Skipan opinberra framkvæmda

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 17:04:29 (1439)

2001-11-12 17:04:29# 127. lþ. 26.12 fundur 6. mál: #A skipan opinberra framkvæmda# (eftirlit, Framkvæmdasýslan, samstarfsnefnd o.fl.) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[17:04]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðjóni Guðmundssyni fyrir svörin og fyrir að gefa sem forsætisnefndarmaður þær upplýsingar sem hér voru gefnar um framkvæmd þá sem nú er í gangi, Skálann við Alþingishúsið. Ég tek undir það að ég tel að það hafi verið rétt gjörð hjá forsn. að ráða eftirlitsaðila að verkinu. En það er enginn að ætlast til þess að hv. forsn. búi yfir þekkingu til að hlíta lögum og reglum og fara út í þessi mál í einstökum tilvikum. Til þess eru þeir aðilar sem ríkið hefur á sínum snærum. Og það eru þau lög og þær reglur sem við viljum leggja áherslu á að komi til framkvæmda. Ekki hafa allar stofnanir aðstöðu eða geta gert þetta á þann veg að ráða til sín sérstakan eftirlitsaðila. Ég held að það eigi að vera þannig að stofnanir á vegum ríkisins eigi almennt að annast svona eftirlit.

Mistök voru gerð og það er viðurkennt. Ég tek það fram, virðulegur forseti, að ég er ekki að bera menn hér sökum, heldur að ræða um mistök sem voru gerð og þarf að lagfæra.