Ferill 106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 274  —  106. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Ástu Möller um opinber framlög til hagsmunasamtaka og frjálsra félagasamtaka.

     1.      Hvaða hagsmunasamtök eða frjáls félagasamtök fá opinbert framlag til reksturs starfsemi sinnar með gjaldi sem ákvarðað er með lögum?
    Í svari því sem hér fer á eftir er byggt á þröngri skilgreiningu á því hvaða samtök, félög og stofnanir teljist til hagsmunasamtaka. Lög mæla fyrir um framlög til ýmissa samtaka, félaga og stofnana, en fæst þeirra taka til eiginlegra hagsmunasamtaka eða frjálsra félagasamtaka í viðtekinni merkingu þeirra hugtaka.
    Eftirtalin hagsmunasamtök og frjáls félagasamtök fá tekjur til reksturs starfsemi sinnar með gjaldi sem ákvarðað er með lögum:
       a.      Samtök iðnaðarins.
       b.      Lífeyrissjóður sjómanna, Sjómannasamband Íslands, sjómenn innan Alþýðusambands Austfjarða og Alþýðusambands Vestfjarða, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Vélstjórasambands Íslands, Landssamband íslenskra útvegsmanna og Landssamband smábátaeigenda.
       c.      Bændasamtök Íslands, búnaðarsambönd og búgreinasamtök.

     2.      Hvaða lagaákvæði er um að ræða í hverju tilviki?
    Tekjur framangreindra aðila byggjast á lögum sem hér segir:
    Greiðslur til Samtaka iðnaðarins eru samkvæmt lögum nr. 134/1993, um iðnaðarmálagjald.
    Greiðslur til þeirra samtaka sem talin eru upp í b-lið að framan eru samkvæmt lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.
    Rétt er að fram komi að inngreiðslur á greiðslumiðlunarreikning og ráðstöfun þeirra til hagsmunaaðila samkvæmt framansögðu eru inntar af hendi án milligöngu hins opinbera. Með lögunum ákvað löggjafinn að taka tiltekinn hluta af söluverðmæti afla og leggja í sjóð (greiðslumiðlun), en samkvæmt því fá útgerðaraðilar aldrei allt söluverðmæti afla í sínar hendur. Sjóðnum sem verður til með þessum hætti er ætlað að standa undir tilteknum rekstrargjöldum og er úthlutað til ákveðinna aðila sem eru tilteknir í lögunum, t.d. til að greiða vátryggingaiðgjöld af fiskiskipaflotanum, hlut launþega og atvinnurekenda í lífeyrissjóðum, iðgjöld af slysatryggingum sjómanna og til reksturs þeirra hagsmunasamtaka sem að framan eru talin.
    Greiðslur til Bændasamtaka Íslands, búnaðarsambanda og búgreinasamtaka eru samkvæmt lögum nr. 84/1997, um búnaðargjald. Búnaðargjald rennur einnig til Bjargráðasjóðs og Lánasjóðs landbúnaðarins.

     3.      Um hve háa fjárhæð er að ræða í hverju tilviki sl. fimm ár, sundurliðað eftir árum?
    Upplýsingar um fjárhæðir sem greiddar eru á grundvelli framangreindra laga hafa verið teknar saman af fjármálaráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti:
    Meðfylgjandi tafla sýnir árleg framlög til Samtaka iðnaðarins sl. fimm ár í millj. kr. á verðlagi hvers árs.

1996 1997 1998 1999 2000 Samtals
Samtök iðnaðarins 95,4 112,9 125,0 166,3 168,7 668,3

    Taflan að neðan sýnir árlega skiptingu greiðslna af greiðslumiðlunarreikningi smábáta og fiskiskipa til Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ), Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), Landssambands smábátaeigenda (LS), Sjómannasambands Íslands (SSÍ), sjómanna innan Alþýðusambands Austfjarða (ASA), Alþýðusambands Vestfjarða (ASV) og Vélstjórasambands Íslands (VÍ) sl. fimm ár í millj. kr. á verðlagi hvers árs.
    Í töflunni eru ekki meðtaldar greiðslur af greiðslumiðlunarreikningi sem renna til Lífeyrissjóðs sjómanna til greiðslu lífeyrisiðgjalds vegna iðgjaldaskylds aflahlutar skipverja.

1996 1997 1998 1999 2000 Samtals
Farmanna- og fiskimannasamband Íslands 10,0 9,9 9,3 9,7 10,6 49,5
Landssamband íslenskra útvegsmanna 37,5 37,3 35,0 35,8 39,0 184,6
Landssamband smábátaeigenda 19,7 23,9 28,1 33,8 35,2 140,7
Sjómannasamband Íslands 15,8 15,9 14,7 15,0 16,3 77,7
Alþýðusamband Austfjarða 3,4 3,4 3,1 3,2 3,5 16,7
Alþýðusamband Vestfjarða 3,4 3,4 3,1 3,2 3,5 16,7
Vélstjórafélag Íslands 5 5 4,7 4,6 4,9 24,2
Alls 510,1

    Meðfylgjandi tafla sýnir árleg framlög til Bændasamtaka Íslands samkvæmt álagningu sl. þrjú ár í millj. kr. á verðlagi hvers árs.

1998 1999 2000 Samtals
Bændasamtök Íslands 77,4 90,6 82,8 250,8
Búnaðarsambönd 62,7 73,5 81,5 217,7
Búgreinasamtök 34,5 40,4 44,7 119,6
Alls 588,1