Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 295. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 793  —  295. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu Möller um byggingarkostnað hjúkrunarheimila.

     1.      Hver hefur hlutfallsleg kostnaðarskipting við byggingu hjúkrunarheimila verið sl. tvo áratugi milli:
                  a.      ríkis,
                  b.      sveitarfélaga,
                  c.      annarra framkvæmdaraðila,
        sundurliðað eftir hjúkrunarheimilum?
    Í meðfylgjandi yfirliti kemur fram kostnaðarskipting við uppbyggingu hjúkrunarheimila og hjúkrunardeilda á tímabilinu 1980-2002.

     2.      Á hvaða tímabilum hefur kostnaðarhlutdeild ríkisins í byggingarkostnaði hjúkrunarheimila verið miðuð við 85% og frá hvaða tíma hefur almennt verið miðað við 40%, sbr. reglur um Framkvæmdasjóð aldraðra? Ef kostnaðarhlutdeildin hefur verið 85% á fyrri tímum, á hvaða grundvelli byggðist lækkun hennar?
    Í 1. mgr. 24. gr. laga um heilbrigðisþjónustu eru sjúkrahús flokkuð í átta flokka eftir tegund og þjónustu og eru hjúkrunarheimili talin upp í 4. tölul. Í 34. gr. laganna er kveðið á um framlag ríkissjóðs til sjúkrahúsbygginga en þar segir:
    „Framlag ríkissjóðs til sjúkrahúsbygginga, sem til er stofnað skv. 2. tölul. 34. gr., skal vera 85% af kostnaði við byggingu og búnað en framlag hlutaðeigandi sveitarfélaga 15%. Sveitarfélög láta þó í té lóðir undir slíkar byggingar ríkissjóði að kostnaðarlausu og án greiðslu gatnagerðargjalda.“
    Samkvæmt 2. mgr. 34 gr., sbr. 33. gr., laganna er sveitarfélögum skylt „að taka þátt í framkvæmdum í samræmi við ákvörðun Alþingis um fjárveitingar“ til framkvæmda við heilbrigðisstofnanir. Skv. 4. mgr. 34. gr. eru ríkissjóður og sveitarfélög eignaraðilar í hlutfalli við framlag til sjúkrahúsbygginga.
    Um fjármögnun hjúkrunarheimila og annarra stofnana fyrir aldraða sem ekki er til stofnað skv. 2. mgr. 34. gr. gilda ákvæði laga um málefni aldraðra, nr. 125/1999.
    Í reglugerð nr. 299/1990, um Framkvæmdasjóð aldraðra, sem breytt var með reglugerð nr. 201/1991, er kveðið á um úthlutun úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Í 3. tölul. 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um Framkvæmdasjóð aldraðra segir: „Styrkur vegna hjúkrunarrýmis, í eigu sveitarfélaga, félagasamtaka og einkaaðila, sbr. 2. tl. 18. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra (nú lög nr. 125/1999), má nema allt að 40 af hundraði heildarkostnaðar með búnaði.“
    Með vísan til laga um heilbrigðisþjónustu verður að telja að sú ábyrgð hvíli á ríkisvaldinu að veita öldruðum hjúkrunarþjónustu, hafi engir aðrir aðilar frumkvæði að því að veita þá þjónustu. Enginn getur þó veitt slíka þjónustu nema að fengnu samþykki heilbrigðisyfirvalda, enda verður kostnaður við þjónustuna að rúmast innan fjárlagaramma heilbrigðisyfirvalda.     Ef horft er til þess hvernig uppbyggingu hjúkrunarheimila hefur verið háttað á umliðnum áratugum má segja að þar hafi verið um tvær leiðir að ræða, annars vegar uppbygging á vegum opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, og hins vegar uppbygging að frumvæði einkaaðila og félagasamtaka.
    Þegar ríki og sveitarfélög hafa staðið saman að uppbyggingunni hefur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra að öllu jöfnu numið 35–40% af byggingarkostnaði og hefur mismunurinn, allt að 85% af byggingarkostnaði, verið greiddur af fjárlagalið 08-381-6.90 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Hlutur sveitarfélaga er hér 15%. Eignaraðild hvors aðila um sig er í sömu hlutföllum. Í þessum tilfellum er styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra hluti af 85% framlagi ríkissjóðs í uppbyggingunni.
    Þegar einkaaðilar eða félagasamtök hafa haft frumkvæði að uppbyggingunni hefur þeim verið veittur styrkur úr Framkvæmdasjóði aldraðra eftir því hvernig reglur sjóðsins hafa verið á hverjum tíma. Úthlutað hefur verið úr sjóðunum á grundvelli umsókna og hefur styrkur numið 35–40% af heildarkostnaði með búnaði. Sjálfsaflafé, þar með taldir styrkir frá sveitarfélögum, hefur greitt fyrir þann hluta framkvæmdakostnaðarins sem á vantar. Eignaraðild ríkis er engin og ríkið á almennt ekki aðild að stjórnum þessara stofnana. Heimili þessi eru alfarið í eigu einkaaðila og félagasamtaka.

     3.      Brjóta stjórnvöld lög um heilbrigðisþjónustu með því að leggja ekki til 85% byggingarkostnaðar hjúkrunarheimila heldur lægri hlutdeild?

    Alllöng hefð er fyrir því að einkaaðilar, sjálfseignastofnanir og félagasamtök komi að uppbyggingu hjúkrunarheimila. Á það einkum við um uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu og hafa aðilar komið að þeirri uppbyggingu af fúsum og frjálsum vilja. Í þessum tilvikum hefur uppbygging húsnæðis verið fjármögnuð með beinum styrkjum úr Framkvæmdasjóði aldraðra, styrkjum frá sveitarfélögum, með ágóða af almenningssöfnunum, happdrættissölu, með gjafafé einstaklinga og í einhverjum tilvikum af almennu rekstrarfé. Þessi aðkoma að uppbyggingu heimila hefur veitt einkaaðilum, sjálfseignarstofnunum og félagasamtökum ákveðna sérstöðu. Stjórnvöld eiga almennt ekki aðild að stjórnum þessara stofnana og ekkert tilkall til eigna, þrátt fyrir að þau hafi lagt fram allt að 40% kostnaðar við uppbyggingu og búnaðarkaup, auk greiðslu rekstrarkostnaðar. Stjórnvöld eiga með öðrum orðum enga kröfu til húsnæðis ákveði aðilar að hætta rekstri, þrátt fyrir að skattfé hafi verið varið til að greiða allt að 40% byggingarkostnaðarins og almenningur þessa lands hafi með einum eða öðrum hætti brúað það bil sem út af stendur. Í 8. gr. reglugerðar um Framkvæmdasjóð aldraðra segir þó: „Heilbrigðisráðherra getur ákveðið, að höfðu samráði við stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra, að krefja þá, sem styrk hafa fengið úr sjóðnum, um endurgreiðslu framlagsins ef húsnæði það sem styrkur var veittur til er notað í þágu annarra en aldraðra innan 20 ára frá því að húnæðið var tekið í notkun.“
    Dæmi eru einnig um að sveitarfélög hafi fjármagnað, ein eða að stórum hluta, uppbyggingu dvalarheimila, sem síðar hefur verið breytt að hluta til eða alfarið í hjúkrunarheimili. Einnig eru dæmi um að ríkið hafi staðið eitt að slíkri uppbyggingu, sbr. hjúkrunarheimilið Sóltún, en þar greiðir ríkið alla uppbygginguna í formi leigugreiðslna.
    Með vísan til framangreinds og til þeirrar staðreyndar að þátttaka þessara aðila í uppbyggingu hjúkrunarheimila hefur verið, og er, af fúsum og frjálsum vilja verður því vart haldið fram að stjórnvöld hafi brotið lög um heilbrigðisþjónustu í þeim tilvikum þar sem ekki er lagt fram 85% byggingarkostnaðar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.