Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 272. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 315  —  272. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, með síðari breytingum.

Flm.: Sigurður Kári Kristjánsson, Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal,


Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson,
Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jón Gunnarsson,
Kristján Þór Júlíusson, Pétur H. Blöndal, Ragnheiður E. Árnadóttir,
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.


1. gr.

    86. gr. laganna orðast svo:
    Ef kjósandi skýrir kjörstjórn svo frá að hann sé eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal sá er kjósandi nefnir til veita honum aðstoð til þess í kjörklefanum, enda er sá sem aðstoðina veitir bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina skal bóka í kjörbókina, að tilgreindum ástæðum. Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða þeim aðstoð er þannig þarfnast hjálpar.
    Tilnefni kjósandi engan til þess að veita honum aðstoð til þess að kjósa í kjörklefa, en er engu síður eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf, skal honum heimilt að fá aðstoð þess úr kjörstjórninni sem hann nefnir til þess að veita sér slíka aðstoð, enda er sá sem aðstoðina veitir bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem þeim fer þar á milli. Um aðstoðina skal bóka í kjörbókina, að tilgreindum ástæðum. Slíka aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt. Óheimilt er að bjóða þeim aðstoð er þannig þarfnast hjálpar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að gerð verði breyting á núgildandi lögum um kosningar til Alþingis. Sambærilegt frumvarp var flutt á 132. og 133. löggjafarþingi og er nú efnislega endurflutt óbreytt.
    Tilefni þess að frumvarpið er lagt fram nú eru kosningar til stjórnlagaþings sem boðað hefur verið til hinn 27. nóvember næstkomandi.
    Í aðdraganda þeirra kosninga hafa komið fram athugasemdir um framkvæmd kosninganna þar sem því hefur verið haldið fram að fyrirkomulag þeirra sé ólögmætt þar sem það brjóti gegn mannréttindum þeirra einstaklinga sem ófærir eru um að neyta kosningarréttar síns með þeim hætti sem önnur ákvæði laganna kveða á um sakir sjónleysis eða annarrar fötlunar. Með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um kosningar til Alþingis til þess að koma til móts við þær athugasemdir.
    Ástæður þess að með frumvarpi þessu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um kosningar til Alþingis, en ekki á lögum um stjórnlagaþing, nr. 90/2010, er sú að í 11. gr. laga um stjórnlagaþing, þar sem mælt er fyrir um framkvæmd atkvæðagreiðslu á kjörfundi, er kveðið á um að um kjördeildir, kjörstaði og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar skuli fara samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
    Samkvæmt ákvæði 86. gr. núgildandi laga um kosningar til Alþingis er þeim sem ekki er fær um að neyta kosningarréttar síns með þeim hætti sem önnur ákvæði laganna kveða á um sakir sjónleysis eða þess að hendur kjósenda eru ónothæfar tryggður réttur til þess að nefna sér til aðstoðar fulltrúa úr viðkomandi kjörstjórn til þess að aðstoða sig við að kjósa. Sá sem aðstoðina veitir er samkvæmt gildandi lögum bundinn þagnarheiti um að segja ekki frá því sem á milli hans og kjósandans fer þegar kosið er. Þá gerir núgildandi löggjöf ráð fyrir að um aðstoðina og ástæður hennar sé bókað í kjörbók ásamt því að það skilyrði er sett að sá sem aðstoðina hlýtur geti með ótvíræðum hætti greint frá því hvernig hann vill greiða atkvæði sitt.
    Með frumvarpi þessu er ekki lagt til að réttur samkvæmt núgildandi 86. gr. laganna verði skertur heldur verði meginregla ákvæðisins sú að þeim sem vegna sjónleysis eða vegna þess að hendur þeirra eru ónothæfar til þess að þeir geti án aðstoðar kosið á þann hátt sem ákvæði laganna kveða á um skuli heimilað að nefna hvern þann sem þeir kjósa að nefna til þess að aðstoða sig við kosningar til Alþingis, svo sem maka, afkomendur eða aðra nákomna aðila, svo dæmi séu nefnd.
    Samkvæmt ákvæðum núgildandi laga er kjósendum úr þeim hópi sem hér um ræðir óheimilt að ráða því sjálfir hver aðstoðar þá við að neyta kosningarréttar síns. Gerir löggjöfin ráð fyrir því að þeir kjósendur sem um ræðir geti einungis nefnt til aðstoðar fulltrúa úr viðkomandi kjörstjórn.
    Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir því að hafi kjósandi ekki uppi neinar sérstakar kröfur eða óskir um það hvaða aðili aðstoði sig við að neyta kosningarréttar síns sé honum engu síður tryggður sami réttur til aðstoðar og núgildandi ákvæði 86. gr. laga um kosningar til Alþingis mælir fyrir um. Felur frumvarpið því í sér aukin réttindi fyrir þá borgara sem ýmist vegna sjónleysis eða fötlunar er ókleift að neyta kosningarréttar síns án aðstoðar.
    Kosningarréttur felur í sér einhver mikilvægustu einstaklingsbundnu og borgaralegu réttindi í lýðræðislegu þjóðfélagi. Þá er það jafnframt viðurkennt að eðlilegt og sanngjarnt sé að stjórnmálaskoðanir borgaranna fari leynt. Með frumvarpi þessu telja flutningsmenn að þessi réttindi séu tryggð umfram það sem núgildandi löggjöf gerir.
    Gert er ráð fyrir að verði frumvarp þetta að lögum öðlist þau þegar gildi svo tryggja megi frumvarpið taki gildi áður en gengið verður til kosninga til stjórnlagaþings.