Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 266. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 457  —  266. mál.




Frumvarp til laga



um bráðabirgðagreiðsluheimildir úr ríkissjóði og heimildir til nauðsynlegrar lántöku í byrjun árs 2009.

Flm.: Jón Bjarnason.



1. gr.

    Þar til fjárlög fyrir árið 2009 taka gildi, þó ekki lengur en til 15. febrúar nk., er ríkisstjórninni heimilt að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða í samræmi við ákvæði fjárlaga fyrir árið 2008, að teknu tilliti til almennrar verðlagsþróunar, laun, rekstrarkostnað og önnur gjöld er talist geta til venjulegra fastra greiðslna ríkisins er inna þarf af hendi fyrir 15. febrúar, þótt ákveðin séu eða heimiluð til eins árs í senn. Þá er ríkisstjórninni heimilt að greiða úr ríkissjóði nauðsynlegar greiðslur til að standa við þegar gerða samninga vegna fjárfestinga ríkisins og skuldbindingar er falla til þar til fjárlög fyrir árið 2009 hafa verið afgreidd.

2. gr.

    Fjármálaráðherra er heimilt fram til 15. febrúar á árinu 2009 að taka nauðsynleg lán eða nýta innstæður ríkissjóðs hjá Seðlabankanum til að tryggja eðlilegan rekstur ríkisbúskaparins.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er algerlega vanreifað og á engan hátt tækt til afgreiðslu. Vænlegasti kosturinn er því að fresta afgreiðslu þess og vinna nýtt frumvarp sem unnt yrði að afgreiða með sómasamlegum hætti í lok janúar eða byrjun febrúar næsta árs. Því er frumvarp þetta flutt og tengist tillögu í nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar um að vísa fjárlagafrumvarpinu til ríkisstjórnar.