Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 760. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1221  —  760. mál.
Flutningsmenn. Breyttur texti.




Tillaga til þingsályktunar



um framferði kínverskra yfirvalda gagnvart tíbesku þjóðinni.

Flm.: Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Magnús M. Norðdahl, Björgvin G. Sigurðsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,
Guðmundur Steingrímsson, Þráinn Bertelsson, Höskuldur Þórhallsson,
Björn Valur Gíslason, Valgerður Bjarnadóttir, Mörður Árnason,
Skúli Helgason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Pétur H. Blöndal.


    Alþingi lýsir yfir þungum áhyggjum af vaxandi ofbeldi og kúgun kínverskra yfirvalda gagnvart tíbesku þjóðinni og hvetur til að endurmenntunarþvingunum verði hætt en þær hafa meðal annars leitt til þess að 35 munkar og nunnur hafa kveikt í sér í örvæntingu síðan 2009.
    Alþingi fordæmir vaxandi hörku gagnvart friðsömum mótmælum í Tíbet undanfarna mánuði þar sem fjölmargir mótmælendur sem hafa verið myrtir og særðir lífshættulega.
    Alþingi hvetur kínversk yfirvöld til að aflétta herkví í Tíbet og til að hleypa alþjóðafjölmiðlum og alþjóðamannréttindasamtökum hindrunarlaust og án afskipta inn í landið.
    Alþingi hvetur Sameinuðu þjóðirnar til að senda sendinefnd til að kanna mannréttindabrot í Tíbet og til að beita sér fyrir því að kínversk yfirvöld hefji opinberar friðar- og samningsviðræður við sérstaka sendinefnd Dalai Lama.
    Alþingi hvetur íslensk stjórnvöld til að bjóða að vettvangur friðarviðræðnanna verði hérlendis, t.d. í Höfða.

Greinargerð.


    Fjölmörg þjóðþing hafa ályktað um síversnandi ástand í Tíbet undanfarið, þar á meðal bandaríska, ítalska og japanska þingið sem og Evrópuþingið. Þá hafa tólf handhafar friðarverðlauna Nóbels, þar á meðal Desmond M. Tutu og Lech Walesa, sent frá sér bréf til forseta kínverska alþýðulýðveldisins, Hu Jintao, þar sem hann er eindregið hvattur til að halda áfram friðarviðræðunum við fulltrúa tíbesku þjóðarinnar.
    Herseta kínverskra yfirvalda í Tíbet hefur staðið í sextíu ár og á þeim tíma hefur ríkisstjórn alþýðulýðveldisins Kína innleitt miskunnarlausa stefnu aðlögunar og kúgunar. Mannréttindi eru markvisst fótum troðin gagnvart Tíbetum: þeir eru sviptir öllum rétti til pólitísks frelsis, að tala sitt eigið tungumál og iðka sína þjóðmenningu, það er ekkert raunverulegt trúfrelsi í Tíbet. Að eiga ljósmynd af Dalai Lama er til að mynda refsivert. Tíbetum er kerfisbundið haldið frá atvinnustarfsemi, atvinnutækifærum og aðgengi að menntun vegna þjóðernis. Tíbeska þjóðin vex ekki eins og aðrar þjóðir heldur hefur fjöldi Tíbeta staðið í stað um langa hríð. Tíbeska þjóðin er orðin að minni hluta í sínu eigin landi. Eina leiðin til að viðhalda þjóðmenningu þessarar merku þjóðar er í útlegð. En blæbrigði tungumálsins, sögur og söngvar fjara út dag frá degi.
    Flutningsmenn hafa áhyggjur af grófum mannréttindabrotum gagnvart Tíbetum, eins og t.d. þvinguðum ófrjósemisaðgerðum á tíbeskum konum, nauðungarflutningum hirðingja af hjarðlandi í einangrunarbúðir, pyntingum og morðum á föngum. Þá er brýnt að Sameinuðu þjóðirnar sendi sérstaka sendinefnd til Tíbet til að kanna m.a. hvað varð um þá sem hurfu í tengslum við handtökur á þátttakendum í mótmælaaðgerðum árið 2008.
    Sjálfsíkveikjurnar, sem eru því miður að aukast þrátt fyrir skelfilegar afleiðingar, sýna gríðarlega örvæntingu meðal tíbeskra munka og nunna vegna kerfisbundinnar afneitunar á rétti þeirra til að iðka trú sína án afskipta. Þá hefur jafnframt komið fram að þau sjá þetta sem einu leiðina til að vekja athygli á síversnandi ástandinu og algeru fálæti heimsbyggðarinnar gagnvart hljóðlátri en markvissri útrýmingu þjóðar og þjóðareinkenna. Í sextíu ár hefur heimurinn horft fram hjá mannréttindabrotum í Tíbet gagnvart tíbesku þjóðinni. Nú höfum við Íslendingar kjörið tækifæri til að sýna fram á að barátta þessarar merku þjóðar hefur náð eyrum okkar og að við bregðumst í orði og í verki við ákalli hennar.
    Ekki verður annað ráðið en að kínversk yfirvöld standi fyrir skipulegri útrýmingu á tíbesku þjóðinni og menningu hennar. Í því máli telja flutningsmenn að Alþingi beri að taka afstöðu, sér í lagi vegna þess að hingað koma í heimsóknir æðstu embættismenn kínverska alþýðulýðveldisins með reglulegu millibili.