Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 154. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 277  —  154. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um fjármögnun á kaupum á verðbréfum úr peningamarkaðssjóðum Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings.

     1.      Hversu mikið fé hefur ríkissjóður lagt til í þeim tilgangi að styrkja eiginfjárstöðu bankanna þriggja, Glitnis, Landsbanka Íslands og Kaupþings, síðan Fjármálaeftirlitið f.h. ríkissjóðs tók yfir rekstur þeirra í byrjun október sl.?
    Enn sem komið er hefur ríkissjóður ekkert fé lagt fram í þeim tilgangi að styrkja eiginfjárstöðu nýju bankanna en ríkissjóður þurfti að leggja fram stofnfé að upphæð 775 millj. kr. vegna stofnunar hvers þeirra eða samtals 2.325 millj. kr. Gert er ráð fyrir að þegar endanlegur efnahagsreikningur nýju bankanna liggi fyrir um miðjan janúar á næsta ári verði tekin ákvörðun um hversu hátt eigið fé ríkissjóðs verður í hverjum banka fyrir sig. Í drögum að efnahagsreikningum sem gefin hafa verið út af Fjármálaeftirlitinu er gert ráð fyrir að eigið fé NBI hf. verði 200 milljarðar kr., eigið fé Nýja Glitnis hf. verði 110 milljarðar kr. og Nýja Kaupþings hf. verði 75 milljarðar kr. Endanleg niðurstaða um fjárhæðir vegna eignfjárframlags verður tekin þegar niðurstaða matsnefnda um efnahag nýju bankanna liggur fyrir.

     2.      Hefur ríkissjóður veitt bönkunum eða hlutafélögum í eigu þeirra annars konar fjárhagslega fyrirgreiðslu, og ef svo er óskast upplýsingar um það í hverju hún er fólgin og fjárhæð hennar?

    Ríkissjóður hefur ekki veitt bönkunum eða hlutafélögum í þeirra eigu annars konar fjárhagslega fyrirgreiðslu.

     3.      Hversu háar fjárhæðir hafa nýju bankarnir, hver um sig, reitt af hendi til kaupa á verðbréfum úr peningamarkaðssjóðum gömlu bankanna þriggja?
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um einstök viðskipti bankanna og hefur ekki óskað eftir upplýsingum um þær. Sú ákvörðun bankanna að kaupa verðbréf af peningamarkaðssjóðum var gerð á ábyrgð bankanna og viðkomandi bankastjórna og var gerð á viðskiptalegum forsendum án afskipta ráðherra eða ráðuneytis.

     4.      Á hverju byggðist verðmat á bréfum sjóðanna, hver verðmat og hver tók ákvörðun um að nýju bankarnir keyptu bréfin því verði?
    Með vísan til svars við 3. lið fyrirspurnarinnar er ráðherra ekki kunnugt um verðmöt sem bankarnir, hver um sig, létu gera áður en viðskiptin fóru fram. Ákvörðunin var á valdi hvers banka og bankaráðs eða bankastjórnar.

     5.      Hvernig voru greiðslur til kaupa á verðbréfum sjóðanna fjármagnaðar og hver tók ákvörðun um kaup á þeim?

    Fjármögnun var í gegnum hvern banka fyrir sig, án atbeina eða afskipta ríkissjóðs, fjármálaráðherra eða Fjármálaráðuneytis. Með vísan til fyrri svara var ákvörðun um viðskiptin á hendi hvers banka fyrir sig og eftir atvikum bankaráða eða bankastjórna þeirra.
     6.      Hver var aðkoma ráðuneytisins og ráðherra í þessari atburðarás?
    Aðkoma ráðherra og ráðuneytisins var engin í þessari atburðarrás.

     7.      Telur ráðherra að framkvæmdin standist jafnræðisreglu gagnvart eigendum verðbréfa í öðrum sjóðum í þessum þremur bönkum eða öðrum bönkum og ákvæði stjórnarskrár um fjárheimildir?
    Ráðherra er ekki kunnugt um að nein lög eða reglur hafi verið brotnar í þessu sambandi.

     8.      Eru fyrir hendi minnisblöð, tölvupóstar, fyrirmæli eða aðrar skriflegar heimildir um kaup nýju bankanna á bréfum peningamarkaðssjóða gömlu bankanna og ef svo er, hvert er efnislegt inntak þeirra?

    Viðskiptaráðherra kynnti fyrir fjármálaráðherra á sínum tíma áætlaða stöðu einstakra sjóða sem var byggð á áætlun frá Fjármálaeftirlitinu. Fljótt kom í ljós að staðan var ekki eins slæm og þar var gert ráð fyrir. Fjármálaráðherra gerði ekki nein minnisblöð eða voru afhent önnur minnisblöð en að fyrr eru nefnt eða gaf nein fyrirmæli um kaup nýju bankanna á bréfum peningamarkaðssjóðanna. Eins og áður hefur komið fram hafði fjármálaráðherra eða Fjármálaráðuneytið engin afskipti af þessum viðskiptum heldur voru þau alfarið ákvörðun og á ábyrgð bankanna sjálfra og eftir atvikum þeirra bankastjórna eða bankaráða sem þá fóru fyrir bönkunum. Rétt er að geta þess að peningamarkaðssjóðir voru reknir í sérstökum rekstrarfélögum sem voru óháðar bönkunum sjálfum þó að rekstur þeirra hafi verið undir sama þaki.