Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 438  —  195. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um útboð og stækkun álversins í Straumsvík.

     1.      Hvernig var háttað útboðum til framkvæmda við stækkun álversins í Straumsvík?
    Svör við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar byggjast alfarið á upplýsingum sem aflað var hjá Alcan á Íslandi hf.
    Settur er saman bjóðendalisti með a.m.k. fjórum aðilum sem eru taldir hafa þekkingu og reynslu af sambærilegum verkefnum og eru líklegir til að uppfylla kröfur um öryggi og fjárhagslegan styrk.
    Verkfræðistofan HRV, sem hefur umsjón með framkvæmd fjárfestingarverkefnanna í Straumsvík, vinnur ítarlegt mat út frá framangreindum þáttum og er bjóðendalistinn síðan lagður fyrir innkaupanefnd verkefnisins til samþykktar.
    Samþykktum bjóðendum er boðin þátttaka í útboðsferlinu og í framhaldi eru þeim send útboðsgögn.
    Í framhaldi af opnun tilboða fer fram fjórþætt mat á tilboðum. Þau eru metin með tilliti til tæknilegra atriða, gæðamála og öryggismála og er það mat unnið af aðilum sem enga vitneskju hafa um tilboðsupphæðir eða önnur verð bjóðenda. Samtímis er unnið viðskiptalegt mat. Vægi einstakra matsliða er ákveðið áður en tilboð eru opnuð.
    Sameiginlegur fundur allra matsaðila er haldinn þar sem farið er yfir niðurstöðu einstakra matshluta og metið hvert sé besta tilboðið.
    Á grundvelli niðurstöðu áðurgreinds fundar er útbúið meðmælaskjal um hvaða tilboði skuli tekið, ásamt beiðni um fjárfestingarheimild. Hvort tveggja er sent innkaupanefnd verkefnisins til samþykktar.

     2.      Hvaða skilyrði voru sett fyrir því að fá að bjóða í verkið?
    Gerðar eru margvíslegar kröfur til þeirra sem bjóða í verk, m.a. um tæknilega getu, fjárhagslegan styrk og atriði sem lúta að umhverfis-, öryggis- og heilbrigðismálum. Hvað snertir fjárhagslegan styrk eru gerðar mismiklar kröfur eftir umfangi og þýðingu þess verkhluta sem um ræðir. Vegna frétta nýverið um að krafist sé erlendra bankaábyrgða er rétt að taka fram að svo er ekki. Þess eru dæmi í einstökum umfangsmiklum verkhlutum að farið hafi verið fram á móðurfélagsábyrgð, en sú krafa á vitaskuld ekki við sé móðurfélag ekki til staðar.
    Við mörkun innkaupastefnu verkefnisins var lagt upp með að hámarka hlut íslenskra fyrirtækja. Í því skyni að auka möguleika íslenskra fyrirtækja var útboðspökkum skipt niður í smærri einingar og leitast við að lágmarka fjölda alútboða.
    Gert er ráð fyrir að 60–80 íslensk fyrirtæki komi að þessu verkefni, beint og óbeint, bæði sem hönnuðir og framleiðendur sérhæfðs búnaðar, byggingaverktakar, málmiðnaðarfyrirtæki, rafiðnaðarfyrirtæki, hugbúnaðarfyrirtæki, sérhæfðir þjónustuaðilar og önnur íslensk fyrirtæki.

     3.      Hver var afstaða stjórnar Ísals, þ.m.t. fulltrúa ríkisins, til útboðsreglnanna? Hverjir eru fulltrúar ríkisins í stjórn Ísals?
    Samkvæmt 23. gr. aðalsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium Ltd., dags. 28. mars 1966, um álbræðslu við Straumsvík, sbr. lög nr. 76/1966, eru tveir stjórnarmenn álversins í Straumsvík tilnefndir af ríkisstjórn Íslands. Þeir bera sömu skyldur og aðrir stjórnarmenn fyrirtækisins. Í 20. gr. stofnskrár ÍSAL, frá 1966, kemur jafnframt fram að ríkisstjórn Íslands skipi tvo af sjö stjórnarmönnum fyrirtækisins.
    Þar sem stofnun ÍSAL var hluti af aðalsamningi milli ríkisstjórnar Íslands og Swiss Aluminium („Alusuisse“) var talið eðlilegt á þeim tíma að ríkisstjórn Íslands skipaði tvo af sjö stjórnarmönnum fyrirtækisins. Auk þess var um að ræða fyrsta stóra fjárfestingarsamninginn við erlendan aðila á þeim tíma. Ástæður þess að ríkisstjórn Íslands á enn í dag tvo fulltrúa í stjórn fyrirtækisins á sér því fyrst og fremst sögulegar skýringar.
    Umræddur aðalsamningur hefur tekið miklum breytingum frá árinu 1966 og verið breytt samtals átta sinnum. Meðal annars voru öll sérákvæði um skatta og opinber gjöld felld brott úr honum árið 2007 og fyrirtækið fært alfarið inn í hið almenna skattkerfi. Lítið er því eftir um ákvæði í aðalsamningnum sem hafa efnislega þýðingu í dag. Aðalsamningurinn fellur úr gildi árið 2014.
    Varðandi hlutverk stjórnar fyrirtækisins ber að hafa í huga að daglegur rekstur fyrirtækisins er ekki í höndum stjórnar félagsins heldur forstjóra og framkvæmdastjóra. Er það í samræmi við almenna verkaskiptingu milli stjórnar og stjórnenda í íslenskum fyrirtækjum. Eins og sjá má á heimasíðu fyrirtækisins eru Gunnar Axel Gunnarsson og Margrét Frímannsdóttir nú fulltrúar ríkisins í stjórn fyrirtækisins.
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér er almenn stefna fyrirtækisins í útboðsmálum borin undir stjórn til samþykktar. Ekki er fjallað um einstök útboð á fundum stjórnar þar sem daglegur rekstur fyrirtækisins er, sem áður segir, ekki í höndum stjórnar.

     4.      Hver er skoðun ráðherra á því verklagi sem var viðhaft við útboðsgerðina?
    Starfsemi álversins í Straumsvík fellur ekki undir lög um opinber innkaup þar sem fyrirtækið telst ekki vera opinber aðili í skilningi 3. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Stjórnvöld hafa því hvorki almenna né sérstaka eftirlitsskyldu með innkaupum fyrirtækisins á vörum og þjónustu. Áðurnefndur aðalsamningur frá 1966, um álbræðslu í Straumsvík, breytir engu þar um, né sú staðreynd að ríkið skipar tvo stjórnarmenn af sjö í fyrirtækinu. Eins og áður segir er daglegur rekstur fyrirtækisins ekki í höndum stjórnar, frekar en gerist og gengur hjá fyrirtækjum almennt.
    Í svari við 1. og 2. tölul. er að finna lýsingu á því hvernig staðið er að útboðum hjá fyrirtækinu vegna framkvæmda við stækkun álversins í Straumsvík. Ekki verður annað séð en það verklag sem þar er lýst sé í samræmi við það sem almennt gerist hjá íslenskum fyrirtækjum. Í svari við 2. tölul. kemur fram að innkaupastefna fyrirtækisins miði að því að hámarka hlut íslenskra fyrirtækja. Það er meðal annars gert með því að skipta verkefnum upp í smærri einingar.