Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Föstudaginn 19. apríl 2002, kl. 15:13:43 (7902)

2002-04-19 15:13:43# 127. lþ. 123.18 fundur 653. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (rafræn vöktun o.fl.) frv. 81/2002, Frsm. ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 127. lþ.

[15:13]

Frsm. allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir hugleiðingar hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar. Það er alveg hárrétt sem fram kom hjá honum, að við eigum ekki að vaða áfram og taka næsta skref án þess að hugsa okkur um.

Um tíma fannst mér hv. þm. vera eitthvað argur. Ég gæti trúað því að það stafi af því að fótboltalið Alþingis var að tapa fyrir fréttamönnum á Ríkisútvarpinu. Ég trúi því þó vart ... --- ja, ég get reyndar skilið það, herra forseti, við skiljum það bæði að það er grautfúlt að tapa í íþróttum. En er bara hinn bitri kaleikur íþróttanna og sem fylgir oft með.

En varðandi þetta frv. sem við erum að ræða hér, um persónuvernd, þá er auðvitað margt sem maður staldrar við við lestur svona frv. en ég fullyrði, herra forseti, að hér er ekki gengið lengra en í núverandi löggjöf. Hér er verið að ramma inn reglur sem eru mjög þröngt skilgreindar. Að sjálfsögðu eigum við að líta til skilvirkninnar en skilvirknin kemur aldrei ofar í forgangsröðinni en friðhelgi einkalífsins og hagsmunir einstaklingsins sem slíks. Þessar tillögur, eins og ég hef áður sagt, eru samdar að tillögu persónuverndar sem við í allshn. höfum síðan farið vel yfir.

Ég mundi ekki skrifa upp á þetta ef við værum að að ganga lengra inn á friðhelgi einkalífs fólks. Hér er einfaldlega brugðist við því hvernig samfélagið er orðið, án þess þó að skerða þann merka rétt sem einkalíf manna hefur.

Ég tók skólana áðan sem dæmi en ég vil líka fara út fyrir kennslustofurnar. Þar hefur sýnt sig að eftirlitsmyndavélar á göngum og skólalóðum hafa leitt til þess að einelti barna hefur minnkað á viðkomandi stöðum og minna hefur verið um skemmdir á skólalóð og eignum skólans.

(Forseti (GÁS): Forseti kemst ekki hjá því að nefna að honum fannst athugasemdir hv. þm. um frammistöðu knattspyrnuliðs þingsins vera undir beltisstað.)