Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 801. máls.
132. löggjafarþing 2005–2006.
Þskj. 1268  —  801. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.

Flm.: Lúðvík Bergvinsson, Einar Oddur Kristjánsson.



1. gr.

    Orðin „og ráðstöfun eigin fjár í því sambandi“ í 7. tölul. 2. mgr. 61. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Á eftir 61. gr. laganna kemur ný grein, 61. gr. a, svohljóðandi:
    Við slit á sparisjóði, eða þegar sparisjóður breytir rekstrarformi sínu, skal ráðstafa eigin fé hans, öðru en stofnfé, til sveitarfélags þar sem sjóðurinn hefur starfsstöð eða stjórn eða samþykktir hafa skilgreint sem viðskiptasvæði hans. Ef starfs- eða viðskiptasvæði sjóðsins tekur yfir fleiri sveitarfélög en eitt skal stjórn sjóðsins kjósa þriggja manna skilanefnd, sem skiptir eigin fé sjóðsins hlutfallslega eftir íbúatölu sveitarfélaganna og gengur frá uppgjöri við sveitarfélögin. Kveði samþykktir sjóðsins á um aðra skiptingu á eignum sjóðsins en að miðað sé við íbúatölu sveitarfélaga skulu ákvæði samþykkta ganga framar.
    Ef sparisjóði er breytt í hlutafélag eða annað rekstrarform er sveitarstjórn heimilt að taka við hlutabréfum eða örðum eignarheimildum ef þau jafngilda verðmæti annars eigin fjár sjóðsins sem fellur í hlut þess. Sveitarstjórn verður að samþykkja þá ráðstöfun sérstaklega.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 66. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „í samræmi við ákvæði í samþykktum“ í 1. mgr. kemur: þar sem m.a. skal kveðið á um að öllum viðskiptamönnum sparisjóðsins skuli boðin þátttaka í stofnfjáraukningunni, auk stofnfjáreigenda og einstaklinga á viðskiptasvæði sjóðsins að hluta.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ekki er heimilt að veita stofnfjáreigendum forkaupsrétt að stofnfjárhlutum þegar stofnfé er aukið.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Undanfarin missiri hafa staðið átök um rekstur og starfsemi sparisjóðanna í landinu. Sparisjóðirnir eru í eðli sínu sjálfseignarstofnanir, þótt stofnfé sé í eigu einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga. Með starfsemi sinni hafa sjóðirnir byggt upp eigið fé sitt. Eigin fé sjóðanna má skipta í tvennt. Annars vegar stofnfé, sem er í eigu stofnfjáreigenda, og hins vegar annað eigið fé. Stofnféð er jafnan lítill hluti eigin fjár sjóðanna þótt á því séu undantekningar. Yfirráð og eignarhald á öðru eigin fé sjóðanna en stofnfé virðist flutningsmönnum uppspretta átaka og deilna sem staðið hafa um sjóðina undanfarin missiri.
    Þegar sjóðirnir voru stofnaðir var yfirlýstur tilgangur þeirra að taka virkan þátt í uppbyggingu og fjármálaþjónustu á sínu svæði. Sú hugmynd gekk eftir. Til að undirstrika enn frekar tilgang sinn var víða kveðið á um í samþykktum að eignir sjóðanna skyldu renna til menningar- og líknarmála í sveitarfélögum hættu þeir starfsemi. Þá tilnefndu sveitarfélögin einstaklinga til setu í stjórnum sjóðanna. Mismunandi var þó hversu marga þau tilnefndu. Víða hefur verið fallið frá þessu fyrirkomulagi.
    Tímarnir hafa breyst frá því að sjóðirnir voru stofnaðir. Eins og áður hefur komið fram er það mat flutningsmanna að hugmyndir einstaklinga um að eignarhald á öðru eigin fé sjóðanna en stofnfé sé óljóst hafi leitt til uppkaupa á stofnbréfum og kapphlaupi um völd. Flutningsmenn telja því afar brýnt að kveðið verði skýrt á um í lögum hvernig fara skuli með þessa eign hætti þeir að starfa sem sparisjóðir og/eða breyti um rekstrarform.
    Flutningsmenn eru undrandi á að stjórnvöld hafi ekki enn lagt fram hugmyndir eða gripið til aðgerða í ljósi þess umróts sem verið hefur undanfarin missiri og leggja því sjálfir fram þetta frumvarp. Flutningsmenn leggja til að eignir sjóðanna renni til sveitarfélaga þar sem starfsstöðvar sparisjóðanna eru eða stjórn eða samþykktir þeirra hafa skilgreint sem viðskiptasvæði sjóðanna. Flutningsmenn telja eðlilegt í þessu samhengi að sveitarfélög, sem eru samnefnari fyrir fólkið í þessum sveitarfélögum taki við þessum eignum. Fleiri leiðir eru þó færar standi vilji manna til þess.
    Íslandssagan geymir dæmi þess að aðilar hafi komist yfir fé við sambærilegar aðstæður án þess að hafa átt skýra kröfu til þess. Ýmsir hafa kallað eignir þar sem eignarhald er óljóst „fé án hirðis“ og jafnvel talið möguleika á að komast yfir slíkt fé.
    Sveitarfélögin munu ekki njóta ávaxtanna, eins og til var ætlast í upphafi, nema tekin verði af öll tvímæli um hvert annað eigið fé skuli renna hætti sjóðirnir störfum og/eða breyti um rekstrarform. Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja að upphafleg markmið með stofnun sjóðanna nái fram að ganga.
    Ein meginforsenda þess að hægt sé að vernda eignarréttinn er að menn geri sér almennt grein fyrir því hvað þeir eiga ekki og hegði sér samkvæmt því. Geri menn það ekki er eignarréttur lítils virði. Frumvarpinu er ætlað að vernda eignarrétt almennings í landinu á öðru eigin fé sparisjóðanna.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Meginbreytingin er sú, eins og þegar hefur verið rakið, að ef sparisjóður hættir að starfa sem sparisjóður, samkvæmt skilgreiningu laganna, skuli annað eigið fé sjóðsins en stofnfé renna til sveitarfélags eða sveitarfélaga á starfssvæði eða viðskiptasvæði sjóðsins.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að að stofnfjáreigendum, viðskiptamönnum og einstaklingum á starfssvæði hans skuli boðið að kaupa stofnbréf þegar sjóður ákveður að auka við stofnfé sitt. Þannig megi tryggja að sjóðurinn geti alltaf eflt sig með útgáfu nýs stofnfjár. Enn fremur er lagt til að óheimilt verði að veita stofnfjáreigendum forkaupsrétt að nýju stofnfé. Það er í samræmi við tilgang sjóðanna að allir á starfssvæði hans eigi kost á því að gerast stofnfjáreigendur og á þann hátt lagt uppbyggingu samfélagsins lið, auk þess sem kaup á stofnfé verður álitlegur fjárfestingarkostur fyrir einstaklinga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Ákvæðið leiðir af þeim breytingum sem lagðar eru til í 2. gr. þessa frumvarps.

Um 2. gr.

    Hér er lagt til að annað eigið fé sparisjóðs renni til sveitarfélags á starfssvæði eða viðskiptasvæði sjóðsins, eins og sjóðurinn skilgreinir það, þegar sjóður hættir starfsemi eða breytir rekstrarformi sínu, þ.e. er breytt í hlutafélag eða annars konar félag eða af öðrum orsökum hættir starfsemi. Í greininni er gert ráð fyrir þeim möguleika að sveitarfélög taki við hlutafé eða öðrum eignarheimildum sem jafngildi verðmæti þess fjár sem það ella hefði fengið samkvæmt þessu ákvæði.

Um 3. gr.

    Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 66. gr. laganna. Annars vegar er kveðið á um rétt viðskiptamanna, stofnfjáreigenda og einstaklinga á starfssvæði eða viðskiptasvæði sjóðsins til að taka þátt í útboði á nýju stofnfé. Stofnfé skal skipt jafnt milli þeirra sem óska að kaupa stofnbréf. Í ljósi tengsla sparisjóða við starfssvæði sín er nauðsynlegt að hverfa frá því að handvalið sé í flokka stofnfjáreigenda. Rétt þykir að festa það í lög þannig að einstaklingum og viðskiptamönnum sé ekki mismunað þegar valið er í þennan hóp.
    Hins vegar er hér lagt til að kveðið verði skýrt á um að ekki sé heimilt að veita stofnfjáreigendum forkaupsrétt að nýju stofnfé. Með þessu er tryggt að allir eigi aðgang að nýju stofnfé.

Um 4. gr.
    

    Greinin þarfnast ekki skýringar.