Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 23. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 23  —  23. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um sérstakan skattafslátt vegna barna.

Flm.: Sigurlín Margrét Sigurðardóttir, Guðjón A. Kristjánsson,


Magnús Þór Hafsteinsson, Sigurjón Þórðarson.


    Alþingi ályktar að tekinn verði upp sérstakur ótekjutengdur skattafsláttur handa foreldrum eða forráðamönnum sem hafa börn á framfæri sínu. Afslátturinn nemi tiltekinni upphæð fyrir hvert barn til 16 ára aldurs. Hafi foreldrar ekki svo háar tekjur að afslátturinn nýtist skal ónýttur afsláttur greiddur út við álagningu skatts ár hvert. Fjármálaráðherra er falið að skoða nánari útfærslu afsláttarins og hvort rétt sé að hann fari stighækkandi eftir fjölda barna. Fjármálaráðherra skal við upphaf haustþings 2004 leggja tillögur sínar fyrir Alþingi í frumvarpsformi. Skal að því stefnt að lög um sérstakan skattafslátt vegna barna taki gildi 1. janúar 2005.

Greinargerð.


    Í tillögu þessari eru lagðar til nýjar leiðir til að styrkja og styðja barnafjölskyldur í landinu. Lagt er til að tekinn verði upp sérstakur skattafsláttur vegna barna. Skattafslættinum er ætlað að virka sem viðbótarpersónuafsláttur til handa foreldrum eða forráðamönnum að tiltekinni upphæð fyrir hvert barn. Skattafslátturinn er þó ólíkur persónuafslætti að því leyti að fullnýti foreldrar eða forráðamenn afsláttinn ekki ber ríkissjóði að greiða viðkomandi það sem á vantar. Skattafslátturinn er ótekjutengdur og því ólíkur barnabótum. Ekki er gert ráð fyrir því að reglum um greiðslu barnabóta verði breytt heldur að skattafslátturinn komi sem viðbót við þær.
    Rökin fyrir skattafslætti sem hér er lýst eru eftirfarandi. Í fyrsta lagi eru augljós þjóðfélagsleg rök fyrir því að auka stuðning við barnafjölskyldur. Í öðru lagi er hin tvíþætta virkni afsláttarins, þ.e. hann er aukinn persónuafsláttur annars vegar og styrkur hins vegar, þannig að hann nýtist fólki óháð því hvort það hefur tekjur eða ekki. Í þriðja lagi dregur ótekjutengdur skattafsláttur vegna barna úr líkum á því að fólk veigri sér við að eiga börn af fjárhagslegum ástæðum eða senda þau á íþrótta- og tómstundanámskeið. Í fjórða lagi er ótekjutengdur skattafsláttur vegna barna jöfnunartæki í þeim skilningi að ráðstöfunartekjur á hvern fjölskyldumeðlim innan fjölskyldna með svipaðar heildartekjur en mismörg börn á framfæri jafnast út.
    Kröfur í nútímaþjóðfélagi um menntun, íþróttir og félagsstarf barna hafa kallað á aukin útgjöld foreldra. Þessi útgjöld teljast nú nauðsynleg til að sinna sjálfsögðum þörfum barna, svo að þau fái notið íþrótta- og tómstundastarfs sem og viðbótarmenntunar, t.d. í tónlist. Virk þátttaka barna í félags- og íþróttastarfsemi er til þess fallin að efla mannkosti barns og verja það fyrir óæskilegum áhrifum, t.d. af völdum vímuefna. Kostnaður vegna þessa er umtalsverður og oft meiri en margir foreldrar geta staðið undir.
    Há gjöld þarf að greiða fyrir vistun barna hjá dagmæðrum og á dagheimilum. Ýmis gjaldtaka er einnig í grunnskólum, sem á í raun að vera ókeypis, til að mynda er tekið gjald fyrir skólamáltíðir og ræðst það að nokkru af fjárhag foreldra hvort þeir hafi efni á að greiða fyrir slíkt. Þurfi foreldrar á gæslu að halda fyrir börn sín eftir skóla, t.d. vegna vinnu, þarf að greiða fyrir hana sérstaklega. Grunnskólinn er því orðinn stór kostnaðarliður í bókhaldi heimilanna og því stærri er hann, eðli málsins samkvæmt, eftir því sem börnin eru fleiri.
    Forvarnagildi heilbrigðra lífshátta, íþrótta- og tómstundaiðkunar er óumdeilt. Ríkisvaldinu ber að stuðla að jöfnum möguleikum barna til þeirrar ástundunar. Frjálslyndi flokkurinn leggur mikið upp úr því að stuðningur við foreldra og forráðamenn barna verði efldur frekar en nú er. Þessi þingsályktunartillaga er raunhæf leið að því marki.