Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 24. apríl 2002, kl. 11:08:17 (8182)

2002-04-24 11:08:17# 127. lþ. 127.4 fundur 359. mál: #A almannatryggingar o.fl.# (tekjuhugtak, bótaútreikningur o.fl.) frv. 74/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 127. lþ.

[11:08]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni mál af því tagi sem menn hafa náð sátt um þannig að ég reikna með að menn styðji það. En það sem gerir það að verkum að ég tek til máls er sú staðreynd að afkoma fjölmargra einstaklinga er gjörsamlega óviðunandi. Mín skoðun, virðulegur forseti, er sú að með þeim breytingum sem verið er að gera verði málin í rauninni ekkert einfaldari heldur flóknari. Það verða enn flóknari leiðir fyrir fólkið sem þarf að búa við þessi lög. Aldraðir, öryrkjar og einstæðingar eru fjölmargir mjög illa settir. Ég tel nauðsynlegt að taka tryggingakerfið eins og það leggur sig til endurskoðunar og einföldunar vegna þess að það kerfi er mjög flókið.

Ég nefni sem dæmi að mjög óeðlilegt er að á þeim tímamótum þegar öryrki verður aldraður getur hann átt von á því að lækka í tekjum, þ.e. hann hefur minna til framfærslunnar eftir að hann verður 67 ára. Afkoma öryrkjans er verri eftir að hann verður aldraður. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir og þeim hefur ekki verið nægur gaumur gefinn. Ég tel að hvers konar undantekningar og svigrúm sem felast í flóknum reglum þurfi að útskýra.

Mér finnst verst að menn virðast ekki sitja við sama borð vegna þess að fólki eru ekki ljós þau réttindi sem það á samkvæmt lögum og reglum. Þetta á við, virðulegur forseti, í miklu fleiri tilvikum en þeim sem snúa bara að öldruðum og öryrkjum. Þetta á við um fólk sem þarf að leita til tryggingakerfisins eftir mjög flóknum leiðum. Þetta gildir um tannlækningar jafnt og aðrar lækningar og læknishjálp. Það er ástæða til að hafa orð á þessu þegar verið er að ræða slík mál.

Aldraðir eru í mörgum tilvikum að éta upp eignir sínar, þ.e. veðsetja eignir fyrir brýnustu nauðsynjum. Ég vitna til greinar Ólafs Ólafssonar, fyrrverandi landlæknis. Ef maður skoðar hana er ekki um að villast að svonefndir bótaþegar hafa dregist aftur úr, og ég tel að um 100--200 þús. kr. sé að ræða hjá einstaklingi miðað við ársgrunn og u.þ.b. 300 þús. kr. hjá hjónum og sambúðarfólki. Þá er ég bara að skoða þennan þátt þessara mála.

Það er gaman að velta fyrir sér --- það er reyndar ekki gaman að því --- því ótrúlegt er að það skuli vera staðreynd að aldraðir einstaklingar með lágmarkstekjur eigi ekki möguleika á því að reka íbúð sem kostar 10--12 millj., bíl sem kostar á bilinu 500 þús. til 1 millj., síma, Stöð 2, Ríkisútvarp og sjónvarp af framfærslueyri sínum. Upp á þá upphæð vantar sem nemur 15--25 þús. kr. á mánuði svo að einstaklingar sem eru með lágmarksbætur nái endum saman.

Þetta er staðreyndin og þetta er kannski ástæðan fyrir því að ég fer hér, virðulegur forseti, upp í stól og kem með nokkrar hugleiðingar um þessi mál. Það er ömurlegt að sjá og verða þess áskynja hvernig hluti þjóðarinnar, þessarar ríku þjóðar vil ég segja, á í basli með að ná endum saman, ekki vegna ógætilegra fjárfestinga, óreglu, veikinda eða ofneyslu, virðulegur forseti, heldur vegna þess að honum er of naumt skammtað. Það er um allt of fámennan hóp að ræða til þess að leiðrétta ekki það ranglæti sem á ferðinni er.

Ég sagði í upphafi að það frv. sem hér er á ferðinni væri til bóta og það yrði væntanlega stutt og þess vegna hið besta mál. Ugglaust er verið að gera þar leiðréttingar til einföldunar sem ég hef ekki komið auga á. En það sem almennt er að í almannatryggingakerfinu er að það er allt of flókið og ekki nógu gegnsætt til þess að ásættanlegt sé að búa við það. Það sem verst er er að bætur eða lágmarkstekjur aldraðra og öryrkja eru allt of lágar. Þetta þarf að leiðrétta og ég ákalla Alþingi um að taka á þessu máli og einfalda löggjöf almannatrygginga.