Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 189. máls.
141. löggjafarþing 2012–2013.
Þingskjal 356  —  189. mál.




Svar


atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar
um hvalastofna við Ísland.


    Eftirfarandi svör byggja á umbeðinni greinargerð sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar, dags. 19. október 2012.

     1.      Hvernig hafa stofnar helstu hvalategunda við Ísland þróast undanfarin 10 ár?
    Hafrannsóknastofnun hefur staðið fyrir reglulegum hvalatalningum í samvinnu við nágrannaþjóðir við Norður-Atlantshaf síðan 1987. Slíkar fjölþjóðlegar talningar hafa farið fram árin 1987, 1989, 1995, 2001 og 2007. Auk þess fóru fram talningar á minni svæðum árin 2003–2005 og 2008–2009. Vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) telur æskilegt að hvalatalningar fari fram á u.þ.b. 6 ára fresti og hefur verið tekið mið af því hér á landi. Spurt er um breytingar á hvalastofnum undanfarin 10 ár, en í ljósi ofangreindra tímasetninga hvalatalninga verður hér einkum miðað við breytingar milli talninganna 2001 og 2007.
    Mikilvægt er að hafa í huga að allir helstu nytjahvalir hér við land tilheyra farstofnum sem hafa stórt útbreiðslusvæði. Þeir æxlast á veturna í hlýrri sjó í syðri hluta Norður-Atlantshafsins en eyða sumrum við fæðunám á norðlægum slóðum, m.a. við Ísland. Stofnsvæði íslenskra skíðishvala eru almennt talin ná frá suðurodda Grænlands, um Ísland og austur fyrir Jan Mayen. Breytingar geta því orðið á fjölda eða þéttleika hvalategunda á smærri svæðum innan þessa víðfeðma stofnsvæðis án þess að slíkt beri að túlka sem stofnstærðarbreytingar.
     Langreyður: Langreyður tilheyrir svokölluðum Austur-Grænlands-Íslandsstofni (EGI). Sá stofn hefur vaxið umtalsvert síðan talningar hófust eða úr um 15 þús. dýrum árið 1987 í 24 þús. dýr árið 2001. Mest var fjölgunin á svæðinu milli Íslands og Austur-Grænlands eða um 10% á ári. Samkvæmt síðustu talningum (2007) var fjöldinn metinn um 21 þús. dýr. Þótt munurinn milli tveggja síðustu talninga sé ekki tölfræðilega marktækur gætu niðurstöðurnar bent til að stofninn nálgist eða hafi jafnvel þegar náð hámarksstærð miðað við burðarþol vistkerfisins eins og nýlegar athuganir á ástandi stofnsins hafa gefið til kynna. Þess er vænst að næstu talningar (2015) varpi frekara ljósi á þann þátt.
     Hrefna: Hrefnan hefur strandlægari útbreiðslu en langreyður. Talningar á hrefnu hafa tekið mið af þessu og stofnstærðarútreikningar byggst að miklu leyti á flugtalningum á landgrunnssvæði Íslands þótt þær nái aðeins yfir hluta stofnsvæðisins (Austur-Grænland, Ísland og Jan Mayen). Hrefna er vissulega einnig talin í skipahluta talninganna sem hannaður er fyrir stórhveli, en vitað er að niðurstöðurnar þar fela í sér ótilgreint vanmat á fjölda hrefna.
    Á árunum 1987–2001 urðu ekki marktækar breytingar á fjölda hrefna á landgrunnssvæðinu þótt sveiflur væru talsverðar. Í talningunum 2007 var útreiknaður fjöldi hrefna talsvert minni (21 þús.) en verið hafði 2001 (44 þús.) og í aukatalningum sumarið 2009 var fjöldinn metinn um 10 þús. hrefnur á landgrunninu. Talningar í Faxaflóa sumarið 2008 sýndu hins vegar mun hærri þéttleika, sambærilegan við það sem var árið 2001. Þessar niðurstöður sýna mikla fækkun hrefnu á grunnsævi við Ísland á undanförnum árum, en jafnframt miklar sveiflur frá ári til árs. Það bendir til að hér sé um að ræða breytingar á útbreiðslu innan stofnsvæðis fremur en minnkandi stofnstærð. Auk fyrrgreindra takmarkana á notagildi skipatalninga varðandi hrefnu hömluðu veðurskilyrði því að hægt væri að telja á stórum svæðum norðan Íslands og við austurströnd Grænlands. Því liggja ekki fyrir nægileg gögn sem skýra kynnu nánar þá breytingu á útbreiðslu hrefnu sem virðist hafa átt sér stað á undanförnum árum.
     Sandreyður: Sandreyður er þriðja tegund skíðishvala sem nytjuð hefur verið við Ísland á undanförnum áratugum. Viðverutími sandreyðar hér við land er einkum síðsumars og á haustin og ná hefðbundnar hvalatalningar um mitt sumar því verr til sandreyðar en annarra skíðishvala. Ekki er að finna vísbendingar um breytingar á fjölda sandreyða við Ísland í þeim takmörkuðu gögnum sem fyrir liggja frá undanförnum árum.
     Hnúfubakur: Hnúfubakur var sárasjaldgæfur við Ísland langt fram eftir síðustu öld eftir ofveiði kringum aldamótin 1900 og fyrr. Tegundin hefur verið alfriðuð síðan árið 1955. Hnúfubak tók að fjölga hratt á áttunda áratug 20. aldar og frá því að talningar hófust árið 1987 hefur fjölgunin numið um 15% á ári. Núverandi stofnstærð hnúfubaks um mitt Norður- Atlantshaf er um 17 þús. dýr. Sú tala er ekki marktækt frábrugðin talningum 2001 og gæti það bent til að dregið hefði úr fjölgun og hámarksstofnstærð náð.
     Steypireyður: Steypireyðurin, stærsta dýr veraldar, er sú hvalategund sem varð verst fyrir barðinu á ofveiði kringum aldamótin 1900. Stofnstærð steypireyðar við Ísland er talin vera kringum 1000 dýr. Þótt stofninn hafi vaxið marktækt síðan talningar hófust er stofn steypireyðar enn langt frá þeirri stærð sem var fyrir tíma „nútíma hvalveiða“ sem hófust seint á 19. öld gagnstætt því sem gildir um langreyði og hnúfubak.
     Aðrar tegundir: Þar sem skipulag hvalatalninga hefur fyrst og fremst miðast við að meta stofnstærð stórra skíðishvala (skipatalning) og hrefnu (flugtalning) liggja ekki fyrir eins góðar upplýsingar um aðrar tegundir hvala hér við land þótt allar tegundir séu skráðar. Samanburður á niðurstöðum flugtalninga leiddi ekki í ljós marktækar breytingar á fjölda smáhvala (hnísu, hnýðings og leifturs) á tímabilinu 1987–2001. Vísbendingar voru þó um fækkun hnísu þótt ekki væri hún tölfræðilega marktæk.

     2.      Hefur útbreiðsla einstakra tegunda breyst og þá hvernig?
     Langreyður: Langreyði hefur fjölgað mikið í Irmingerhafi milli Íslands og Grænlands á undanförnum áratugum. Fjölgunin er mest á djúpsævi þessa svæðis en áður var útbreiðslan að miklu leyti bundin við landgrunnsbrúnir Íslands og Grænlands. Ekki er ólíklegt að hlýnandi sjór á þessu svæði eigi þátt í þessari fjölgun.
     Hrefna: Eins og áður segir hefur hrefnu fækkað talsvert á landgrunni Íslands á síðustu árum þótt miklar árasveiflur hafi verið í fjöldanum 2007–2009. Líklegast er hér um að ræða breytingar á útbreiðslu innan stofnsvæðis vegna breytts fæðuframboðs. Fyrirliggjandi gögn eru þó ófullnægjandi til að lýsa þessum útbreiðslubreytingum nánar þar sem skipatalningin 2007 náði ekki til stórra svæða norðan Íslands og við austurströnd Grænlands. Sambærilegar breytingar hafa orðið á tímabilinu á útbreiðslu ýmissa fisktegunda s.s. skötusels og ýsu. Þá er líklegt að hrun sandsílastofnsins hafi haft neikvæð áhrif á lífsskilyrði hrefnu sunnan og vestan lands enda var sandsíli mikilvægasta fæða hrefnu samkvæmt nýlegum rannsóknum.
     Steypireyður: Talningar Hafrannsóknastofnunar og skráningar um borð í hvalaskoðunarskipum benda til að útbreiðsla steypireyðar hafi hliðrast til norðurs frá aldamótum.

     3.      Hefur orðið breyting á atferli og útbreiðslu hvala eftir aukna makrílgengd?
    Makríll er ein þeirra fisktegunda sem hafa aukið útbreiðslusvæði sitt til norðurs á síðustu árum. Þetta hefur gerst á sama tíma og fjölmargar sambærilegar breytingar í vistkerfinu sem eiga rætur að rekja til hlýnunar sjávar. Ekki hefur verið sýnt fram á orsakasamhengi milli aukinnar makrílgengdar á Íslandsmiðum og breytinga á atferli eða útbreiðslu hvala.