Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.

Þingskjal 245  —  239. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins,
nr. 1/1997, með síðari breytingum (iðgjald launagreiðanda).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    2. málsl. 4. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að iðgjald sjóðfélaga til sjóðsins ásamt mótframlagi launagreiðenda dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum sjóðsins, sbr. þó 39. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, skal stjórn sjóðsins hækka framlag launagreiðenda í samræmi við niðurstöðu athugunarinnar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 2. málsl. 4. mgr. 13. gr. laganna vegna athugasemda Fjármálaeftirlitsins er lutu að tryggingafræðilegri stöðu A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, en eftirlitið krafðist þess að stjórn LSR endurskoðaði iðgjald launagreiðenda með hliðsjón af 4. mgr. 13. gr. laga nr. 1/1997 við fyrsta tækifæri. Rétt þykir að kveðið verði með skýrum hætti á um að vikmörk 39. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, eigi við um A-deild LSR. Tryggingafræðileg staða A- deildar LSR hefur verið neikvæð allt frá því að deildin var sett á fót á árinu 2000 og án athugasemda frá eftirlitsaðilum þar til á árinu 2011. Er því ljóst að ávallt hefur verið litið svo á að tengsl laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, væru með þeim hætti að ákvæði 39. gr. hinna fyrrnefndu laga gilti um A-deild LSR. Lagt er til í frumvarpi þessu að sá skilningur verði staðfestur með breytingu á 2. málsl. 4. mgr. 13. gr. laganna, enda þykir rétt að A- deildin njóti sama svigrúms til þess að mæta sveiflum og aðrir lífeyrissjóðir.
    Við samningu frumvarpsins var haft samráð við stjórn LSR auk þess sem fjármálaráðuneytið átti fund með Fjármálaeftirlitinu í maí 2011 þar sem farið var yfir athugasemdir þess. Á þeim fundi voru nefndar fjórar leiðir til lausnar vegna athugasemda Fjármálaeftirlitsins. Í fyrsta lagi að skerða réttindi, í öðru lagi útgáfa skuldabréfs til sjóðsins, í þriðja lagi hækkun á framlagi launagreiðenda um 4% og í fjórða lagi að vikmörk 39. gr. laga nr. 129/1997, þ.m.t. ákvæðis til bráðabirgða VI, giltu einnig um A-deild LSR. Með frumvarpinu er lagt til að farin verði leið fjögur og lögum um LSR breytt á þann hátt að sömu reglur gildi um A-deild LSR og aðra lífeyrissjóði um svigrúm fyrir sveiflur.

Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997,
með síðari breytingum (iðgjald launagreiðanda).

    Undir lok ársins 2008 var gerð sú breyting á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða að heimila þeim tímabundið að hafa allt að 15% neikvæðan mun á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyris miðað við tryggingafræðilega stöðu liðins árs, en mörkin voru áður 10%. Þannig var sjóðunum gert kleift að komast hjá því að skerða lífeyrisréttindi umfram 15% vikmörk á neikvæðri tryggingafræðilegri stöðu í kjölfar áfalla sem þeir urðu fyrir vegna hruns bankakerfisins haustið 2008. Engu að síður þurftu sumir sjóðanna að skerða lífeyrisgreiðslur sem nam um 10% í mörgum tilvikum. Í þessu frumvarpi er lagt til að kveðið verði skýrt á um að þessi vikmörk eigi einnig við um A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR).
    Fjármálaeftirlitið telur að stjórn LSR hafi ekki gripið til viðeigandi ráðstafana til að bregðast við því að staða A-deildar LSR hefur verið neikvæð tvö ár í röð, eða um 13% þegar litið er til heildar tryggingafræðilegrar stöðu. Stjórn LSR hefur litið svo á að umrætt bráðabirgðaákvæði um rýmri vikmörk eigi við um A-deild sjóðsins eins og aðra lífeyrissjóði. Stjórnin hefur því talið sig vera innan marka laganna þegar iðgjaldaprósentan hefur verið ákveðin óbreytt síðustu árin. Fjármálaeftirlitið hefur haft aðra lagatúlkun og telur að LSR starfi samkvæmt sérlögum sem gangi framar almennu lögunum um lífeyrissjóðina þannig að ákvæði þeirra eigi ekki við.
    Fjórar leiðir hafa einkum komið til álita til lausnar þessa máls. Í fyrsta lagi skerðing réttinda, í öðru lagi útgáfa skuldabréfs til sjóðsins, í þriðja lagi hækkun á framlagi launagreiðenda um 4% og í fjórða lagi að taka af allan vafa um það í lögum að 10% vikmörk 39. gr. laga nr. 129/1997, þ.m.t. ákvæði til bráðabirgða VI um hækkun þeirra í 15%, gildi einnig um A-deild LSR. Með frumvarpinu er lagt til að farin verði síðastnefnda leiðin þannig að sömu reglur gildi um A-deild LSR og aðra lífeyrissjóði um svigrúm fyrir sveiflur í fjárhagsstöðu.
    Nokkrir lífeyrissjóðir á almennum markaði hafa frá árinu 2009 skert réttindi sjóðfélaga sinna með breytingum á samþykktum sínum til að koma á samræmi milli skuldbindinga og réttinda. Slík skerðing réttinda félagsmanna í A-deild LSR mundi krefjast breytinga á lögum sjóðsins. Á hinn bóginn mundi hækkun á framlagi launagreiðenda eða útgáfa skuldabréfs leiða til umtalsverðra greiðslna úr ríkissjóði sem hann fær vart risið undir vegna mikilla þrenginga í ríkisfjármálunum. Ljóst er þó að ákvæðið um rýmri vikmörk tryggingafræðilegrar stöðu gildir einungis til bráðabirgða og að treysta þarf stöðu A-deildar LSR að óbreyttu verði bráðabirgðaákvæðið ekki framlengt en það fellur úr gildi í lok þessa árs. Heildarstaða sjóðsins var neikvæð um 47 mia. kr. í lok ársins 2010.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi bein áhrif á útgjöld ríkissjóðs heldur kunni að fresta því að greiða þurfi hærri iðgjöld í lífeyrissjóðinn að því gefnu að lífeyrisréttindi sjóðfélaga haldist óbreytt.