Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 698. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1131  —  698. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010,
með síðari breytingum (kærufrestur, breyting á samningi um greiðsluaðlögun o.fl.).

Frá meiri hluta velferðarnefndar (JRG, LGeir, ÓGunn, VBj, EyH, GStein).


1. gr.

    Við 2. mgr. 6. gr. laganna bætist nýr stafliður, h-liður, svohljóðandi: fyrirliggjandi gögn sýna að greiðslugeta skuldara er neikvæð að mati umboðsmanns skuldara.

2. gr.

    Í stað orðanna „tveggja vikna“ í 2. málsl. 4. mgr. 7. gr., 3. málsl. 1. mgr. 15. gr. og 2. málsl. 2. mgr. 18. gr. laganna kemur: fjögurra vikna.

3. gr.

    Á eftir 8. gr. laganna kemur ný grein, 8. gr. a, svohljóðandi:
    Hafi skuldara verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar skv. h-lið 2. mgr. 6. gr. en ekki verður talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma og hann hefur lýst því yfir við umboðsmann skuldara að hann vilji krefjast þess að bú sitt verði tekið til gjaldþrotaskipta skv. 1. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. getur hann leitað eftir aðstoð umboðsmanns skuldara við að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði skv. 2. mgr. 67. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Samþykki umboðsmaður skuldara beiðni skuldara skv. 1. mgr. skal hann tilkynna skuldara um það skriflega þar sem fram kemur rökstuðningur þess að fallist er á beiðni skuldara ásamt fyrirliggjandi gögnum um efnahag skuldara, þar á meðal upplýsingar um eignir hans og skuldir. Skrifleg tilkynning umboðsmanns skuldara skal fylgja með beiðni skuldara til héraðsdómara um að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta.
    Aðstoð sú sem umboðsmaður skuldara veitir við að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði skal aldrei vera hærri en nemur fjárhæð þeirrar lágmarkstryggingar vegna skiptakostnaðar á búi einstaklings sem dómstólar ákveða. Reynist eignir í búi skuldara skulu þær ganga upp í kostnað af skiptunum skv. 2. tölul. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. og koma þá til frádráttar tryggingu þeirri sem umboðsmaður skuldara lagði fram.

4. gr.

    2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
    Meðan á frestun greiðslna stendur skulu kröfur einungis bera almenna vexti, sbr. lög um vexti og verðtryggingu, sem þær hefðu borið hefði ekki komið til vanefnda af hálfu skuldara en vextirnir eru ekki gjaldkræfir. Jafnframt skulu kröfur ekki bera dráttarvexti á þessum tíma.

5. gr.

    5. mgr. 16. gr. laganna orðast svo:
    Afborgunarfjárhæð skv. 4. mgr. skal vera föst krónutala.

6. gr.

    22. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Vextir og verðtrygging af kröfum á tímabili greiðsluaðlögunar.


    Á tímabili greiðsluaðlögunar skulu kröfur sem greiðsluaðlögun tekur til bera að hámarki almenna vexti, sbr. lög um vexti og verðtryggingu, sem þær hefðu borið hefði ekki komið til vanefnda af hálfu skuldara. Jafnframt skulu kröfurnar ekki bera dráttarvexti á þessum tíma. Standi skuldari við samning um greiðsluaðlögun skulu hvorki koma til kröfur um innheimtukostnað né annan kostnað sem stafar af vanskilum.
    Vanskilaþáttur kröfu sem er tryggð með veði í eign leggst við ógjaldfallinn höfuðstól kröfunnar og lengist lánstíminn til jafnlengdar þeim tíma sem greiðsluaðlögun stendur.

7. gr.

    VII. kafli laganna, er hefur fyrirsögnina Breyting eða ógilding samnings um greiðsluaðlögun, orðast svo:

    a. (24. gr.)

Breyting á samningi um greiðsluaðlögun að kröfu skuldara.


    Skuldari getur krafist breytinga á samningi um greiðsluaðlögun ef á tímabili greiðsluaðlögunar koma upp sérstakar aðstæður sem veikja getu hans til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum.
    Verði skuldara á tímabili greiðsluaðlögunar gert kunnugt um kröfu sem stofnaðist áður en umsókn hans um greiðsluaðlögun var samþykkt getur skuldari óskað eftir því við umboðsmann skuldara að samningi um greiðsluaðlögun verði breytt þannig að krafan falli undir hann. Kröfuhafi skal fá greitt í samræmi við það sem greitt er af samsvarandi kröfum frá þeim tíma sem krafan var kynnt skuldara. Skal samningi breytt í samræmi við það enda séu aðrir kröfuhafar samþykkir breytingunni. Skuldari getur leitað eftir því að kröfuhafi samþykki þá meðferð krafna sem ákveðin hefur verið í samningi. Skuldara er óheimilt að greiða kröfuna utan greiðsluaðlögunar.
    Samþykki kröfuhafar ekki breytingu á samningi um greiðsluaðlögun skv. 2. mgr. fellur samningurinn úr gildi.

    b. (25. gr.)

Breyting eða ógilding samnings að kröfu kröfuhafa.


    Kröfuhafi, sem er eigandi kröfu sem greiðsluaðlögun tekur til, getur krafist þess að gerðar verði breytingar á samningi um greiðsluaðlögun ef fjárhagsstaða skuldara batnar umtalsvert á tímabili greiðsluaðlögunar. Hafi fjárhagsstaða skuldara batnað vegna þess að skuldari hefur fengið í hendur háa fjárhæð getur kröfuhafi krafist þess að fénu verði skipt milli kröfuhafa í samræmi við skiptingu greiðslna samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun án þess að samningnum sé breytt að öðru leyti.
    Kröfuhafi, sem er eigandi kröfu sem greiðsluaðlögun tekur til, getur krafist þess að hann verði ógiltur ef skuldari hefur vanrækt skyldur sínar verulega samkvæmt samningnum eða ef skuldari beitti svikum til að koma samningi á.
    Komi upp aðstæður sem veita kröfuhöfum rétt til að krefjast breytinga eða ógildingar á samningi um greiðsluaðlögun skal skuldari innan eins mánaðar og á tryggan hátt upplýsa kröfuhafa um þær aðstæður.

    c. (26. gr.)

Málsmeðferð vegna breytinga eða ógildingar á samningi um greiðsluaðlögun.


    Kröfu um breytingu eða ógildingu á samningi um greiðsluaðlögun skal beint til umboðsmanns skuldara með skriflegum hætti. Umboðsmaður skuldara gerir aðilum sem málið varðar viðvart og kallar eftir nauðsynlegum upplýsingum. Boðað skal til fundar ef kröfuhafi eða skuldari krefst þess eða ef umboðsmaður skuldara telur það nauðsynlegt. Umboðsmaður skuldara skal taka ákvörðun um kröfu um breytingar eða ógildingu á samningi innan mánaðar frá því að krafa berst.
    Fallist umboðsmaður skuldara á kröfu um breytingu á samningi skal hann annast samningaumleitanir og leitast við að ná breytingunum fram og gildir 3. mgr. 17. gr. um samningaumleitanirnar. Takist samningur ekki en skuldari hefur lýst því yfir við umboðsmann skuldara að hann vilji leita nauðasamnings og eftir atvikum greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna skal umboðsmaður skuldara innan tveggja vikna taka rökstudda ákvörðun um hvort hann mæli með því og gildir 1. og 2. mgr. 18. gr. um mat umboðsmanns skuldara á því hvort mælt sé með að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á auk kæruheimildar.
    Ákvörðun umboðsmanns skuldara um ógildingu samnings um greiðsluaðlögun getur skuldari eða kröfuhafi kært til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála innan fjögurra vikna frá því að ákvörðun umboðsmanns berst þeim.
    Skal umboðsmaður skuldara tilkynna aðilum sem málið varðar með tryggum hætti og án tafar um ógildingu samnings.

    d. (27. gr.)

Aðstæður sem leiða til þess að samningur um
greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi.

    Samningur um greiðsluaðlögun fellur sjálfkrafa úr gildi ef skuldari fær heimild til að leita nauðasamnings, bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða hann fellur frá og dánarbú hans er tekið til skipta án þess að erfingjar taki á sig ábyrgð á skuldbindingum hans.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Lög um greiðsluaðlögun einstaklinga, nr. 101/2010, tóku gildi 1. ágúst 2010. Þegar við setningu laganna var ljóst að fylgjast þyrfti með framkvæmd þeirra og hugsanlega bregðast við með lagabreytingum enda lögin einsdæmi og varða flókin mál. Í nóvember 2010 lagði félags- og tryggingamálanefnd fram frumvarp til breytinga á lögunum sem var samþykkt á Alþingi sem lög nr. 135/2010. Í greinargerð með því frumvarpi kemur fram að því var ætlað að sníða annmarka af framkvæmd greiðsluaðlögunar og tryggja virkni hennar og samræmda framkvæmd. Í greinargerðinni er jafnframt áréttað að áfram verði fylgst náið með virkni laganna og starfsemi umboðsmanns skuldara og lagðar til frekari breytingar á lögunum verði talin þörf á því.
    Unnið er að heildarendurskoðun laganna í velferðarráðuneyti sem m.a. varða framkvæmd greiðsluaðlögunar, ljóst er þó að ekki verður unnt að ljúka þeirri frumvarpsgerð til framlagningar á yfirstandandi þingi. Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga sem ætlað er að koma skuldurum til góða og skýra og einfalda ýmsa þætti. Af þeim sökum þykir mikilvægt að leggja þessar breytingar fram nú þó svo að endurskoðun sé í gangi.
    Í fyrsta lagi er lagt til að ef sýnt er að greiðslugeta skuldara sé neikvæð verði unnt að synja honum um greiðsluaðlögun en hann geti þá fengið aðstoð við að sækja um gjaldþrotaskipti á búi sínu. Þannig verði umboðsmanni skuldara heimilt að veita skuldara aðstoð við að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði. Lágmarkstrygging er nú 250.000 kr. fyrir einstaklinga og hefur oft reynst skuldurum þröskuldur að því að sækja um skipti á búi sínu. Vert er að árétta mikilvægi þess að litið verði á gjaldþrotaskipti sem neyðarúrræði og gengið sé úr skugga um að engin önnur úrræði gagnist skuldara. Ljóst er þó að stundum er staða skuldara svo bág að engin önnur leið er honum fær.
    Samkvæmt lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga getur skuldari kært synjun umboðsmanns um heimild til að leita greiðsluaðlögunar skv. 7. gr. laganna, ákvörðun umboðsmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir skv. 15. gr. þeirra og ákvörðun umsjónarmanns að mæla gegn því að nauðasamningur eða greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna komist á skv. 18. gr. Í öllum tilfellum er kærufrestur tvær vikur og er því í öðru lagi lagt til að hann verði lengdur í fjórar vikur.
    Í þriðja lagi er lagt til að á meðan á greiðslufrestun skv. 11. gr. laganna og á meðan á greiðsluaðlögun stendur beri kröfur eingöngu samningsvexti en ekki dráttarvexti. Þannig verði einungis heimilt að reikna dráttarvexti á kröfu ef skuldari er í vanskilum samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun.
    Lagt er til að afborgunarfjárhæð verði föst fjárhæð en ekki bundin launavísitölu líkt og nú er kveðið á um í 5. mgr. 16. gr. laganna.
    Í fimmta og síðasta lagi eru lagðar til töluverðar breytingar á VII. kafla laganna um breytingar á samningi um greiðsluaðlögun og ógildingu samninga. Breytingunum er ætlað að tryggja aðkomu umboðsmanns skuldara en samkvæmt gildandi lögum þarf skuldari t.d. að reyna að ná fyrst samkomulagi við alla kröfuhafa áður en hann getur leitað til umboðsmanns með beiðni sína um breytingu. Af þeim greiðsluaðlögunarmálum sem komið hafa til vinnslu hjá umboðsmanni er ljóst að slík samningaumleitan er flókin og þung í vöfum enda eru kröfuhafar oft mjög margir. Skuldari hefur auk þess fengið aðstoð umsjónarmanns við greiðsluaðlögunarumleitanir og eðlilegt að hann fái áfram aðstoð ef breytinga er þörf og skilyrði til að leita breytinga uppfyllt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Greiðsluaðlögun hefur það að markmiði að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Með greiðsluaðlögun er þannig leitast við að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu. Virðist sem lögin gera ráð fyrir því að einstaklingar hafi einhverja greiðslugetu þannig að þegar framfærslukostnaður hefur verið dreginn frá tekjum hlutaðeigandi séu einhverjir fjármunir afgangs til að greiða af skuldbindingum þeirra meðan á tímabili greiðsluaðlögunar stendur. Hins vegar hefur ekki verið kveðið skýrt á um hvernig fara skuli með umsóknir einstaklinga sem hafa neikvæða greiðslugetu en þá er átt við að tekjur skuldara dugi ekki til greiðslu framfærslu samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara að teknu tilliti til sérþarfa að mati umboðsmanns skuldara ásamt hæfilegum húsnæðiskostnaði. Lagt er því til að umboðsmanni skuldara verði fengin skýrari heimild en verið hefur um að synja um greiðsluaðlögun einstaklinga hafi skuldari neikvæða greiðslugetu. Er þá átt við þau tilvik þegar ekki verður talið líklegt að mati umboðsmanns skuldara að með greiðsluaðlögun sé unnt að greiða úr fjárhagserfiðleikum hlutaðeigandi enda eru ekki forsendur fyrir því að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þegar greiðslugeta er neikvæð.

Um 2. gr.


    Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að kærufrestur verði lengdur úr tveimur vikum í fjórar. Í því frumvarpi sem varð að lögum nr. 101/2010 var kærufrestur einungis ein vika. Mikilvægt þótti að endanleg niðurstaða fengist í máli einstaklings sem fyrst. Með lögum nr. 135/2010 var þessi frestur lengdur í tvær vikur enda hafði vikufrestur verið of skammur. Áfram var þó lögð áhersla á að umsóknir skuldara um greiðsluaðlögun fengju greiða meðferð innan kerfisins. Slíkt má þó ekki koma niður á réttindum skuldara og er mikilvægt að tryggja að skuldarar fái nægt ráðrúm til að taka ákvörðun um það hvort þeir hyggist kæra ákvörðun umboðsmanns skuldara. Nú liggur fyrir að þessi skammi frestur getur reynst skuldurum hindrun til að nýta þennan rétt sinn og er því lagt til að kærufresturinn verði lengdur í fjórar vikur. Þannig er réttaröryggi viðkomandi einstaklinga tryggt enn frekar án þess að komi niður á ferlinu. Í þessu sambandi ber að taka fram að það er ekki skuldara í hag að draga það að kæra málið til kærunefndarinnar þar sem hann þarf áfram að greiða af skuldum sínum meðan hann bíður endanlegrar niðurstöðu þar sem greiðslufrestun skv. 11. gr. laganna tekur ekki gildi fyrr en að umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn hans um greiðsluaðlögun.

Um 3. gr.


    Ákvæði þetta er nýmæli. Við framkvæmd laganna hefur komið í ljós að einstaklingar sem hafa neikvæða greiðslugetu þannig að tekjur þeirra duga eingöngu til framfærslu fjölskyldunnar samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara að teknu tilliti til sérþarfa að mati umboðsmanns skuldara eru í mjög erfiðri stöðu og þá einkum þegar skuldir þeirra eru miklar. Í þeim tilvikum hafa einstaklingarnir ekki fjármuni til að greiða af skuldum sínum og skuldir þeirra svo miklar að kröfuhafar eru ekki tilbúnir að gefa þær alveg eftir, meðal annars með tilliti til jafnræðis við aðra skuldara. Hins vegar þjónar það á engan hátt hagsmunum kröfuhafa að óska eftir gjaldþrotaskiptum á búi hlutaðeigandi einstaklings með tilheyrandi kostnaði. Kann þá að vera eina úrræðið fyrir skuldara að óska sjálfur eftir að bú hans verði tekið til gjaldþrotaskipta. Hins vegar hefur þá komið upp sú staða í mörgum tilvikum að skuldari hafi ekki haft fjárhagslega möguleika á að reiða fram þá tryggingu sem lög um gjaldþrotaskipti o.fl. kveða á um í 2. mgr. 67. gr. og hefur verið ákveðin 250.000 kr. vegna skipta á búi einstaklinga. Hefur þetta valdið skuldurum í þessari stöðu ákveðnu óhagræði. Er því lagt til í ákvæði þessu að umboðsmanni skuldara verði veitt heimild í undantekningartilvikum til að veita skuldara aðstoð við að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði sem héraðsdómari ákveður á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl.
    Ávallt skal þó líta á gjaldþrotaskipti sem neyðarúrræði og þá gengið úr skugga um að engin önnur úrræði gagnist skuldara, þar á meðal greiðsluaðlögun einstaklinga. Skilyrði er því að skuldari hafi áður sótt um greiðsluaðlögun einstaklinga og fengið synjun á grundvelli þess að hann hafi neikvæða greiðslugetu, sbr. 1. gr. frumvarps þessa. Ekki er gert ráð fyrir að synjun umsókna skuldara um greiðsluaðlögun einstaklinga á grundvelli annarra ástæðna sem fram koma í 6. gr. laganna geti leitt til þess að skuldara sé veitt sú aðstoð sem lögð er til með ákvæði þessu. Enn fremur er það gert að skilyrði að ekki verði talið sennilegt að greiðsluörðugleikar hans muni líða hjá innan skamms tíma, sbr. einnig 1. mgr. 64. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Jafnframt er það sett sem skilyrði að umboðsmaður skuldara rökstyðji skriflega ákvörðun sína um að veita aðstoð til að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði og þá komi meðal annars fram yfirlit yfir efnahag skuldara, en þar á meðal kæmu fram upplýsingar um eignir hans og skuldir. Þau gögn ættu þá að koma að gagni fyrir störf skiptastjóra sem síðar yrði skipaður á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Ætti það að vera til þess fallið að takmarka kostnaðinn við skipti á búi skuldara. Þá er vert að geta þess að umboðsmaður skuldara ber kostnað af störfum umsjónarmanna samkvæmt lögunum. Sá kostnaður fellur niður fyrir þá skuldara sem ekki geta nýtt sér greiðsluaðlögun vegna neikvæðrar greiðslugetu og því ætti þetta ákvæði ekki að hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað fyrir embættið.
    Ákvæðið er nokkuð sambærilegt frumvarpi til breytinga á lögum um gjaldþrotaskipti o.fl. (þskj. 529, 391. mál) sem nú bíður 1. umræðu og Eygló Harðardóttir er fyrsti flutningsmaður að. Horft var til þess máls við gerð frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Lagt er til að á meðan á frestun greiðslna standi beri kröfur einungis almenna vexti í skilningi laga um vexti og verðtryggingu. Áfram er gert ráð fyrir að vextirnir séu ekki gjaldkræfir. Þá þykir mikilvægt að kveðið verði skýrt á um það að kröfur skuli ekki bera dráttarvexti á meðan á frestun greiðslna stendur en misjafn skilningur hefur verið meðal kröfuhafa í þessu sambandi. Verður það að teljast í samræmi við önnur ákvæði laganna enda er gert ráð fyrir að skuldara sé óheimilt að greiða af kröfum á meðan á frestun greiðslna stendur. Því þykir eðlilegt að þær kröfur sem hvíla á skuldara beri ekki dráttarvexti á þeim tíma enda litið svo á að dráttarvöxtum sé einkum ætlað að hafa þann tilgang að knýja á um greiðslu kröfu.

Um 5. gr.


    Lagt er til að afborgunarfjárhæð samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun verði ekki bundin við launavísitölu eða á annan hátt við tilteknar mælingar á verðlagsbreytingum. Í samningi um greiðsluaðlögun er gert ráð fyrir að greiðslugeta skuldara sé nýtt að fullu til greiðslna samkvæmt samningi og er lítið svigrúm til hækkana á afborgunarfjárhæð. Er þetta ekki síst byggt á þeirri reynslu að upp hafa komið tilvik þar sem hækkun afborgunarfjárhæðar í samræmi við hækkun á launavísitölu hefur farið fram úr því svigrúmi sem gert var ráð fyrir í samningi um greiðsluaðlögun og þar með hefur skuldari ekki getað staðið skil á samningnum. Enn fremur þykir það til ákveðinnar einföldunar fyrir alla þá aðila sem koma að gerð slíkra samninga að hverfa frá vísitölutengingu. Í ljósi framangreinds þykir þýðingarmikið að mælt sé fyrir um að afborgunarfjárhæð sé föst krónutala.

Um 6. gr.


    Mikilvægt þykir að kveða skýrt á um í lögum hvernig fara skuli með vexti og eftir atvikum verðbætur sem leggjast á kröfur á tímabili greiðsluaðlögunar. Þykir eðlilegt í þessu sambandi að bæði veðkröfur sem og samningskröfur sem greiðsluaðlögun tekur til beri þá vexti og eftir atvikum verðbætur sem þær hefðu borið hefði ekki komið til vanefnda af hálfu skuldara. Er þá átt við að á tímabili greiðsluaðlögunar beri þessar kröfur einungis umsamda vexti og eftir atvikum verðbætur samkvæmt samningi aðila án tillits til gjalddaga. Jafnframt er lagt til að tekið verði fram að á kröfurnar falli ekki dráttarvextir, innheimtukostnaður eða annar vanskilakostnaður, enda hefur greiðsluaðlögun í för með sér að krafa telst ekki vanefnd þótt ekki sé greitt af henni til samræmis við umsamda greiðsluskilmála. Verði ekki greitt af veðkröfu eða hluta hennar leiðir af úrræðinu að sá hluti kröfunnar leggst við ógjaldfallinn höfuðstól hennar og lengist þá lánstími til jafnlengdar þeim tíma sem greiðsluaðlögun stendur. Standi greiðsluaðlögun til að mynda í tvö ár lengist umsaminn greiðslutími veðskuldar því jafnframt um tvö ár. Hvernig fara skuli með samningskröfur við lok greiðsluaðlögunartímabils skal samið um í samningi um greiðsluaðlögun.
    Í greininni er jafnframt lagt til að sé krafa tryggð með veði í eign leggist sá hluti kröfu sem telst til vanskila af upphaflegum lánssamningi við ógjaldfallinn höfuðstól kröfunnar og lengist lánstíminn þá um sama tíma og greiðsluaðlögun stendur. Ákvæðinu er ætlað að auka skýrleika laga og tryggja samræmda framkvæmd.

Um 7. gr.


    Töluverðar breytingar eru lagðar til á VII. kafla laganna um breytingar á samningi um greiðsluaðlögun og ógildingu samninga. Byggt er á gildandi ákvæðum en annmarkar sniðnir af og framkvæmd einfölduð.
     Um a-lið (24. gr.).
    Lagt er til að skuldari snúi sér til umboðsmanns skuldara um breytingu á samningi um greiðsluaðlögun ef upp koma sérstakar aðstæður sem veikja getu hans til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum. Rétt þykir að miða við að aðstæður séu sérstakar í stað þess að mæla fyrir um að þær séu ófyrirsjáanlegar en upp geta komið tilvik sem voru ekki algjörlega ófyrirséð þrátt fyrir að erfitt eða jafnvel ómögulegt hafi verið að gera ráð fyrir þeim í samningi um greiðsluaðlögun. Dæmi um slíkar aðstæður eru þegar greiðslufall verður á láni sem skuldari hefur gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir. Það leiðir af eðli greiðsluskyldu ábyrgðarmanns að skylda hans er skilyrt. Hún verður þá fyrst virk ef og þegar greiðslufall verður hjá aðalskuldara. Fyrr getur kröfuhafi ekki, hvað sem öðru líður, gengið að ábyrgðarmanni og krafan á hendur honum verður því ekki til fyrr en kröfuhafi hefur heimild til að krefja hann um greiðslu. Krafan á hendur honum sem ábyrgðarmanni stofnast því ekki fyrr en sjálfskuldarábyrgðin verður virk. Það er því skýrt að í tilvikum sem þessum er ekki um að ræða kröfu sem stofnaðist áður en umsókn skuldara um greiðsluaðlögun var samþykkt, sbr. 2. mgr. a-liðar 7. gr. (24. gr.). Tilvikið fellur þó undir 1. mgr. a-liðar enda um að ræða sérstakar aðstæður sem veikja getu skuldara til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt samningnum.
    Lagt er til að horfið verði frá þeirri skyldu skuldara að fullreyna að ná fram samningum við alla kröfuhafa um þær breytingar sem hann vill leggja til. Þess í stað er gert ráð fyrir að skuldari leggi fram kröfu um breytingar á samningi til umboðsmanns skuldara sem metur hvort breytingarnar séu þess eðlis að hann telji rétt að fallast á þær og geri hann það er lagt til að hann annist samskipti við kröfuhafa og leitist við að ná breytingunum fram.
     Um b-lið (25. gr.).
    Lagt er til að kröfuhafi geti krafist breytinga eða eftir atvikum ógildingar samnings um greiðsluaðlögun og kröfu um hvort tveggja sé beint til umboðsmanns skuldara. Ekki er lagt til að skilyrði breytinga að kröfu kröfuhafa verði breytt og þannig er gert ráð fyrir að kröfuhafi geti óskað breytinga ef fjárhagsstaða skuldara hefur batnað. Hins vegar er lagt til að ógildingarferli samninga um greiðsluaðlögun verði breytt talsvert. Lagt er til að kröfu um ógildingu sé beint til umboðsmanns skuldara sem taki ákvörðun um kröfuna innan eins mánaðar. Með þessu móti er ferlið einfaldað til muna auk þess sem ætla má að það taki styttri tíma í ljósi þess að gildandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir að ógildingar- eða riftunarmál séu höfðuð fyrir dómstólum vanræki skuldari skyldur sínar samkvæmt samningnum verulega.
     Um c-lið (26. gr.).
    Lagt er til að ákvörðun umboðsmanns skuldara um breytingar eða ógildingu samnings um greiðsluaðlögun verði skotið til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála og að unnt sé að höfða einkamál til ógildingar á úrskurði kærunefndarinnar.
     Um d-lið (27. gr.).
    Lagt er til að við ákveðnar aðstæður falli samningur um greiðsluaðlögun sjálfkrafa úr gildi. Á það við þegar skuldari fær heimild til að leita nauðasamnings, þegar bú hans er tekið til gjaldþrotaskipta eða þegar skuldari fellur frá og dánarbú hans er tekið til skipta án þess að erfingjar taki á sig ábyrgð á skuldbindingum hans.

Um 8. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.