Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 391. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 793  —  391. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um eftirlit með fjármálafyrirtækjum.

    Viðskiptaráðherra óskaði eftir svörum við fyrirspurninni frá Fjármálaeftirlitinu. Svör Fjármálaeftirlitsins fara hér á eftir.

     1.      Hvernig er háttað eftirliti Fjármálaeftirlitsins með hagsmunaárekstrum vegna setu stjórnarmanna lífeyrissjóða og annarra fjármálafyrirtækja í stjórnum annarra aðila?
    Fjármálafyrirtæki:
    Komið hefur verið á reglubundnum skýrsluskilum fjármálafyrirtækja til Fjármálaeftirlitsins um fyrirgreiðslu viðkomandi fyrirtækis til venslaðra aðila, þar á meðal stjórnarmanna. Á grundvelli skýrsluskilanna hefur Fjármálaeftirlitið eftirlit með viðskiptum stjórnarmanna og tengdra aðila við fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið hefur í einstökum tilvikum tekið til skoðunar fyrirgreiðslu eftirlitsskyldra aðila til aðila tengdra stjórnarmönnum viðkomandi fyrirtækja. Er þá litið til þess hvernig ákvarðanatöku var háttað þegar fyrirgreiðslan var veitt, hvort hæfisreglum hafi verið fylgt og hvort kjör fyrirgreiðslunnar séu í samræmi við það sem gengur og gerist til annarra viðskiptamanna. Eftirlit með þessu er einnig liður í eftirliti með virkum eignarhlutum.
    Lífeyrissjóðir:
    Í vettvangsathugunum Fjármálaeftirlitsins á lífeyrissjóðum er óskað upplýsinga um stjórnarsetu framkvæmdastjóra og stjórnarmanna lífeyrissjóða. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um lánveitingar og aðra fyrirgreiðslu til þessara aðila. Við athuganir á fjárfestingum lífeyrissjóða er einnig skoðað hvort meðal fjárfestinga séu lánveitingar til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra eða aðila tengdra þeim. Sé svo er athugað hvort farið hafi verið að lögum, reglum og innri reglum varðandi lánveitingarnar og afgreiðslu.

     2.      Í hvaða mæli hefur Fjármálaeftirlitið gert athugasemdir við slík hagsmunatengsl og getur það gefið upplýsingar um hversu algeng þau eru?
    Fjármálafyrirtæki:
    Fjármálaeftirlitið hefur í nokkrum tilvikum gert athugasemdir og gripið til aðgerða vegna fyrirgreiðslu til stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum. Slíkar athugasemdir og aðgerðir geta verið liður í ýmiss konar eftirlitsaðgerðum, svo sem aðgerðum gagnvart fyrirtækinu sjálfu og eigendum virkra eignarhluta. Fjármálaeftirlitið hefur ekki tekið saman upplýsingar um það hversu algeng hagsmunatengsl af þessu tagi eru í fjármálafyrirtækjum.
    Lífeyrissjóðir:
    Stjórnarmenn lífeyrissjóða sitja margir hverjir í stjórnum annarra félaga, hlutafélaga, einkahlutafélaga og annarra félagasamtaka. Fjármálaeftirlitið hefur í nokkuð mörgum tilfellum gert athugasemdir við afgreiðslu lánveitinga til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og aðila tengdra þeim. Í mörgum tilfellum eru gerðar athugasemdir þar sem ekki er farið að ákvæðum laga og reglna um hæfi til afgreiðslu lánveitinga. Fjármálaeftirlitið hefur jafnframt gert athugasemdir þar sem lánveitingar til slíkra aðila hafa verið hærri en hámarkslán samkvæmt lánareglum sjóðsins, veðhlutfall ekki í samræmi við lánareglur sjóðsins eða að nauðsynlegar upplýsingar vegna lánveitinga hafa ekki verið til staðar hjá viðkomandi lífeyrissjóði.
    Erfitt er að leggja mat á það hvort hagsmunatengsl, af því tagi sem spurt er um, séu algeng. Fjármálaeftirlitið hefur kannað setu stjórnarmanna stærstu lífeyrissjóða í öðrum félögum. Niðurstöður þeirrar könnunar gefa til kynna að um 70% stjórnarmanna þessara lífeyrissjóða sitji í stjórnum hlutafélaga eða einkahlutafélaga. Að meðaltali sitja þessir stjórnarmenn í fjórum stjórnum félaga, hlutafélaga eða einkahlutafélaga. Tæplega 40% þeirra sitja í tveimur eða fleiri stjórnum. Félög sem sinna þjónustuverkefnum fyrir lífeyrissjóði eru undanskilin.

     3.      Er ástæða til að breyta gildandi lögum og reglum til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra hjá lífeyrissjóðum og öðrum fjármálafyrirtækjum?
    Í 31. gr. laga nr. 129/1997, um lífeyrissjóði, kemur fram að um hæfi stjórnarmanns lífeyrissjóðs til meðferðar máls fari eftir ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga. Í samþykktum lífeyrissjóðs, starfsreglum framkvæmdastjóra, starfsreglum stjórnar og reglum um verðbréfaviðskipti sjóðsins er jafnframt kveðið á um að stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og aðrir starfsmenn megi ekki taka þátt í meðferð máls ef þeir hafa hagsmuna að gæta sem kynnu að fara í bága við hagsmuni sjóðsins.
    Um þátttöku stjórnarmanna fjármálafyrirtækja í meðferð mála er í 55. gr. laga nr. 161/ 2002, um fjármálafyrirtæki, m.a. tiltekið að stjórnarmenn skulu ekki taka þátt í meðferð máls ef mál varðar: „1. viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í; eða 2. viðskipti samkeppnisaðila þeirra aðila sem ræðir um í 1. tölul. Hið sama skal gilda um viðskipti aðila sem eru tengdir stjórnarmönnum persónulega eða fjárhagslega.“
    Í 2. mgr. 54. gr. laga nr. 161/2002 er enn fremur kveðið á um að stjórnir fjármálafyrirtækja skuli setja sér sérstakar reglur um störf sín. Fjármálaeftirlitið hefur sett sérstök tilmæli, nr. 1/2003, um efni þeirra reglna. Í tilmælunum er kveðið á um ýmis atriði er takmarka eiga hættuna á hagsmunaárekstrum. Þá vill Fjármálaeftirlitið benda á umræðuskjal nr. 11/2003, en í viðauka II með því er að finna yfirlit yfir lög, reglur og tilmæli er varða aðskilnað hagsmuna í fjármálafyrirtæki. Tilmæli og umræðuskjöl Fjármálaeftirlitsins eru aðgengileg á heimasíðu þess, www.fme.is.
    Fjármálaeftirlitið telur að rétt sé að láta reyna frekar á núgildandi löggjöf um lífeyrissjóði og fjármálafyrirtæki áður en hugað verði að frekari endurskoðun.
    Viðskiptaráðuneytið tekur undir að ekki sé ástæða til að endurskoða lagaákvæði um hagsmunaárekstra vegna setu stjórnarmanna fjármálafyrirtækja í öðrum fyrirtækjum eða vegna hagsmunatengsla þeirra að öðru leyti á þessu stigi. Miklar breytingar voru gerðar á lagaákvæðum um stjórn og starfsmenn með nýjum lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/ 2002. Ástæða er til að láta reyna á þá löggjöf áður en hugað verður að frekari breytingum.