Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 347. máls.

Þingskjal 423  —  347. mál.
Prentað upp.

Leiðrétt fjárhæð.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum
(hækkun skipaeftirlitsgjalda).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)




1. gr.

    1. málsl. 1. mgr. 28. gr. laganna orðast svo: Eigandi skips skal greiða árlega í ríkissjóð sérstakt gjald, skipagjald, af hverju skipi sem skráð er á aðalskipaskrá eins og hér segir:
Skráningarlengd skips Árlegt gjald (í kr.)
< 8 metrar 10.940
8–15 metrar 19.600
15–24 metrar 43.750
24–45 metrar 86.800
45–60 metrar 143.300
≥ 60 metrar 189.700

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er samið í innanríkisráðuneytinu. Það var til kynningar á vef ráðuneytisins í 14 daga og var jafnframt kynnt á fundi siglingaráðs, samráðsvettvangs hagsmunaaðila á sviði siglinga.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að skipagjöld hækki um 75% sem er í samræmi við hækkanir á vísitölu neysluverðs frá nóvember 2002 þegar frumvarp sem varð að lögum um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, var lagt fram og til október 2011 auk hækkana í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga fyrir árið 2012. Tilefni lagasetningarinnar er hækkun verðlags undanfarin ár en skipagjöld hafa ekki fylgt þeirri verðlagsþróun.
    Gjöld skv. 1. mgr. 28. gr. laganna leggjast miðað við skipastærð á alla skipaeigendur sem eiga skráð skip á Íslandi og hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir þá sem gjaldið greiða sem nemur hækkun gjaldsins.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum
um eftirlit með skipum, nr. 47/2003.

    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á fjárhæð skipagjalds sem greitt er árlega í ríkissjóð af hverju skipi sem skráð er á aðalskipaskrá. Fjárhæð skipagjaldsins tekur mið af skráningarlengd skips og hefur hún verið óbreytt frá árinu 2003.
    Lagt er til í frumvarpinu að skipagjaldið hækki um 75% sem er í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs frá nóvember 2002 til október 2011, auk verðlagsforsendna frumvarps til fjárlaga 2012. Hækkun skipagjaldsins mun hækka tekjur ríkissjóðs um 25,3 m.kr. á ári.
    Fjármálaráðuneytið bendir á að æskilegt er að ráðuneyti uppfæri með reglubundnum hætti gjöld á sínu málefnasviði með tilliti til verðlags svo ekki þurfi að koma til eins mikillar hækkunar eins og hér er lagt til.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum mun það ekki hafa áhrif á útgjöld ríkissjóðs.