Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 640. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1245  —  640. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Ágústs Ólafs Ágústssonar um skattlagningu lífeyrisgreiðslna og skattleysismörk 70 ára og eldri.

     1.      Hver yrðu áhrif þess á tekjur ríkissjóðs annars vegar og tekjur sveitarfélaga hins vegar ef lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins yrðu annars vegar skattfrjálsar og hins vegar skattlagðar sem fjármagnstekjur? Svar óskast sundurliðað eftir tegundum lífeyrisgreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins.
    Útreikningar sem hér fylgja hafa verið gerðir á grundvelli úrvinnslu á skattgögnum fyrir tekjuárið 2004. Það ár voru 21.698 fjölskyldur þar sem a.m.k. annar var eldri en 70 ára. Ekki var hægt að taka með ófullkomin gögn u.þ.b. 1.200 fjölskyldna og því er hér byggt á upplýsingum um 20.504 fjölskyldur með samtals 25.983 einstaklingum, sem fæddir eru 1934 og fyrr. Ekki er hægt að greina sundur skattskyldar lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar eftir tegundum.
    Þessi hópur hafði árið 2004 tekjuskattsstofn að upphæð 40.248 millj. kr. og á hann var lagður tekjuskattur sem nam 2.926 millj. kr. og útsvar að upphæð 5.160 millj. kr. að meðtöldum þeim hluta útsvars sem ríkissjóður greiðir. Greiðslur lífeyris til hópsins frá Tryggingastofnun ríkisins námu 16,4 milljörðum kr. Ef þær yrðu undanþegnar skatti næmi tekjuskattur af öðrum tekjum hópsins 1.799 millj. kr. og lækkaði um 1.127 millj. kr. frá því sem hann var. Útsvar hópsins af öðrum tekjum hefði verið 3.050 millj. kr. og lækkar um 2.110 millj. kr. en af útsvarinu hefði ríkissjóður greitt 1.004 millj. kr. ef þessar reglur hefðu gilt.
    Ef greiðslur frá Tryggingastofnun hefðu borið fjármagnstekjuskatt hefði hann numið 929 millj. kr. miðað við að ónýttur persónuafsláttur sem myndast við að lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar teldust ekki með í tekjuskattsstofni hefði fyrst nýst til að greiða fjármagnstekjuskatt af þeim tekjum. Tekjur ríkissjóðs hefðu því minnkað um 198 millj. kr. ef lífeyrir frá Tryggingastofnun hefði verið undanþeginn tekjuskatti en borið fjármagnstekjuskatt. Tekjulækkun sveitarfélaga yrði sú sama og vera mundi ef lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins yrðu skattfrjálsar enda njóta þau ekki fjármagnstekjuskatts.

Lífeyrir 70 ára og eldri frá Tryggingastofnun undanþeginn skatti.

Heildarupphæð lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins 16,4 milljarðar kr.
Tekjuskattur lífeyrisþega af öðrum tekjum 1.799 millj. kr.
Lækkun tekna ríkissjóðs ef tekjur frá Tryggingastofnun væru skattfrjálsar 1.127 millj. kr.
Útsvar lífeyrisþega af öðrum tekjum 3.050 millj. kr.
Lækkun tekna sveitarfélaga ef tekjur frá Tryggingastofnun væru skattfrjálsar eða bæru fjármagnstekjuskatt 2.110 millj. kr.
Fjármagnstekjuskattur til ríkissjóðs af lífeyri frá Tryggingastofnun 929 millj. kr.

     2.      Hver yrðu áhrif þess á tekjur ríkissjóðs annars vegar og tekjur sveitarfélaga hins vegar ef lífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum yrðu almennt skattlagðar sem fjármagnstekjur?
    Miðað er við sama hóp og sams konar vinnuaðferð og í svari við 1. lið. Greiðslur úr lífeyrissjóðum til þessa hóps námu 18,7 milljörðum kr. árið 2004. Ef ekki hefði verið greiddur tekjuskattur af þeim hefði tekjuskattur hópsins af öðrum skattskyldum tekjum numið 611 millj. kr. og lækkað um 2.315 millj. kr. Útsvar hópsins vegna annarra tekna hefði numið 2.766 millj. kr. en þar af mundi ríkissjóður hafa greitt 1.481 millj. kr. ef þetta fyrirkomulag hefði verið viðhaft. Álagt útsvar hefði þannig lækkað um 2.394 millj. kr.
    Ef tekjur frá lífeyrissjóðum til þessa hóps hefðu borið fjármagnstekjuskatt hefði hann numið 1.438 millj. kr. Lækkun tekna ríkissjóðs hefði því numið 877 millj. kr. ef skattlagning hefði verið með þessum hætti. Tekjulækkun sveitarfélaga yrði sú sama og vera mundi ef greiðslur frá lífeyrissjóðum yrðu skattfrjálsar enda njóta þau ekki fjármagnstekjuskatts.

Lífeyrir frá lífeyrissjóðum til 70 ára og eldri undanþeginn skatti.

Heildarupphæð lífeyris frá lífeyrissjóðum 18,7 milljarðar kr.
Tekjuskattur lífeyrisþega af öðrum tekjum 611 millj. kr.
Lækkun tekna ríkissjóðs ef greiðslur frá lífeyrissjóðum væru skattfrjálsar 2.315 millj. kr.
Útsvar lífeyrisþega af öðrum tekjum 2.766 millj. kr.
Lækkun tekna sveitarfélaga ef greiðslur frá lífeyrissjóðum væru skattfrjálsar eða bæru fjármagnstekjuskatt 2.394 millj. kr.
Fjármagnstekjuskattur til ríkissjóðs af greiðslum frá lífeyrissjóðum 1.438 millj. kr.

     3.      Hver yrðu áhrif þess á tekjur hins opinbera ef skattleysismörk 70 ára og eldri væru:
              a.      100.000 kr.,
              b.      120.000 kr.,
              c.      150.000 kr.,
              d.      180.000 kr.?

    Miðað við álagningu 2005 á tekjur 2004 hefðu umbeðin skattleysismörk á mánuði leitt til eftirfarandi lækkunar tekna hins opinbera af sköttum á tekjur:
     a.      2.970 millj. kr.
     b.      4.162 millj. kr.
     c.      5.090 millj. kr.
     d.      5.540 millj. kr.
    Álagning almenns tekjuskatts og útsvars á 70 ára og eldri nam alls 6.616 millj. kr. árið 2005.