Skipting stofnkostnaðar heilbrigðisstofnana

Miðvikudaginn 13. mars 2002, kl. 18:55:06 (6206)

2002-03-13 18:55:06# 127. lþ. 97.13 fundur 531. mál: #A skipting stofnkostnaðar heilbrigðisstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin þó að ég sé auðvitað ekki að öllu leyti ánægð með þau vegna þess að ég tel að mikil nauðsyn sé á að koma því alveg á hreint hvað það er sem sveitarfélögunum ber að greiða varðandi stofnkostnað og meiri háttar viðhald hjá heilbrigðisstofnunum og það geti aldrei verið neinum vafa undirorpið hvað flokkast undir meiri háttar viðhald.

Í svörum fyrrv. hæstv. heilbrrh. kom fram að ástæður þess að ekki væri alltaf um sambærilega túlkun að ræða, eftir því hvaða stofnanir ættu í hlut, væru fyrst og fremst þær að mismunandi væri hvað væri til af fjármagni til þess að mæta kostnaði í ráðuneytinu sjálfu og túlkun lagagreinar getur ekki og má ekki ráðast af því. Þess vegna er mikil nauðsyn á að setja þessa reglugerð meðan beðið er eftir því að lagðar verði fram brtt. varðandi verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Þau ágreiningsefni sem greint er frá í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er síðan í október 2001 og komu í ljós þegar skýrslan var unnin, voru milli Húsavíkurkaupstaðar og Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga við heilbrrn. Ísafjarðarbær biður um skilgreiningu ráðuneytisins á því hvernig greina eigi fjárveitingar í ákveðnum tilvikum hvað varðar meiri háttar viðhald eða tækjakaup. Þriðja ágreiningsmálið snýr að Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og fjórða ágreiningsmálið lýtur að Heilbrigðisstofnuninni á Selfossi og bæjarstjórn Árborgar fyrir hönd sveitarfélaganna sem standa að þeirri stofnun. Þessi ágreiningsefni, virðulegi forseti, eru öll til komin vegna þess að ekki liggur fyrir skýrt skilgreint hvað flokkast undir meiri háttar viðhald og það var nánast dálítið skondið að skoða yfirlit yfir það í hvaða tilvikum og hvað það var sem heilbrigðisstofnanir hafa verið látnar greiða.