Ferill 168. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 831  —  168. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um póstþjónustu.

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Komið hefur fram mikil gagnrýni á framkvæmd póstþjónustunnar í landinu síðan hún var hlutafélagavædd og fyrirtækið Íslandspóstur hf. stofnað. Fréttir um lokun pósthúsa og niðurskurð þjónustu vítt og breitt um landið hafa verið reglulega í fjölmiðlum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa ítrekað tekið málefni póstþjónustunnar til umræðu á Alþingi og mótmælt skerðingu á þjónustu, lokun pósthúsa og uppsögnum starfsfólks.
    Almenningur víða um land sem hefur mátt þola lokanir á pósthúsum sínum hefur sent mótmælabréf til Íslandspósts og samgönguráðherra en ekki fengið nein svör.
    Í ársbyrjun 2001 hafði starfsemi á pósthúsum á landsbyggðinni dregist saman og var þá um 60% af því sem hún var 1999. Bókhald og stjórnun sem var 15% úti á landi 1999 var í ársbyrjun 2001 einungis 3%.
    Þetta lagafrumvarp felur ekki í sér breytingar sem snúa þessari stefnu og þróun við. Með því er frekar opnað fyrir auknar lagalegar heimildir til víðtækari einkavæðingar en áður var og samdráttar í póstþjónustu. Sérstaklega á þetta við um þá þjónustu sem pósthúsin hafa veitt um áratugi.
    Íslandspóstur hf. hefur nú framselt til óviðkomandi aðila stóran hluta af þeirri póstþjónustu sem snýr að neytendum, einkum hvað viðvíkur móttöku og afhendingu pósts. Ráðning á póstþjónustufólki og aðbúnaður er ekki lengur á beinni ábyrgð Íslandspósts og rekstrar- og þjónustuskilmálar eru nú skilgreindir sem viðskiptaleyndarmál sem bæði þingmönnum og almenningi er neitað um aðgengi að. Í þessu lagafrumvarpi hefðu þurft að vera ákvæði sem tækju á þessari tegund einkavæðingar póstþjónustunnar úr því að hún á að viðgangast. Marka hefði þurft skýrari reglur um skyldur, fagþekkingu, aðbúnað og þjónustustig. Kveða þyrfti á um að þær reglur væru opnar almenningi til upplýsingar og eftirlits. Hér er verið að fjalla um trúnaðarmál og persónulegar sendingar fólks en ekki almenna vörusölu og því á neytandinn, almenningur, eigandi sendingarinnar, rétt á fullu aðgengi að öllum þáttum sem snúa að þessari þjónustu og framkvæmd hennar. Mikið skortir á að svo sé.

Póst- og fjarskiptastofnun báðum megin við borðið.
    Póst- og fjarskiptastofnun er falið fjölþætt hlutverk í póstmálum. Hún er einn aðalhöfundur lagafrumvarpsins. Hún hefur eftirlit með framkvæmd laganna. Hún veitir leyfi fyrir starfrækslu póstþjónustu. Hún skilgreinir gæða- og þjónustukröfur til póstþjónustunnar og annast eftirlit með því að þeim kröfum sé framfylgt. Sé í einhverju ábótavant gerir Póst- og fjarskiptastofnun athugasemdir og beitir viðurlögum. Jafnframt hefur stofnunin það hlutverk að sannreyna þörf og samþykkja breytingar á gjaldskrám og sömuleiðis kröfur um framlag jöfnunargjalds. Póst- og fjarskiptastofnun heyrir beint undir samgönguráðherra, svo og póstþjónustan sjálf. Gefur auga leið að mikil hætta er á að þegar ein og sama stofnun fer með öll þessi hlutverk geti hagsmunir og sjónarmið skarast. Ábyrgð hennar og afskipti geta auðveldlega orðið ótrúverðug af þeim sökum. Ekki auðveldar það eftirlitið þegar þjónustuskyldur sem inna ber af hendi eru allt í einu orðnar viðskiptaleyndarmál, sbr. bréfaskipti þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Íslandspósts hf. (Sjá fylgiskjal II með nefndarálitinu.)
    Í gildandi lögum um póstþjónustu og lögum um Póst- og fjarskiptastofnun eru ákvæði um að setja skuli skilgreindar gæðakröfur um póstþjónustu og einnig er kveðið á um eftirlitsskyldu Póst- og fjarskiptastofnunar. Að mati minni hlutans hefði stofnunin getað fylgt eftirlitsskyldu sinni mun betur eftir í þeim miklu breytingum sem orðið hafa á póstþjónustunni síðustu missirin. Hin mikla gagnrýni neytenda á póstþjónustuna hefði átt að gefa fullt tilefni til þess. Það er kostur við lagafrumvarpið að Póst- og fjarskiptastofnun fær auknar heimildir til eftirlits og aðgerða, en hætt er við að erfitt reynist að hækka þjónustustigið á ný þar sem þjónustan hefur þegar verið skorin niður.

Orðskýringar og nýyrðasmíð.
    Ekki fengust upplýsingar um hvort ráðuneytið hefði leitað til Íslenskar málnefndar eða annarra opinberra málfarsaðila um leiðsögn í nýyrðasmíð í frumvarpinu en mikilvægt er að ekki séu lögfestar nýjar orðskýringar eða nýyrði án þess að það sé samræmt annarri slíkri vinnu og almennri málvitund. Sem dæmi má nefna nýyrðið alþjónusta sem er í lagafrumvarpinu skilgreint sem sú „póstþjónusta sem landsmenn skulu eiga aðgang að á jafnræðisgrundvelli“. Að áliti minni hlutans er það ófullnægjandi skilgreining. Orðið alþjónusta felur í sér alla þjónustu sem í boði er en ekki einhverja afmarkaða lágmarksþjónustu. Betra væri að nota hér orðið grunnpóstþjónusta og er lögð fram breytingartillaga þess efnis. Nefna má fleiri dæmi um óskýra eða brenglaða hugtakanotkun í frumvarpinu.
    Minni hlutinn vill vekja athygli á að orðið pósthús er hvergi nefnt í frumvarpinu og því síður skilgreining á því hvaða þjónusta skuli fara þar fram. Er það mjög sérstakt að samin skuli heildarlög um póstþjónustu án þess að orðið pósthús komi þar fyrir. Er það ef til vill dæmigert fyrir þá niðurlægingu sem þessi almannaþjónusta hefur mátt þola á síðustu missirum af hálfu stjórnvalda.

Er verið að fara fram á aukna lagaheimild til að skera niður þjónustu?
    Í 6. gr. sem fjallar um alþjónustu segir að „öllum notendum sem búa við sambærilegar aðstæður sé boðin eins þjónusta“. Þessi liður kveður á um að flokka eigi Íslendinga „eftir aðstæðum“ og þjónusta þá eftir því. Vissulega geta verið einstök tilvik þar sem ekki er hægt að veita þjónustu á algildan hátt en það á að vera undantekning en ekki samkvæmt flokkun í lögum. Orðin „sem búa við sambærilegar aðstæður“ ættu því að falla brott og er lagt til að svo verði. Póstþjónustu á að veita öllum landsmönnum, þjónustu á jafnræðisgrunni, og mikilvægt að lögin taki af öll tvímæli um að svo skuli gert.
    Eðlilegt hefði verið að þjónustustig á pósthúsum vítt og breitt um landið hefði verið skilgreint í lögum. Þá hefðu lögin enn fremur átt að fjalla um tollpóstþjónustu og kveða skýrt á um að slík þjónusta væri skilgreindur hluti af almennri starfsemi pósthúsa. En öll sú starfsemi er að langmestu leyti orðin miðlæg í Reykjavík og afgreiðsla slíkra sendinga orðin þunglamalegri og seinvirkari en áður var, einkum úti á landi.
    Í frumvarpinu er stöðugt vísað til að í reglugerð verði nánar kveðið á um allar skilgreiningar á póstþjónustu, gæðakröfur og þjónustustig. Í ljósi mikillar gagnrýni á póstþjónustuna í landnu á síðustu mánuðum og árum hefði verið æskilegt að drög að reglugerð hefðu fylgt frumvarpinu til nefndarinnar. Í kjölfar hlutafélagavæðingar Póstsins og aukinnar einkavæðingar einstakra þátta þjónustunnar hefur pósthúsum verið lokað unnvörpum hringinn í kringum landið og þjónusta við íbúana til bæjar og sveita verið skert. Þeirri lágmarksþjónustu sem eftir er hefur verið komið fyrir í nærliggjandi verslun eða banka.

Póstþjónusta sem hluti fjölþættrar opinberrar almannaþjónustu.
    Í frumvarpinu hefðu einnig átt að vera ákvæði sem tækju til þess að póstflutninga mætti skipuleggja sem þátt í samræmdum almenningssamgöngum hvort sem væri í lofti, láði og á legi. Að slíta póstflutningana frá annarri slíkri almannaþjónustu hefur þegar orðið til óbætanlegs tjóns fyrir almannasamgöngur í landinu og bitnar það harðast á íbúum hinna dreifðu byggða. Áætlunarferðir sem áður nutu stuðnings póstflutninganna hafa víða lagst af eða berjast í bökkum. Því hefðu póstflutningar átt að vera hluti af hinni samræmdu opinberu samgönguáætlun og lögin um póstþjónustu hefðu átt að kveða á um að svo skyldi verða.

Lokaorð.
    „Hvar er pósthúsið mitt?“, verður spurning almennings á næstu árum.
    Tekið er undir lokaorð í umsögn Póstmannafélagsins um frumvarpið: „Félagið hefur af því áhyggjur að verði frumvarp það sem hér um ræðir að lögum í óbreyttri mynd mun það enn þrengja að rekstrarstöðu fyrirtækisins og greiðslustöðu þess. Nú þegar hefur fyrirtækið framkvæmt ýmsar aðhaldsaðgerðir sem þýtt hefur niðurlagningu starfa og atvinnumissi fyrir félagsmenn, einkum á landsbyggðinni. Frumvarpsdrögin gefa á engan hátt til kynna að þeirri þróun verði snúið við.“

Alþingi, 19. febr. 2002.



Jón Bjarnason.



Fylgiskjal I.


Bréf sveitarfélagsins Skagafjarðar til Póst- og fjarskiptastofnunar.


(14. mars 2001.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,



Snorri Björn Sigurðsson sveitarstjóri.



Bréf Póst- og fjarskiptastofnunar til sveitarfélagsins Skagafjarðar.


(2. maí 2001.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,



Friðrik Pétursson.





Bréf til sveitarstjórnar Skagafjarðar frá Byggðasafni Skagfirðinga,


(6. mars 2001.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.





Fylgiskjal II.


Bréf Vinstri hreyfingarinnar      – græns framboðs til forstjóra Íslandspósts.


(6. mars 2001.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Bréf frá Íslandspósti hf.


(26. mars 2001.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.