Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 101. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 101  —  101. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir á áhrifum rafmagnsveitulína orkuveitna, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann.

Flm.: Drífa Hjartardóttir, Kjartan Ólafsson, Dagný Jónsdóttir,
Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir,
Kolbrún Halldórsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að standa fyrir faraldsfræðilegri rannsókn á mögulegum áhrifum rafmagnsveitulína orkuveitna, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins.
    Rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöðum hennar skilað fyrir 1. október 2017.
    Ráðherra gefi Alþingi skýrslu um niðurstöður rannsóknarinnar strax að henni lokinni.

Greinargerð.


    Tillaga um rannsóknir á áhrifum háspennulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann var lögð fram á 126., 127., 128., 130., 131. og að nýju á 132. löggjafarþingi nokkuð breytt en var ekki útrædd.
    Flutningsmenn telja mikilvægt nú á tímum ört vaxandi tæknivæðingar að fram fari upplýst umræða um áhrif rafmagnsmannvirkja á fólk og telja að rannsóknir séu mikilvæg forsenda þess. Erlendar rannsóknir leiða æ meiri líkur að því að hvers konar rafsegulsvið geti haft alvarleg áhrif á heilsu og líðan fólks og jafnvel valdið krabbameini o.fl. Umræðan um rafsegulsvið og áhrif þess á mannslíkamann eykst stöðugt og undanfarin ár hafa augu almennings og fræðimanna beinst æ meira að umhverfinu til að skoða hvort orsakir sjúkdóma og vanheilsu sé að finna þar, þ.e. hvort rafmagnsmannvirki geti valdið heilsutjóni hjá þeim sem búa í nágrenni þeirra. Þá hefur einnig farið fram mikil umræða um aðstæður á vinnustöðum.
    Opinber bresk stofnun hefur viðurkennt opinberlega að tengsl geti verið milli krabbameinstilfella og háspennulína. Rannsóknir framkvæmdar af faraldsfræðingnum Richard Doll leiddu í ljós að börn sem búa í grennd við háspennulínur eiga frekar á hættu að fá krabbamein en önnur börn. Rannsóknarhópur í háskólanum í Toronto í Kanada og Hospital for Sick Children tilkynnti að rannsóknir hefðu sýnt að börn sem búa við há gildi rafsegulsviðs eiga frekar á hættu að fá hvítblæði en börn sem búa ekki við slík skilyrði. Mælingar á heimahögum veikra barna leiddu í ljós að 2–4 sinnum meiri líkur væru á að börn með hvítblæði hefðu búið við há gildi rafsegulsviðs.
    Jafnframt hafa faraldsfræðilegar rannsóknir Dana og Svía sýnt fram á tengsl milli hvítblæðis í börnum og búsetu í nálægð við rafmagnsmannvirki. Hið sama kann að gilda um fullorðna, en það er ekki vitað fyrir víst.
    Flutningsmenn benda á að á Íslandi hafa ekki verið settar neinar reglur um leyfilegan styrk rafsegulsviðs en í Noregi hafa verið gerðar ákveðnar varúðarráðstafanir meðan beðið er eftir skýrari niðurstöðum vísindarannsókna. Því er í norskri reglugerð um raforkuvirki kveðið á um að heimili, barnaheimili, barnaskólar eða aðrir staðir þar sem búast má við langvarandi dvöl barna, séu ekki nær 400 kV línu en 18 m. Hugsanlegt væri að gera skipulegar mælingar, t.d. í skólahúsnæði þar sem yngsta og væntanlega viðkvæmasta kynslóðin er langtímum saman, hugsanlega í óæskilega sterku rafsegulsviði.
    Í október 2005 kom út skýrsla á vegum breskrar heilbrigðisstofnunar (e.„Health Protection Agency“) þar sem leitast var við að skilgreina rafsegulóþol og greina það faraldsfræðilega. Niðurstaða skýrslunnar er að rafsegulóþol sé líkamleg veikindi en ekki andleg eins og talið hafði verið og er viðurkennt í henni að rafsegulsvið farsíma, háspennumastra og tölvuskjáa kunni að valda t.d. ógleði, svima, höfuðverk, hjartsláttartruflunum, minnisleysi og vöðvaverkjum. Í skýrslunni var leitast við að safna saman og meta gögn frá erlendum stofnunum og sjálfshjálparhópum vegna rafsegulóþols og voru mestar upplýsingar fengnar frá Svíþjóð. Svíar eru komnir lengst í að rannsaka rafsegulóþol en þar var viðurkennt árið 2000 að rafsegulóþol væri líkamleg veikindi. Talið er að fjöldi þeirra sem þjást af veikindunum þar sé um 300.000 manns. Rafsegulóþol getur bæði lýst sér í vandamálum tengdum húð og innvortis áhrifum, svo sem ógleði, höfuðverk, vöðvaverkjum, svima, óreglulegum hjartslætti, einbeitingarskorti, þreytu o.fl.
    Breska skýrslan er viðurkenning á nauðsyn þess að rannsaka rafsegulóþol ekki eingöngu með tilliti til orsaka veikindanna heldur einnig með tilliti til meðhöndlunar og lækninga. Fram kom að rannsóknir Breta muni á næstunni snúast um að lýsa rafsegulóþoli og skilja það og finna staði sem eru hentugir til að meðhöndla einkennin, en talið er að fjöldi þeirra Breta sem telja sig þjást af óþolinu hafi aukist mjög síðustu ár.
    Þegar skoðað var hvort og hvernig þeir sem töldu sig þjást af rafsegulóþoli vissu það kom fram að þeir fundu hvernig einkenni breyttust við að skipta um umhverfi. Þá kom fram að reynt hefði verið að minnka rafsegulsvið á heimilum fólks með sérstökum rafmagnslögnum, auk þess sem gaseldavélar hefðu tekið við af rafmagnseldavélum og álþynnur jafnvel verið lagðar á veggi, gólf, þök og glugga. Sérstaklega var talin þörf á að huga að farsímaneti, möstrum og grunnstöðvum, ekki síst ef grunnstöðvar eru í grennd við skóla eða sjúkrahús.
    Flutningsmenn telja mikilvægt fyrir heilsu þeirra sem þjást af rafsegulóþoli hér á landi að það verði viðurkennt sem sjúkdómur og rannsakað til þess að hægt sé að leggja áherslu á meðhöndlun og forvarnir. Þá telja flutningsmenn að starfsmenn geti jafnvel þurft að fá aðstoð hjá vinnuveitanda til að fá mælingar á rafsegulsviði og breytingar á skipulagi eða önnur tæki sem hafa minna rafsegulsvið. Þá geti þeir sjálfir látið gera mælingar heima fyrir og tilraunir með að breyta skipulagi þar og færa til tæki.
    Flutningsmenn telja tímabært að hér á landi verði framkvæmd faraldsfræðileg rannsókn á áhrifum rafmagnsveitulína, spennistöðva og fjarskiptamastra á mannslíkamann, sérstaklega með tilliti til nýgengis krabbameins og jafnvel út frá mismunandi hverfum eftir rafkerfum. Sum hverfi og byggðir hafa tveggja fasa rafkerfi og önnur þriggja fasa en mælingar hafa yfirleitt sýnt hærri gildi rafsegulsviðs þar sem þriggja fasa kerfi er. Ástæðan eru svokallaðir flökkustraumar sem geta myndast í þriggja fasa kerfi sem gera það að verkum að hitaveitulagnir geta verið með bullandi rafstraum og þar af leiðandi mjög hátt rafsegulsvið.
    Hér á landi eru á margan hátt kjöraðstæður til að gera faraldsfræðilegar rannsóknir á tengslum umhverfisþátta og hugsanlegri krabbameinshættu. Er þetta að þakka nákvæmum lýðskrám, sem geyma upplýsingar um búsetu og nýgengi krabbameins, og hugsanlegt er að rannsóknin geti verið afturvirk að einhverju leyti.
    Lagt er til að rannsóknin verði framkvæmd á næstu tíu árum og niðurstöður hennar kynntar Alþingi eigi síðar en 1. október 2017. Flutningsmenn benda á að slík rannsókn geti farið fram á vegum landlæknisembættisins, hugsanlega í samvinnu við fyrirtæki og opinberar stofnanir svo sem Geislavarnir ríkisins, Vinnueftirlit ríkisins, Löggildingarstofu og Orkustofnun. Þá telja þeir æskilegt að við rannsókn sem þessa sé leitað samstarfs við stjórnvöld og vísindamenn í öðrum ríkjum, t.d. innan Evrópusambandsins, og að rannsóknin verði hluti af fjölþjóðlegri rannsókn. Slíkt skyti styrkari stoðum bæði undir fjárhagslegan grundvöll verkefnisins og niðurstöðurnar.