Ferill 129. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


144. löggjafarþing 2014–2015.
Þingskjal 383  —  129. mál.




Svar


innanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helga Hrafni Gunnarssyni um fæðispeninga fanga.


     1.      Hversu margir fangar fá fæðispeninga og elda ofan í sig sjálfir? Hversu hátt hlutfall er þetta af föngum hér á landi?
    Að jafnaði fá 96–98 fangar greitt fæðisfé og elda sjálfir, eða u.þ.b. 64% fanga.
    Rétt er að taka fram að vel hefur gengið að fá fanga til að elda sjálfir. Með því fyrirkomulagi hafa fangar jafnframt frjálsari hendur um hvað skuli vera í matinn og finna til aukinnar ábyrgðar, þurfa að skipuleggja innkaup o.s.frv. Þeir skipuleggja einnig viðburði sem staðið er sameiginlega að, svo sem litlu jól, þorrablót, AA-fundi þar sem boðið er upp á mat og einnig sjá þeir um sameiginlegt grill fyrir alla nokkrum sinnum yfir sumarið. Þetta er því ómetanlegur þáttur í endurhæfingu fanga.

     2.      Hafa fangar kost á öðru fyrirkomulagi, að eigin frumkvæði, svo sem bakkamat?
    Fangar geta fengið og fá bakkamat ef þeir af einhverjum ástæðum geta ekki eða hafa ekki aðstöðu til að elda sjálfir.

     3.      Hver er fjárhæð fæðispeninga fanga og hvernig hefur sú fjárhæð þróast frá árinu 2006?
    Flestir fangar fá greitt fæðisfé, 1.300 kr. á dag alla daga mánaðarins eða að jafnaði 39.540 kr. á mánuði. Upphæð fæðispeninga hefur hækkað um 30% frá október 2007 eða úr 1.000 kr. í 1.300 kr.
    Þess utan geta fangar aflað sér aukatekna með vinnu eða námi og þá útvegar fangelsið hreinlætisvörur sem og þau áhöld sem þarf til að nota í eldhúsi. Þá ber að horfa til þess að allar greiðslur til fanga utan þóknunar fyrir vinnu og nám eiga að vera þess hvetjandi að þeir sæki sér vinnu eða stundi nám, en ekki letjandi.

     4.      Hvernig er innkaupastefnu og verðlagningu háttað í versluninni Rimlakjörum á Litla- Hrauni?
    Leitað er eftir lægsta verði vöru hverju sinni, hvar svo sem hana er að finna. Þess ber að geta að fangar á Litla-Hrauni geta lagt inn pantanir og er náð í þær vörur fyrir þá þó þær séu ekki á vörulista verslunarinnar. Meðaltalsálagning í versluninni er 20%.