Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 666. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1384  —  666. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigmundar Ernis Rúnarssonar um samning við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands um mat á áhrifum skattabreytinga.

     1.      Hver var heildarkostnaður ráðuneytisins af samningi sem gerður var við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands árið 2007 um mat á áhrifum skattabreytinga á árunum 1991– 2007?
    Samkvæmt samningi fjármálaráðuneytisins og Félagsvísindastofnunar átti heildarkostnaður ráðuneytisins við umrætt verkefni að nema 10 millj. kr. án vsk. og greiðast í fjórum jöfnum greiðslum á samningstímanum. Ráðuneytinu hafa hins vegar aðeins borist þrír reikningar að fjárhæð samtals 7,5 millj. kr. án vsk.

     2.      Hver óskaði eftir samningnum af hálfu ráðuneytisins?
    Árni M. Mathiesen, þáverandi fjármálaráðherra, óskaði eftir mati á ýmsum skattbreytingum frá 1991 til 2007 og áhrifum hugsanlegra skattbreytinga á næstu árum á lífskjör almennings og velferð, stöðugleika í efnahagslífinu og stöðu ríkissjóðs, í samræmi við stefnuyfirlýsingu þáverandi ríkisstjórnar.

     3.      Hve margar voru greiðslurnar fyrir verkið, hvenær voru þær greiddar og hverjum?
    Ráðuneytið hefur greitt Félagsvísindastofnun þrjár greiðslur fyrir verkið samkvæmt reikningum. Fyrsti reikningurinn var greiddur 12. september 2007, annar reikningurinn var greiddur 27. desember 2007 og sá þriðji 28. mars 2008.

     4.      Hefur verkefninu verið skilað til ráðuneytisins og ef svo er, hvernig nýtist það?
    Haustið 2009 afhenti Félagsvísindastofnun ráðuneytinu skýrslu í tveimur prentuðum eintökum og einu eintaki á geisladisk. Heiti skýrslunnar er Skattar og velferð á Íslandi 1991– 2007 og er alls 80 blaðsíður.

     5.      Getur almenningur skoðað verkefnið, hafi því verið skilað?
    Skýrslan hefur ekki verið birt á vefsíðu ráðuneytisins. Hins vegar, með vísan til 3. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, á almenningur rétt á upplýsingum af þessu tagi sé þess óskað.

     6.      Verður óskað eftir endurgreiðslu hafi verkefninu ekki verið skilað?
    Á ekki við þar sem verkefninu var skilað til fjármálaráðuneytisins.

     7.      Leitaði ráðuneytið til háskólasamfélagsins með fleiri verkefni af þessu tagi á síðasta áratug?
    Ráðuneytið hefur ekki leitað til háskólanna undanfarinn áratug með verkefni af því tagi sem hér um ræðir, en hefur leitað til þeirra og einstakra starfsmanna þeirra með ýmis önnur verkefni.

     8.      Hverjar voru verktakagreiðslur ráðuneytisins til háskólasamfélagsins í heild á þeim tíma?
    Hér eru veittar upplýsingar um greiðslur til háskólasamfélagsins fyrir sérfræðiþjónustu sem veitt hefur verið af stofnunum háskólanna. Nam sá kostnaður 19,3 millj. kr. á tímabilinu. Hins vegar er ekki unnt að veita upplýsingar um verktakagreiðslur til einstakra starfsmanna háskólanna, svo sem prófessora, kennara og sérfræðinga, þar sem ekki liggur fyrir starfsmannalisti skólanna aftur í tímann. Ráðuneytið hefur greitt starfsmönnum háskóla fyrir ýmis verkefni undandarin ár. Sum verkefnanna tengjast störfum starfsmannanna við háskólanna, en önnur er óháð störfum þeirra.