Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 79. máls.
143. löggjafarþing 2013–2014.
Þingskjal 137  —  79. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur
um girðingamál Vegagerðarinnar.


    Kostnaður Vegagerðarinnar vegna girðinga er bæði vegna nýrra girðinga og viðhalds eldri. Skyldur Vegagerðarinnar sem veghaldara eru skilgreindar í X. kafla vegalaga nr. 80/2007, og í reglugerð nr. 930/2012. Í vegáætlun hefur verið sérstök fjárveiting til girðinga með eldri vegum en kostnaður við girðingar með nýjum vegum er greiddur af fjárveitingu til þeirra. Þegar um er að ræða samninga til lengri tíma en eins árs er kostnaður vegna girðinga með nýjum vegum settur á samningsár verka, þó kostnaður hafi ekki í öllum tilvikum fallið til á því ári. Viðhald girðinga er kostað af almennu viðhaldi þjóðvega.

     1.     Hversu miklum fjármunum ver Vegagerðin til girðinga alls á árinu 2013?
    Á árinu 2013 er í vegáætlun sérstök fjárveiting til nýrra girðinga 60 millj. kr. og í þeim verkum sem samið hefur verið um á árinu er auk þess gert ráð fyrir 17 millj. kr. viðbótarkostnaði við girðingar. Til viðhalds girðinga á árinu 2013 eru ætlaðar 70 millj. kr.

    2.     Hversu miklum fjármunum varði Vegagerðin til girðinga á ári síðustu fimm ár á verðlagi ársins 2013?
    Eftirfarandi yfirlit sýnir kostnað Vegagerðarinnar vegna nýrra girðinga árin 2008–2012 í millj. kr. á verðlagi í ágúst 2013.

Ár

Girðingar með eldri vegum

Girðingar með nýjum vegum

Samtals

2008 130,0 47,4 177,4
2009 111,5 83,3 194,8
2010 77,2 6,8 84,0
2011 78,0 8,7 86,7
2012 53,4 11,4 64,8
Samtals 450,1 157,6 607,7

    Meðfylgjandi yfirlit sýnir kostnað Vegagerðarinnar við viðhald girðinga á árunum 2008– 2012 í millj. kr. á verðlagi í ágúst 2013.

Ár Viðhaldskostnaður
2008 84,4
2009 64,5
2010 67,3
2011 72,6
2012 82,1
Samtals 370,9

    3.     Hverju námu óafgreiddar beiðnir um fjármuni til girðinga í lok ársins 2012?
    Í árslok 2012 lágu fyrir óskir um 394 km af nýjum girðingum með eldri vegum sem gróflega má áætla að gæti kostað um 350 millj. kr.

    4.     Hverju nemur lengd girðinga sem Vegagerðin a) lét gera og b) styrkti á árinu 2012?
    Á árinu 2012 kostaði Vegagerðin 40 km af girðingum með eldri vegum og í samningum árið 2012 var gert ráð fyrir 9 km af girðingum með nýjum vegum.

    5.     Hversu mikla fjármuni telur Vegagerðin sig þurfa á ári næstu fimm ár til girðinga?
    Á árunum 2008–2012 hefur Vegagerðin kostað 320 km af girðingum með eldri vegum og á sama tíma hafa komið fram óskir um 300 km af girðingum til viðbótar, þannig að töluvert er um óuppfylltar óskir. Til þess að uppfylla fyrirliggjandi óskir um nýjar girðingar má áætla að þurfi um 350 millj. kr., sbr. svar við þriðja lið fyrirspurnarinnar.