Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 391. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 857  —  391. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Baldursdóttur um samtalsmeðferð við þunglyndi og kvíðaröskun.

     1.      Hversu margir sjúklingar eru í samtalsmeðferð við þunglyndi og kvíðaröskun á ári hverju?
    Samtalsmeðferð sjúklinga með þunglyndi og kvíðaraskanir fer fram víðs vegar í heilbrigðisþjónustunni, í heilsugæslunni, á sjúkrahúsum og hjá sjálfstætt starfandi geðlæknum og sálfræðingum. Nákvæmar upplýsingar um fjölda sjúklinga sem fá slíkra meðferð árlega liggja ekki fyrir með svo skömmum fyrirvara sem gefinn er til að svara fyrirspurnum. Þó er ljóst að mestur fjöldi sjúklinga í slíkri meðferð er á geðsviði Landspítala – háskólasjúkrahúss, á meðferðarstofum geðlækna og sálfræðinga, við geðdeild FSA, og á Reykjalundi, en samtalsmeðferð er að sjálfsögðu veitt á fleiri stofnunum en hér eru nefndar. Einnig er aukið framboð á slíkri meðferð í heilsugæslunni með tilkomu nýrrar sálfræðiþjónustu og sérverkefna á heilsugæslustöðvum.
    Fyrir utan bráðaþjónustu eru árlega veitt um 17.500 meðferðarviðtöl á göngudeild geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss samkvæmt upplýsingum yfirlæknis og um 3.000 viðtöl á Hvítabandinu. Þar er veitt margs konar sérhæfð samtalsmeðferð sem aðrar heilbrigðisstéttir en geðlæknar og sálfræðingar taka einnig þátt í að veita í meðferðarteymum með mikla sérþekkingu. Athuga ber að í ráðuneytinu eru einungis til upplýsingar um hve oft er komið í slíka meðferð en ekki um fjölda einstaklinga.
    Í ítarlegum skráningum Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að fjöldi árlegra meðferðarviðtala sjálfstætt starfandi geðlækna er um 38.000 og meðhöndla þeir á sjöunda þúsund manns árlega með ýmsum tegundum samtalsmeðferðar. Langflestir þessara sjúklinga, eða áætlað um níu af hverjum tíu, þjást af sjúklegu þunglyndi eða kvíðaröskun, sem eru algengustu geðsjúkdómarnir.
    Mikill fjöldi fólks leitar eftir ráðgjöf og meðferð hjá sjálfstætt starfandi sálfræðingum, en upplýsingar um umfang starfsemi þeirra liggja ekki fyrir.

     2.      Hversu margir hafa réttindi til að veita slíka meðferð hér á landi?
    Um 280 einstaklingar eru skráðir í Félag sálfræðinga, en óljóst er hve margir þeirra starfa við samtalsmeðferð. Um 70 manns hafa réttindi sem sérfræðingar í geðlækningum og barna- og unglingageðlækningum og meiri hluti þeirra starfar við að veita samtalsmeðferð af ýmsu tagi. Benda má á að aðrar starfsstéttir í heilbrigðisþjónustu veita einnig umtalsverða samtals- og stuðningsmeðferð, t.d. heimilislæknar, félagsráðgjafar og fjölskylduráðgjafar.

     3.      Hvað verið gert á vegum ráðuneytisins til að gefa sjúklingum kost á að velja samtalsmeðferð?
    Aðgengi sjúklinga að fjölbreyttum meðferðarmöguleikum geðheilbrigðisþjónustunnar er víðast hvar gott. Þó er áhyggjuefni að stærstur hluti þeirrar sérhæfðu geðheilbrigðisþjónustu sem er í boði er, er á höfuðborgarsvæðinu. Stefna ráðuneytisins er að efla og skipuleggja enn frekar slíka þjónustu á landsbyggðinni með aukinni fjarþjónustu fagstétta, en góð reynsla hefur þegar fengist í tilraunaverkefnum á þessu sviði. Einnig er það stefna ráðuneytisins að efla möguleika á samtalsmeðferð á heilsugæslustöðvum.
    Samtalsmeðferð er einn veigamesti þáttur meðferðar gegn þunglyndi og kvíðaröskunum með eða án ýmiss konar lyfjameðferðar, ráðgjafar og þjálfunar, allt eftir því hvað við á í hverju tilviki. Val á tegund samtalsmeðferðar gegn sjúkdómum er í höndum fagfólks og með samráði við sjúklinga.

     4.      Hver er afstaða ráðherra til greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar í slíkri meðferð hjá sálfræðingum?
    Á undanförnum missirum hefur verði unnið að því að byggja upp samtalsmeðferð sálfræðinga á heilsugæslustöðvum og greiða þá sjúklingar hluta raunverulegs kostnaðar með sama hætti og fyrir aðra þjónustu heilsugæslustöðva. Nokkur stöðugildi sálfræðinga hafa nú þegar fengist á heilsugæslustöðvum og er ætlunin að sú þróun haldi áfram þannig að þjónusta sálfræðinga verði sem víðast. Þar af leiðir að ekki verða teknar ákvarðanir um að greiða fyrir samtalsmeðferð sálfræðinga á stofum með aðild Tryggingastofnunar ríkisins þar sem þessi þjónusta mun verða veitt á heilsugæslustöðvum í framtíðinni.