Tónlistarnám fatlaðra

Miðvikudaginn 05. desember 2001, kl. 15:30:21 (2542)

2001-12-05 15:30:21# 127. lþ. 44.4 fundur 310. mál: #A tónlistarnám fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 127. lþ.

[15:30]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og þann skilning sem hann sýnir á þörfinni fyrir að ýtt verði undir og stutt við sérhæft tónlistarnám fyrir fatlaða einstaklinga. Eins og hér hefur komið fram er fötlun afar mismunandi og fatlaðir einstaklingar geta auðvitað margir hverjir sem betur fer sótt nám í starfandi tónlistarskólum. Hins vegar er mikil þörf á að gera þeim tónlistarskólum sem eru starfandi í sveitarfélögunum kleift að taka á móti fötluðum einstaklingum.

Því miður þekki ég dæmi þess að það hafi tekið hátt á þriðja ár að fá kennslu fyrir fatlað barn í tónlistarskóla vegna þess að það var hvorki aðgengi fyrir fatlaða né möguleiki til að sinna þeim einstaklingi eins og þurft hefði í einkakennslu. Þegar það hafðist síðan í gegn var, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kom inn á, eins og það ætti sér stað ákveðið kraftaverk í lífi þessa einstaklings. Faglega umsjón, eftirlit og þær reglur sem hæstv. menntmrh. hefur nú sett ætti m.a. að nota til að gera könnun á því hvernig tónlistarskólar í landinu eru í stakk búnir til að mæta þörfum fatlaðra nemenda.

Mér finnast til fyrirmyndar þau dæmi sem ég nefndi frá Noregi þar sem t.d. er um að ræða stað þar sem aðeins eru 30 þúsund eru búsettir en þar er rekinn tónlistarskóli fyrir fatlaða einstaklinga og eru börnin tekin inn frá tveggja ára aldri. Þar er byggt á niðurstöðum þessarar bandarísku rannsóknar og unnið eftir þeim niðurstöðum sem þar var að finna. Þar er þetta að fullu kostað af hinu opinbera og eingöngu þannig held ég að við getum tryggt jafnrétti til þessa náms.