Útvarpslög og samkeppnislög

Miðvikudaginn 21. júlí 2004, kl. 13:43:24 (9519)

2004-07-21 13:43:24# 130. lþ. 136.1 fundur 1011. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum, brottfall eldri laga o.fl.) frv. 107/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi um spurninguna sem varðar 26. gr. þá skildi ég fyrirspurn hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í nefndinni í gær, sem hann vísaði til, á þann veg að hann væri að spyrja að því hvort það væri einhvers konar samkomulag, einhvers konar sátt á milli stjórnarflokkanna sem fylgdi þessari afgreiðslu málsins. Ekkert slíkt samkomulag er til staðar og ég stend við það sem ég sagði á fundinum og það sem ég hef áður sagt að það eru engir samningar um tilteknar breytingar á stjórnarskránni sem fylgja þessari afgreiðslu málsins, þessari tillögu meiri hluta nefndarinnar heldur er einungis lögð áhersla á það í nefndarálitinu að ráðist verði í endurskoðun á þeim köflum stjórnarskrárinnar sem setið hafa eftir í þeirri endurskoðun á henni sem farið hefur fram hingað til.

Varðandi síðara atriðið hélt ég og taldi að öllum væri ljóst sem komið hafa að vinnu við málið, sérstaklega þeim sem setið hafa í nefndinni, um hvað hinn stjórnskipulegi vafi hefur verið. Hann er einmitt um það atriði hvort þinginu væri stætt að setja ný lög efnislega sambærileg hinum fyrri í sama frv. og fyrri lögin væru felld brott. Meiri hlutinn hefur fyrir sitt leyti komist að þeirri niðurstöðu að það hefði í sjálfu sér verið hægt, stjórnskipulega hægt að gera það. En vegna þess ágreinings sem verið hefur um málið og í ljósi þess að málinu var teflt fram sem sérstakri sáttargjörð af hálfu ríkisstjórnarinnar og engin sátt hefur tekist um það, m.a. vegna þess að stjórnarandstaðan hefur þráast við og neitað að taka þátt í efnislegri umræðu um fjölmiðlalögin, leggur meiri hlutinn til að að svo komnu máli verði ekki fest í lög ný skipan um þetta mál.