Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 2. máls.

Þskj. 2  —  2. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings um þátttöku
Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu .

(Lagt fyrir Alþingi á 134. löggjafarþingi 2007.)




I. KAFLI
Utanríkisráðuneyti.
Lög um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993, með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi:
     8.      samning um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu, þ.e. meginmál samningsins og viðauka, sem áritaður var í Brussel 14. maí 2007.

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    1. mgr. 2. gr. samningsins, sem vísað er til í 8. tölul. 1. gr., um aðild nýrra samningsaðila að Evrópska efnahagssvæðinu, skal hafa lagagildi hér á landi.
    Þau ákvæði samningsins, sem vísað er til í 7. mgr., eru prentuð sem fylgiskjal VII með lögum þessum.

II. KAFLI
Félagsmálaráðuneyti.
Lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins,
nr. 47/1993, með síðari breytingum.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ákvæði 1.–6. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68, um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins, ásamt síðari breytingum, taka þó ekki gildi um atvinnu- og búseturétt ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu fyrr en 1. janúar 2009. Hið sama gildir um aðstandendur þessara ríkisborgara skv. 10. og 11. gr. sömu reglugerðar.

Lög um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, með síðari breytingum.
4. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ákvæði a-liðar 14. gr. tekur þó ekki gildi að því er varðar rétt ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu til að starfa hér á landi fyrr en 1. janúar 2009, sbr. þó 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

III. KAFLI
Dómsmálaráðuneyti.
Lög um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum.
5. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Ákvæði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna tekur ekki gildi fyrir ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu fyrr en 1. janúar 2009. Þá taka ákvæði 1. mgr. 35. gr. laganna um heimild EES- eða EFTA-útlendings til dvalar án sérstaks leyfis í sex mánuði ef hann er í atvinnuleit og ákvæði 4. mgr. 35. gr. laganna um heimild EES- eða EFTA-útlendings til að sækja um dvalarleyfi eftir komu til landsins ekki gildi fyrir ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu fyrr en 1. janúar 2009.

IV. KAFLI
Gildistaka.
6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi
.


    Fylgiskjal VII með lögum um Evrópska efnahagssvæðið,
nr. 2/1993, með síðari breytingum.


1. MGR. 2. GR. AÐILDARSAMNINGS EES

2. gr.

1.     BREYTINGAR Á MEGINMÁLI EES-SAMNINGSINS
    a)    Inngangsorð:
              Í stað skrár um samningsaðila komi eftirfarandi:
            „EVRÓPUBANDALAGIÐ,
            KONUNGSRÍKIÐ BELGÍA,
            LÝÐVELDIÐ BÚLGARÍA,
            LÝÐVELDIÐ TÉKKLAND,
            KONUNGSRÍKIÐ DANMÖRK,
            SAMBANDSLÝÐVELDIÐ ÞÝSKALAND,
            LÝÐVELDIÐ EISTLAND,
            LÝÐVELDIÐ GRIKKLAND,
            KONUNGSRÍKIÐ SPÁNN,
            LÝÐVELDIÐ FRAKKLAND,
            ÍRLAND,
            LÝÐVELDIÐ ÍTALÍA,
            LÝÐVELDIÐ KÝPUR,
            LÝÐVELDIÐ LETTLAND,
            LÝÐVELDIÐ LITHÁEN,
            STÓRHERTOGADÆMIÐ LÚXEMBORG,
            LÝÐVELDIÐ UNGVERJALAND,
            LÝÐVELDIÐ MALTA,
            KONUNGSRÍKIÐ HOLLAND,
            LÝÐVELDIÐ AUSTURRÍKI,
            LÝÐVELDIÐ PÓLLAND,
            LÝÐVELDIÐ PORTÚGAL,
            RÚMENÍA,
            LÝÐVELDIÐ SLÓVENÍA,
            LÝÐVELDIÐ SLÓVAKÍA,
            LÝÐVELDIÐ FINNLAND,
            KONUNGSRÍKIÐ SVÍÞJÓÐ,
            HIÐ SAMEINAÐA KONUNGSRÍKI STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR- ÍRLANDS,
            OG
            ÍSLAND,
            FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN,
            KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,“.
    b)     2. gr.:
            i)         Í b-lið falli niður orðið „Lýðveldið“.
            ii)     Eftirfarandi bætist við á eftir d-lið:
                „e)        hugtakið „aðildarlögin frá 25. apríl 2005“ lög um aðildarskilmála Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu og aðlögun sáttmálanna sem mynda grundvöll Evrópusambandsins, sem voru samþykkt í Lúxemborg 25. apríl 2005.
                f)        hugtakið „aðildarbókunin frá 25. apríl 2005“ bókun um skilyrði og tilhögun aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu, sem var samþykkt í Lúxemborg 25. apríl 2005.“.
    c)     117. gr.:
              Í stað texta 117. gr. komi eftirfarandi:
            „Ákvæði um fjármagnskerfin er að finna í bókun 38, bókun 38a og viðauka við bókun 38a.“;
    d)     126. gr.:
            Í 1. mgr. falli niður orðið „Lýðveldið“.
    e)     129. gr.:
            i)         Í stað annarrar undirgreinar 1. málsgreinar komi eftirfarandi:
                    „Vegna stækkana Evrópska efnahagssvæðisins telst texti samnings þessa jafngildur á búlgörsku, eistnesku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, rúmensku, slóvensku, slóvösku, tékknesku og ungversku.“.
              ii)     Í stað þriðju undirgreinar 1. málsgreinar komi eftirfarandi:
                    „Textar gerða, sem vísað er til í viðaukunum, eru jafngildir á búlgörsku, dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, portúgölsku, rúmensku, slóvensku, slóvösku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku eins og þeir birtast í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og skulu með tilliti til jafngildingar þýddir á íslensku og norsku og birtir í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.“.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.



I. INNGANGUR

    Með frumvarpi þessu er leitað eftir heimild Alþingis til að fullgilda samning um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu, sem hér eftir verður nefndur „aðildarsamningur EES“. Jafnframt er lagt til að þær breytingar sem gerðar eru á meginmáli EES-samningsins með aðildarsamningnum hafi lagagildi hér á landi. Enn fremur eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES, lögum um atvinnuréttindi útlendinga og lögum um útlendinga vegna aðlagana sem gerðar voru vegna ákvæða um frjálsa för launþega, en aðildarríkjum er heimilt að beita eigin reglum á þessu sviði í ákveðinn tíma frá aðild nýju ríkjanna.
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var undirritaður í Óportó hinn 2. maí 1992. Var samningurinn fullgiltur af Íslands hálfu með heimild í lögum nr. 2 frá 13. janúar 1993. Meginmarkmið samningsins er að mynda öflugt og einsleitt evrópskt efnahagssvæði er grundvallast á sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum, tryggri framkvæmd, m.a. fyrir dómstólum, og jafnrétti, gagnkvæmni og heildarjafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila. EES-samningurinn tryggir EES–EFTA-ríkjunum þátttöku í innri markaði Evrópusambandsins, án þess að EFTA-ríkin teljist vera fullgildir aðilar að Evrópusambandinu með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Með innri markaði Evrópusambandsins er stefnt að því að koma á frjálsum viðskiptum með vörur og þjónustu, frjálsum fjármagnsflutningum, sameiginlegum vinnumarkaði, sameiginlegum samkeppnisreglum og sameiginlegum reglum um ríkisaðstoð. EES-samningurinn endurspeglar því reglur Evrópusambandsins á þessum sviðum.
    Þegar samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var fullgiltur fyrir Íslands hönd var farin sú leið að leita lagaheimildar fyrir fullgildingu hans og lögfesta meginmál samningsins. Sú aðferð var einnig viðhöfð við breytingu á samningnum árið 2004 við stækkun ESB. Í samræmi við þetta er lagt til að sami háttur verði hafður á varðandi aðildarsamning EES vegna Búlgaríu og Rúmeníu enda felur aðildarsamningurinn í sér breytingar á ákvæðum meginmáls EES-samningsins.
    Aðildarsamningur EES var áritaður 14. maí 2007. Aðilar samningsins eru Evrópubandalagið, aðildarríki þess (hér eftir nefnd ESB-ríkin eða aðildarríki ESB), Ísland, Furstadæmið Liechtenstein, Konungsríkið Noregur (hér eftir nefnd EES–EFTA-ríkin) og Lýðveldið Búlgaría og Rúmenía (hér eftir nefnd nýju aðildarríkin eða nýju samningsaðilarnir). Aðildarsamningur EES, ásamt lokagerð, er birtur í fylgiskjali I með frumvarpi þessu. Fylgisamningarnir fylgja með lokagerð aðildarsamningsins. Á lestrarsal Alþingis munu auk þess liggja frammi aðildarsáttmáli ESB og meginmál aðildarlaganna ásamt þeim ákvæðum þeirra sem vísað er til í viðaukum A og B við aðildarsamning EES. Einnig má nálgast aðildarsáttmála ESB, meginmál aðildarlaganna og þau ákvæði þeirra sem vísað er til í viðaukum A og B við aðildarsamning EES á vefsetri utanríkisráðuneytisins (http://www.ees.is).

II. AÐILDARSAMNINGUR EES

1.    Ákvæði 128. gr. EES-samningsins.
    Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 128. gr. EES-samningsins getur aðild nýrra samningsaðila komið til með tvennum hætti. Annars vegar er ríki sem gengur í EFTA heimilt að sækja um aðild að EES-samningnum. Hins vegar er ríki sem gerist aðili að Evrópusambandinu skylt að gerast jafnframt aðili að EES-samningnum. Helgast þessi munur af því að ný aðildarríki Evrópusambandsins verða sjálfkrafa aðilar að innri markaðinum og því nauðsynlegt að þau séu einnig aðilar að EES-samningnum. Það er hins vegar sjálfstæð ákvörðun nýs EFTA-ríkis hvort það sækist eftir þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu.
    Samkvæmt 2. mgr. 128. gr. skulu samningsaðilar og umsóknarríki gera með sér samkomulag um skilmála og skilyrði fyrir slíkri aðild. Af þessum sökum er nauðsynlegt að gera sérstakan samning um aðild nýrra samningsaðila að EES-samningnum. Þá leiðir jafnframt af öðrum ákvæðum í meginmáli EES-samningsins að ef nýtt ríki gerist aðili að samningnum er nauðsynlegt að gera aðlaganir á meginmáli hans. Að öðru leyti er ekki að finna ákvæði í EES-samningnum um efni eða form slíks aðildarsamnings. Aðilar að slíkum aðildarsamningi eru núverandi samningsaðilar (þ.e. Evrópubandalagið sjálft, aðildarríki þess og EFTA-ríkin) og hinir nýju samningsaðilar.

2.    Stækkun Evrópusambandsins – aðildarsáttmáli Evrópusambandsins.
a)    Forsaga stækkunar ESB.
    Hinn 25. apríl 2005 var í Lúxemborg undirritaður sáttmáli um aðild Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu sem hér eftir verður nefndur „aðildarsáttmáli ESB“. Fyrirhugað hafði verið að Búlgaría og Rúmenía gerðust aðilar að Evrópusambandinu í apríl 2003, þegar tíu ríki fengu aðild að sambandinu, en þeim tókst ekki að uppfylla öll skilyrði aðildar fyrir þann tíma. Aðild þeirra varð hins vegar að veruleika þann 1. janúar 2007. Eftir stækkunina varð Evrópusambandið að sambandi 27 þjóðríkja í Evrópu með tæplega hálfan milljarð íbúa. Um aðdraganda stækkunarinnar og frekari skýringar vísast til greinargerðar með frumvarpi vegna stækkunar EES árið 2004.

b)    Aðildarsáttmálinn og aðildarlögin.
    Samningurinn um inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu sem undirritaður var í Lúxemborg er nefndur aðildarsáttmálinn. Sjálft meginmál aðildarsáttmálans, þar sem kveðið er á um aðild ríkjanna að sambandinu og stofnsáttmálum þess, er fremur stutt. Nánari ákvæði um aðildina er að finna í svonefndum aðildarlögum. Aðildarlögin er að finna í viðauka við aðildarsáttmálann og eru því hluti hans. Í aðildarlögunum er að finna nánari skilmála fyrir inngöngu þessara ríkja í Evrópusambandið. Er þar m.a. mælt fyrir um aðlögun að löggjöf Evrópusambandsins vegna aðildar nýju aðildarríkjanna að sambandinu.

3.    Viðræður um stækkun EES.
    Eins og áður er getið er nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins skylt að sækja um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu skv. 128. gr. EES-samningsins. Af þessum sökum var nauðsynlegt að hefja viðræður um þátttöku nýju aðildarríkjanna í Evrópska efnahagssvæðinu um leið og samkomulag hafði náðst um aðild þeirra að Evrópusambandinu. Hófust þær viðræður í júlí 2006 þegar líkur stóðu til þess að af aðild ríkjanna tveggja að Evrópusambandinu mundi verða frá ársbyrjun 2007.
    Meginmarkmið viðræðnanna var að tryggja samhliða stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins þannig að nýju aðildarríkin yrðu samtímis aðilar að Evrópusambandinu og EES-samningnum. Í því skyni var nauðsynlegt að semja um þátttöku þessara ríkja í EES-samningnum og gera um leið nauðsynlegar breytingar á ákvæðum EES-samningsins. Í fyrsta lagi kallaði aðild nýju samningsaðilanna á aðlögun á meginmáli EES- samningsins. Í öðru lagi var nauðsynlegt að fella inn í EES-samninginn þær aðlaganir, sem gerðar eru á löggjöf Evrópusambandsins í aðildarlögunum, svo að tryggja mætti samræmda beitingu þessarar löggjafar á öllu efnahagssvæðinu. Segja má að í þessu felist að niðurstaða stækkunarviðræðna Evrópusambandsins sé felld inn í EES-samninginn, að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt. Í meginatriðum var hér fyrst og fremst um að ræða lagatæknilega uppfærslu á EES-samningnum vegna stækkunar Evrópusambandsins og gekk þessi þáttur viðræðnanna um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins snurðulaust fyrir sig.
    Helsta samningsmarkmið Íslands í stækkunarviðræðunum var að tryggja að stækkun Evrópska efnahagssvæðisins mundi ekki leiða til slakari viðskiptakjara en fríverslunarsamningar EFTA-ríkjanna við nýju samningsaðilana höfðu þegar tryggt. Af þeim sökum lögðu Ísland og Noregur áherslu á frekari tollalækkanir vegna viðskipta með sjávarafurðir. Var sú krafa byggð á því að með aðild hinna nýju aðildarríkja að Evrópusambandinu mundu fríverslunarsamningar sem nýju aðildarríkin höfðu gert við EFTA-ríkin falla úr gildi, en í þeim samningum var m.a. kveðið á um fulla fríverslun með sjávarafurðir. Af hálfu Evrópusambandsins lagði framkvæmdastjórn þess hins vegar áherslu á aukin framlög EFTA-ríkjanna til þróunarsjóðs EFTA í líkingu við niðurstöðu síðustu samninga um stækkun EES-svæðisins.
    Í samningaviðræðunum reyndust þessi málefni erfiðust viðfangs ekki síst vegna þess að Noregur sótti fast að fyrirkomulag það sem samið var um við fyrri stækkun yrði ekki viðhaft vegna nýju aðildarríkjanna, þ.e. sérstakt tvíhliða framlag Noregs til viðbótar við framlög EFTA-ríkjanna. Samningaviðræðunum lauk formlega 14. maí 2007 með áritun samnings um þátttöku nýju samningsaðilanna í EES. Er gert ráð fyrir að hann verði formlega undirritaður í júlí nk.

4.    Niðurstaða samningaviðræðnanna.
    Niðurstaða samningaviðræðnanna gerir ráð fyrir því að framlög til Þróunarsjóðs EFTA verði aukin um alls 72 milljónir evra á 28 mánaða tímabili sem miðast við tímabilið frá 1. janúar 2007 til 30. apríl 2009. Er þessi niðurstaða nokkuð lægri en upphaflegar kröfur Evrópusambandsins og verður í því ljósi að teljast viðunandi fyrir EES–EFTA-ríkin. Öll sú fjárhæð sem hér um ræðir mun renna til ríkjanna tveggja þannig að um 1.850 milljónir renni til Búlgaríu og um 4.350 milljónir til Rúmeníu á fyrrgreindu tímabili. Rennur þetta fjármagn til umhverfisverndar, sjálfbærrar þróunar, verndunar menningararfleifðar, þróunar mannauðs og heilbrigðismála en það eru sömu málaflokkar og gilda um þau ríki sem urðu aðilar að EES-samningnum árið 2004.
    Þá gerir samkomulagið enn fremur ráð fyrir því að Evrópusambandið felli niður tolla á frystum humri og ferskum karfaflökum þannig að kvótar í þessum tegundum aukist annars vegar um 520 tonn og hins vegar 750 tonn. Hafa ber í huga að samkvæmt núgildandi fríverslunarsamningum Íslands við nýju samningsaðilana báru þessar afurðir ekki tolla. Hins vegar hefðu þessar afurðir að öllu óbreyttu borið annars vegar 12% (humar) og 5,4% (karfi) toll við inngöngu nýju aðildarríkjanna í Evrópusambandið. Miðað við útflutning frá Íslandi til Evrópusambandsins á þessum tegundum er um verulega hagsmuni að ræða fyrir íslenska framleiðendur og má áætla að lækkun tolla nemi á ársgrundvelli allt að 70 millj. kr. Rétt er að vekja athygli á því að þessir kvótar eru tímabundnir til sama tíma og fjárframlag til Þróunarsjóðs EFTA líkt og þeir kvótar sem samið var um við fyrri stækkun EES-svæðisins, að síldarsamflökunum slepptum, en þau voru endurskilgreind sem flök í tollaskrá ESB og bera því engan toll.

5.    Frjáls för launþega.
    Í aðildarsamningi ESB var samið um sérstaka aðlögun á löggjöf Evrópusambandsins gagnvart hinum nýju aðildarríkjum á tilteknum sviðum. Meðal þess sem gerður var fyrirvari um var gildistaka ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68, um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins, með síðari breytingum. Samningarnir um inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu í Evrópusambandið gera því ekki ráð fyrir að þau ákvæði taki gildi að því er varðar frjálsa för ríkisborgara þessara ríkja sem launamanna innan svæðisins fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2009. Enn fremur er aðildarríkjum Evrópusambandsins gert heimilt að fresta gildistöku ákvæðanna í allt að fimm ár til viðbótar eða til 1. janúar 2014, en nánar er fjallað um útfærslu þessa í umfjöllun um viðauka B síðar í athugasemdunum. Sömu aðlaganir voru gerðar í aðildarsamningnum að Evrópska efnahagssvæðinu og hafa EES–EFTA-ríkin því sömu heimildir til aðlagana á þessu sviði.
    Nokkur þensla hefur ríkt á íslenskum vinnumarkaði á síðustu missirum og hefur mælst tiltölulega lítið atvinnuleysi. Í kjölfarið hefur erlendum ríkisborgurum fjölgað mikið á innlendum vinnumarkaði en hlutfall útlendinga er orðið um 9% af áætluðum heildarmannfjölda á vinnumarkaði. Ástæðu þessarar fjölgunar má rekja meðal annars til stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins til austurs 1. maí 2004 en reynslan hefur sýnt að nokkur hreyfanleiki hafi verið meðal ríkisborgara þeirra ríkja er þá gerðust aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
    Þrátt fyrir umframeftirspurn eftir vinnuafli á síðustu missirum þarf jafnframt að líta til þess að íslenskur vinnumarkaður er smár í sniðum í samanburði við vinnumarkaði nágrannaríkja okkar. Þegar litið er til reynslunnar geta aðstæður á vinnumarkaði breyst hratt. Þá þarf að líta til hugsanlegra langtímaáhrifa frá stækkun Evrópska efnahagssvæðisins, en svo virðist sem erlendir ríkisborgarar dveljist hér í lengri tíma en áður og hugi jafnvel að langtímadvöl. Er því mikilvægt að unnt verði að fylgjast mjög vel með hversu margir launamenn koma hingað til lands frá Rúmeníu og Búlgaríu til viðbótar því launafólki sem þegar hefur aðgengi að lausum störfum á innlendum vinnumarkaði.
    Að teknu tilliti til framangreinds er talin ástæða til að leggja til með frumvarpi þessu að gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68, um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins, ásamt síðari breytingum, verði frestað tímabundið samkvæmt efni sínu að því er varðar aðgengi ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu að íslenskum vinnumarkaði. Ákvæði 1. gr. reglugerðarinnar fjallar um rétt ríkisborgara annarra aðildarríkja að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið til að ráða sig til vinnu hér á landi á sömu forsendum og íslenskir ríkisborgarar. Er íslenskum stjórnvöldum óheimilt að takmarka aðgang ríkisborgara annarra aðildarríkja samningsins um Evrópska efnahagssvæðið að vinnumarkaði sínum, sbr. 3. og 4. gr. reglugerðarinnar. Í þessu felst meðal annars að skv. 6. gr. er óheimilt að setja sérstök skilyrði er varða heilsufar, sérþekkingu eða annað það sem mismunar ríkisborgurum annarra aðildarríkja í samanburði við íslenska ríkisborgara sem gegna sama starfi. Þá skulu ríkisborgarar annarra aðildarríkja njóta sömu aðstoðar vinnumiðlunar hér á landi og íslenskir ríkisborgarar njóta, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Er gert ráð fyrir að ákvæði þessi muni taka að fullu gildi í fyrsta lagi 1. janúar 2009 að því er varðar ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu. Önnur ákvæði reglugerðarinnar öðlast hins vegar gildi gagnvart hinum nýju ríkjum við gildistöku aðildarsamnings EES eftir því sem við getur átt.
    Það leiðir af frestun gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68 að ákvæði a-liðar 14. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga tekur ekki gildi fyrr en 1. janúar 2009 að því er varðar ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu. Munu því ákvæði laga um atvinnuréttindi útlendinga um veitingu atvinnuleyfa gilda áfram eins og verið hefur um atvinnuréttindi ríkisborgara þessara aðildarríkja. Er því gert ráð fyrir að tímabundið atvinnuleyfi skuli liggja fyrir áður en umræddir ríkisborgarar koma í fyrsta skipti til starfa á Íslandi. Við útgáfu atvinnuleyfa til þessara ríkisborgara er þó heimilt að beita ákvæði 3. mgr. 8. gr. laga um atvinnuréttindi útlendinga og gefa leyfin út til lengri tíma en getið er um í 2. mgr. 8. gr. laganna. Í þessu sambandi má benda á að samkvæmt aðildarsamningi EES, sbr. viðauka B, er núverandi aðildarríkjum gert að veita launamönnum sem eru ríkisborgarar Búlgaríu og Rúmeníu forgang fram yfir ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins að því er varðar aðgengi að vinnumarkaði sínum á því tímabili sem innlendum ráðstöfunum er beitt. Enn fremur er einstökum ríkjum óheimilt að synja þeim um áframhaldandi aðgengi að vinnumarkaði sínum uppfylli hlutaðeigandi áfram þau skilyrði sem í gildi eru fyrir útgáfu atvinnuleyfa eftir að hafa starfað í viðkomandi ríki í tólf mánuði eða lengur. Á þetta við hvort sem hlutaðeigandi fær atvinnuleyfi fyrir gildistöku aðildarsamnings EES eða síðar.
    Að lokum er lagt til að þau ákvæði útlendingalaga sem kveða á um að EES- eða EFTA- útlendingur eigi rétt á dvalarleyfi hér á landi framvísi hann gögnum sem sýna að hann sé launþegi sem falli undir lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan EES-svæðisins taki ekki til þeirra sem eru ríkisborgarar í Búlgaríu og Rúmeníu. Jafnframt er lagt til að sömu takmarkanir eigi við um þau ákvæði laganna sem heimila EES- eða EFTA-útlendingi að dveljast hér á landi án sérstaks leyfis í sex mánuði ef hann er hér í atvinnuleit eða til að sækja um dvalarleyfi eftir komu til landsins.

III. MEGINEFNI AÐILDARSAMNINGS EES

    Aðildarsamningi EES má skipta í þrjá meginhluta. Í fyrsta lagi er í 1. mgr. 2. gr. samningsins að finna ákvæði um nauðsynlegar breytingar á meginmáli EES-samningsins vegna aðildar nýju samningsaðilanna að samningnum. Í öðru lagi mælir 2. mgr. 2. gr. samningsins fyrir um breytingar á bókunum við samninginn. Í þriðja lagi er í viðaukum A og B við samninginn að finna nauðsynlegar tæknilegar og efnislegar aðlaganir á þeirri löggjöf Evrópusambandsins sem felld hefur verið inn í EES-samninginn.
    Við núverandi stækkun er farin önnur leið en síðast varðandi aðlaganir á löggjöf sambandsins. Í viðauka A við samninginn er einungis að finna mjög afmarkaðar tæknilegar aðlaganir á tilteknum gerðum sambandsins, en mestur hluti tæknilegra aðlagana verður hins vegar gerður í formi ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar eftir að samningurinn hefur tekið gildi. Efnislegar aðlaganir svo sem aðlögunartíma er hins vegar að finna í viðauka B.

1.    Aðlögun á meginmáli EES-samningsins.
    Þær breytingar á meginmáli EES-samningsins sem kveðið er á um í aðildarsamningnum eru fyrst og fremst tæknilegar uppfærslur á ákvæðum samningsins sem nauðsynlegar eru vegna þátttöku nýju samningsaðilanna í Evrópska efnahagssvæðinu.

2.    Aðlögun á bókunum við EES-samninginn.

    Í aðildarsamningi EES eru gerðar breytingar á þremur bókunum við EES-samninginn. Í fyrsta lagi eru gerðar minni háttar tæknilegar breytingar á bókun 4 um upprunareglur. Í öðru lagi er gerð breyting á bókun 38a um fjármagnskerfi EES til að auka sveigjanleika í starfsemi sjóðsins, auk þess sem sérstakur viðauki bætist við bókunina um sérstök framlög til Búlgaríu og Rúmeníu. Í þriðja lagi er gerð breyting á bókun 44 varðandi beitingu öryggisákvæða samningsins vegna núverandi stækkunar líkt og gert var við síðustu stækkun árið 2004.

3.    Aðlögun á viðaukum EES-samningsins.
    Í viðaukum við EES-samninginn er að finna tilvísun til þeirrar löggjafar Evrópusambandsins sem felld hefur verið inn í EES-samninginn og nauðsynlegt reynist að aðlaga vegna stækkunar EES-svæðisins. Aðildarlög stækkunarsamnings ESB mæla fyrir um aðlögun á hluta löggjafar Evrópusambandsins. Er hér bæði um að ræða tæknilega aðlögun sem beinlínis er nauðsynleg vegna stækkunarinnar og einnig aðlögunarákvæði sem ástæða var talin að setja vegna aðstæðna í hinum nýju aðildarríkjum. Til að tryggja samræmda beitingu þessara reglna á öllu Evrópska efnahagssvæðinu er nauðsynlegt að fella breytingar af þessu tagi inn í EES- samninginn.
    Í viðaukum A og B við aðildarsamning EES er mælt fyrir um þær breytingar á viðaukum EES-samningsins sem nauðsynlegar eru sökum þeirrar aðlögunar á löggjöf Evrópusambandsins sem leiðir af aðildarlögunum. Er þar aðallega um að ræða efnislegar aðlaganir, en flestar tæknilegar aðlaganir verða hins vegar gerðar með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar eftir að aðildarsamningurinn tekur gildi, líkt og áður greinir.

4.    Fylgisamningar við aðildarsamning EES.
    Líkt og við síðustu stækkun árið 2004 voru gerðir sérstakir fylgisamningar um málefni sem varða samskipti EES–EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið en falla eigi að síður utan gildissviðs EES-samningsins. Alls eru þessir fylgisamningar fjórir að tölu.
    Ísland er aðeins aðili að einum þessara samninga. Er þar um að ræða viðbótarbókun við fríverslunarsamning Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu frá 22. júlí 1972, en þar er mælt fyrir um aukinn tollfrjálsan innflutningskvóta fyrir humar og karfaflök.
    Hinir fylgisamningarnir þrír varða eingöngu Noreg. Er þar um að ræða sambærilega viðbótarbókun við fríverslunarsamning Noregs við Efnahagsbandalag Evrópu frá árinu 1973, sem og tvo samninga í formi bréfaskipta milli Noregs og ESB um framlög Noregs til þróunarverkefna í nýju aðildarríkjunum.

IV. ATHUGASEMDIR VIÐ AÐILDARSAMNING EES

1.    Inngangsorð samningsins.
    Inngangsorð samningsins eru almenns eðlis. Fyrst er vísað til þess að sáttmáli um aðild nýju samningsaðilanna að Evrópusambandinu hafi verið undirritaður í Lúxemborg 25. apríl 2005. Þá er vísað til ákvæðis 128. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og til þess að nýju samningsaðilarnir hafi sótt um að gerast aðilar að EES-samningnum. Þá er enn fremur tekið fram að fjalla skuli um skilyrði og skilmála fyrir slíkri þátttöku í samningi milli núverandi samningsaðila og umsóknarríkjanna.

2.    Athugasemdir við 1. gr. samningsins.
    Í 1. gr. samningsins er kveðið á um að Búlgaría og Rúmenía skuli öðlast aðild að EES- samningnum.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skulu ákvæði EES-samningsins vera skuldbindandi fyrir nýju ríkin um leið og samningurinn öðlast gildi, með áorðnum breytingum samkvæmt þeim ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem samþykktar voru fyrir 1. október 2004. Hafa ber í huga að EES-samningurinn er síbreytilegur þar sem stöðugt er verið að bæta við samninginn nýrri löggjöf Evrópusambandsins. Af þeim sökum var nauðsynlegt að tiltaka við hvaða tímamark skyldi miða við gerð samningsins. Á seinni stigum mun sameiginlega EES- nefndin afgreiða nauðsynlegar aðlaganir á gerðum sem felldar hafa verið inn í EES- samninginn á tímabilinu frá 1. október 2004 til þess dags þegar stækkunarsamningur EES tekur gildi líkt og getið hefur verið að framan.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. skal EES-samningurinn binda nýju samningsaðilana með sama hætti og núverandi samningsaðila í samræmi við frekari ákvæði sjálfs aðildarsamningsins. Hafa ber í huga að í aðildarsamningnum er að finna ákvæði um hvernig nánar skuli beita tilteknum EES-reglum gagnvart hinum nýju samningsaðilum.
    Í 3. mgr. 1. gr. er hnykkt á því að viðaukar við aðildarsamninginn skuli teljast óaðskiljanlegur hluti hans.

3.    Athugasemdir við 1. mgr. 2. gr. samningsins (breytingar á meginmáli EES-samningsins).
    Ákvæði 2. gr. samningsins eru tvíþætt. Í 1. mgr. er mælt fyrir um þá aðlögun á meginmáli samningsins sem nauðsynleg er vegna þátttöku nýju samningsaðilanna í EES. Í 2. mgr. er hins vegar fjallað um breytingar á bókun 4, bókun 38a og viðauka við hana, sem og bókun 44 við EES-samninginn.
    Það leiðir af 98. gr. EES-samningsins að samningsaðilar verða að gera nýjan samning sín á milli til að breyta meginmáli samningsins. Þær breytingar sem mælt er fyrir um í aðildarsamningnum á meginmáli EES-samningsins hnika í engu beinum efnisákvæðum samningsins. Þær breytingar sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 2. gr. aðildarsamningsins eru í raun eingöngu tæknileg uppfærsla á texta meginmáls EES-samningsins.
    Rétt er að vekja athygli á að þar sem meginmál EES-samningsins hefur lagagildi, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993, er nauðsynlegt að 1. mgr. 2. gr. aðildarsamningsins sé sömuleiðis fengið lagagildi. Sjá nánar athugasemdir við 2. gr. frumvarpsins.

     A-liður 1. mgr.
    Hér er mælt fyrir um breytingu á skrá yfir samningsaðila í upphafsorðum EES- samningsins. Hinum nýju aðildarríkjum, Búlgaríu og Rúmeníu, er bætt við í upptalningu samningsaðila.

     B-liður 1. mgr.
    Í ákvæðinu eru gerðar breytingar á 2. gr. með því að taka út tilvísun í „lýðveldið“ hvað Ísland varðar og með viðbótarskilgreiningu á hugtökunum „aðildarlögin frá 25. apríl 2005“ og „aðildarbókunin frá 25. apríl 2005“.

     C-liður 1. mgr.
    Í ákvæðinu er kveðið á um að ákvæði um fjármagnskerfið sé að finna í bókun 38, bókun 38a og viðauka við bókun 38a.

     D-liður 1. mgr.
    Í ákvæðinu er kveðið á um að taka eigi út tilvísun í „lýðveldið“ hvað Ísland varðar í 126. gr. samningsins.

     E-liður 1. mgr.
    Í ákvæðinu er kveðið á um breytingu á 129. gr. EES-samningsins sem fjallar um tungumál samningsins og texta gerða í viðaukum. Er þar mælt fyrir um að EES-samningurinn skuli vera gefinn út á opinberum tungumálum nýju samningsaðilanna og skulu þær útgáfur vera jafngildar. Gildir það einnig um þær gerðir sem vísað er til í viðaukum við samninginn.

4.    Athugasemdir við 2. mgr. 2. gr. (breytingar á bókunum við EES-samninginn).
    Í 2. mgr. 2. gr. aðildarsamningsins er kveðið á um eftirfarandi breytingar á bókunum samningsins:

a)    Bókun 4 um upprunareglur.
    Breyting á bókuninni kveður m.a. á um að taka eigi út tilvísun til Rúmeníu og Búlgaríu sem ríkja sem ekki eru aðildarríki ESB í 2. gr. bókunarinnar. Jafnframt er texta rúmenskra og búlgarskra reikningsyfirlýsinga bætt við í viðauka við bókunina til þess að hann liggi ljós fyrir líkt og er með önnur aðildarríki.

b)    Bókun 38a um fjármagnskerfi EES.
    Í bókun 38a er að finna ákvæði um fjármagnskerfi EES. Gerð er minni háttar breyting á 3. mgr. 4. gr. bókunarinnar með því að orðið „getur“ kemur í stað orðsins „skal“ varðandi yfirferð framkvæmdastjórnarinnar á umsóknum um styrki. Þetta er gert til að auka sveigjanleika í starfsemi sjóðsins og mati á umsóknum.
    Jafnframt er gerður viðauki við bókun 38a hvað varðar fjárhagsaðstoð við Búlgaríu og Rúmeníu sérstaklega.

     Um 1. gr. viðauka við bókun 38a.
    1. mgr. ákvæðisins kveður á um að bókun 38a skuli almennt gilda um Búlgaríu og Rúmeníu. Í framhaldinu er að finna nokkrar undanþágur frá þessari almennu reglu: i) 6. gr. bókunarinnar skal ekki gilda um þessi ríki og verður því ekki um neina endurúthlutun á framlagi til Búlgaríu og Rúmeníu til annarra ríkja að ræða, ii) 7. gr. bókunarinnar skal ekki gilda um þessi ríki, en ákvæðið varðar tvíhliða greiðslur Norðmanna, iii) framlög til frjálsra félagasamtaka mega nema allt að 90% verkefniskostnaðar.

     Um 2. gr. viðauka við bókun 38a.
    Bein fjárhagsaðstoð til Búlgaríu og Rúmeníu skal alls nema 72 milljónum evra. Til Búlgaríu skulu renna 21,5 milljónir og til Rúmeníu 50,5 milljónir á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. apríl 2009. Fjárframlögin þurfa að vera þeim til ráðstöfunar frá gildistöku stækkunarsamningsins eða beitingu hans til bráðabirgða og skulu greiðslur vera eingreiðslur á árinu 2007.

c)    Bókun 44 um verndarráðstafanir við stækkun Evrópska efnahagssvæðisins.
    Vísast til greinargerðar með frumvarpi um stækkun EES árið 2004 um almenna skýringu á bókun 44. Í breytingunni felst að samsvarandi ákvæðum aðildarlaganna frá 2005 er bætt inn í bókunina til þess að tryggja að heimildir til verndarráðstafana gildi einnig gagnvart Búlgaríu og Rúmeníu.

5.    Athugasemdir við 3. og 4. gr.
    Í aðildarviðræðum Evrópusambandsins náðist samkomulag um að gera margvíslegar aðlaganir á löggjöf Evrópusambandsins vegna stækkunarinnar sem kalla á breytingar á löggjöf þess. Er mælt fyrir um þessar aðlaganir í aðildarlögum Evrópusambandsins.
    Ákvæðin um aðlögun á löggjöf Evrópusambandsins er að finna í I.–IX. viðauka við aðildarlög Evrópusambandsins. Annars vegar er um að ræða nokkrar tæknilegar aðlaganir á tilteknum afmörkuðum gerðum (III. og IV. viðauki). Hins vegar er um að ræða tímabundnar efnislegar aðlaganir (e. transitional measures), sem t.d. breyta þeim tímamörkum sem gilda um aðrar Evrópusambandsþjóðir (V., VI. og VII. viðauki). Til að tryggja að sömu reglur gildi á öllu Evrópska efnahagssvæðinu er nauðsynlegt að fella þessar aðlaganir inn í EES-samninginn. Tilgangur 3. og 4. gr. aðildarsamningsins er því að mæla fyrir um þá aðlögun á EES-samningnum sem nauðsynleg er af þeim sökum.

a)    Um 3. gr. aðildarsamningsins.
    Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. aðildarsamningsins skulu allar þær breytingar sem aðildarlögin mæla fyrir um á gerðum, sem stofnanir Evrópubandalagsins hafa samþykkt og eru orðnar hluti af EES-samningnum, felldar inn í EES-samninginn og verða breytingarnar þannig einnig hluti samningsins. Er tilgangur ákvæðisins að fella inn í EES-samninginn þær tæknilegu aðlaganir sem gera skal á löggjöf Evrópusambandsins vegna stækkunar þess. Rétt er að geta þess að mestur hluti þeirra tæknilegu aðlagana sem gera þurfti vegna inngöngu þessara tveggja ríkja í Evrópusambandið voru gerðar eftir að samningurinn hafði tekið gildi. Sami háttur verður hafður á við núverandi stækkun Evrópska efnahagssvæðisins.
    Nánari útfærslu á ákvæði 1. mgr. er að finna í 2.–4. mgr. 3. gr. aðildarsamningsins. Segir þar að við þá liði í viðaukum og bókunum við EES-samninginn sem breyta skal til samræmis við aðildarlögin skuli bæta stöðluðu ákvæði þar sem vísað skal til aðildarlaga Evrópusambandsins í því skyni að færa EES-samninginn til samræmis við uppfærðar gerðir Evrópusambandsins.
    Þá segir í 5. mgr. 3. gr. að í viðauka A við samninginn skuli taldir upp þeir liðir í viðaukum og bókunum við EES-samninginn sem breyta skuli með því að fella inn þann texta sem getið er um í 2. og 3. mgr. Í þessu felst að í viðauka A eru talin upp þau ákvæði EES- samningsins sem gerðar eru tæknilegar aðlaganir á í stækkunarsamningnum sjálfum.
    Í 6. mgr. 3. gr. er kveðið á um það að ef aðlaganir þurfi vegna annarra gerða en þeirra sem tilgreindar eru í viðauka A, þá verði staðið að slíkri aðlögun í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í EES-samningnum. Gerir ákvæðið því ráð fyrir því að frekari tæknilegar aðlaganir verði felldar inn í samninginn með hefðbundnum hætti með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, líkt og rakið hefur verið hér að framan.
    Nánar er fjallað um viðauka A í V. kafla athugasemdanna hér á eftir.

b)    Um 4. gr. aðildarsamningsins.
    Í 1. mgr. 4. gr. segir að það fyrirkomulag, sem kveðið er á um í viðauka B við samninginn, sé hér með fellt inn í EES-samninginn og gert hluti af honum. Með „fyrirkomulagi“ er átt við þær efnislegu aðlaganir á gerðum Evrópubandalagsins sem samkomulag náðist um í aðildarviðræðum Evrópusambandsins. Er mælt fyrir um þessar efnislegu aðlaganir í aðildarlögum ESB.
    Í 2. mgr. 4. gr. segir að staðið verði að hverju því fyrirkomulagi, sem varðar EES- samninginn og um getur í aðildarlögunum frá 25. apríl 2005, en er ekki getið um í viðauka B við samninginn, í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í EES-samningnum. Hafa ber í huga að ekki er loku fyrir það skotið að frekari efnislegar aðlaganir verði gerðar á EES-gerðum vegna stækkunarinnar en getið er um í viðauka B, m.a. á gerðum sem samþykktar hafa verið í sameiginlegu EES-nefndinni frá og með 1. október 2004 til gildistöku samningsins. Ákvarðanir um breytingar á EES-samningnum af þeim sökum verða teknar með venjulegum hætti af sameiginlegu EES-nefndinni.
    Nánar er fjallað um viðauka B í V. kafla athugasemdanna hér á eftir.

6.    Athugasemdir við 5.–7. gr. samningsins (lokaákvæði).
a)    Um 5. gr. samningsins.
    Komi upp álitamál eða vafaatriði um túlkun eða beitingu samningsins geta samningsaðilar lagt málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Skal málið þá tekið þar fyrir og reynt að finna lausn á málinu sem stuðlar að góðri framkvæmd EES-samningsins. Er þetta ákvæði í samræmi við 92. gr. EES-samningsins þar sem segir m.a. að samningsaðilar skuli hafa samráð í sameiginlegu EES-nefndinni um öll þau mál á grundvelli samningsins sem valda erfiðleikum og einhver þeirra hefur tekið upp.

b)    Um 6. gr. samningsins.
    Í 6. gr. er fjallað um fullgildingu og gildistöku samningsins. Skal samningurinn taka gildi sama dag og síðasta núverandi eða nýja aðildarríkið afhendir fullgildingarskjöl eða samþykki samningsins, svo framarlega sem fylgisamningarnir fjórir taki gildi sama dag.

c)    Um 7. gr. samningsins.
    Í greininni er kveðið á um á hvaða tungumálum frumrit samningsins er gert og telst textinn jafngildur á öllum tungumálunum.

V. AÐLÖGUN VIÐAUKA EES-SAMNINGSINS – VIÐAUKAR A OG B


1.    Viðauki A.
    Með viðauka A eru ákvæði aðildarlaga Evrópusambandsins um tæknilega aðlögun á tilteknum og afmörkuðum gerðum Evrópusambandsins felld inn í EES-samninginn. Í aðildarlögum Evrópusambandsins er að finna nokkur ákvæði um tæknilegar aðlaganir á EB-gerðum, en eins og áður hefur verið nefnt verður mestur hluti tæknilegra aðlagana gerður í formi ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar eftir að samningurinn tekur gildi. Í tæknilegri aðlögun felst t.d. að bætt er við sérfræðiheitum eða hugtökum á tungumálum nýju aðildarríkjanna og heiti lögbærra yfirvalda í nýju aðildarríkjunum er bætt við upptalningu þeirra sem fyrir eru. Er ákvæðunum um tæknilega aðlögun að jafnaði ætlað ótímabundið gildi.
    Nauðsynlegt er að fella þessar tæknilegu aðlaganir inn í EES-samninginn til að tryggja samræmda beitingu þessara gerða innan alls Evrópska efnahagssvæðisins. Í viðauka A eru því talin upp þau ákvæði í viðaukum EES-samningsins þar sem vísað er til þeirra gerða sem sæta tæknilegum aðlögunum í samningnum sjálfum.
    Viðauki A skiptist í tvo hluta. Í fyrri hlutanum er að finna upptalningu á þeim ákvæðum í viðaukum EES-samningsins sem breytt er vegna tæknilegra aðlagana. Þau svið sem um ræðir eru II. viðauki um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun, XIII. viðauki um flutningastarfsemi og XVII. viðauki um hugverkaréttindi. Við ákveðin ákvæði í þessum viðaukum er bætt hinu staðlaða tilvísunarákvæði sem fjallað var um í athugasemdum við 3. gr. aðildarsamningsins. Í síðari hlutanum er hins vegar að finna breytingu sem nauðsynleg er hvað varðar EES-samninginn sérstaklega, en um er að ræða aðlögun á upptalningu á EES- ríkjunum, þar sem EFTA-ríkjunum var bætt við, í tilskipun 68/360 sem fellur undir V. viðauka um frjálsa för launþega.
    Rétt er að leggja áherslu á að viðauki A mælir í raun aðeins fyrir um tæknilegar breytingar á viðaukum EES-samningsins. Eigi að síður er þessi breyting nauðsynleg til að tryggja fullt samræmi milli EES-samningsins og löggjafar Evrópusambandsins eftir stækkun og tryggja þannig hnökralausa framkvæmd EES-samningsins. Ákvæðin í viðauka A um tæknilegar aðlaganir vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins kalla ekki á lagabreytingar. Með hliðsjón af því og í ljósi þess að hér er ekki um að ræða efnislegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands verður ekki talin ástæða til að rekja nánar ákvæði viðauka A.

2.    Viðauki B.
    Þær breytingar á löggjöf Evrópusambandsins sem mælt er fyrir um í aðildarlögunum eru ekki eingöngu tæknilegs eðlis. Í stækkunarviðræðum Evrópusambandsins var einnig samið um margs konar aðlaganir á efnisákvæðum löggjafar Evrópusambandsins fyrir hin nýju aðildarríki. Slíkum ákvæðum er þó eingöngu ætlað tímabundið gildi. Eigi að síður er nauðsynlegt að fella þessi ákvæði inn í EES-samninginn, að svo miklu leyti sem þau fela í sér breytingar á reglum EES-samningsins. Fyrirkomulag af þessu tagi nefnist efnislegar aðlaganir og eru nánari ákvæði um þær í viðauka B við aðildarsamninginn.
    Með efnislegri aðlögun er átt við breytingu á efnisákvæðum löggjafar Evrópusambandsins. Dæmi um slíka efnislega aðlögun er að gildistöku löggjafar er frestað gagnvart aðildarríkinu eða sett er sérákvæði um hvernig framkvæmd reglna Evrópusambandsins skuli hagað í aðildarríkinu, jafnan um tiltekinn tíma.
    Ákvæðin um slíkar efnislegar aðlaganir er að finna í viðauka B við aðildarsamning EES. Rétt er að vekja athygli á því að í viðauka B er látið nægja að vísa til viðeigandi ákvæða í aðildarlögum Evrópusambandsins. Er það í samræmi við hina hefðbundnu tilvísunaraðferð sem jafnan er notuð þegar löggjöf Evrópusambandsins er felld inn í EES-samninginn.
    Ákvæðin í viðauka B um efnislegar aðlaganir vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins kalla ekki á lagabreytingar, að öðru leyti en því að breyta þarf lögum um útlendinga, nr. 96/2002, og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, vegna þeirra tímabundnu aðlagana sem gerðar eru á frjálsri för borgara nýju aðildarríkjanna. Eru þær lagabreytingartillögur lagðar fyrir þingið samhliða þessu frumvarpi. Aðlaganirnar hafa jafnframt ekki áhrif á þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum að öðru leyti en því að með samningnum skuldbindur Ísland sig til að hlíta því að nýju samningsaðilarnir fá ákveðinn aðlögunartíma til að laga sig að nánar tilgreindum ákvæðum EES-samningsins. Að meginstefnu til hafa ákvæði viðauka B lítil sem engin áhrif hér á landi og er af þeirri ástæðu látið nægja að stikla hér á stóru í umfjöllun um viðauka B. Rétt er þó að vekja athygli á því að samkvæmt viðauka B er gildistöku tiltekinna ákvæða EES-samningsins frestað gagnvart nýju samningsaðilunum, jafnframt því sem núverandi samningsaðilum EES-samningsins er veitt heimild til að beita verndarráðstöfunum á vissum sviðum, fyrst og fremst á sviði frjálsrar farar launþega.

a)    Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun.
    Í II. viðauka við EES-samninginn er að finna þær gerðir Evrópubandalagsins sem varða ráðstafanir gegn svokölluðum tæknilegum viðskiptahindrunum. Í gerðunum felst samræming á margvíslegum reglum er varða viðskipti með vörur. Má þar t.d. nefna samræmdar reglur um prófanir, gagnkvæma viðurkenningu, margvíslega staðla og reglur um eftirlitskerfi. Skiptist II. viðauki við EES-samninginn í 32 kafla þar sem fjallað er um tæknilegar reglur á hinum ýmsu sviðum vöruviðskipta.
    Í meginatriðum má segja að II. viðauki mæli fyrir um þær kröfur sem framleiðsluvörur, sem markaðssettar eru á innri markaði Evrópusambandsins, skulu uppfylla, svo sem varðandi umhverfisþætti, öryggi og neytendavernd. Í aðildarlögum Evrópusambandsins er m.a. mælt fyrir um sérstakar aðgerðaráætlanir fyrir hin nýju ríki, hvað varðar markmið um endurvinnslu umbúða, sem og sérstök tímatakmörk varðandi loftmengun við geymslu og dreifingu á bensíni. Jafnframt er tímabundið heimilt að víkja frá kröfum um takmörkun á tjöru í tóbaki í Búlgaríu, en á þeim tíma er óheimilt að setja þær vörur á markað í öðru EES-ríki en heimaríkinu. Eins og sjá má hafa ákvæðin um efnislegar aðlaganir frá ákvæðum II. viðauka við EES-samninginn ekki mikla þýðingu hér á landi.

b)    Frjáls för launþega.
    Í 28. gr. EES-samningsins er mælt fyrir um frjálsa för launþega innan Evrópska efnahagssvæðisins. Í V. viðauka við EES-samninginn er síðan að finna þær gerðir Evrópubandalagsins er varða frjálsa för launþega sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn.
    Samkvæmt viðauka B við aðildarsamning EES skal fella inn í V. viðauka bráðabirgðafyrirkomulagið sem mælt er fyrir um í viðaukum við aðildarlögin. Með þessu er verið að fella inn í EES-samninginn ákvæði aðildarlaga ESB um heimild núverandi aðildarríkja Evrópusambandsins til að beita tímabundnum takmörkunum á frjálsri för launþega frá nýju aðildarríkjunum. Reglurnar nú eru líkt útfærðar og við síðustu stækkun EES-svæðisins. Samkvæmt því skal löggjöf einstakra aðildarríkja Evrópusambandsins um atvinnuréttindi launþega frá nýju aðildarríkjunum gilda áfram næstu tvö árin frá og með þeim degi sem nýju aðildarríkin hafa fengið fulla aðild að Evrópusambandinu. Enn fremur er aðildarríkjunum heimilt að framlengja þennan aðlögunartíma um þrjú ár til viðbótar. Ef fyrir hendi er alvarleg röskun á vinnumarkaði í aðildarríki eða hætta er á slíkri röskun er aðildarríkjunum jafnframt heimilt að framlengja þennan aðlögunartíma um tvö ár til viðbótar. Í þessu felst að núverandi aðildarríkjum Evrópusambandsins er heimilt að beita eigin löggjöf um atvinnuréttindi launþega frá hinum nýju aðildarríkjum í allt að sjö ár frá því að þessi ríki hafa öðlast fulla aðild að Evrópusambandinu. Reglur Evrópusambandsins um frjálsa för launþega innan Evrópusambandsins munu því ekki taka að fullu gildi gagnvart hinum nýju aðildarríkjum meðan á þessu aðlögunartímabili stendur að svo miklu leyti sem stjórnvöld taka ekki ákvörðun um annað.
    Við beitingu þessara heimilda verður að líta til sameiginlegrar yfirlýsingar EFTA-ríkjanna um frelsi launþega til flutninga, sem fylgir með lokagerð aðildarsamnings EES, þar sem EES–EFTA-ríkin lýsa þeim vilja sínum að veita ríkisborgurum nýju aðildarríkjanna greiðan aðgang að vinnumarkaði sínum og flýta fyrir því að sömu reglur gildi um frjálsa för launþega á öllu Evrópska efnahagssvæðinu.
    Jafnframt er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt aðildarlögunum skal ríkisborgari í einu af nýju aðildarríkjunum, sem starfað hefur í tilteknu aðildarríki samfleytt í 12 mánuði eða lengur, hafa fullan rétt á því að starfa þar áfram. Þetta er þó háð því skilyrði að viðkomandi hafi dvalist með lögmætum hætti í viðkomandi aðildarríki. Í þessu felst hins vegar eingöngu réttur til að halda áfram að starfa í þessu tiltekna aðildarríki.
    Kjósi ríki að nýta sér ekki þetta aðlögunarákvæði en verður fyrir röskun á vinnumarkaði sínum, sem stefnt getur lífskjörum og atvinnutækifærum á tilteknu svæði eða í tiltekinni atvinnugrein í hættu, er því heimilt að beina því til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að gripið verði til verndarráðstafana (öryggisráðstafana) til að takmarka aðsókn launþega frá nýju aðildarríkjunum inn á vinnumarkað viðkomandi ríkis. Heimilt er að vísa ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar í þeim efnum til ráðs Evrópusambandsins. Ákvæðið gerir því ráð fyrir því að ákvörðun um beitingu slíkra ráðstafana sé í höndum framkvæmdastjórnar ESB, eða eftir atvikum ráðsins. Með hliðsjón af meginreglum EES-samningsins um sjálfræði ákvarðanatöku geta þessar stofnanir Evrópusambandsins ekki tekið slíkar bindandi ákvarðanir gagnvart EES–EFTA-ríkjunum. Samkvæmt bókun 44 er EES–EFTA-ríkjunum því heimilt að taka einhliða ákvörðun um beitingu slíkra verndarráðstafana á grundvelli 112. gr. EES- samningsins og verður að telja hugsanlegt að slíkar ákvarðanir séu teknar gagnvart öðru eða báðum nýju aðildarríkjunum, sbr. umfjöllun um bókun 44 í greinargerð með frumvarpi um stækkun EES-samningsins árið 2004. Haft skal í huga að þessi heimild gildir einvörðungu þegar ríki hefur kosið að nýta sér ekki aðlögunarákvæðið og gildir eingöngu að hámarki í sjö ár.

c)    Staðfesturéttur.
    Í 31. gr. EES-samningsins er mælt fyrir um rétt borgara aðildarríkja EES-samningsins til að setjast að og stofna til atvinnurekstrar hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu (staðfesturéttur). Þá er í VIII. viðauka við EES-samninginn að finna nánari ákvæði um þennan rétt. Samkvæmt aðildarsamningnum skal fella inn í VIII. viðauka við EES-samninginn ákvæði aðildarlaga Evrópusambandsins um frjálsa för launþega. Í þessu felst að þrátt fyrir ákvæði EES-samningsins um staðfesturétt er eigi að síður heimilt að beita þeim takmörkunum á frjálsri för launþega frá nýju aðildarríkjunum sem áður hefur verið fjallað um. Rétt er að vekja athygli á því að ákvæðin eiga aðeins við um launþega en ekki um réttindi þeirra sem hyggjast veita þjónustu hér á landi á grundvelli ákvæða um staðfesturétt eða frjálsa þjónustustarfsemi. Þá eiga ákvæðin heldur ekki við um nemendur eða lífeyrisþega.

d) Fjármálaþjónusta.
    Frjáls viðskipti með þjónustu teljast meðal hins fjórþætta frelsis sem innri markaður Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðið byggjast á. Fjármálaþjónusta telst hluti þjónustustarfsemi og hefur Evrópusambandið sett fjölmargar reglur er varða slíka starfsemi. Í IX. viðauka við EES-samninginn er að finna þær gerðir Evrópusambandsins á þessu sviði sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn. Er þar m.a. að finna gerðir er varða bankastarfsemi, vátryggingastarfsemi og starfsemi annarra lánastofnana.
    Í viðauka B er mælt fyrir um tiltekin aðlögunarákvæði fyrir nýju samningsaðilana á sviði fjármálaþjónustu. Er þar um að ræða tímabundna undanþágu frá lágmarksbótum úr bótakerfum fyrir fjárfesta. Á þeim tíma hafa önnur aðildarríki rétt til þess að meina útibúum frá aðilum í þessum ríkjum að starfa nema þau séu aðilar að bótakerfi í viðkomandi landi til þess að brúa bilið á fjárhæð bótagreiðslnanna. Ekki verður séð að þessi aðlögunarákvæði hafi áhrif á íslenska hagsmuni.

e)    Fjarskiptaþjónusta.
    Í XI. viðauka við EES-samninginn er að finna þær gerðir sem varða fjarskiptaþjónustu og felldar hafa verið inn í EES-samninginn. Sú aðlögun á þessum viðauka sem tekin er upp í EES-samninginn veitir hinum nýju aðildarríkjum tímabundna undanþágu frá skuldbindingum um númeraflutning.

f)    Frjálsir fjármagnsflutningar.
    Í 40. gr. EES-samningsins er mælt fyrir um frjálsar fjármagnshreyfingar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Samkvæmt ákvæðinu skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningi fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum ESB eða EFTA-ríkjunum, né nokkur mismunun byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Þá eru í XII. viðauka við EES-samninginn ákvæði er varða framkvæmd frjálsra fjármagnsflutninga.
    Í frjálsum fjármagnsflutningum felst m.a. réttur ríkisborgara í EES-ríki til að fjárfesta í fasteignum í öðru aðildarríki. Samkvæmt viðauka B hafa nýju aðildarríkin heimild til að beita áfram núgildandi löggjöf sinni um fjárfestingar erlendra aðila í aukahúsnæði næstu fimm árin og um fjárfestingar erlendra aðila í ræktuðu landi, skógum og landi til skógarnytja næstu sjö árin. Ekki verður talið að þessi aðlögunarákvæði hafi mikla þýðingu gagnvart Íslandi.

g)    Flutningastarfsemi.
    Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. EES-samningsins eru sérstök ákvæði um allar tegundir flutninga í XIII. viðauka við EES-samninginn. Má þar finna þær gerðir Evrópubandalagsins sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn á sviði flutningastarfsemi. Taka reglur EES-samningsins um flutningastarfsemi til flutninga á landi, á vegum, með járnbrautum, á skipgengum vatnaleiðum og á sjó auk reglna um flugmál.
    Í aðildarlögunum eru m.a. gerðar undanþágur varðandi bann við því að hafna notkun á ökutækjum sem uppfylla skilyrði um mál og þyngd á yfirráðasvæði viðkomandi ríkis, tiltekið er hvaða höft nýju aðildarríkin mega setja tímabundið og settar eru fram áætlanir um uppfærslu vegakerfis ríkjanna. Einnig er gerð sérstök undanþága fyrir Rúmeníu varðandi lágmarksgjald sem leggja skal á þungaflutningabifreiðar, lágmarkið skal ekki gilda tímabundið um flutning innan lands. Jafnframt er gerð tímabundin undanþága frá þeim kröfum sem gerðar eru til fullnægjandi fjárhagsstöðu flutningsaðila, varðandi aðila sem einungis flytja farm og farþega innan lands. Verður að telja að þessar undanþágur hafi lítið gildi fyrir Ísland.
    Rétt er að vekja athygli á því að tímabundna aðlögun skal veita vegna reglugerðar ráðsins nr. 3118/93 frá 25. október 1993 um skilyrði fyrir því að farmflytjendur geti stundað flutningaþjónustu á vegum í aðildarríki þar sem þeir eru ekki búsettir. Samkvæmt reglugerðinni er farmflytjanda heimilt að stunda þjónustu sína á Evrópska efnahagssvæðinu utan heimalands síns. Er í aðlögunum mælt fyrir um að fyrstu þrjú árin eftir inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu er ríkisborgurum frá þessum ríkjum ekki heimilt að stunda tímabundna flutningaþjónustu á vegum gegn gjaldi. Eftir þann tíma er aðildarríkjum Evrópusambandsins heimilt að fresta gildistöku gerðarinnar í tvö ár til viðbótar. Hafa EES–EFTA-ríkin sömu heimild til að beita þessum takmörkunum. Í þessu felst að fyrstu tvö árin gilda ákvæði EES-samningsins um heimild ríkisborgara EES-ríkjanna til að stunda flutningaþjónustu á Evrópska efnahagssvæðinu ekki í þeim ríkjum sem voru talin upp hér að framan. Næstu tvö ár til viðbótar getur aðildarríki ESB eða EES–EFTA-ríki tekið einhliða ákvörðun um að þessi ákvæði skuli ekki gilda.
    Í aðildarlögum ESB er jafnframt mælt fyrir um ef ríki, sem ekki hefur beitt þeim takmörkunum sem greint var frá hér að framan, verður fyrir alvarlegri röskun á innanlandsmarkaði vegna slíkrar flutningastarfsemi getur það óskað eftir því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins heimili því að beita sambærilegum takmörkunum. Er framkvæmdastjórninni því falið vald til að taka ákvörðun um beitingu slíkra verndarráðstafana (eða öryggisráðstafana). Í ljósi sjónarmiða um sjálfræði samningsaðila til ákvarðanatöku í EES-samstarfinu getur framkvæmdastjórnin ekki tekið slíka ákvörðun gagnvart EES–EFTA-ríki. Á því bókun 44 við um beitingu verndarráðstafana af þessu tagi, en í þeim felst að EES–EFTA-ríki tekur einhliða ákvörðun um beitingu.
    Rétt er að taka fram að undanþágurnar gera ráð fyrir þeim möguleika að aðildarríkin semji tvíhliða um aukið frelsi til flutningaþjónustu sín á milli. Jafnframt kemur skýrt fram að sú takmörkun sem aðlögunin mælir fyrir um skuli ekki leiða til frekari takmörkunar á rétti til að veita flutningaþjónustu á vegum aðildarríkjanna en var við lýði fyrir aðild nýju aðildarríkjanna að Evrópusambandinu.

h)    Ríkisaðstoð.
    Reglur um ríkisstyrki er að finna í 61.–64. gr. EES-samningsins. Þá segir í 63. gr. EES- samningsins að í XV. viðauka séu sérstök ákvæði um ríkisstyrki. Er þar að finna þær gerðir Evrópusambandsins á sviði ríkisaðstoðar sem eru hluti EES-samningsins. Enn fremur er ákvæði um þetta efni að finna í bókun 26 þar sem mælt er fyrir um valdsvið og störf Eftirlitsstofnunar EFTA á sviði ríkisaðstoðar. Þá er að finna mikilvæg ákvæði um þetta svið í bókun 3 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls.
    Í viðauka B við aðildarsamning EES segir að það fyrirkomulag varðandi núverandi aðstoðarkerfi, sem mælt er fyrir um í 2. kafla (Samkeppni) í V. viðauka við aðildarlögin frá 25. apríl 2005, skuli gilda milli samningsaðila. Í fyrrgreindu fyrirkomulagi er að finna skýringu á því hvað skulu teljast „aðstoðarkerfi sem eru við lýði“ í skilningi 1. mgr. 88. gr. stofnsamnings Evrópubandalagsins í hinum nýju aðildarríkjum. Rétt er að geta þess að sambærilegt ákvæði er ekki að finna í sjálfum EES-samningnum. Hins vegar er sambærilegt ákvæði í 1. mgr. 1. gr. bókunar 3 við samning EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Bæði í 88. gr. stofnsamnings EB og 1. gr. bókunar 3 við framangreindan samning er að finna sérstakar reglur um hvernig framkvæma beri eftirlit með reglum um ríkisstyrki gagnvart þeim aðstoðarkerfum sem þegar eru við lýði í ESB eða EFTA-ríki. Það ákvæði aðildarlaganna sem hér um ræðir mælir fyrir um hvernig þessu eftirliti skuli háttað gagnvart hinum nýju aðildarríkjum. Í ljósi þess að sömu reglur gilda um ríkisaðstoð innan alls Evrópska efnahagssvæðisins var talið rétt að fella þessi ákvæði aðildarlaganna inn í EES- samninginn.
    Jafnframt er í viðaukanum kveðið á um að þær aðlaganir í samkeppnismálum sem gerðar voru gagnvart Rúmeníu skuli gilda. Um er að ræða upptalningu á ýmsum ráðstöfunum og undanþágum í Rúmeníu sem séu heimilar um ákveðinn tíma að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og teljist þá ekki til ríkisaðstoðar. Einnig er um að ræða stuðning rúmenska ríkisins við stáliðnaðinn, sem var veittur áður en Rúmenía varð aðili að ESB, en hann telst ekki til ríkisaðstoðar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

i)    Hugverkaréttindi.
    Reglur um hugverkarétt er að finna í bókun 28 við EES-samninginn. Þá eru nánari ákvæði um þær gerðir sem falla undir bókun 28 í XVII. viðauka við samninginn.
    Í viðauka B við aðildarsamning EES segir að sú sérstaka málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 1. kafla (Félagaréttur) V. viðauka við aðildarlögin skuli gilda milli samningsaðila. Hér er vísað til sérstaks ákvæðis er varðar einkaleyfisvernd vegna lyfjaframleiðslu. Ekki verður séð að þetta aðlögunarákvæði hafi áhrif hér á landi.

j)    Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna.
    Samkvæmt 68. gr. EES-samningsins skulu samningsaðilar gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja góða framkvæmd samningsins á sviði vinnulöggjafar. Skulu þessar ráðstafanir tilgreindar í XVIII. viðauka. Í honum er því að finna þær gerðir Evrópusambandsins varðandi öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, vinnurétt og jafnrétti kynjanna sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn.
    Samkvæmt aðildarsamningnum skal fella inn í XVIII. viðauka við EES-samninginn, nánar tiltekið hvað varðar tilskipun 96/74/EB um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu, ákvæði aðildarlaga Evrópusambandsins um frjálsa för launþega. Í þessu felst að á þessu sviði er heimilt að beita þeim takmörkunum á frjálsri för launþega frá nýju aðildarríkjunum sem áður hefur verið fjallað um í b- og c-lið að framan.

k)    Umhverfismál.
    Ákvæði um umhverfismál er að finna í 73.–74. gr. EES-samningsins. Segir í 74. gr. að í XX. viðauka séu sérstök ákvæði um verndarráðstafanir sem skulu gilda skv. 73. gr. samningsins. Í XX. viðauka er því að finna þær gerðir á sviði umhverfismála sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn.
    Í aðildarlögunum voru gerðar ákveðnar aðlaganir til að auðvelda nýju aðildarríkjunum það mikla verk að taka yfir reglur ESB á sviði umhverfismála. Fá ríkin sérstakan aðlögunartíma til þess að ná að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru. Þessi aðlögunarákvæði hafa ekki áhrif hér á landi.

VI. LOKAGERÐ

    Með frumvarpi þessu fylgir lokagerð aðildarsamnings EES. Lokagerðinni fylgja sameiginlegar og einhliða yfirlýsingar samningsaðila í tengslum við gerð aðildarsamningsins. Um er að ræða alls tíu yfirlýsingar, sjö sameiginlegar yfirlýsingar allra samningsaðila, tvær sameiginlegar yfirlýsingar EFTA-ríkjanna og eina einhliða yfirlýsingu Liechtenstein. Þá fylgja lokagerðinni einnig fylgisamningarnir fjórir sem gerðir voru samhliða gerð aðildarsamnings EES, þar á meðal viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu.
    Þá er í lokagerð aðildarsamningsins mælt fyrir um að leggja skuli fram, eigi síðar en við gildistöku samningsins, EES-samninginn með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og óstyttum texta allra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, í staðfestri útgáfu á opinberum tungumálum nýju samningsaðilanna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Með frumvarpinu er lagt til að heimild verði veitt til að fullgilda samninginn um aðild Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópska efnahagssvæðinu.
    Með samningnum er átt við meginmál samningsins og fylgiskjöl með honum, þ.e. bókanir og viðauka.
    Samningnum fylgja sjö sameiginlegar yfirlýsingar allra samningsaðila, tvær sameiginlegar yfirlýsingar EFTA-ríkjanna og ein einhliða yfirlýsing Liechtenstein, en sameiginlegar yfirlýsingar geta haft áhrif á túlkun samningsins. Einnig fylgja samningnum fylgisamningar, en einungis einn þeirra varðar Ísland, þ.e. viðbótarbókun við samning Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands frá 22. júlí 1972 um fríverslun, vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu.

Um 2. gr.

    Með 2. gr. er lagt til að 1. mgr. 2. gr. samningsins hafi lagagildi hér á landi. Eins og áður er getið mælir 1. mgr. 2. gr. aðildarsamnings EES fyrir um breytingar á sjálfu meginmáli EES-samningsins. Þar sem meginmál EES-samningsins hefur lagagildi hér á landi samkvæmt lögum nr. 2/1993, með síðari breytingum, er nauðsynlegt að lögfesta einnig núverandi breytingar á meginmáli hans. Vísað er til umfjöllunar um 1. mgr. 2. gr. hér að framan um efni þessara ákvæða.
    Ekki þykir nauðsynlegt að lögfesta önnur ákvæði aðildarsamningsins.

Um 3. gr.

    Lagt er til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lög nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, þar sem gildistöku ákvæða 1.–6. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68 er frestað að því er varðar ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu til 1. janúar 2009. Munu því ákvæði II. kafla laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, gilda áfram um ríkisborgara þessara ríkja eins og verið hefur.
    Gert er ráð fyrir að önnur ákvæði laganna sem og reglugerðarinnar gildi gagnvart ríkisborgurum þessara ríkja eftir því sem við getur átt. Til dæmis er óheimilt að láta ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu gjalda þjóðernis síns hvað viðvíkur ráðningar- og vinnuskilyrðum, einkum og sér í lagi hvað varðar launakjör, uppsögn úr starfi og, komi til atvinnumissis, endurráðningu, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar, hafi þeir fengið leyfi til að starfa hér á landi samkvæmt lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum. Þá gildir III. bálkur reglugerðarinnar um fjölskyldur launamanna með þeim takmörkunum sem leiða má af því að ákvæði 1.–6. gr. gilda ekki gagnvart þessum ríkisborgurum. Þurfa því fjölskyldumeðlimir launamanna frá þessum ríkjum, sbr. a- og b-lið 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar, einnig að sækja um leyfi til að dveljast hér á landi samkvæmt lögum nr. 96/2002, um útlendinga, og atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga óski maki hans eða börn eftir því að stunda hér atvinnu.

Um 4. gr.


    Samkvæmt ákvæði þessu er gert ráð fyrir að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lög nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum, þar sem lagt er til að undanþáguheimild a-liðar 14. gr. laganna taki ekki gildi að því er varðar ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu fyrr en 1. janúar 2009. Munu því ákvæði II. kafla laganna um útgáfu atvinnuleyfa gilda um rétt ríkisborgara þessara ríkja til að starfa hér á landi sem launamenn eins og verið hefur. Engu síður taka ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um frjáls þjónustuviðskipti yfir landamæri að fullu gildi við gildistöku aðildarsamnings EES að því er varðar ríkisborgara þessara ríkja. Þannig geta ríkisborgarar Búlgaríu og Rúmeníu komið hingað til lands í því skyni að veita hér þjónustu á grundvelli 36. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið án þess að sækja um atvinnuleyfi. Í þeim tilvikum gildir innlend löggjöf um þjónustuviðskipti, þar á meðal lög nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra.
    Ber að hafa hliðsjón af ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og afleiddum gerðum hans er gilda að því er varðar önnur réttindi þessara ríkisborgara hér á landi við skýringu á ákvæðum laganna um atvinnuréttindi útlendinga. Sem dæmi má nefna það skilyrði að atvinnurekandi sjúkratryggi erlendan starfsmann þannig að hann njóti verndar til jafns við ákvæði almannatrygginga, sbr. d-lið 1. mgr. 7. gr. laganna. Ríkisborgarar Búlgaríu og Rúmeníu verða hins vegar sjúkratryggðir við komuna til landsins séu þeir tryggðir í heimaríki sínu samkvæmt lögum heimaríkja þeirra frá gildistöku aðildarsamnings EES, sbr. reglugerð nr. 1408/71/EBE um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja. Því má ætla að ekki reynist þörf á að atvinnurekandi sjúkratryggi starfsmanninn sérstaklega.

Um 5. gr.


    Lagt er til að við lög um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum, bætist ákvæði til bráðabirgða þar sem gildistöku tilvitnaðra ákvæða 35. og 36. gr. laganna um EES- og EFTA-útlendinga verði frestað um tæp tvö ár eða fram til 1. janúar 2009 hvað varðar ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu. Að öðrum kosti mundu þær ívilnanir sem EES- og EFTA- útlendingar njóta gilda um þessa ríkisborgara.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


SAMNINGUR
UM ÞÁTTTÖKU LÝÐVELDISINS BÚLGARÍU OG RÚMENÍU
Á EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐINU


EVRÓPUBANDALAGIÐ
KONUNGSRÍKIÐ BELGÍA,
LÝÐVELDIÐ TÉKKLAND,
KONUNGSRÍKIÐ DANMÖRK,
SAMBANDSLÝÐVELDIÐ ÞÝSKALAND,
LÝÐVELDIÐ EISTLAND,
LÝÐVELDIÐ GRIKKLAND,
KONUNGSRÍKIÐ SPÁNN,
LÝÐVELDIÐ FRAKKLAND,
ÍRLAND,
LÝÐVELDIÐ ÍTALÍA,
LÝÐVELDIÐ KÝPUR,
LÝÐVELDIÐ LETTLAND,
LÝÐVELDIÐ LITHÁEN,
STÓRHERTOGADÆMIÐ LÚXEMBORG,
LÝÐVELDIÐ UNGVERJALAND,
LÝÐVELDIÐ MALTA,
KONUNGSRÍKIÐ HOLLAND,
LÝÐVELDIÐ AUSTURRÍKI,
LÝÐVELDIÐ PÓLLAND,
LÝÐVELDIÐ PORTÚGAL,
LÝÐVELDIÐ SLÓVENÍA,
LÝÐVELDIÐ SLÓVAKÍA,
LÝÐVELDIÐ FINNLAND,
KONUNGSRÍKIÐ SVÍÞJÓÐ,
HIÐ SAMEINAÐA KONUNGSRÍKI STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR-ÍRLANDS,

er nefnast „aðildarríki EB“ í því sem hér fer á eftir,

ÍSLAND,
FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN,
KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,

er nefnast „EFTA-ríkin“ í því sem hér fer á eftir,

en ofangreind ríki nefnast einu nafni „núverandi samningsaðilar“ í því sem hér fer á eftir,

og

LÝÐVELDIÐ BÚLGARÍA,
RÚMENÍA,

HAFA

að teknu tilliti til eftirfarandi:

Sáttmáli um aðild Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu (sem nefnist „aðildarsáttmálinn“ í því sem hér fer á eftir) var undirritaður í Lúxemborg 25. apríl árið 2005.

Samkvæmt 128. gr. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði, sem var undirritaður í Óportó 2. maí árið 1992, er Evrópuríki, sem gengur í bandalagið, skylt að sækja um að gerast aðili að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði (er nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir).

Lýðveldið Búlgaría og Rúmenía hafa sótt um að gerast aðilar að EES-samningnum.

Skilmálar og skilyrði fyrir slíkri aðild skulu lúta samkomulagi milli núverandi samningsaðila og umsóknarríkjanna.

ákveðið að gera með sér svohljóðandi samning:

1. GR.

1.     Lýðveldið Búlgaría og Rúmenía öðlast hér með aðild að EES-samningnum og nefnast „nýju samningsaðilarnir“ í því sem hér fer á eftir.
2.     Um leið og samningur þessi öðlast gildi verða ákvæði EES-samningsins, með áorðnum breytingum samkvæmt þeim ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar sem samþykktar voru fyrir 1. október 2004, bindandi fyrir nýju samningsaðilana með sömu skilyrðum og fyrir núverandi samningsaðila og með þeim skilmálum og skilyrðum sem mælt er fyrir um í samningi þessum.
3.     Viðaukar við samning þennan eru óaðskiljanlegur hluti hans.

2. GR.

1.     BREYTINGAR Á MEGINMÁLI EES-SAMNINGSINS
    a)    Inngangsorð:
              Í stað skrár um samningsaðila komi eftirfarandi:
            „EVRÓPUBANDALAGIÐ,
            KONUNGSRÍKIÐ BELGÍA,
            LÝÐVELDIÐ BÚLGARÍA,
            LÝÐVELDIÐ TÉKKLAND,
            KONUNGSRÍKIÐ DANMÖRK,
            SAMBANDSLÝÐVELDIÐ ÞÝSKALAND,
            LÝÐVELDIÐ EISTLAND,
            LÝÐVELDIÐ GRIKKLAND,
            KONUNGSRÍKIÐ SPÁNN,
            LÝÐVELDIÐ FRAKKLAND,
            ÍRLAND,
            LÝÐVELDIÐ ÍTALÍA,
            LÝÐVELDIÐ KÝPUR,
            LÝÐVELDIÐ LETTLAND,
            LÝÐVELDIÐ LITHÁEN,
            STÓRHERTOGADÆMIÐ LÚXEMBORG,
            LÝÐVELDIÐ UNGVERJALAND,
            LÝÐVELDIÐ MALTA,
            KONUNGSRÍKIÐ HOLLAND,
            LÝÐVELDIÐ AUSTURRÍKI,
            LÝÐVELDIÐ PÓLLAND,
            LÝÐVELDIÐ PORTÚGAL,
            RÚMENÍA,
            LÝÐVELDIÐ SLÓVENÍA,
            LÝÐVELDIÐ SLÓVAKÍA,
            LÝÐVELDIÐ FINNLAND,
            KONUNGSRÍKIÐ SVÍÞJÓÐ,
            HIÐ SAMEINAÐA KONUNGSRÍKI STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR- ÍRLANDS,
            OG
            ÍSLAND,
            FURSTADÆMIÐ LIECHTENSTEIN,
            KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR,“.
    b)     2. gr.:
            i)         Í b-lið falli niður orðið „Lýðveldið“.
            ii)     Eftirfarandi bætist við á eftir d-lið:
                „e)        hugtakið „aðildarlögin frá 25. apríl 2005“ lög um aðildarskilmála Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu og aðlögun sáttmálanna sem mynda grundvöll Evrópusambandsins, sem voru samþykkt í Lúxemborg 25. apríl 2005.
                f)        hugtakið „aðildarbókunin frá 25. apríl 2005“ bókun um skilyrði og tilhögun aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu, sem var samþykkt í Lúxemborg 25. apríl 2005.“.
    c)     117. gr.:
              Í stað texta 117. gr. komi eftirfarandi:
            „Ákvæði um fjármagnskerfin er að finna í bókun 38, bókun 38a og viðauka við bókun 38a.“;
    d)     126. gr.:
            Í 1. mgr. falli niður orðið „Lýðveldið“.
    e)     129. gr.:
            i)         Í stað annarrar undirgreinar 1. málsgreinar komi eftirfarandi:
                    „Vegna stækkana Evrópska efnahagssvæðisins telst texti samnings þessa jafngildur á búlgörsku, eistnesku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, rúmensku, slóvensku, slóvösku, tékknesku og ungversku.“.
              ii)     Í stað þriðju undirgreinar 1. málsgreinar komi eftirfarandi:
                    „Textar gerða, sem vísað er til í viðaukunum, eru jafngildir á búlgörsku, dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, portúgölsku, rúmensku, slóvensku, slóvösku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku eins og þeir birtast í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og skulu með tilliti til jafngildingar þýddir á íslensku og norsku og birtir í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins.“.

2.     BREYTINGAR Á BÓKUNUM VIÐ EES-SAMNINGINN
    a)     Bókun 4 um upprunareglur breytist sem hér segir:
        i.        Í 1. mgr. 3. gr. falli brott tilvísun til nýrra samningsaðila.
        ii.    Ákvæði IV. viðauka a (Texti yfirlýsingar á vörureikningi) breytist sem hér segir:
            aa)    Eftirfarandi bætist við á undan hinni spænsku útgáfu texta yfirlýsingar á vörureikningi:

„Búlgörsk útgáfa

                    ........... .. .........., ......... .. .... ........ (.......... .......... . … (1)) ........., .. ..... ...... . .......... ....., .... ........ .. . .............. ........ … (2).“.

            bb)    Eftirfarandi bætist við á undan hinni slóvensku útgáfu texta yfirlýsingar á vörureikningi:

„Rúmensk útgáfa

                    Exportatorul produselor ce fac obiectul acestui document (autorizatia vamalã nr. … (1)) declarã cã, exceptând cazul în care în mod expres este indicat altfel, aceste produse sunt de origine preferentialã … (2).“.

        iii.    Ákvæði IV. viðauka b (Texti EUR-MED-yfirlýsingar á vörureikningi) breytist sem hér segir:

            aa)    Eftirfarandi bætist við á undan hinni spænsku útgáfu texta EUR-MED-yfirlýsingar á vörureikningi:

„Búlgörsk útgáfa

                    ........... .. .........., ......... .. .... ........ (.......... .......... . … (1)) ........., .. ..... ...... . .......... ....., .... ........ .. . .............. ........ … (2).
                    –     cumulation applied with ……… (heiti lands/landa)
                    –     no cumulation applied (3)“;

            bb)    Eftirfarandi bætist við á undan hinni slóvensku útgáfu texta EUR-MED-yfirlýsingar á vörureikningi:

„Rúmensk útgáfa

                    Exportatorul produselor ce fac obiectul acestui document (autorizatia vamalã nr. … (1)) declarã cã, exceptând cazul în care în mod expres este indicat altfel, aceste produse sunt de origine preferentialã … (2).
                    –     cumulation applied with ……… (heiti lands/landa)
                    –     no cumulation applied (3)“;

    b)     Ákvæði bókunar 38a breytist sem hér segir:
            Í stað orðsins „skal“ í 3. mgr. 4. gr. komi orðin „er heimilt að“.

    c)     Eftirfarandi bætist við í bókun 38a:

„VIÐAUKI VIÐ BÓKUN 38A


UM FJÁRMAGNSKERFI EES FYRIR BÚLGARÍU OG RÚMENÍU


1. gr.

     1.      Ákvæði bókunar 38a skulu gilda um Búlgaríu og Rúmeníu að breyttu breytanda.
     2.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. gilda ekki ákvæði 6. gr. bókunar 38a. Ekki skal endurúthluta til annarra styrkríkja fjármunum ætluðum Búlgaríu og Rúmeníu sem eru til ráðstöfunar án þess að greiðsluskuldbinding hafi myndast.
     3.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. gilda ekki ákvæði 7. gr. bókunar 38a.
     4.      Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. geta framlög til frjálsra félagasamtaka og aðila vinnumarkaðarins numið allt að 90 af hundraði verkefniskostnaðar.

2. gr.

Fjárhæðirnar, sem aukið er við fjárframlög vegna Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu, skulu vera 21,5 milljónir evra fyrir Lýðveldið Búlgaríu og 50,5 milljónir evra fyrir Rúmeníu á tímanum frá 1. janúar 2007 til 30. apríl 2009, að báðum dögum meðtöldum, og vera til úthlutunar frá gildistökudegi samningsins um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu eða samnings um að beita samningnum til bráðabirgða, og til skuldbindingar í einu lagi á árinu 2007.“

    d)     Í stað texta bókunar 44 komi eftirfarandi:

„UM VERNDARRÁÐSTAFANIR Í TENGSLUM VIÐ STÆKKANIR EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐISINS

     1.      Beiting 112. gr. samningsins í tengslum við almenn efnahagsleg verndarákvæði og verndarráðstafanir sem er að finna í tilteknu bráðabirgðafyrirkomulagi um frjálsa fólksflutninga og flutninga á vegum
        Ákvæði 112. gr. samningsins gilda einnig í þeim tilvikum sem tilgreind eru eða um getur
        a)    í ákvæðum 37. gr. aðildarlaganna frá 16. apríl 2003 og 36. gr. aðildarlaganna frá 25. apríl 2005 eða, eftir því sem við á, aðildarbókunarinnar frá 25. apríl 2005, og
        b)    í verndarráðstöfunum í bráðabirgðafyrirkomulaginu undir fyrirsögnunum „aðlögunartímabil“ í V. viðauka (Frelsi launþega til flutninga) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur), í 30. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB) í XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) og í lið 26c (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3118/93) í XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) og skulu tímamörk, gildissvið og áhrif vera hin sömu og mælt er fyrir um í þessum ákvæðum.
     2.      Verndarákvæði sem varðar innra markaðinn
        Almenn tilhögun ákvarðanatöku, sem kveðið er á um í samningnum, gildir einnig um ákvarðanir sem framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna tekur við beitingu 38. gr. aðildarlaganna frá 16. apríl 2003 og 37. gr. aðildarlaganna frá 25. apríl 2005 eða, eftir því sem við á, aðildarbókunarinnar frá 25. apríl 2005.“.

3. GR.

1.     Allar breytingar, sem verða á gerðum sem stofnanir bandalagsins hafa samþykkt og felldar hafa verið inn í EES-samninginn, samkvæmt lögum um aðildarskilmála Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu og aðlögun sáttmálanna sem mynda grundvöll Evrópusambandsins eða, eftir því sem við á, bókun um skilyrði og tilhögun aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu, eru hér með felldar inn í EES-samninginn og verða hluti af honum.
2.     Í þessu skyni bætist eftirfarandi undirliður við í þeim liðum viðauka og bókana við EES- samninginn sem hafa að geyma tilvísanir til gerða sem samþykktar hafa verið af viðkomandi stofnunum bandalagsins:
„–      1 2005 SA: Lög um aðildarskilmála Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu og aðlögun sáttmálanna sem mynda grundvöll Evrópusambandsins, samþykkt 25. apríl árið 2005 (Stjtíð. ESB L 157, 21.6.2005, bls. 203).“.
3.     Ef sáttmáli um stjórnarskrá Evrópuríkja öðlast gildi skal eftirfarandi undirliður um leið koma í stað undirliðarins sem um getur í 2. mgr.:
„–      1 2005 SP: Bókun um skilyrði og tilhögun aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu, samþykkt 25. apríl árið 2005 (Stjtíð. ESB L 157, 21.6.2005, bls. 29).“.
4.     Þegar undirliðurinn, sem um getur í 2. og 3. mgr., er fyrsti undirliður viðkomandi liðar skal setja á undan honum orðin „ , eins og henni var breytt með:“.
5.     Í viðauka A við samning þennan eru taldir upp þeir liðir í viðaukum og bókunum við EES-samninginn sem breyta þarf með því að skjóta inn textanum sem um getur í 2., 3. og 4. mgr.
6.     Reynist nauðsynlegt vegna þátttöku nýju samningsaðilanna að aðlaga gerðir sem felldar hafa verið inn í EES-samninginn fyrir gildistökudag samnings þessa og sé þann aðlögunartexta ekki að finna í samningi þessum verður staðið að þeirri aðlögun í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í EES-samningnum.

4. GR.

1.     Það fyrirkomulag, sem er að finna í lögum um aðildarskilmála Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu og aðlögun sáttmálanna sem mynda grundvöll Evrópusambandsins og kveðið er á um í viðauka B við samning þennan, er hér með fellt inn í EES-samninginn og telst hluti af honum.
2.     Ef sáttmáli um stjórnarskrá Evrópuríkja öðlast gildi skal fyrirkomulagið, sem kveðið er á um í viðauka B, um leið teljast gilda um bókun um skilyrði og tilhögun aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu.
3.     Staðið verður að hverju því fyrirkomulagi, sem varðar EES-samninginn og um getur í lögum um aðildarskilmála Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu og aðlögun sáttmálanna sem mynda grundvöll Evrópusambandsins eða, eftir því sem við á, bókun um skilyrði og tilhögun aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu, en er ekki getið í viðauka B við samning þennan, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í EES-samningnum.

5. GR.

Öllum aðilum að samningi þessum er heimilt að leggja fyrir sameiginlegu EES-nefndina hvert það mál sem varðar túlkun hans eða beitingu. Sameiginlegu EES-nefndinni ber að taka málið til athugunar með það fyrir augum að finna lausn sem stuðlar að góðri framkvæmd EES-samningsins.

6. GR.

1.     Núverandi samningsaðilar og nýju samningsaðilarnir skulu fullgilda eða samþykkja samning þennan í samræmi við reglur sínar um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.
2.     Samning þessi öðlast gildi daginn eftir að síðasta skjal um fullgildingu eða samþykki núverandi samningsaðila eða nýs samningsaðila er afhent til vörslu, að því tilskildu að eftirfarandi samningar og bókanir, sem tengjast honum, öðlist gildi sama dag:
a)    Samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu.
b)    Samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu.
c)    Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu og
d)    Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu.

7. GR.

Samningur þessi, sem er gerður í einu frumriti á búlgörsku, dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, íslensku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, norsku, pólsku, portúgölsku, rúmensku, slóvensku, slóvösku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku, og er hver þessara texta jafngildur, skal afhentur aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu og sendir skrifstofan ríkisstjórn hvers samningsaðila staðfest endurrit.

VIÐAUKI A

Skrá sem um getur í 3. gr. samningsins


I. HLUTI

GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL Í EES-SAMNINGNUM EINS OG HONUM VAR BREYTT MEÐ LÖGUM UM AÐILDARSKILMÁLA LÝÐVELDISINS BÚLGARÍU OG RÚMENÍU OG AÐLÖGUN AÐ SÁTTMÁLUNUM SEM EVRÓPUSAMBANDIÐ BYGGIR Á EÐA, EFTIR ATVIKUM, BÓKUN UM SKILMÁLA OG FYRIRKOMULAG VIÐ INNGÖNGU LÝÐVELDISINS BÚLGARÍU OG RÚMENÍU Í EVRÓPUSAMBANDIÐ


Undirliðirnir, sem um getur í 2. og 3. mgr. 3. gr., bætist við á eftirfarandi stöðum í viðaukum og bókunum við EES-samninginn:

í XXVII. kafla (Brenndir drykkir) II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun):

          í 1. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1576/89),
          í 3. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1601/91),

í XIII. viðauka (Flutningastarfsemi):

          í 19. lið (tilskipun ráðsins 96/26/EB),

í XVII. viðauka (Hugverkaréttindi):

          í 6. lið (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 1768/92),
          í liða 6a (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1610/96).

II. HLUTI
AÐRAR BREYTINGAR Á VIÐAUKUNUM VIÐ EES-SAMNINGINN


Eftirfarandi breytingar skulu gerðar á viðaukunum við EES-samninginn:
Í V. viðauka (Frelsi launþega til flutninga):
    1)     í 3. lið (tilskipun ráðsins 68/360/EB) komi eftirfarandi í stað ii-liðar í aðlögunarlið e:
        „ii)    eftirfarandi komi í stað neðanmálsgreinarinnar:
                    „belgísku/belgískir, búlgörsku/búlgarskir, tékknesku/tékkneskir, dönsku/danskir, þýsku/þýskir, eistnesku/eistneskir, grísku/grískir, íslensku/íslenskir, spænsku/ spænskir, frönsku/franskir, írsku/írskir, ítölsku/ítalskir, kýpversku/kýpverskir, lettnesku/lettneskir, liechtensteinsku/liechtensteinskir, litháísku/litháískir, lúxemborgsku/lúxemborgskir, ungversku/ungverskir, maltnesku/maltneskir, hollensku/ hollenskir, norsku/norskir, austurrísku/austurrískir, pólsku/pólskir, portúgölsku/ portúgalskir, rúmensku/rúmenskir, slóvensku/slóvenskir, slóvakísku/slóvakískir, finnsku/finnskir, sænsku/sænskir og bresku/breskir, eftir því hvaða land gefur leyfið út.“

VIÐAUKI B


Skrá sem um getur í 4. gr. samningsins


Viðaukunum við EES-samninginn er breytt sem hér segir:

II. viðauki (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun):

     1.      Í lið 12a (tilskipun ráðsins 91/414/EBE) í XV. kafla bætist við eftirfarandi málsgrein á eftir málsgreininni um bráðabirgðafyrirkomulagið:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Rúmeníu (II. hluti í B-þætti 5. kafla VII. viðauka), gildir.“
     2.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í 7. lið í XVII. kafla (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/62/EB) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (2. liður í B-þætti 10. kafla VI. viðauka) og Rúmeníu (2. liður í B-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     3.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í 8. lið í XVII. kafla (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/63/EB) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (1. liður í A-þætti 10. kafla VI. viðauka) og Rúmeníu (A-þáttur í 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     4.      Eftirfarandi málsgrein bætist við á undan aðlögunartextanum í 3. lið í XXV. kafla (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/37/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (7. kafli VI. viðauka), gildir.“

V. viðauki (Frelsi launþega til flutninga):

Eftirfarandi komi í stað annarrar málsgreinar undir fyrirsögninni „AÐLÖGUNARTÍMABIL“:
„Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (1. kafli VI. viðauka) og Rúmeníu (1. kafli VII. viðauka), gildir.“
Að því er varðar verndarráðstafanirnar sem er að finna í bráðabirgðafyrirkomulaginu, sem vísað er til í fyrri málsgrein, að undanskildu fyrirkomulagi vegna Möltu, gildir BÓKUN 44 UM VERNDARRÁÐSTAFANIR SAMKVÆMT SAMNINGNUM UM STÆKKUN EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐISINS.“

VIII. viðauki (Staðfesturéttur):

Eftirfarandi komi í stað annarrar málsgreinar undir fyrirsögninni „AÐLÖGUNARTÍMABIL“:
„Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (1. kafli VI. viðauka) og Rúmeníu (1. kafli VII. viðauka), gildir.
Að því er varðar verndarráðstafanirnar sem er að finna í bráðabirgðafyrirkomulaginu, sem vísað er til í fyrri málsgreinum, að undanskildu fyrirkomulagi vegna Möltu, gildir BÓKUN 44 UM VERNDARRÁÐSTAFANIR SAMKVÆMT SAMNINGNUM UM STÆKKUN EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐISINS.“

IX. viðauki (Fjármálaþjónusta):

Eftirfarandi málsgrein bætist við lið 30c (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/9/EB):
„Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (2. kafli VI. viðauka) og Rúmeníu (2. kafli VII. viðauka), gildir.“

XI. viðauki (Fjarskiptaþjónusta):

Eftirfarandi málsgrein bætist við á undan aðlögunartextanum í lið 5cm (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/22/EB):
„Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (9. kafli VI. viðauka), gildir.“

XII. viðauki (Frjálsir fjármagnsflutningar):

Eftirfarandi málsgrein bætist við á eftir málsgreininni undir fyrirsögninni „AÐLÖGUNARTÍMABIL“:
„Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (3. kafli VI. viðauka) og Rúmeníu (3. kafli VII. viðauka), gildir.“

XIII. viðauki (Flutningastarfsemi):

     1.      Eftirfarandi málsgrein bætist við lið 15a (tilskipun ráðsins 96/53/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (3. liður í 5. kafla VI. viðauka) og Rúmeníu (2. liður í 6. kafla VII. viðauka), gildir.“
     2.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í lið 18a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/ 62/EB) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Rúmeníu (3. liður í 6. kafla VII. viðauka), gildir.“
     3.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í 19. lið (tilskipun ráðsins 96/26/EB) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (2. liður í 5. kafla VII. viðauka), gildir.“
     4.      Í lið 26c (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3118/93) komi eftirfarandi í stað annarrar málsgreinar um bráðabirgðafyrirkomulagið:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (1. liður í 5. kafla VI. viðauka) og Rúmeníu (1. liður í 6. kafla VII. viðauka), gildir.
        Að því er varðar verndarráðstafanirnar sem er að finna í bráðabirgðafyrirkomulaginu, sem vísað er til í fyrri málsgreinum, gildir BÓKUN 44 UM VERNDARRÁÐSTAFANIR SAMKVÆMT SAMNINGNUM UM STÆKKUN EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐISINS.“

XV. viðauki (Ríkisaðstoð):

     1.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í lok „AÐLÖGUN Á TILTEKNUM SVIÐUM“:
        „Fyrirkomulagið varðandi núverandi aðstoðarkerfi, sem mælt er fyrir um í 2. kafla (Samkeppni) í V. viðauka við aðildarlögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina um aðild frá 25. apríl 2005, gildir milli samningsaðila.“
     2.      Eftirfarandi bætist við á undan fyrirsögninni „GERÐIR SEM VÍSAÐ ER TIL“:
        „AÐLÖGUNARTÍMABIL
        Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Rúmeníu (4. kafli VI. viðauka), gildir.“

XVII. viðauki (Hugverkaréttindi):

Eftirfarandi bætist við undir fyrirsögninni „AÐLÖGUN Á TILTEKNUM SVIÐUM“:
„Sérstaka málsmeðferðin, sem mælt er fyrir um í 1. kafla (Félagaréttur) í V. viðauka við aðildarlögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina um aðild frá 25. apríl 2005, gildir milli samningsaðila.“

XVIII. viðauki (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna):

Í 30. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB) komi eftirfarandi í stað annarrar málsgreinar um bráðabirgðafyrirkomulagið:
„Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (1. kafli VI. viðauka) og Rúmeníu (1. kafli VII. viðauka), gildir.
Að því er varðar verndarráðstafanirnar sem er að finna í bráðabirgðafyrirkomulaginu, sem vísað er til í fyrri málsgreinum, gildir BÓKUN 44 UM VERNDARRÁÐSTAFANIR SAMKVÆMT SAMNINGNUM UM STÆKKUN EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐISINS.“

XX. viðauki (Umhverfismál):

     1.      Eftirfarandi málsgrein bætist við lið 1f (tilskipun ráðsins 96/61/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (1. liður í D-þætti 10. kafla VI. viðauka) og Rúmeníu (1. liður í D-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     2.      Eftirfarandi málsgrein bætist við lið 7a (tilskipun ráðsins 98/83/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Rúmeníu (5. liður í C-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     3.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í 9. lið (tilskipun ráðsins 83/513/EBE) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Rúmeníu (1. liður í C-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     4.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í 10. lið (tilskipun ráðsins 84/156/EBE) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Rúmeníu (1. liður í 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     5.      Eftirfarandi bætist við á undan aðlögunartextanum í 11. lið (tilskipun ráðsins 84/491/ EBE):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Rúmeníu (2. liður í C-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     6.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í 12. lið (tilskipun ráðsins 86/280/EBE) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Rúmeníu (3. liður í C-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     7.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í 13. lið (tilskipun ráðsins 91/271/EBE) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (C-þáttur í 10. kafla VI. viðauka) og Rúmeníu (4. liður í C-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     8.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í lið 19a (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/ 80/EB) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (2. liður í D-þætti 10. kafla VI. viðauka) og Rúmeníu (3. liður í D-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     9.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í lið 21ad (tilskipun ráðsins 1999/32/EB) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (2. liður í A-þætti 10. kafla VII. viðauka), gildir.“
     10.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í lið 32c (reglugerð ráðsins (EBE) nr. 259/93) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (1. liður í B-þætti 10. kafla VI. viðauka) og Rúmeníu (1. liður í B-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     11.      Eftirfarandi málsgrein bætist við lið 32d (tilskipun ráðsins 1999/31/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (3. liður í B-þætti 10. kafla VI. viðauka) og Rúmeníu (3. liður í B-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     12.      Eftirfarandi málsgrein bætist við á undan aðlögunartextanum í lið 32f (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/76/EB):
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Rúmeníu (2. liður í D-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“
     13.      Eftirfarandi málsgrein bætist við í lið 32fa (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/ 96/EB) á milli málsgreinarinnar um bráðabirgðafyrirkomulagið og aðlögunartextans:
        „Bráðabirgðafyrirkomulagið, sem mælt er fyrir um í viðaukunum við lögin frá 25. apríl 2005 eða, eftir atvikum, við bókunina frá 25. apríl 2005 um aðild Búlgaríu (4. liður í B-þætti 10. kafla VI. viðauka) og Rúmeníu (4. liður í B-þætti 9. kafla VII. viðauka), gildir.“


LOKAGERÐ


Fulltrúar með fullt umboð

EVRÓPUBANDALAGSINS,

er nefnist „bandalagið“ í því sem hér fer á eftir, og eftirtalinna ríkja:

KONUNGSRÍKISINS BELGÍU,
LÝÐVELDISINS TÉKKLANDS,
KONUNGSRÍKISINS DANMERKUR,
SAMBANDSLÝÐVELDISINS ÞÝSKALANDS,
LÝÐVELDISINS EISTLANDS,
LÝÐVELDISINS GRIKKLANDS,
KONUNGSRÍKISINS SPÁNAR,
LÝÐVELDISINS FRAKKLANDS,
ÍRLANDS,
LÝÐVELDISINS ÍTALÍU,
LÝÐVELDISINS KÝPUR,
LÝÐVELDISINS LETTLANDS,
LÝÐVELDISINS LITHÁENS,
STÓRHERTOGADÆMISINS LÚXEMBORGAR,
LÝÐVELDISINS UNGVERJALANDS,
LÝÐVELDISINS MÖLTU,
KONUNGSRÍKISINS HOLLANDS,
LÝÐVELDISINS AUSTURRÍKIS,
LÝÐVELDISINS PÓLLANDS,
LÝÐVELDISINS PORTÚGALS,
LÝÐVELDISINS SLÓVENÍU,
LÝÐVELDISINS SLÓVAKÍU,
LÝÐVELDISINS FINNLANDS,
KONUNGSRÍKISINS SVÍÞJÓÐAR,
HINS SAMEINAÐA KONUNGSRÍKIS STÓRA-BRETLANDS OG NORÐUR-ÍRLANDS,

sem eiga aðild að stofnsáttmála EVRÓPUBANDALAGSINS og nefnast „aðildarríki EB“ í því sem hér fer á eftir,

fulltrúar með fullt umboð

ÍSLANDS,
FURSTADÆMISINS LIECHTENSTEINS,
KONUNGSRÍKISINS NOREGS,

er nefnast „EFTA-ríkin“ í því sem hér fer á eftir,

en öll ofangreind ríki eiga aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem var undirritaður í Óportó 2. maí 1992, og nefnist „EES-samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, og nefnast „núverandi samningsaðilar“ í því sem hér fer á eftir,

og

fulltrúar með fullt umboð

LÝÐVELDISINS BÚLGARÍU,
RÚMENÍU,

er nefnast „nýju samningsaðilarnir“ í því sem hér fer á eftir,

komu saman í […] hinn […] […] árið tvö þúsund og […] til þess að undirrita samning um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu og hafa eftirtalin skjöl hlotið samþykki þeirra:

I.    Samningur um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu (er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir)

II.    Eftirtalin skjöl sem fylgja samningnum:
    Viðauki A: Skrá sem um getur í 3. gr. samningsins
    Viðauki B: Skrá sem um getur í 4. gr. samningsins

Eftirtaldar sameiginlegar yfirlýsingar, sem fylgja lokagerð þessari, hafa hlotið samþykki fulltrúa með fullt umboð núverandi samningsaðila og fulltrúa með fullt umboð nýju samningsaðilanna:
     1.      Sameiginleg yfirlýsing um skjóta fullgildingu samningsins um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu
     2.      Sameiginleg yfirlýsing um hvenær bráðabirgðafyrirkomulag fellur úr gildi
     3.      Sameiginleg yfirlýsing um beitingu upprunareglna í kjölfar gildistöku samningsins um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu
     4.      Sameiginleg yfirlýsing um viðskipti með landbúnaðarafurðir og unnar landbúnaðarafurðir
     5.      Sameiginleg yfirlýsing um aðlögunarákvæði vegna Liechtensteins á sviði frelsis launþega til flutninga
     6.      Sameiginleg yfirlýsing um forgangsgeira sem um getur í bókun 38a
     7.      Sameiginleg yfirlýsing um fjárframlög

Fulltrúar með fullt umboð núverandi samningsaðila og fulltrúar með fullt umboð nýju samningsaðilanna hafa kynnt sér eftirtaldar yfirlýsingar, sem mynda fylgiskjöl með þessari lokagerð:
     1.      Almenna sameiginlega yfirlýsingu EFTA-ríkjanna
     2.      Sameiginlega yfirlýsingu EFTA-ríkjanna um frelsi launþega til flutninga
     3.      Einhliða yfirlýsingu ríkisstjórnar Liechtensteins um bókun 38a

Þeir hafa jafnframt komið sér saman um að EES-samningurinn, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og óstyttum texta allra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, verði þýddur á búlgörsku og rúmensku og fullgiltur á þeim tungumálum af hálfu fulltrúa samningsaðilanna eigi síðar en við gildistöku samningsins.

Þeir hafa kynnt sér samning í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu, sem myndar einnig fylgiskjal með þessari lokagerð.

Þeir hafa einnig kynnt sér samning í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu, sem myndar fylgiskjal með þessari lokagerð.

Þá hafa þeir kynnt sér viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu, sem myndar fylgiskjal með þessari lokagerð.

Þeir hafa ennfremur kynnt sér viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu, sem myndar einnig fylgiskjal með þessari lokagerð.

Þeir leggja á það áherslu að samningar og bókanir, sem að ofan greinir, hafa hlotið samþykki á þeirri forsendu að þátttaka á Evrópska efnahagssvæðinu haldist óbreytt.

Gjört í […] hinn […].

Fyrir hönd Evrópubandalagsins



SAMEIGINLEGAR YFIRLÝSINGAR
NÚVERANDI SAMNINGSAÐILA OG NÝJU SAMNINGSAÐILANNA


SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
UM SKJÓTA FULLGILDINGU SAMNINGSINS UM ÞÁTTTÖKU LÝÐVELDISINS BÚLGARÍU OG RÚMENÍU Á EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐINU


Núverandi samningsaðilar og nýju samningsaðilarnir leggja áherslu á að til þess að góð framkvæmd Evrópska efnahagssvæðisins sé tryggð er mikilvægt að samningurinn um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu hljóti fullgildingu eða viðurkenningu núverandi samningsaðila og nýju samningsaðilanna með skjótum hætti í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvers og eins.

SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
UM HVENÆR BRÁÐABIRGÐAFYRIRKOMULAG FELLUR ÚR GILDI


Hvers kyns bráðabirgðafyrirkomulag, sem er að finna í aðildarsáttmálanum, skal tekið upp í EES-samninginn en falla úr gildi sama dag og verið hefði ef stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins hefði átt sér stað samtímis hinn 1. janúar 2007.

SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
UM BEITINGU UPPRUNAREGLNA Í KJÖLFAR GILDISTÖKU SAMNINGSINS UM ÞÁTTTÖKU LÝÐVELDISINS BÚLGARÍU OG RÚMENÍU Á EVRÓPSKA EFNAHAGSSVÆÐINU


     1.      Ef upprunasönnun er gefin út á réttan hátt á vegum EFTA-ríkis eða nýs samningsaðila á grundvelli samnings um fríðindameðferð sem er í gildi milli EFTA-ríkjanna og nýja samningsaðilans eða einhliða ákvæða í landslögum EFTA-ríkis eða eins nýju samningsaðilanna skal slíkt teljast sönnun á EES-fríðindauppruna að því tilskildu:
        a)    að upprunasönnunin og flutningsskjölin hafi verið gefin út eigi síðar en daginn áður en nýi samningsaðilinn öðlaðist aðild að Evrópusambandinu
        b)    að upprunasönnunin berist tollyfirvöldum áður en fjórir mánuðir eru liðnir frá gildistöku samningsins
        Ef lögð er fram innflutningsskýrsla vegna innflutnings á vörum frá EFTA-ríki til eins nýju samningsaðilanna eða frá eins nýju samningsaðilanna til EFTA-ríkis, eftir því sem við á, sem átt hefur sér stað áður en nýi samningsaðilinn öðlaðist aðild að Evrópusambandinu samkvæmt ákvæðum um fríðindameðferð sem voru í gildi milli EFTA-ríkis og nýja samningsaðilans á þeim tíma, mega EFTA-ríkin eða nýju samningsaðilarnir einnig taka gilda upprunasönnun sem er gefin út eftir á í samræmi við slíka tilhögun að því tilskildu að hún berist tollyfirvöldum áður en fjórir mánuðir eru liðnir frá gildistöku samningsins.
     2.      EFTA-ríkjunum annars vegar og Lýðveldinu Búlgaríu og Rúmeníu hins vegar er heimilt að hafa áfram í gildi leyfi sem veita stöðu „viðurkennds útflytjanda“ á grundvelli samninga sem eru í gildi milli EFTA-ríkjanna annars vegar og Lýðveldisins Búlgaríu eða Rúmeníu hins vegar að því tilskildu að hinir viðurkenndu útflytjendur beiti upprunareglum EES-samningsins.
        Í stað þessara leyfa í EFTA-ríkjunum og Lýðveldinu Búlgaríu og Rúmeníu skulu koma, eigi síðar en einu ári eftir gildistöku samningsins, ný leyfi sem eru gefin út í samræmi við skilyrðin sem mælt er fyrir um í bókun 4 við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
     3.      Lögbær yfirvöld EFTA-ríkjanna og nýju samningsaðilanna skulu taka til greina óskir um síðari sannprófun upprunasönnunar sem gefin er út á grundvelli samninga og ákvæða um fríðindameðferð, sem um getur í 1. og 2. mgr. hér á undan, um þriggja ára skeið eftir að slík upprunasönnun er gefin út og er sömu yfirvöldum heimilt að leggja fram slíkar óskir um þriggja ára skeið eftir að upprunasönnunin er samþykkt.

SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
UM VIÐSKIPTI MEÐ LANDBÚNAÐARAFURÐIR OG UNNAR LANDBÚNAÐARAFURÐIR


     1.      Í tengslum við samningaviðræður um stækkun Evrópska efnahagssvæðisins höfðu núverandi samningsaðilar og nýju samningsaðilarnir samráð í því skyni að meta þörfina á að breyta tvíhliða viðskiptafríðindum vegna landbúnaðarafurða og unninna landbúnaðarafurða sem er að finna í viðkomandi köflum EES-samningsins eða viðkomandi tvíhliða samningum milli Evrópubandalagsins og Íslands, Liechtensteins og Noregs, hvers um sig, með hliðsjón af stækkun Evrópusambandsins.
     2.      Núverandi samningsaðilar og nýju samningsaðilarnir hafa metið skilyrði fyrir markaðsaðgangi fyrir einstakar vörur og komið sér saman um að engum viðskiptafríðindum skuli bætt við neinn gildandi samning vegna landbúnaðarafurða eða unninna landbúnaðarafurða í tengslum við stækkunina.
     3.      Núverandi samningsaðilar og nýju samningsaðilarnir hafa komið sér saman um að Ísland, Liechtenstein og Noregur skuli hvorki beita fyrir sér kröfu, beiðni eða málskoti né breyta nokkrum viðskiptafríðindum eða fella þau niður á grundvelli 6. mgr. XXIV. gr. og XXVIII. gr. GATT-samningsins frá 1994 að því er varðar landbúnaðarafurðir í tengslum við þessa stækkun Evrópusambandsins.

SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
UM AÐLÖGUNARÁKVÆÐI VEGNA LIECHTENSTEINS Á SVIÐI FRELSIS LAUNÞEGA TIL FLUTNINGA


Núverandi samningsaðilar og nýju samningsaðilarnir
          vísa til aðlögunarákvæða vegna Liechtensteins á sviði frelsis launþega til flutninga sem voru tekin upp með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 191/1999 og breytt var með samningnum um þátttöku Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu á Evrópska efnahagssvæðinu frá 14. október 2003,
          benda á að mikillar og stöðugrar ásóknar verður vart hjá ríkisborgurum EB- og EFTA- ríkja að setjast að í Liechtenstein og er hún umfram hreinan fjölda innflytjenda sem kveðið er á um í ofangreindum reglum,
          hafa hliðsjón af því að vegna þátttöku Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu hafa fleiri ríkisborgarar rétt til að færa sér í nyt frelsi launþega til flutninga sem tryggt er í EES-samningnum,
og hafa komið sér saman um að taka fullt tillit til þessara aðstæðna, ásamt óbreyttri getu Liechtensteins til að taka við fólki, við endurskoðun á aðlögunarákvæðum á tilteknum sviðum sem er að finna í V. og VIII. viðauka við EES-samninginn.

SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
UM FORGANGSGEIRA SEM UM GETUR Í BÓKUN 38A


Núverandi samningsaðilar og nýju samningsaðilarnir taka fram að ekki er nauðsynlegt að veita fé til allra forgangsgeira, samkvæmt skilgreiningunni í 3. gr. bókunar 38a, í hverju styrkríki.

SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
UM FJÁRFRAMLÖG


Núverandi samningsaðilar og nýju samningsaðilarnir eru sammála um að breytilega tilhögun fjárframlaga, sem samið hefur verið um í tengslum við stækkun EES, ber ekki að túlka sem fordæmi fyrir tímabilið sem tekur við eftir að sú tilhögun fellur úr gildi 30. apríl 2009.

AÐRAR YFIRLÝSINGAR
EINS EÐA FLEIRI SAMNINGSAÐILA


ALMENN SAMEIGINLEG YFIRLÝSING EFTA-RÍKJANNA


EFTA-ríkin hafa kynnt sér yfirlýsingar sem hafa þýðingu í tengslum við EES-samninginn og fylgja lokagerð sáttmálans milli Konungsríkisins Belgíu, Lýðveldisins Tékklands, Konungsríkisins Danmerkur, Sambandslýðveldisins Þýskalands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Grikklands, Konungsríkisins Spánar, Lýðveldisins Frakklands, Írlands, Lýðveldisins Ítalíu, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Stórhertogadæmisins Lúxemborgar, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Konungsríkisins Hollands, Lýðveldisins Austurríkis, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Portúgals, Lýðveldisins Slóveníu, Lýðveldisins Slóvakíu, Lýðveldisins Finnlands, Konungsríkisins Svíþjóðar, Hins sameinaða konungsríkis Stóra-Bretlands og Norður-Írlands, (aðildarríkja Evrópusambandsins) og Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu um aðild Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu.

EFTA-ríkin leggja áherslu á að túlkun og beiting yfirlýsinganna, sem hafa þýðingu í tengslum við EES-samninginn og fylgja lokagerð sáttmálans sem um getur í undanfarandi málsgrein, má ekki brjóta í bága við skuldbindingar núverandi samningsaðila og nýju samningsaðilanna samkvæmt samningi þessum eða EES-samningnum.

SAMEIGINLEG YFIRLÝSING
EFTA-RÍKJANNA UM FRELSI LAUNÞEGA TIL FLUTNINGA


EFTA-ríkin leggja áherslu á hversu mikilvægt er að taka mið af aðstæðum og gæta sveigjanleika þegar kemur að framkvæmd ákvæða um frelsi launþega til flutninga. Þau munu leitast við að greiða ríkisborgurum Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu aðgang að vinnumarkaði í samræmi við ákvæði landslaga í því skyni að flýta fyrir samræmingu réttarreglna EES. Þetta ætti að leiða til þess að atvinnutækifærum ríkisborgara Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu í EFTA-ríkjunum fjölgi verulega í kjölfar aðildar þessara ríkja. EFTA-ríkin munu jafnframt nýta sem best fyrirhugaða tilhögun sem miðast við að koma sem fyrst í fulla framkvæmd réttarreglum á sviði frelsis launþega til flutninga. Í Liechtenstein verður þetta gert í samræmi við sérstaka tilhögun sem mælt er fyrir um í ákvæðum um aðlögun á tilteknum sviðum í V. viðauka (Frelsi launþega til flutninga) og VIII. viðauka (Staðfesturéttur) við EES-samninginn.

EINHLIÐA YFIRLÝSING
RÍKISSTJÓRNAR LIECHTENSTEINS UM BÓKUN 38A


Ríkisstjórn Liechtensteins
          vísar til viðauka við bókun 38a
          rifjar upp að Búlgaría og Rúmenía eiga að njóta framlaga EFTA-ríkjanna til að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi á Evrópska efnahagssvæðinu í sama mæli og styrkríkin sem nefnd eru í 5. gr. bókunar 38a að teknu tilliti til skiptingarinnar sem fram kemur í þeirri grein,
          tekur fram að EFTA-ríkin lögðu gríðarmikið af mörkum í fjármagnskerfi EES til að auka fjárveitingar vegna Búlgaríu og Rúmeníu,
og lýsir yfir þeim skilningi sínum að við endurskoðunina, sem mælt er fyrir um í 9. gr. bókunar 38a, skuli frekari fjárframlög, sem um kann að semjast, miðast við þann árangur sem þegar hefur náðst í að draga úr efnahagslegu og félagslegu misræmi þannig að framlög EFTA-ríkjanna þriggja lækki hlutfallslega ef eitt eða fleiri núverandi styrkríkja eiga ekki lengur rétt á fjárframlögum samkvæmt slíkri tilhögun.

SAMNINGUR

í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu


A. Bréf frá Evrópubandalaginu

Herra …,

Mér veitist sá heiður að vísa til samningaviðræðna sem átt hafa sér stað milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs („Noregs“) í tengslum við væntanlega aðild Búlgaríu að EES-samningnum og að stofnað er til samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu.
Niðurstöður samningaviðræðnanna eru sem hér segir:
     1.      Noregur og Búlgaría skulu stofna til samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu á grundvelli tvíhliða verkefna í samræmi við tvíhliða samning milli þessara tveggja ríkja. Texti þessa tvíhliða samnings kemur fram í viðauka við þessi bréfaskipti og er óaðskiljanlegur hluti þeirra.
     2.      Fjárframlag Noregs vegna þessarar áætlunar skal nema í heild 20 milljónum evra og vera til skuldbindingar í einu lagi á árinu 2007. Þessi fjárhæð skal vera til úthlutunar frá gildistökudegi samningsins um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu, eða samnings um að beita þeim samningi til bráðabirgða, allt til 30. apríl 2009.
     3.      Þessi bréfaskipti:
        a)    skulu fullgilt eða samþykkt af hálfu Evrópubandalagsins og Noregs í samræmi við reglur hvors aðila um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.
        b)    Bréfaskiptin öðlast gildi daginn eftir að síðasta skjal um fullgildingu eða samþykki er afhent til vörslu að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki eftirtalinna tengdra samninga hafi einnig verið afhent til vörslu:
                i)    Samningur um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu
                ii)    Samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu
                iii)    Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu og
                iv)    Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu

Ég óska vinsamlega eftir staðfestingu yðar á því að þér samþykkið efni þessa bréfs.

Ég votta yður mína fyllstu virðingu.

Fyrir hönd Evrópubandalagsins


Viðauki: 1
VIÐAUKI

SAMNINGUR UM NORSKA SAMSTARFSÁÆTLUN UM HAGVÖXT OG SJÁLFBÆRA ÞRÓUN Í BÚLGARÍU

milli
KONUNGSRÍKISINS NOREGS
og
LÝÐVELDISINS BÚLGARÍU,

er nefnast „samningsaðilar“ í því sem hér fer á eftir


***


1. gr.
Markmið

Stofna skal til norskrar samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu á grundvelli tvíhliða samstarfsverkefna milli samningsaðila í þeim geirum sem um getur í 4. gr.


2. gr.
Fjárframlag

Fjárframlag Konungsríkisins Noregs vegna hinnar norsku samstarfsáætlunar fyrir Lýðveldið Búlgaríu skal nema í heild 20 milljónum evra og vera til skuldbindingar í einu lagi á árinu 2007.


3. gr.
Gildistími

Fjárhæðin, sem um getur í 2. gr., skal vera til úthlutunar frá gildistökudegi samningsins um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu, eða gildistökudegi samnings um að beita samningnum til bráðabirgða, allt til 30. apríl 2009.

4. gr.
Forgangsgeirar

Hin norska samstarfsáætlun fyrir Búlgaríu skal ná til tvíhliða samstarfsverkefna milli hlutgengra umsækjenda frá samningsaðilum sem lúta að því að styrkja félagslega og efnahagslega uppbyggingu í Lýðveldinu Búlgaríu í eftirtöldum forgangsgeirum:
          Minni losun gróðurhúsalofttegunda, að meðtöldum sameiginlegum framkvæmdaverkefnum samkvæmt Kyoto-bókuninni, og minni losun annarra efna í loft og vatn
          Orkunýting og endurnýjanleg orka
          Stuðningur við sjálfbæra framleiðslu, meðal annars með vottun og sannprófun
          Framkvæmd Schengen-réttarreglna, stuðningur við Schengen-landsáætlanir og styrking réttarkerfisins

Hugsanleg starfsemi er til að mynda nýsköpun, uppbygging mannauðs, tengslamyndun, styrking kunnáttu, miðlun tækniþekkingar og rannsóknir og þróunarstarf.

5. gr.
Hámark vegna sameiginlegrar fjármögnunar

Fé, sem Norðmenn leggja fram sem styrki, skal ekki vera umfram 60 % af verkefniskostnaði nema þegar um ræðir verkefni sem eru fjármögnuð að öðru leyti með fjárveitingum frá ríki, héruðum eða sveitarfélögum, en þá má framlagið ekki vera umfram 85 % af verkefniskostnaði. Hvað sem öðru líður skal aldrei farið yfir hámark vegna sameiginlegrar fjármögnunar samkvæmt reglum bandalagsins. Framlög til frjálsra félagasamtaka og aðila vinnumarkaðarins geta numið allt að 90 % verkefniskostnaðar.

6. gr.
Umsýsla

Umsýsla hinnar norsku samstarfsáætlunar fyrir Búlgaríu skal vera í höndum norskra stjórnvalda eða aðila sem þau tilnefna. Umsýsluaðilinn skal hafa samráð við landsmiðstöðina sem stjórnvöld í Lýðveldinu Búlgaríu tilnefna. Framkvæmdastjórninni er heimilt að skoða verkefni.

Stjórnvöld í Noregi munu setja frekari ákvæði um framkvæmd samnings þessa eftir því sem þörf gerist.

Umsýslukostnaður vegna hinnar norsku samstarfsáætlunar skal tekinn af fjárhæðinni sem um getur í 2. gr.

7. gr.
Gildistaka

Samningur þessi skal fullgiltur af hálfu Konungsríkisins Noregs og Lýðveldisins Búlgaríu í samræmi við reglur um málsmeðferð í hvoru ríki. Hann öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að síðasti samningsaðili hefur afhent norska utanríkisráðuneytinu skjal sitt um fullgildingu, þó ekki áður en samningur um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu öðlast gildi, eða á gildistökudegi samnings um að beita síðarnefnda samningnum til bráðabirgða.

Gjört í Brussel hinn ……… 2007,

Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs
Fyrir hönd Lýðveldisins Búlgaríu



B. Bréf frá Konungsríkinu Noregi

Herra …,

Mér veitist sá heiður að staðfesta að mér hefur borist bréf yðar frá í dag, sem hljóðar svo:

„Mér veitist sá heiður að vísa til samningaviðræðna sem átt hafa sér stað milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs („Noregs“) í tengslum við væntanlega aðild Búlgaríu að EES-samningnum og að stofnað er til samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu.

Niðurstöður samningaviðræðnanna eru sem hér segir:
     1.      Noregur og Búlgaría skulu stofna til samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu á grundvelli tvíhliða verkefna í samræmi við tvíhliða samning milli þessara tveggja ríkja. Texti þessa tvíhliða samnings kemur fram í viðauka við þessi bréfaskipti og er óaðskiljanlegur hluti þeirra.
     2.      Fjárframlag Noregs vegna þessarar áætlunar skal nema í heild 20 milljónum evra og vera til skuldbindingar í einu lagi á árinu 2007. Þessi fjárhæð skal vera til úthlutunar frá gildistökudegi samningsins um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu, eða samnings um að beita þeim samningi til bráðabirgða, allt til 30. apríl 2009.
     3.      Þessi bréfaskipti:
        a)    skulu fullgilt eða samþykkt af hálfu Evrópubandalagsins og Noregs í samræmi við reglur hvors aðila um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.
        b)    Bréfaskiptin öðlast gildi daginn eftir að síðasta skjal um fullgildingu eða samþykki er afhent til vörslu að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki eftirtalinna tengdra samninga hafi einnig verið afhent til vörslu:
                i)    Samningur um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu
                ii)    Samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu
                iii)    Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu og
                iv)    Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu

Ég óska vinsamlega eftir staðfestingu yðar á því að þér samþykkið efni þessa bréfs.

Ég votta yður mína fyllstu virðingu.

Fyrir hönd Evrópubandalagsins


Viðauki: 1
VIÐAUKI

SAMNINGUR UM NORSKA SAMSTARFSÁÆTLUN UM HAGVÖXT OG SJÁLFBÆRA ÞRÓUN Í BÚLGARÍU
milli
KONUNGSRÍKISINS NOREGS
og
LÝÐVELDISINS BÚLGARÍU,
er nefnast „samningsaðilar“ í því sem hér fer á eftir

***


1. gr.
Markmið

Stofna skal til norskrar samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu á grundvelli tvíhliða samstarfsverkefna milli samningsaðila í þeim geirum sem um getur í 4. gr.

2. gr.
Fjárframlag

Fjárframlag Konungsríkisins Noregs vegna hinnar norsku samstarfsáætlunar fyrir Lýðveldið Búlgaríu skal nema í heild 20 milljónum evra og vera til skuldbindingar í einu lagi á árinu 2007.

3. gr.
Gildistími

Fjárhæðin, sem um getur í 2. gr., skal vera til úthlutunar frá gildistökudegi samningsins um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu, eða gildistökudegi samnings um að beita samningnum til bráðabirgða, allt til 30. apríl 2009.

4. gr.
Forgangsgeirar

Hin norska samstarfsáætlun fyrir Búlgaríu skal ná til tvíhliða samstarfsverkefna milli hlutgengra umsækjenda frá samningsaðilum sem lúta að því að styrkja félagslega og efnahagslega uppbyggingu í Lýðveldinu Búlgaríu í eftirtöldum forgangsgeirum:
          Minni losun gróðurhúsalofttegunda, að meðtöldum sameiginlegum framkvæmdaverkefnum samkvæmt Kyoto-bókuninni, og minni losun annarra efna í loft og vatn
          Orkunýting og endurnýjanleg orka
          Stuðningur við sjálfbæra framleiðslu, meðal annars með vottun og sannprófun
          Framkvæmd Schengen-réttarreglna, stuðningur við Schengen-landsáætlanir og styrking réttarkerfisins

Hugsanleg starfsemi er til að mynda nýsköpun, uppbygging mannauðs, tengslamyndun, styrking kunnáttu, miðlun tækniþekkingar og rannsóknir og þróunarstarf.

5. gr.
Hámark vegna sameiginlegrar fjármögnunar

Fé, sem Norðmenn leggja fram sem styrki, skal ekki vera umfram 60 % af verkefniskostnaði nema þegar um ræðir verkefni sem eru fjármögnuð að öðru leyti með fjárveitingum frá ríki, héruðum eða sveitarfélögum, en þá má framlagið ekki vera umfram 85 % af verkefniskostnaði. Hvað sem öðru líður skal aldrei farið yfir hámark vegna sameiginlegrar fjármögnunar samkvæmt reglum bandalagsins. Framlög til frjálsra félagasamtaka og aðila vinnumarkaðarins geta numið allt að 90 % verkefniskostnaðar.

6. gr.
Umsýsla

Umsýsla hinnar norsku samstarfsáætlunar fyrir Búlgaríu skal vera í höndum norskra stjórnvalda eða aðila sem þau tilnefna. Umsýsluaðilinn skal hafa samráð við landsmiðstöðina sem stjórnvöld í Lýðveldinu Búlgaríu tilnefna. Framkvæmdastjórninni er heimilt að skoða verkefni.

Stjórnvöld í Noregi munu setja frekari ákvæði um framkvæmd samnings þessa eftir því sem þörf gerist.

Umsýslukostnaður vegna hinnar norsku samstarfsáætlunar skal tekinn af fjárhæðinni sem um getur í 2. gr.

7. gr.
Gildistaka

Samningur þessi skal fullgiltur af hálfu Konungsríkisins Noregs og Lýðveldisins Búlgaríu í samræmi við reglur um málsmeðferð í hvoru ríki. Hann öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að síðasti samningsaðili hefur afhent norska utanríkisráðuneytinu skjal sitt um fullgildingu, þó ekki áður en samningur um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu öðlast gildi, eða á gildistökudegi samnings um að beita síðarnefnda samningnum til bráðabirgða.

Gjört í Brussel hinn ……… 2007,

Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs
Fyrir hönd Lýðveldisins Búlgaríu“


Mér veitist sá heiður að staðfesta samþykki við efni bréfs yðar.

Ég votta yður mína fyllstu virðingu.

Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs



SAMNINGUR
í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu


A. Bréf frá Evrópubandalaginu

Herra …,

Mér veitist sá heiður að vísa til samningaviðræðna sem átt hafa sér stað milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs („Noregs“) í tengslum við væntanlega aðild Rúmeníu að EES-samningnum og að stofnað er til samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu.

Niðurstöður samningaviðræðnanna eru sem hér segir:
     1.      Noregur og Rúmenía skulu stofna til samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu á grundvelli tvíhliða verkefna í samræmi við tvíhliða samning milli þessara tveggja ríkja. Texti þessa tvíhliða samnings kemur fram í viðauka við þessi bréfaskipti og er óaðskiljanlegur hluti þeirra.
     2.      Fjárframlag Noregs vegna þessarar áætlunar skal nema í heild 48 milljónum evra og vera til skuldbindingar í einu lagi á árinu 2007. Þessi fjárhæð skal vera til úthlutunar frá gildistökudegi samningsins um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu, eða samnings um að beita þeim samningi til bráðabirgða, allt til 30. apríl 2009.
     3.      Þessi bréfaskipti:
        a)    skulu fullgilt eða samþykkt af hálfu Evrópubandalagsins og Noregs í samræmi við reglur hvors aðila um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.
        b)    Bréfaskiptin öðlast gildi daginn eftir að síðasta skjal um fullgildingu eða samþykki er afhent til vörslu að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki eftirtalinna tengdra samninga hafi einnig verið afhent til vörslu:
                i)    Samningur um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu
                ii)    Samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu
                iii)    Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu og
                iv)    Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu

Ég óska vinsamlega eftir staðfestingu yðar á því að þér samþykkið efni þessa bréfs.

Ég votta yður mína fyllstu virðingu.

Fyrir hönd Evrópubandalagsins


Viðauki: 1
VIÐAUKI

SAMNINGUR UM NORSKA SAMSTARFSÁÆTLUN UM HAGVÖXT OG SJÁLFBÆRA ÞRÓUN Í RÚMENÍU
milli
KONUNGSRÍKISINS NOREGS
og
RÚMENÍU
er nefnast „samningsaðilar“ í því sem hér fer á eftir

***


1. gr.
Markmið

Stofna skal til norskrar samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu á grundvelli tvíhliða samstarfsverkefna milli samningsaðila í þeim geirum sem um getur í 4. gr.

2. gr.
Fjárframlag

Fjárframlag Konungsríkisins Noregs vegna hinnar norsku samstarfsáætlunar fyrir Rúmeníu skal nema í heild 48 milljónum evra og vera til skuldbindingar í einu lagi á árinu 2007.

3. gr.
Gildistími

Fjárhæðin, sem um getur í 2. gr., skal vera til úthlutunar frá gildistökudegi samningsins um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu, eða gildistökudegi samnings um að beita samningnum til bráðabirgða, allt til 30. apríl 2009.

4. gr.
Forgangsgeirar

Hin norska samstarfsáætlun fyrir Rúmeníu skal ná til tvíhliða samstarfsverkefna milli hlutgengra umsækjenda frá samningsaðilum sem lúta að því að styrkja félagslega og efnahagslega uppbyggingu í Rúmeníu í eftirtöldum forgangsgeirum:
          Minni losun gróðurhúsalofttegunda, að meðtöldum sameiginlegum framkvæmdaverkefnum samkvæmt Kyoto-bókuninni, og minni losun annarra efna í loft og vatn
          Orkunýting og endurnýjanleg orka
          Stuðningur við sjálfbæra framleiðslu, meðal annars með vottun og sannprófun
          Heilbrigðismál

Hugsanleg starfsemi er til að mynda nýsköpun, uppbygging mannauðs, tengslamyndun, styrking kunnáttu, miðlun tækniþekkingar og rannsóknir og þróunarstarf.

5. gr.
Hámark vegna sameiginlegrar fjármögnunar

Fé, sem Norðmenn leggja fram sem styrki, skal ekki vera umfram 60 % af verkefniskostnaði nema þegar um ræðir verkefni sem eru fjármögnuð að öðru leyti með fjárveitingum frá ríki, héruðum eða sveitarfélögum, en þá má framlagið ekki vera umfram 85 % af verkefniskostnaði. Hvað sem öðru líður skal aldrei farið yfir hámark vegna sameiginlegrar fjármögnunar samkvæmt reglum bandalagsins. Framlög til frjálsra félagasamtaka og aðila vinnumarkaðarins geta numið allt að 90 % verkefniskostnaðar.

6. gr.
Umsýsla

Umsýsla hinnar norsku samstarfsáætlunar fyrir Rúmeníu skal vera í höndum norskra stjórnvalda eða aðila sem þau tilnefna. Umsýsluaðilinn skal hafa samráð við landsmiðstöðina sem stjórnvöld í Rúmeníu tilnefna. Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna er heimilt að skoða verkefni.

Stjórnvöld í Noregi munu setja frekari ákvæði um framkvæmd samnings þessa eftir því sem þörf gerist.

Umsýslukostnaður vegna hinnar norsku samstarfsáætlunar skal tekinn af fjárhæðinni sem um getur í 2. gr.

7. gr.
Gildistaka

Samningur þessi skal fullgiltur af hálfu Konungsríkisins Noregs og Rúmeníu í samræmi við reglur um málsmeðferð í hvoru ríki. Hann öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að síðasti samningsaðili hefur afhent norska utanríkisráðuneytinu skjal sitt um fullgildingu, þó ekki áður en samningur um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu öðlast gildi, eða á gildistökudegi samnings um að beita síðarnefnda samningnum til bráðabirgða.

Gjört í Brussel hinn ……… 2007,

Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs
Fyrir hönd Rúmeníu



B. Bréf frá Konungsríkinu Noregi

Herra …,

Mér veitist sá heiður að staðfesta að mér hefur borist bréf yðar frá í dag, sem hljóðar svo:

„Mér veitist sá heiður að vísa til samningaviðræðna sem átt hafa sér stað milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs („Noregs“) í tengslum við væntanlega aðild Rúmeníu að EES-samningnum og að stofnað er til samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu.

Niðurstöður samningaviðræðnanna eru sem hér segir:
     1.      Noregur og Rúmenía skulu stofna til samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu á grundvelli tvíhliða verkefna í samræmi við tvíhliða samning milli þessara tveggja ríkja. Texti þessa tvíhliða samnings kemur fram í viðauka við þessi bréfaskipti og er óaðskiljanlegur hluti þeirra.
     2.      Fjárframlag Noregs vegna þessarar áætlunar skal nema í heild 48 milljónum evra og vera til skuldbindingar í einu lagi á árinu 2007. Þessi fjárhæð skal vera til úthlutunar frá gildistökudegi samningsins um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu, eða samnings um að beita þeim samningi til bráðabirgða, allt til 30. apríl 2009.
     3.      Þessi bréfaskipti:
        a)    skulu fullgilt eða samþykkt af hálfu Evrópubandalagsins og Noregs í samræmi við reglur hvors aðila um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.
        b)    Bréfaskiptin öðlast gildi daginn eftir að síðasta skjal um fullgildingu eða samþykki er afhent til vörslu að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki eftirtalinna tengdra samninga hafi einnig verið afhent til vörslu:
                i)    Samningur um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu
                ii)    Samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu
                iii)    Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu og
                iv)    Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu

Ég óska vinsamlega eftir staðfestingu yðar á því að þér samþykkið efni þessa bréfs.

Ég votta yður mína fyllstu virðingu.

Fyrir hönd Evrópubandalagsins


Viðauki: 1
VIÐAUKI

SAMNINGUR UM NORSKA SAMSTARFSÁÆTLUN UM HAGVÖXT OG SJÁLFBÆRA ÞRÓUN Í RÚMENÍU
milli
KONUNGSRÍKISINS NOREGS
og
RÚMENÍU
er nefnast „samningsaðilar“ í því sem hér fer á eftir

***


1. gr.
Markmið

Stofna skal til norskrar samstarfsáætlunar um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu á grundvelli tvíhliða samstarfsverkefna milli samningsaðila í þeim geirum sem um getur í 4. gr.

2. gr.
Fjárframlag

Fjárframlag Konungsríkisins Noregs vegna hinnar norsku samstarfsáætlunar fyrir Rúmeníu skal nema í heild 48 milljónum evra og vera til skuldbindingar í einu lagi á árinu 2007.

3. gr.
Gildistími

Fjárhæðin, sem um getur í 2. gr., skal vera til úthlutunar frá gildistökudegi samningsins um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu, eða gildistökudegi samnings um að beita samningnum til bráðabirgða, allt til 30. apríl 2009.

4. gr.
Forgangsgeirar

Hin norska samstarfsáætlun fyrir Rúmeníu skal ná til tvíhliða samstarfsverkefna milli hlutgengra umsækjenda frá samningsaðilum sem lúta að því að styrkja félagslega og efnahagslega uppbyggingu í Rúmeníu í eftirtöldum forgangsgeirum:
          Minni losun gróðurhúsalofttegunda, að meðtöldum sameiginlegum framkvæmdaverkefnum samkvæmt Kyoto-bókuninni, og minni losun annarra efna í loft og vatn
          Orkunýting og endurnýjanleg orka
          Stuðningur við sjálfbæra framleiðslu, meðal annars með vottun og sannprófun
          Heilbrigðismál
Hugsanleg starfsemi er til að mynda nýsköpun, uppbygging mannauðs, tengslamyndun, styrking kunnáttu, miðlun tækniþekkingar og rannsóknir og þróunarstarf.

5. gr.
Hámark vegna sameiginlegrar fjármögnunar

Fé, sem Norðmenn leggja fram sem styrki, skal ekki vera umfram 60 % af verkefniskostnaði nema þegar um ræðir verkefni sem eru fjármögnuð að öðru leyti með fjárveitingum frá ríki, héruðum eða sveitarfélögum, en þá má framlagið ekki vera umfram 85 % af verkefniskostnaði. Hvað sem öðru líður skal aldrei farið yfir hámark vegna sameiginlegrar fjármögnunar samkvæmt reglum bandalagsins. Framlög til frjálsra félagasamtaka og aðila vinnumarkaðarins geta numið allt að 90% verkefniskostnaðar.

6. gr.
Umsýsla

Umsýsla hinnar norsku samstarfsáætlunar fyrir Rúmeníu skal vera í höndum norskra stjórnvalda eða aðila sem þau tilnefna. Umsýsluaðilinn skal hafa samráð við landsmiðstöðina sem stjórnvöld í Rúmeníu tilnefna. Framkvæmdastjórn Evrópubandalaganna er heimilt að skoða verkefni.

Stjórnvöld í Noregi munu setja frekari ákvæði um framkvæmd samnings þessa eftir því sem þörf gerist.

Umsýslukostnaður vegna hinnar norsku samstarfsáætlunar skal tekinn af fjárhæðinni sem um getur í 2. gr.

7. gr.
Gildistaka

Samningur þessi skal fullgiltur af hálfu Konungsríkisins Noregs og Rúmeníu í samræmi við reglur um málsmeðferð í hvoru ríki. Hann öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að síðasti samningsaðili hefur afhent norska utanríkisráðuneytinu skjal sitt um fullgildingu, þó ekki áður en samningur um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu öðlast gildi, eða á gildistökudegi samnings um að beita síðarnefnda samningnum til bráðabirgða.

Gjört í Brussel hinn ……… 2007,

Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs
Fyrir hönd Rúmeníu“


Mér veitist sá heiður að staðfesta samþykki við efni bréfs yðar.

Ég votta yður mína fyllstu virðingu.

Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs



VIÐBÓTARBÓKUN
við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu


EVRÓPUBANDALAGIÐ
og
ÍSLAND

HAFA

með hliðsjón af samningi milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands, sem undirritaður var í Brussel 22. júlí 1972 og nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, og gildandi reglum um viðskipti með fisk og sjávarafurðir milli Íslands og bandalagsins,

með hliðsjón af aðild Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu,

með hliðsjón af samningnum um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu,

með hliðsjón af gildandi reglum um viðskipti með fisk og sjávarafurðir milli Íslands og nýju aðildarríkjanna,

ákveðið sameiginlega að gera breytingar á samningnum vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu

og gera með sér svohljóðandi bókun:

1. gr.

Texti samningsins, viðauka og bókana við hann, sem eru óaðskiljanlegur hluti hans, auk lokagerðarinnar og meðfylgjandi yfirlýsinga, skal þýddur á búlgörsku og rúmensku og teljast þeir textar jafngildir upprunalegu textunum. Sameiginlega nefndin skal samþykkja búlgarska og rúmenska textann.

2. gr.

Í bókun þessari og viðauka við hana er mælt fyrir um sérákvæði um innflutning til bandalagsins á tilteknum fisk- og sjávarafurðum frá Íslandi.

Árlegur tollfrjáls kvóti, sem kveðið er á um í viðauka við bókun þessa, skal koma til framkvæmda á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. apríl 2009. Kvótinn skal endurskoðaður við lok þess tímabils, að teknu tilliti til allra þeirra hagsmuna sem máli skipta. Kvótar ársins 2007 skulu ekki skertir af þeim sökum að stækkun Evrópska efnahagssvæðisins átti sér ekki stað 1. janúar 2007.

Kvótar ársins 2009 skulu skertir í samræmi við gildistíma þeirra til 30. apríl 2009.

3. gr.

Samningsaðilar skulu fullgilda eða samþykkja bókun þessa í samræmi við reglur sínar um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.

Bókunin öðlast gildi daginn eftir að síðasta skjal um fullgildingu eða samþykki er afhent til vörslu að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki eftirtalinna tengdra samninga hafi einnig verið afhent til vörslu:
i)        Samningur um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu
ii)        Samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu
iii)    Samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu og
iv)        Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu

4. gr.

Bókun þessi er gerð í tvíriti á búlgörsku, dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, íslensku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, pólsku, portúgölsku, rúmensku, slóvensku, slóvösku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku, og er hver þessara texta jafngildur.

Gjört í Brussel hinn […].

Fyrir hönd Evrópubandalagsins
Fyrir hönd Íslands



VIÐAUKI

SÉRÁKVÆÐI SEM UM GETUR Í 2. GR.


Bandalagið skal bæta við nýjum árlegum tollfrjálsum kvótum til innflutnings á afurðum sem eru upprunnar á Íslandi sem hér segir:

SAT-númer Vörulýsing Árlegur kvóti
0306 19 30 Frystur humar (Nephrops norvegicus) 520 tonn 1
0304 19 35 Karfaflök (Sebastes spp.), fersk eða kæld 750 tonn


VIÐBÓTARBÓKUN
við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu


EVRÓPUBANDALAGIÐ
og
KONUNGSRÍKIÐ NOREGUR

HAFA

með hliðsjón af samningi milli Efnahagsbandalags Evrópu og Konungsríkisins Noregs, sem undirritaður var 14. maí 1973 og nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, og gildandi reglum um viðskipti með fisk og sjávarafurðir milli Noregs og bandalagsins,

með hliðsjón af aðild Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu,

með hliðsjón af samningnum um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu,

með hliðsjón af gildandi reglum um viðskipti með fisk og sjávarafurðir milli Noregs og Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu,

ákveðið sameiginlega að gera breytingar á samningnum vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu

og gera með sér svohljóðandi bókun:

1. gr.

Texti samningsins, viðauka og bókana við hann, sem eru óaðskiljanlegur hluti hans, auk lokagerðarinnar og meðfylgjandi yfirlýsinga, skal þýddur á búlgörsku og rúmensku og teljast þeir textar jafngildir upprunalegu textunum. Sameiginlega nefndin skal samþykkja búlgarska og rúmenska textann.

2. gr.

Í bókun þessari er mælt fyrir um sérákvæði um innflutning til bandalagsins á tilteknum fisk- og sjávarafurðum frá Noregi.

Innflutningskvóti, sem kveðið er á um í 3. gr. bókunar þessarar, skal koma til framkvæmda á tímabilinu 1. janúar 2007 til 30. apríl 2009. Kvótar, sem kveðið er á um í 3. gr., skulu endurskoðaðir við lok þess tímabils, að teknu tilliti til allra þeirra hagsmuna sem máli skipta. Kvótar ársins 2007 skulu ekki skertir af þeim sökum að stækkun Evrópska efnahagssvæðisins átti sér ekki stað 1. janúar 2007. Kvótar ársins 2009 skulu skertir í samræmi við gildistíma þeirra til 30. apríl 2009.

Um innflutningskvótana skulu gilda upprunareglurnar sem fram koma í bókun nr. 3 við samninginn.

3. gr.

Bandalagið skal bæta við árlegum tollfrjálsum kvóta til innflutnings á afurðum sem hér segir:

* Frystur makríll af tegundunum Scomber scombrus og Scomber japonicus (SAT-númer 0303 74 30): 9 300 tonn
* Fryst síld (Clupea harengus, Clupea pallasii) (SAT-númer 0303 51 00): 1 800 tonn
* Fryst síldarflök og síldarsamflök (Clupea harengus, Clupea pallasii) (SAT-númer 0304 29 75 og 0304 99 23): 600 tonn
* Annar fiskur, frystur (SAT-númer 0303 79 98): 2 200 tonn
* Annar laxfiskur, frystur (SAT-númer 0303 29 00): 2 000 tonn
* Fryst og skelflett rækja (SAT-númer úr 1605 20 10, úr 1605 20 91 og úr 1605 20 99): 2 000 tonn

4. gr.

Bandalagið skal afnema skilyrðið „til iðnaðarvinnslu“, og þar með kröfu um sölu til neytenda, vegna innflutningskvóta sem veittur var árið 2004 fyrir frystan makríl (pöntunarnúmer 09.0760, 09.0763 og 09.0778), frysta síld (pöntunarnúmer 09.0752) og fryst síldarsamflök (pöntunarnúmer 09.0756). Á samsvarandi hátt skal afnema kröfu um að afurðir, sem fluttar eru inn samkvæmt sömu kvótum, skuli ætlaðar til neyslu.

Gildandi tollfrjáls kvóti fyrir frysta og skelfletta rækju með pöntunarnúmer 09.0758 skal taka til SAT-númeranna úr 1605 20 10, úr 1605 20 91 og úr 1605 20 99.

Að því er varðar tímabilið 1. janúar 2008 til 31. desember 20088 skal bandalagið sameina hina tvo gildandi tollfrjálsa kvóta fyrir frysta og skelfletta rækju (pöntunarnúmer 09.0745 og 09.0758) og hinn nýja tollfrjálsa 2 000 tonna kvóta, sem bætist við og kveðið er á um í 3. gr., og láta hinn sameinaða kvóta taka til SAT-númeranna úr 1605 20 10, úr 1605 20 91 og úr 1605 20 99.

Frá 1. janúar 2009 skulu hinir tveir gildandi tollfrjálsu kvótar fyrir frysta og skelfletta rækju með pöntunarnúmer 09.0758 (2 500 tonn) og með pöntunarnúmer 09.0745 (5 500 tonn) og hinn nýi tollfrjálsi 2 000 tonna kvóti, sem bætist við, gilda sem þrír aðskildir innflutningskvótar og taka til SAT-númeranna úr 1605 20 10, úr 1605 20 91 og úr 1605 20 99.

Frá 15. júní 2008 skal bandalagið sameina undirtímabilin, sem tengjast hinum þremur gildandi innflutningskvótum fyrir makríl(pöntunarnúmer 09.0760, 09.0763 og 09.0778) í eitt tímabil sem nær frá 15. júní til 14. febrúar.

5. gr.

Fulltrúar Evrópubandalagsins og Noregs skulu koma saman fyrir lok ársins 2007 til að athuga möguleika á að láta upprunareglunar, sem fram koma í bókun nr. 3 við samninginn, gilda einnig um afurðir sem falla undir bréfaskipti um viðskipti með sjávarafurðir frá 16. apríl 1973.

6. gr.

Evrópubandalagið og Noregur skulu fullgilda eða samþykkja bókun þessa í samræmi við reglur sínar um málsmeðferð. Skjöl um fullgildingu eða samþykki skulu afhent aðalskrifstofu ráðs Evrópusambandsins til vörslu.

Bókunin öðlast gildi daginn eftir að síðasta skjal um fullgildingu eða samþykki er afhent til vörslu að því tilskildu að skjöl um fullgildingu eða samþykki eftirtalinna tengdra samninga hafi einnig verið afhent til vörslu:
    i)        Samningur um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu
    ii)    Samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Búlgaríu
    iii)    Samningur í formi bréfaskipta milli Evrópubandalagsins og Konungsríkisins Noregs um samstarfsáætlun um hagvöxt og sjálfbæra þróun í Rúmeníu og
    iv)    Viðbótarbókun við samning milli Efnahagsbandalags Evrópu og Lýðveldisins Íslands vegna aðildar Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu að Evrópusambandinu

7. gr.

Bókun þessi er gerð í tvíriti á búlgörsku, dönsku, eistnesku, ensku, finnsku, frönsku, grísku, hollensku, íslensku, ítölsku, lettnesku, litháísku, maltnesku, norsku, pólsku, portúgölsku, rúmensku, slóvensku, slóvösku, spænsku, sænsku, tékknesku, ungversku og þýsku, og er hver þessara texta jafngildur.



Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings
um þátttöku Lýðveldisins Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu.

    Megintilgangur með frumvarpinu er að fullgilda samning um þátttöku Búlgaríu og Rúmeníu á Evrópska efnahagssvæðinu. Einnig er lagt til að þær breytingar sem gerðar eru á meginmáli EES-samningsins með aðildarsamningnum hafi lagagildi hér á landi. Enn fremur eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga vegna þeirra aðlagana sem gerðar voru við ákvæði um frjálsa för launþega, en aðildarríkjum er heimilt að beita eigin reglum á þessu sviði í ákveðinn tíma frá aðild nýju ríkjanna.
         Samkvæmt 128. gr. EES-samningsins er nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins skylt að sækja um aðild að Evrópska efnahagssvæðinu. Af þessum sökum var nauðsynlegt að hefja viðræður um þátttöku Búlgaríu og Rúmeníu í Evrópska efnahagssvæðinu um leið og samkomulag hafði náðst um aðild þeirra að Evrópusambandinu. Meginmarkmið viðræðnanna var að tryggja samhliða stækkun Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins þannig að nýju aðildarríkin yrðu samtímis aðilar að Evrópusambandinu og EES-samningnum. Helsta samningsmarkmið Íslands í stækkunarviðræðunum var að tryggja að stækkun Evrópska efnahagssvæðisins leiddi ekki til lakari viðskiptakjara en fríverslunarsamningar EFTA- ríkjanna við nýju samningsaðilana höfðu þegar tryggt. Af þeim sökum lagði Ísland ásamt Noregi áherslu á frekari tollalækkanir vegna viðskipta með sjávarafurðir. Af hálfu Evrópusambandsins lagði framkvæmdastjórn þess hins vegar áherslu á aukin framlög EFTA-ríkjanna til þróunarsjóðs EFTA. Niðurstaða samningaviðræðnanna var sú að Evrópusambandið fellir niður tolla á frystum humri og ferskum karfaflökum þannig að kvótar í þessum tegundum aukast tímabundið. Á móti munu framlög EFTA-ríkjanna til þróunarsjóðs EFTA verða aukin um alls 72 milljónir evra fram til apríl 2009. Hlutur Íslands af þessu aukna framlagi er um 3,2 milljónir evra eða um það bil 280 m.kr.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæði 1.–6. gr. reglugerðar ráðsins (EBE) nr. 1612/68, um frelsi launþega til flutninga innan bandalagsins, ásamt síðari breytingum, taki ekki gildi um atvinnu- og búseturétt ríkisborgara Búlgaríu og Rúmeníu fyrr en 1. janúar 2009. Hið sama gildir um aðstandendur þessara ríkisborgara. Jafnframt miðar frumvarpið að því að leiða í lög aðlögunarheimildir samningsins um stækkun Evrópusambandsins við inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu í sambandið. Samkvæmt aðlögunarákvæðum samningsins er heimilt að fresta frjálsri för launafólks frá þessum ríkjum og fullum aðgangi þeirra að íslenskum vinnumarkaði til 1. janúar árið 2009. Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að nýta þessa heimild. Í samræmi við það er í þessu frumvarpi lagt til að réttur útlendinga frá EES- eða EFTA-ríkjunum til dvalarleyfis hér á landi, hafi þeir framvísað gögnum um að vera launþegar sem falla undir lög um frjálsan atvinnu- og búseturétt innan EES-svæðisins, taki ekki til ríkisborgara frá Búlgaríu eða Rúmeníu fyrr en að þeim tíma liðnum. Einnig verði sömu takmarkanir settar við rétt ríkisborgara frá þessum ríkjum til að dvelja hér á landi í sex mánuði við atvinnuleit eða til að sækja um dvalarleyfi eftir komu til landsins.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum aukast útgjöld ríkissjóðs tímabundið frá gildistöku frumvarpsins til apríl 2009 um alls 280 m.kr. Miðast þessi útreikningur við núverandi stöðu íslensku krónunnar gagnvart evrunni.
Neðanmálsgrein: 1
    1     Tollfrjáls innflutningskvóti sem bætist við. Sé þessi tiltekni kvóti ekki nýttur til fulls á árinu 2007 skal sá hluti hans, sem eftir er, fluttur til ársins 2008. Í þessu tilliti skal nýting þessa tiltekna innflutningskvóta fyrir árið 2007 stöðvuð á öðrum vinnudegi framkvæmdastjórnarinnar eftir 1. apríl 2008. Næsta vinnudag á eftir skal ónýttur hluti þessa innflutningskvóta ársins 2007 færður undir samsvarandi innflutningskvóta ársins 2008. Frá þeim degi verður ekki unnt að nýta eða skila aftur hluta af þessum tiltekna innflutningskvóta fyrir árið 2007.