í.) Hún hefur gengið allt of langt. Ég tel að það sé ekki ásetningur neins ráðherra að troða á rétti þingmanna eins og var fullyrt áðan varðandi það að fá upplýsingar.

Ég veit að ráðherrar reyna eftir bestu getu að veita þingmönnum upplýsingar. Það verður að segjast að það getur auðvitað gerst að mönnum verði eitthvað á í þeim efnum. En það er alveg örugglega ekki ásetningur eins eða neins ráðherranna.