Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 198. máls.
131. löggjafarþing 2004–2005.
Þskj. 685  —  198. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum.

     1.      Hverjar eru heildartekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum árið 2003 og samkvæmt áætlun 2004, skipt eftir skattstofnum?
    Heildartekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum fyrir árið 2003 námu 3,7 milljörðum kr. Á árinu 2004 voru innheimtar tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum alls tæplega 6,4 milljarðar kr. Fyrirkomulag og innheimta stimpilgjalda veldur því að erfitt er að gera sér fyllilega grein fyrir skiptingu gjaldsins. Í upplýsingum frá Fasteignamati ríkisins kemur fram að stimpilgjöld af fasteignaviðskiptum á fyrri hluta ársins 2004 eru um 65–70% af heildarstimpilgjöldum. Hér er bæði um að ræða stimpilgjöld af skuldabréfum og kaupsamningum. Það má því gera ráð fyrir að stimpilgjöld vegna fasteignakaupa á árinu 2003 hafi verið um 2,4 milljarðar kr. Vegna breyttra aðstæðna á lánamarkaði vegna fasteignakaupa á seinni hluta ársins 2004 er erfiðara að áætla hve mikill hluti stimpilgjaldsins sé vegna fasteignakaupa. Gróf nálgun gæti numið tæpum 4 milljörðum kr.

     2.      Hve stór hluti heildartekna ríkissjóðs af stimpilgjaldi vegna fasteignaviðskipta einstaklinga verður til við endurfjármögnun lána?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um tekjur af stimpilgjöldum vegna endurfjármögnunar lána vegna fasteignaviðskipta.

     3.      Hve stór hluti heildartekna ríkissjóðs af stimpilgjaldi vegna fasteignaviðskipta einstaklinga er endurgreiddur í formi vaxtabóta?
    Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hve stór hluti heildartekna ríkissjóðs af stimpilgjaldi vegna fasteignaviðskipta einstaklinga er endurgreiddur í formi vaxtabóta.