Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 490. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1703  —  490. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur um skipun nefndar um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur nefnd sú verið skipuð sem var ætlað það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins, m.a. með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og tillögum þingmannanefndar Alþingis, sbr. ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 75/2010, um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki? Ef svo er ekki, hver er ástæða þess að nefndin hefur ekki enn verið skipuð?

    Í tilvitnuðu ákvæði til bráðabirgða í lögum um fjármálafyrirtæki er efnahags- og viðskiptaráðherra falið að skipa nefnd til að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væntanlegum tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna. Verkefnið er m.a. að skoða stöðu og starfsumhverfi sparisjóða, eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingafélögum og öfugt, reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtæki og hvernig verði best hægt að tryggja dreift eignarhald, og hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.
    Fjármálamarkaðir og eftirlit með þeim hvort heldur er á Íslandi eða erlendis eru í mikilli gerjun og stjórnvöld og sérfræðistofnanir víða um heim rannsaka hvað úrskeiðis fór og hvernig best megi bæta umgjörð fjármálamarkaðar og koma í veg fyrir að hremmingarnar endurtaki sig.
    Hér á landi var strax haustið 2008 ráðist í endurskoðun laga um fjármálafyrirtæki og erlendur sérfræðingur, Karlo Jännäri, var ráðinn til þess að leggja mat á innlent lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits og gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur.
    Lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, var breytt með lögum nr. 76/2009 og 75/2010. Frumvarp til laga nr. 76/2009 var samið af sérfræðingum á vegum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og með því var settur nýr lagarammi um starfsemi sparisjóða. Óvissu var eytt um félagaform þeirra, réttindi stofnfjárhafa voru fest, settar voru skorður við arðgreiðslum, greitt var úr óvissu um heimildir til samstarfs, meðferð stofnfjárbréfa komið í fast form og fleira mætti upp telja. Án þessara lagabreytinga hefði ekki reynst unnt að endurskipuleggja og reisa við sparisjóði í fjárhagsvanda.
    Nefnd var skipuð í árslok 2008 til að fara yfir lög á sviði fjármálamarkaðar. Frumvarp frá þeirri nefnd varð að lögum nr. 75/2010 og byggðist á tillögum sem Karlo Jännäri hafði skilað. Samkvæmt lögunum fékk Fjármálaeftirlitið auknar eftirlitsheimildir, ábyrgð og hlutverk innri eftirlitsdeilda og áhættustýringar eru auknar og efldar og óhæði ytri endurskoðenda betur tryggt. Þá er í fyrsta skipti að finna regluverk um sérstaka skuldbindingaskrá sem eykur mjög möguleika eftirlitsaðila til að fylgjast með að reglur um stórar áhættu séu ekki brotnar. Skerpt hefur verið á ákvæðum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti og þrengd þau tímamörk sem fjármálafyrirtæki hafa til þess að afsetja fullnustueignir. Samkvæmt lögunum hafa skilyrði fjármálafyrirtækja til að eiga eigin hluti verið þrengd og skulu eignarhlutir dótturfélaga nú teljast með svo og samningar utan efnahags um eigin hlutabréf. Bann hefur verið lagt við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum og settar þröngar skorður við lánveitingum til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna. Fjölmargar aðrar breytingar voru samþykktar með lögunum.
    Unnið er að frekari úrbótum á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja og er nefndin sem samdi frumvarp sem varð að lögum nr. 75/2010 enn að störfum. Vinnur hún að tillögugerð varðandi tæknileg atriði í starfsemi fjármálafyrirtækja. Afrakstur þeirrar vinnu er m.a. að finna í frumvarpi til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, þskj. 1215, 696. mál, sem er til meðferðar í þinginu. Hluti nefndarinnar vinnur áfram að afmörkuðum verkefnum, m.a. hvort breytinga sé þörf á ákvæðum um starfsleyfi og tengsl við aðra starfsemi.
    Ráðuneytið vinnur nú að skýrslu um fjármálamarkaði og opinbert eftirlit. Markmiðið er að leggja skýrsluna fyrir Alþingi í haust og fá sem víðtækasta umræðu á Alþingi og meðal hagsmunaaðila til að byggja á við endurskoðun löggjafar. Skýrslan mun taka til hlutverks og framtíðar fjármálamarkaða, hlutverks ríkisins á fjármálamarkaði, leikreglna markaðarins og lagaramma, mismunandi leiða sem farnar eru erlendis, alþjóðareglna og stöðu íslenskrar löggjafar. Þá verður sérstaklega fjallað um sérstöðu Íslands sem smáríkis, sem býr við miklar hagsveiflur og er ekki hluti af stærri efnahagsheild. Leitast verður við að leiða fram hvernig fjármálamarkaður henti Íslandi best. Fjallað verður um fjármálastöðugleika og opinbert eftirlit með fjármálafyrirtækjum, eindareftirlit, þjóðhagsvarúð og samspil og heildayfirsýn. Þá verður fjallað um hvers lags stofnanakerfi komi til álita og hvaða ákvarðanir kortlagningin í skýrslunni kalli á.
    Við vinnslu skýrslunnar er gert ráð fyrir að fulltrúar Alþingis fái tækifæri til þess að fylgjast með framvindu verksins og að boðað verði til málþinga með sérfróðum aðilum til að fjalla um einstaka þætti málsins. Þegar kynningu skýrslunnar og umræðu er lokið má reikna með að unnt verði að hrinda úr vör endurskoðun löggjafar um Seðlabanka Íslands og opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Með framangreindu verklagi og undirbúningi skýrslu til Alþingis telur ráðuneytið að nauðsynlegur grunnur hafi verið lagður að vinnu í samræmi við bráðabirgðaákvæði VI við lög nr. 75/2010.