Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 562. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 913  —  562. mál.




Svar



sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Guðjóns A. Kristjánssonar um rannsóknir á lífríki sjávar.

    Ráðuneytið sendi fyrirspurnina til Hafrannsóknastofnunarinnar og fylgir hér svar hennar.

     1.      Hefur farið fram úttekt á veiðisvæðum innan flóa og fjarða þar sem dragnót hefur verið leyfð og svæðum þar sem togveiðar eru ekki leyfðar?
    Eftir því sem næst verður komist hafa þær athuganir sem gerðar hafa verið hér við land á áhrifum dragnótar á botninn verið gerðar á hefðbundnum dragnótasvæðum, án samanburðar við óveidd svæði. Ólíklegt er hins vegar að greina megi langtímaáhrif veiðanna á botninn, ef einhver eru, með slíkum aðferðum.
    Þær aðferðir sem oftast er beitt til að meta áhrif dreginna veiðarfæra á lífríki botns eru aðallega tvenns konar. Í fyrsta lagi að nota viðkomandi veiðarfæri á óröskuðu svæði og taka sýni fyrir og eftir röskun. Kostir þess háttar könnunar eru þeir að hægt er að meta og stjórna magni röskunar (t.d. fjölda toga á flatarmálseiningu) og jafnframt er unnt að afla nákvæmra upplýsinga um hvar veiðarfærinu var beitt. Gallarnir eru hins vegar þeir að erfitt er að ná fram áhrifum sem eru sambærileg við atvinnuveiðar, t.d. hvað varðar stærð svæðis og langtímaáhrif. Þá eru svæðin sem könnuð eru í rannsóknum sem þessum oft lítil svæði og því geta „göngur“ hreyfanlegra dýra haft áhrif á niðurstöður. Í öðru lagi má bera veiðisvæði fiskiskipa (t.d. samkvæmt afladagbókum eða öðrum upplýsingum frá skipstjórum) saman við sambærileg svæði þar sem litlar/engar veiðar hafa farið fram. Kosturinn við slíkar athuganir er að mælingar fara fram á „raunverulegum“ veiðisvæðum. Gallarnir eru hins vegar þeir að gögn um sókn eru oft í lítilli upplausn, oft eru mörg veiðarfæri á sama svæði (t.d. dragnót og rækjuvarpa) og erfitt að aðskilja áhrif þeirra, erfitt er að finna sambærileg ósnert svæði og loks er ekki víst að svæðin séu ósnert þótt upplýsingar afladagbóka bendi til þess.
    Hafrannsóknastofnunin hyggst á þessu ári gera frumrannsókn á áhrifum dragnótar á lífríkið með því að bera saman aðliggjandi svæði í Skagafirði og/eða Húnaflóa þar sem annars vegar hafa verið stundaðar dragnótaveiðar og hins vegar er ætlunin að finna svæði með sams konar botngerð þar sem dragnótaveiðar hafa ekki verið stundaðar.

     2.      Hafa svæði verið friðuð fyrir togveiðum og botninn skipulega rannsakaður fyrir og eftir friðun? Ef svo er, hvar eru þau svæði og hverjar eru niðurstöður helstu rannsókna á botninum og breytingum á dýralífi og fisktegundum?
    Á árinu 1993 voru níu svæði fyrir norðan og austan land friðuð fyrir allri veiði með botnvörpu og/eða línu. Friðunarsvæðin voru staðsett þar sem mikið hafði verið um smáþorsk í afla og skyndilokanir tíðar. Með tímanum hefur flatarmál sumra friðunarsvæða minnkað en önnur hafa verið opnuð fyrir veiðum á ný. Árið 2004 var heildarflatarmál þessara svæða um 15.700 km 2. Þótt upphaflegur tilgangur með þessum aðgerðum væri að friða smáþorsk veita þau kjörið rannsóknartækifæri til að meta áhrif friðunar á botndýralíf og botnfiska almennt.
    Á árinu 2004 var því sett á laggirnar rannsóknaverkefni til að kanna það frekar. Hafa þegar verið könnuð tvö friðunarsvæði, sem eru norðaustur af Horni og á Langanesgrunni. Á árunum 2004 og 2005 var sýnum af botndýrum og botnlægum fiskum safnað innan beggja friðunarsvæðanna sem og á aðliggjandi veiðislóðum. Við söfnun á botnfiski var notast við botnvörpu og voru allar fisktegundir mældar og vegnar auk þess sem fiskmögum var safnað til að meta fæðuval. Þorskar voru einnig merktir í þeim tilgangi að meta áhrif svæðafriðana með því að bera saman göngur, fiskveiðidauða og vöxt fiska sem merktir væru á friðunarsvæðum og á nærliggjandi veiðislóðum. Sýnum af botndýrum var safnað með margvíslegum söfnunartækjum, s.s. með dregnum sleðum og botngreip. Að auki var botndýralíf og búsvæði myndað með neðansjávarmyndavél sem og með ómönnuðum kafbát, en þannig fengust mjög gagnlegar upplýsingar.
    Niðurstöður sýndu hvað fisk varðar að meira var af smárri ýsu og skrápflúru innan friðunarsvæðis á Langanesgrunni en á togslóð, en minni munur fannst fyrir aðrar tegundir og svæði. Fyrri rannsóknir þar sem notast var við gögn úr stofnmælingu botnfiska í maí sýndu að friðun svæða getur verið mikilvæg fyrir ýmsar fisktegundir í veiðanlegri stærð, en hefur minni þýðingu fyrir smáfisk. Að lokum hafa merkingar sýnt að friðunarsvæði séu hugsanlega mikilvæg sem uppeldisstöðvar fyrir ungþorsk. Ljóst er að frekari rannsóknir þarf til að meta mikilvægi friðunarsvæða fyrir fiskstofna.
    Hvað botndýr varðar benda fyrstu niðurstöður til þess að meira sé af búsvæðamyndandi tegundum sem eru viðkvæmar að byggingu, t.d. svömpum og hornkóröllum, innan friðunarsvæðis en á togslóð fyrir utan svæðið. Könnun botns með ómönnuðum kafbát á Langanesgrunni leiddi í ljós að innan friðunarsvæðis væri að finna stórvaxna svampa og í sambýli við þá var fjölskrúðugt dýralíf. Á aðliggjandi togslóð sáust ummerki eftir togveiðarfæri, s.s. för eftir toghlera og fótreipi og minna var af stórgerðum búsvæðamyndandi lífverum. Niðurstöður gáfu einnig til kynna að gerð botndýrasamfélagsins innan friðunarsvæðis á Langanesgrunni væri frábrugðin því sem er á togslóð, líklega af völdum veiða. Munur í gerð botndýrasamfélags innan friðunarsvæðis norðaustur af Horni og á togslóð var ekki eins merkjanlegur, sem líklega skýrist af því að sókn á aðliggjandi togslóð er minni en við Langanes.

     3.      Hafa breytingar á lífríki og botngróðri innfjarða verið rannsakaðar eftir þverun fjarða vegna vegagerðar? Ef svo er, hverjar eru helstu niðurstöður þeirra rannsókna?
    Hafrannsóknastofnunin hefur ekki komið að rannsóknum eins og þeim sem hér er spurt um. Starfsmenn Líffræðistofnunar Háskóla Íslands hafa hins vegar töluvert unnið að rannsóknum á lífríki fjarða í tengslum við vegagerð. Oftast hafa rannsóknirnar farið fram sem lífríkiskönnun á undirbúningsstigi framkvæmda en aðeins í fáum tilfellum hafa verið gerðar samanburðarrannsóknir til þess að fylgjast með langtímaáhrifum framkvæmda á lífríkið. Í flestum tilfellum hefur þessi vegarlagning verið þannig að vegirnir hafa ekki haft áhrif á sjávarföll (langar brýr verið byggðar samfara vegarlagningu) og því ekki talið að framkvæmdir séu líklegar til þess að hafa áhrif á lífríkið innan vegarstæðisins.
    Vegurinn um Gilsfjörð er einn af fáum vegum hér á landi sem lagður hefur verið þvert yfir fjörð þannig að fallaskipti hafa verið hömluð og þar með minnka fjörusvæði ofan vegarins. Við vegarlagninguna minnkaði fjörubeltið og þar með flatarmál leira í firðinum og einnig lækkaði selta ofan vegarins en þó hefur hún haldist nægjanlega há til þess að nauðsynlegum skilyrðum margra lífvera hefur ekki verið raskað. Nú lifa þessar tegundir hins vegar alfarið á kafi. Fjörufuglar hafa hætt fæðuöflun ofan vegar enda nánast engar fjörur þar lengur.
    Aðrir firðir sem hafa verið þveraðir vegna vegagerðar eru Grafarvogur við Reykjavík, Borgarfjörður og ytri hluti Hraunsfjarðar og Kolgrafarfjörður á Vesturlandi, Dýrafjörður og Önundarfjörður á Vestfjörðum, innsti hluti Eyjafjarðar og Lón í Kelduhverfi á Norðurlandi og Breiðdalsvík á Austurlandi. Vegirnir á þessum slóðum hafa ekki haft áhrif á sjávarföll og því er talið mjög ólíklegt að þeir hafi haft áhrif á lífríkið þó að það hafi ekki verið kannað.

     4.      Hafa breytingar á lífríki eða sjávarbotni vegna efnistöku af sjávarbotni verið rannsakaðar? Ef svo er, hverjar eru niðurstöður rannsóknanna?

    Hafrannsóknastofnuninni er ekki kunnugt um að rannsóknir á áhrifum malarnáms í sjó á lífríki botnsins hafi farið fram hér við land. Þess má geta að umfangsmesta malarnám í sjó hér við land fer fram í innanverðum Faxaflóa. Í tengslum við umhverfismat sem gert er vegna umsóknar um framlengingu leyfis Björgunar ehf. til malartöku í innanverðum Faxaflóa er gert ráð fyrir að rannsaka áhrif malarnámsins á botndýralíf.