Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 865. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1679  —  865. mál.




Svar



mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn Höskuldar Þórhallssonar um verkefnasjóð skapandi greina og sviðslistir.


     1.      Hvernig sér ráðherra fyrir sér að hægt verði að útfæra og fylgja eftir því sem segir í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2013–2015 um að setja 250 millj. kr. í verkefnasjóð skapandi greina árlega í þrjú ár?
    Í áætluninni er greint frá fyrirætlun um stuðning við verkefnasjóði skapandi greina á árunum 2013–2015 en þar er átt við að efla þá sjóði sem nú eru til staðar til stuðnings listum og skapandi greinum, auk tilkomu sjóða á sviðum þar sem þeirra hefur ekki notið við, þ.e. í hönnun og í myndlist. Við frekari útfærslu verður tekið mið af niðurstöðum starfshóps sem unnið hefur að stefnumótun og greiningu á stuðningi ríkisins við skapandi greinar en skýrslu hans er að vænta innan skamms. Í hópnum sitja fulltrúar þriggja ráðuneyta auk hagsmunaaðila.

     2.      Hvernig sér ráðherra fyrir sér að hægt sé að tryggja vöxt og viðgang sjálfstæðrar sviðslistarstarfsemi þannig að sviðslistir geti orðið gjaldeyrisskapandi útflutningsvara til frambúðar?
    Í vor var lagt fram á Alþingi frumvarp til sviðslistalaga. Þar sem frumvarpið komst ekki á dagskrá þingsins vinnur ráðuneytið nú að endurskoðun þess. Stefnt er að því að endurskoðað frumvarp verði lagt fram í haust þegar þing kemur aftur saman.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að komið verði á fót sviðslistasjóði og skipað sviðslistaráð. Hlutverk sviðslistaráðs yrði að vera ráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni íslenskra sviðslista. Hlutverkið rækti ráðið m.a. með því að veita umsagnir um mál sem ráðherra vísar til þess, gera tillögur til ráðherra um stefnu og helstu áherslur í starfi sviðslistasjóðs til þriggja ára í senn, úthluta styrkjum úr sviðslistasjóði, kynna íslenskar sviðslistir hér á landi og erlendis og efla alþjóðlegt samstarf íslenskra sviðslistamanna og stofnana. Gert er ráð fyrir að ráðherra geti heimilað sviðslistaráði að reka sérstaka skrifstofu eða semja við til þess bæra aðila um framkvæmd verkefna sem unnin yrðu í þágu þess og til að annast almenna umsýslu vegna starfsemi ráðsins og sviðslistasjóðs.
    Ef frumvarpið verður að lögum og komið verður á fót öflugum sviðslistasjóði væntir ráðherra þess að hægt verði að efla stuðning við atvinnuleikhópa og koma á fót kynningarmiðstöð fyrir íslenskar sviðslistir. Með góðum stuðningi við sjálfstæða atvinnuleikhópa ættu að skapast betri forsendur fyrir blómlegu og öflugu leiklistarstarfi sem gæti fætt af sér leiksýningar fyrir íslenska sem erlenda áhorfendur. Eins skapa ákvæði í lögunum grunn til að setja á fót kynningarmiðstöð fyrir þennan geira, en slíkar kynningarmiðstöðvar eru þegar starfandi á sviði bókmennta, hönnunar, myndlistar og tónlistar auk Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
    Á vettvangi Íslandsstofu er einnig gert ráð fyrir að unnið verði að menningarkynningum og markaðssókn skapandi atvinnugreina. Þar undir falla einnig sviðslistir.
    Með öflugum sviðslistasjóði, kröftugri kynningarmiðstöð fyrir sviðslistir og góðu samstarfi við Íslandsstofu er þess vænst að leggja megi betri grunn að því að íslensk sviðslistastarfsemi geti gert sig gildandi á alþjóðavettvangi og lagt sitt af mörkum til að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar en miðað við stöðu efnahagsmála á Íslandi má reikna með að einhvern tíma muni taka að byggja starfsemina upp.