Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 174. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 677  —  174. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 16. febr.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 2. tölul. 4. mgr. orðast svo: Um afla báta sem eingöngu stunda frístundaveiðar gilda ekki ákvæði laga nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.
     b.      2. málsl. 6. mgr. orðast svo: Frístundaveiðiskip, sbr. 2. tölul. 4. mgr., sem jafnframt hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni skulu tilkynna Fiskistofu með viku fyrirvara um upphaf og lok tímabils sem skipinu er haldið til veiða í atvinnuskyni.
     c.      3. málsl. 6. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „33%“ í 3. mgr. kemur: 15%.
     b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Ráðherra getur að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar hækkað fyrrgreint hlutfall aflamarks í einstökum tegundum telji hann slíkt stuðla að betri nýtingu tegundarinnar.
     c.      Í stað 1. og 2. málsl. 8. mgr. koma þrír nýir málsliðir sem orðast svo: Við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem beitt er í landi má landa 20% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Einnig er heimilt við línuveiðar dagróðrabáta með línu sem stokkuð er upp í landi að landa 15% umfram þann afla í þorski, ýsu og steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra. Dagróðrabátur telst bátur sem kemur til hafnar til löndunar innan 24 klukkustunda frá því að hann heldur til veiða.
     d.      Við bætist ný málsgrein sem orðast svo:
                      Ráðherra getur í reglugerð ákveðið að skylt sé að vinna einstakar tegundir uppsjávarfisks til manneldis. Hlutfall uppsjávarafla einstakra skipa sem ráðstafað er til vinnslu á því tímabili sem ráðherra ákveður skal ekki vera ákveðið hærra en 70%.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Veiði fiskiskip minna en 50% á fiskveiðiári af úthlutuðu aflamarki sínu og aflamarki sem flutt hefur verið frá fyrra fiskveiðiári, í þorskígildum talið, fellur aflahlutdeild þess niður og skal aflahlutdeild annarra skipa í viðkomandi tegundum hækka sem því nemur.
     b.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður sem orðast svo: Hið sama á við þegar skipi er haldið til veiða utan lögsögu á tegundum sem samið hefur verið um veiðistjórn á og ekki teljast til deilistofna.
     c.      6. mgr. orðast svo:
                      Tefjist skip frá veiðum í fimm mánuði samfellt vegna tjóns eða meiri háttar bilana hefur afli þess fiskveiðiárs ekki áhrif til niðurfellingar aflahlutdeildar samkvæmt þessari grein.
     d.      7. mgr. orðast svo:
                      Á hverju fiskveiðiári er heimilt að flytja af fiskiskipi 50% þess aflamarks sem skipi var úthlutað í þorskígildum talið á grundvelli verðmætahlutfalla einstakra tegunda, sbr. 19. gr. Auk þess er heimilt að flytja frá skipi það aflamark í einstökum tegundum sem flutt hefur verið til skips. Heimilt er Fiskistofu að víkja frá þessari takmörkun á heimild til flutnings á aflamarki vegna varanlegra breytinga á skipakosti útgerða eða þegar skip hverfur úr rekstri um lengri tíma vegna alvarlegra bilana eða sjótjóns, samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.

4. gr.

    Lög þessi taka gildi 1. janúar 2010 að undanskildum ákvæðum c-liðar 2. gr. um línuívilnun sem taka gildi 1. mars 2010, ákvæðum 3. gr. sem taka gildi 1. september 2010 og ákvæði til bráðabirgða I sem tekur gildi 15. febrúar 2010.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 hefur ráðherra til ráðstöfunar, auk aflaheimilda sem úthlutað er á grundvelli laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, allt að 2.000 lestir af skötusel hvort fiskveiðiár. Aflaheimildum þessum er heimilt að ráðstafa til fiskiskipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni. Útgerð á þess kost að fá úthlutað fyrir hvert skip gegn greiðslu gjalds allt að 5 lestum í senn. Fiskistofa annast úthlutun aflaheimildanna. Aflaheimildir sem úthlutað er samkvæmt þessari grein eru ekki framseljanlegar og eru veiðar á skötusel á grundvelli þessara aflaheimilda óheimilar á svæðinu á milli línu réttvísandi suður úr Krísuvíkurbergsvita 63°49´8 N og 22°04´2 V og línu réttvísandi suðaustur úr Hvítingum (grp. 18) 64°23´9 N og 14°28´0 V. Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
    Verð á aflaheimildum skötusels er 120 kr. hvert kg og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Tekjur af aflaheimildum skulu renna í ríkissjóð og skal þeim ráðstafað á þann veg að 40% þeirra renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs og 60% renni í Átak til atvinnusköpunar með það að markmiði að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum.

II.

    Frá og með fiskveiðiárinu 2010/2011 skal skipta leyfilegum heildarafla í karfa upp í gullkarfa og djúpkarfa. Skal aflahlutdeild hvers fiskiskips í hvorri tegund í upphafi fiskveiðiársins 2010/2011 vera hin sama og hún hefði að óbreyttum lögum orðið í karfa.

III.

    Þrátt fyrir ákvæði 1.–2. málsl. 5. mgr. 15. gr. laganna skal úthlutað aflamark í úthafsrækju á fiskveiðiárinu 2009/2010 ekki leiða til þess að fiskiskip missi aflahlutdeild í úthafsrækju eða öðrum tegundum.

IV.

    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 11. gr. laganna, sbr. a-lið 2. gr. laga þessara, er á fiskveiðiárinu 2009/2010 einungis heimilt að flytja allt að 10% af aflamarki hverrar botnfisktegundar og aflamarki úthafsrækju, humars og síldar.

V.


    Á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 hefur ráðherra til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema allt að 200 lestum af óslægðum botnfiski á hvoru ári. Gegn greiðslu gjalds er heimilt að ráðstafa aflaheimildum þessum til skipa sem hafa leyfi til frístundaveiða, sbr. 2. tölul. 4. mgr. 6. gr. laganna, vegna afla sem er fenginn við frístundaveiðar. Verð á aflaheimildum skal vera meðalverð í viðskiptum með aflamark, sem birt er á vef Fiskistofu, í lok dags daginn áður en viðskipti fara fram og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Ráðherra kveður nánar á um úthlutun aflaheimilda í reglugerð.
    Um tekjur af aflaheimildum þessum fer skv. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I.