Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 254. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 258  —  254. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um nefnd til að kanna rýrnun eigna íbúa landsbyggðarinnar.

Flm.: Örlygur Hnefill Jónsson.



    Alþingi ályktar að setja á stofn nefnd sem kanni þróun fasteignaverðs á landsbyggðinni í samanburði við höfuðborgarsvæðið. Nefndin skoði ítarlega hvernig eignir fólks á landsbyggðinni hafa rýrnað í verði og um hvaða fjármuni er að ræða, leiti úrræða og komi með tillögur til úrbóta.
    Nefndi ljúki störfum fyrir lok október 2003.

Greinargerð.


    Fasteign fjölskyldu, þ.e. íbúðarhúsnæði hennar, er í flestum tilvikum megineign hinnar venjulegu fjölskyldu sem myndar grunn íslensks samfélags. Það skiptir því flestar fjölskyldur mestu um daglegt líf og velferð, framfærslu, aðbúnað og framtíðarmöguleika bæði fullorðinna og barna að eignir þeirra fari ekki forgörðum.
    Tillaga þessi er flutt þar sem flutningsmaður telur brotalöm á því að fjölskyldur þessa lands njóti jafnræðis varðandi það að verðmæti þessara stærstu eigna þeirra, fasteignar fjölskyldunnar, sé tryggt. Ójafnræðið í þessu felst í bersýnilegum mun milli höfuðborgar og landsbyggðar. Fasteignir þeirra sem búa á höfuðborgarsvæðinu hafa á árabilinu 1990–2000 hækkað verulega í verði umfram þær vísitölur sem notaðar hafa verið til að mæla verðlag og verðlagsþróun og tryggja fjárkröfur, t.d. lánastofnana. Það er vel að eignir fólks á höfuðborgarsvæðinu hafa aukist að verðgildi og að þróunin hafi verið sú. Þessu hefur ekki verið eins farið með eignir fólks á landsbyggðinni og hafa þær í raun rýrnað, í mörgum tilvikum stórlega, og er það illt og óviðunandi. Flutningsmaður telur að stjórnmálamenn og Alþingi hafi ekki hugað að þessu sem skyldi og að tími sé kominn til að löggjafinn láti þetta mál til sín taka með einhverjum hætti.
    Á 127. löggjafarþingi beindi flutningsmaður fyrirspurn til félagsmálaráðherra um þróun fasteignaverðs íbúðarhúsnæðis (þskj. 164, 163. mál). Í svari ráðherra (þskj. 276) kemur m.a. fram að meðalverð fasteigna á landsbyggðinni var 5.105.000 kr. árið 1990 en árið 2000 var það 7.486.000 kr. og er hækkunin á þessu árabili því 2.381.000 kr., eða 46,64%. Hér eru talin með nágrannasvæði höfuðborgarinnar en þar varð mesta verðhækkunin og því einstök önnur svæði með verri útkomu.
    Þá kemur fram að meðalverð fasteigna á höfuðborgarsvæðinu var 6.850.000 kr. árið 1990 en árið 2000 var það 12.086.000 kr. og er hækkunin á þessu árabili því 5.236.000 kr., eða 76,37%.
    Þess má geta að eignir sem seldar eru á landsbyggðinni eru undantekningarlítið stærri í fermetrum talið en þær sem seldar eru á höfuðborgarsvæðinu.
    Ef skoðuð eru einstök dæmi úr svarinu um meðalverð á fermetra í íbúðarhúsnæði kemur m.a. eftirfarandi fram:           Í Reykjavík árið 1990 var fermetraverð 66.007 kr. og 2000 var það 109.605 kr. Hækkun er 43.598 kr. á fermetra, eða 66,05%.
          Í Ísafjarðarbæ árið 1990 var fermetraverð 41.508 kr. og 2000 var það 44.493 kr. Hækkun er 2.985 kr., eða 7,19%.
          Á Akureyri 1990 var fermetraverð 51.140 kr. og 2000 var það 75.934 kr. Hækkun er 24.794 kr. eða 48,48%. Þess ber að geta að Akureyri sker sig úr á landsbyggðinni utan áhrifasvæðis höfuðborgarinnar.
          Í Fjarðarbyggð 1990 var fermetraverð 39.148 kr. og 2000 var það 39.794 kr. Hækkun var 646 kr., eða 1,65%.
    Á miðju ári 1990 var lánskjaravísitalan 2887 stig, en í júní 2000 var hún 3917 stig, þ.e. hækkun um 35,67%. Byggingarvísitalan var í júní 1990 170,3 stig, en í júní 2000 var hún 244,4 stig, þ.e. hækkun um 43,51%
    Af þessu má sjá það skelfilega sem er að gerast varðandi eignir og fjármál fólks sem hefur bundið eignir sínar á landsbyggðinni ekki hvað síst til að vinna að gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið við sjávarútveg og tekið þannig þátt í nauðsynlegum útgerðar- og fiskvinnslukostnaði. Því hvar væru útgerð og fiskvinnsla ef fólk hefði ekki byggt og keypt fasteignir hringinn í kringum landið til að taka þátt í veiðum og framleiðslu sjávarfangs. Sama á við um aðra nauðsynlega atvinnustarfsemi á landsbyggðinni og þjónustu við íbúana þar.
    Þessi þingsályktunartillaga er sett fram til að þessi mál verði skoðuð ítarlega og athugað hvort einhver ráð séu tiltæk til að rétta hlut íbúa landsbyggðarinar í þessum efnum. Ljóst er að vistun opinberra starfa í höfuðborginni hefur stórlega styrkt eignir fólks þar. Ef fyrirheitum sem gefin voru í ályktun Alþingis um stefnumótandi byggðaáætlun 1994–97 hefði verið fylgt eftir hefði staða mála ekki verið með þeim hætti sem að framan greinir. Í ályktuninni segir: „Opinber þjónusta og starfsemi opinberra stofnana verði aukin á landsbyggðinni en dregin saman á höfuðborgarsvæðinu að sama skapi. Komið verði á samstarfi ríkisstofnana um svæðisskrifstofur þar sem það þykir hagkvæmt.“
    Niðurstaða á úttekt efnda þessara fyrirheita til handa landsbyggðafólki, sem unnin var fyrir stjórn Byggðastofnunar og lögð fram í febrúar 1999, sýndi m.a. að samtals fjölgaði stöðugildum í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi um 455 en fækkaði í öðrum kjördæmum um 31. Útgjöld A-hluta ríkissjóðs, á verðlagi 1997, hækkuðu milli áranna 1994 og 1997 um 6,4 milljarða kr. í Reykjavík, um 2,7 milljarða kr. í Reykjaneskjördæmi og um 1,1 milljarð kr. í öðrum kjördæmum. Útgjöld vegna grunnskólans eru ekki meðtalin.
    Við skoðun til jöfnunar og leiðréttingar þessa misvægis hljóta öll ráð að koma til greina og má varpa því fram hvort tengja megi verðtryggingu lána opinberra byggingarsjóða við þann raunveruleika sem landsbyggðarfólk býr við. Ljóst er eins og mál standa nú að lán á eignum víða á landsbyggðinni hækka með allt öðrum hætti en verðgildi eignarinnar sem byggð var fyrir þau, með fyrirséðu eignaleysi lántakendanna. Því hlýtur það að vera lánastofnunum jafnt sem landsbyggðarfólki mikið hagsmunamál sem hér er flutt.